Fyrir nokkru spurði sænskur blaðamaður 20 sænska menntskælinga hvað þeim dytti fyrst í hug þegar þeir heyrðu orðið Waterloo. Öll nefndu samstundis ABBA, og öll gátu raulað upphaf lagsins. Þá spurði blaðamaðurinn hvort þau gætu nefnt fimm lög með ABBA. Það stóð ekki á svörunum og flest úr hópnum nefndu miklu fleiri lög, einn bunaði út úr sér nöfnum á 20 vinsælum ABBA lögum. Blaðamaðurinn sagðist sjálfur ekki hafa kannast við öll lagaheitin, þótt hann hefði verið uppá sitt besta á áttunda áratug síðustu aldar, þegar stjarna ABBA skein hvað skærast.
Stundum er sagt að þessi eða hinn hafi orðið heimsfrægur á einni nóttu. Það á sannarlega við um ABBA, sem sló rækilega í gegn í evrópsku söngvakeppninni, Eurovision, árið 1974. Þótt heimsfrægðin hafi komið á einni nóttu, vorið 1974, voru fjórmenningarnir ekki blautir á bak við eyrun í tónlistinni. Þau Agnetha Fältskog, Anni-Frid Lyngstad, Benny Andersson og Björn Ulvaeus höfðu öll verið starfandi tónlistarfólk áður en ABBA varð til en sú saga verður ekki rakin hér. Anni-Frid og Benny rugluðu sínum reitum saman árið 1969 og þau Agnetha og Björn tveimur árum síðar.
Hermenn á Kýpur fyrstu tónleikagestirnir
Upphaf þess sem síðar varð ABBA er rakið til þess að í apríl 1970 fóru fjórmenningarnir saman í frí til Kýpur. Þeir Benny og Björn unnu þá að gerð plötu sem kom út í september það ár. Kvöld eitt voru þau Agnetha, Anni-Fryd, Benny og Björn á ströndinni og fóru að syngja sér til skemmtunar. Hópur hermanna, á vegum Sameinuðu þjóðanna, voru á ströndinni þetta kvöld og runnu á hljóðið. Þessi skemmtisöngur Svíanna breyttist í tónleika, fyrstu tónleika þeirra fjögurra saman.
Umboðsmaðurinn
Stundum er haft á orði að það sé ekki nóg að kunna að spila og syngja ef ætlunin sé að afla sér frægðar. Til þess þurfi duglegan umboðsmann. Stig Anderson, ætíð kallaður Stikkan Anderson, var á sjöunda áratug síðustu aldar umboðsmaður nokkurra sænskra tónlistarmanna, þar á meðal þeirra Benny og Björn. Stig Anderson hafði það sem stundum er kallað „tónlistarnef“ og sá snemma að þeir Benny og Björn „höfðu eitthvað“ eins og hann orðaði það síðar.
Stikkan Anderson ákvað ABBA nafnið
Eins og áður var nefnt hafði umboðsmaðurinn Stikkan tröllatrú á að þeir Benny og Björn ættu eftir að ná langt. Árið 1972 voru þær Agnetha og Anni-Frid gengnar til liðs við eiginmennina og hljómsveitin var hægt og bítandi að festa sig í sessi í sænsku tónlistarlífi.
Á þessum tíma hét hljómsveitin Björn & Benny, Agnetha & Anni-Frid. Stikkan umboðsmanni þótti þetta sænska langlokunafn (hans eigið orðalag) ómögulegt. Árið 1973 var hann farinn að kalla hljómsveitina ABBA eftir upphafsstöfunum í nöfnum fjórmenninganna. Þetta nafn, ABBA, var reyndar til í Svíþjóð, því þekkt niðursuðufyrirtæki (sauð niður fisk) bar þetta sama nafn. Agnetha sagði síðar frá því í viðtali að forsvarsmenn niðursuðufyrirtækisins hefðu ekki haft neitt á móti því að hljómsveitin notaði ABBA nafnið „svo lengi sem þið verðið okkur ekki til skammar“ sagði forstjórinn. „Við lofuðum því“ sagði Agnetha.
Waterloo, söngvakeppnin og sigurgangan
Þann 1. febrúar 1974 fór hin árlega sænska söngvakeppni fram. Þar kom, sá og sigraði ABBA með laginu Waterloo. Þau höfðu, ásamt Stikkan, ákveðið að syngja á ensku, sú ákvörðun var liður í plani Stikkan um að koma hljómsveitinni á kortið.
Tveimur mánuðum síðar, 6. apríl, fór Eurovison söngvakeppnin fram, í Brighton á Englandi. Þar sló ABBA, fjórmenningarnir í glansgöllunum, algjörlega í gegn með stuðlaginu Waterloo.
Með sigrinum í söngvakeppninni hófst sigurganga ABBA. Í stuttum pistli er engin leið að þræða stíga þeirrar frægðargöngu en í stuttu máli má segja að frá 1974 og til 1982, þegar sveitin tók langt hlé, hafi ABBA haldið vel á spilunum og er í hópi vinsælustu hljómsveita allra tíma. Sveitin gaf út átta plötur, teknar upp í hljóðveri, á þessum árum, og síðar, komu einnig út plötur teknar upp á tónleikum. Samtals hafa selst meira en 400 milljónir platna með ABBA og daglega seljast um það bil 3 þúsund plötur með sveitinni. Einungis Bítlarnir hafa selt fleiri plötur en ABBA. Þess má geta að safnplatan ABBA Gold sem kom út árið 1992 var í 19 ár á breskum metsölulista og hefur selst í tæpum 6 milljónum eintaka í Bretlandi.
Mamma Mia
Þótt ABBA hafi sem slík hætt árið 1982 (hætti þó aldrei formlega) héldu þeir Benny og Björn samstarfi sínu áfram og þær Agnetha og Anni-Frid störfuðu áfram að tónlist, hvor í sínu lagi. Rétt er að nefna að hjónabönd fjórmenninganna heyrðu þá sögunni til.
Árið 1999 var frumsýndur í London söngleikurinn Mamma Mia, byggður á tónlist ABBA. Mamma Mia sló í gegn og söngleikurinn hefur verið sýndur víða um heim, við miklar vinsældir. Árið 2008 var gerð kvikmynd með sama nafni, hún hefur notið mikilla vinsælda og hún ásamt söngleiknum varð til að viðhalda nafni og tónlist ABBA.
Endalaust tal um endurkomu
Allar götur frá því að ABBA fór í langa fríið árið 1982 hafa þau Agnetha, Anni-Frid, Benny og Björn ítrekað verið spurð hvort hljómsveitin hyggi ekki á endurkomu. Þau hafa aldrei þvertekið fyrir það en í viðtali árið 2013 sagði Agnetha að ABBA kæmi ekki saman aftur „við erum orðin of gömul og höfum farið hvert sína leið. Það fer vel á með okkur þegar við hittumst en ABBA aftur, nei“.
Aldrei að segja aldrei
Þrátt fyrir áðurnefnda yfirlýsingu Agnetha kom þó annað á daginn. 1. júní 2016 mættu fjórmenningarnir í ABBA í einkasamkvæmi í Stokkhólmi. Þær Agnetha og Anni-Frid stigu þar á svið og eftir að þær höfðu sungið nokkur lög stóðust þeir Benny og Björn ekki mátið og skyndilega var ABBA sveitin í full swing, eins og sænsku blöðin lýstu því.
Síðar þetta sama ár var tilkynnt að fjórmenningarnir í ABBA hefðu ákveðið að vinna í sameiningu að „sérstöku verkefni“ eins og komist var að orði, verkefnið væri ekki ný plata.
Í apríl 2018 sendu fjórmenningarnir í ABBA frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kom að þau hefðu hljóðritað tvö ný lög. Ýmsar ástæður urðu til þess að útgáfa þeirra frestaðist.
Í september árið 2020 greindi Björn Ulvaeus frá því að árið 2021 kæmi ný tónlist frá ABBA sveitinni.
1. nóvember, Voyage og tónleikar
Þann 1. september sl. var tilkynnt að 5. nóvember kæmi ný plata frá ABBA, fyrsta hljóðversplatan í 40 ár. Tónlistarspekingar veltu fyrir sér við hverju mætti búast: yrði þetta gamla góða ABBA, eða eitthvað allt annað?
Þessi tilkynning um nýju plötuna vakti mikla athygli og fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum víða um heim. Hlustun á ABBA á Spotify jókst um 230 prósent Og svo var bara að bíða eftir 5. nóvember!
Samtímis því að útgáfudagur nýju plötunnar var tilkynntur var greint frá því að árið 2022 yrðu haldnir tónleikar, þar sem ABBA myndi birtast gegnum fjarbúnað en á sviðinu yrðu hverju sinni 10 hljóðfæraleikarar. Fyrstu þrjá dagana eftir að miðasalan hófst seldust 250 þúsund miðar í Bretlandi.
Hvernig er svo nýja platan?
Margir fjölmiðlar víða um lönd hafa fjallað um nýju ABBA plötuna, sem kom út 5. nóvember eins og tilkynnt hafði verið. Dómarnir eru nokkuð misjafnir, sumir gagnrýnendur fagna því að ABBA sé ennþá gamla góða ABBA en segja að fæst laganna séu jafn miklir „smellir“ og gömlu lögin. Tónlistartímaritið Rolling Stone hrósar plötunni, gefur henni fjórar stjörnur af fimm. „Við höfum beðið lengi en platan er þess virði.“ Gagnrýnendur dagblaðsins Guardian og tímaritsins New Musical Express eru ekki yfir sig hrifnir, segja að lögin séu vissulega í ABBA stílnum en nái ekki sömu hæð og þau gömlu.
Þegar þessar línur eru settar á blað eru einungis tveir dagar síðan Voyage kom út og þess vegna allt of snemmt að segja til um hverjar viðtökur almennings verða. Einu er þó hægt að slá föstu: ABBA er ekki dauð úr öllum æðum.