Íslendingar eru margir hverjir sannfærðir um að við séum best í heimi, í öllu, miðað við höfðatölu. Þessi sannfæring og fullyrðingar sem byggja á henni eru andlag gríðarlegs magns brandara sem við segjum um okkur sjálf til að réttlæta eða verja mikilmennskubrjálæðið sem á stundum heltekur okkur á flestum sviðum sem við reynum fyrir okkur á. Drambið og brjálæðið varð okkur að falli í bankaleiknum sem við lékum mörg án þess að hafa til þess nægilega kunnáttu.
Á ýmsum öðrum sviðum hefur þetta „Davíð gegn Golíat“-viðmót til lífsins fleytt okkur miklu lengra en efni standa til og án þess að hafa þær neikvæðu bylmingsafleiðingar sem bankahrunið veitti okkur. Þvert á móti eru afleiðingarnar nær einvörðungu jákvæðar. Eitt þessara sviða er knattspyrnuvöllurinn.
Konurnar komnar, karlarnir alveg að komast
Íslenska karlalandsliðið hefur aldrei komist á lokamót í knattspyrnu. Á haustmánuðum ársins 2010 upphófst hins vegar tilraun til að ná því markmiði með því að U21-landsliðið okkar tryggði sér sæti í úrslitakeppni Evrópumóts UEFA í Danmörku sumarið eftir með tveimur 2-1 sigrum á liði Skota (5,5 milljónir íbúa).
Þótt liðinu hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel, samt unnið einn leik, og setið eftir í riðlinum í þessari fyrstu lokakeppni, þá var ljóst að einhver grunnur hafði verið lagður. Að minnsta kosti sjö lykilmenn í landsliði dagsins í dag voru hluti af þeim hóp sem náði þessum árangri.
Íslenska kvennalandsliðið var auðvitað þegar búið að ná því að komast á lokamót. Árið 2009 lék það í lokakeppni Evrópumótsins, en komst ekki upp úr sínum riðli. Sama ár urðu fjölmargir leikmenn liðsins atvinnumenn í knattspyrnu, að mestu á Norðurlöndunum. Fjórum árum síðar voru þær mættar aftur á sama lokamót og náðu í átta liða úrslit
Unnum 77 milljóna þjóð
Íslendingar eru 330,610 talsins og í 184. sæti yfir fjölmennustu ríki heims. Hér æfa um 20 þúsund manns knattspyrnu, samkvæmt tölum frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Samt vorum við 45 mínútum og einu marki frá því að tryggja okkur farseðil á heimsmeistaramótið í Brasilíu sem fór fram síðasta sumar. Hefðu Króatar einfaldlega ekki verið svona ógeðslega góðir í fótbolta (ég er að tala við þig, Luka Modric) þá væru Íslendingar nú skráðir í sögubækurnar sem fámennasta þjóð sem spilað hefur á lokamóti í sögu heimsins.
Í fyrrahaust hóf karlalandsliðið okkar síðan vegferð sína í átt að lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu með því að kjöldraga Tyrkland á Laugardalsvelli 3-0. Tyrkir eru 77 milljónir alls. Skráðir knattspyrnumenn í þessu þriðja fjölmennasta ríki Evrópu (á eftir Rússlandi og Þýskalandi) eru 466 þúsund talsins, og eru leikmenn yngri flokka þá ekki taldir með. Skömmu síðar unnu Íslendingar einn sinn fræknasta sigur í sögunni, þegar bronsverðlaunahafarnir frá síðasta heimsmeistaramóti, Hollendingar, voru kjöldregnir 2-0 í Laugardalnum. Um 1,2 milljónir manns æfa knattspyrnu í Hollandi.
Þessi sigur var einn sá fræknasti, því hann var toppaður á fimmtudag. Þá unnu Íslendingar Hollendinga í Amsterdam í stórkostlegum knattspyrnuleik þar sem um eitt prósent þjóðarinnar yfirgnæfði yfir 40 þúsund Hollendinga í stúkunni í 90 mínútur. Hollenska liðið hafði aldrei áður tapað á heimavelli í undankeppni Evrópumótsins og tapaði síðast heimaleik í undankeppni fyrir fimmtán árum síðan, þá fyrir Portúgal í undankeppni heimsmeistarmóts. Auk þess varð Ísland fyrsta landsliðið til að vinna Hollendinga í báðum leikjunum í undankeppni stórmóts.
Og nú er íslenska liðið í mesta lagi einu stigi frá því að vera á meðal þeirra liða sem munu leika á Evrópumótinu í Frakklandi næsta sumar.
Kýlum upp fyrir okkur
Íslenska liðið er nú í 23. sæti á heimslista alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og hefur aldrei setið ofar. Íslenska liðið hefur aldrei verið ofar á listanum en er þó ekki lengur besta lið Norðurlanda, þar sem Danir skjótast upp fyrir íslenska liðið í 22. sætið. Íslendingar geta þó huggað sig við að karlalandslið þjóðarinnar er sem stendur ofar á heimslistanum en fyrrum heims- og Evrópumeistarar Frakka. Það hefur aldrei gerst áður.
Það ríki sem er ofar en Ísland á þeim lista sem er næst okkur í íbúafjölda er Úrúgvæ, með 3,4 milljónir íbúa, sem situr í 18. sætinu. Landslið þeirra er auðvitað frábært- þeir eru ríkjandi Suður-Ameríkumeistarar- en Úrúgvæjar eru líka tíu sinnum fleiri en við. Í sætinu fyrir ofan okkur sitja Danir (5,7 milljónir íbúa) og fyrir neðan okkur eru Frakkar (66,9 milljónir íbúa). Frakkar eru 203 sinnum fleiri en Íslendingar.
Íslenska kvennalandsliðið er í 18. sæti á lista FIFA yfir bestu knattspyrnulandslið heims í kvennaflokki. Nágrannar okkar í Noregi (5,2 milljón íbúa) eru fámennasta þjóðin fyrir ofan okkur. Fjórum sætum fyrir neðan stelpurnar okkar er landslið Rússlands (146,6 milljón íbúa), fjölmennasta ríki Evrópu.
Og ef þetta er ekki nóg þá er U21-karlaliðið, næsta kynslóð sem mun skila sér inn í þegar ungt og reynslumikið A-landslið, búið að vinna fyrstu tvo leiki sína í þeirri undankeppni sem nú stendur yfir. Í liðinni viku unnu þeir enga aðra en Frakka 3-2.
Knattspyrnuhallir og gæðaþjálfun
Hvernig getur þjóð sem er sú fimmta fámennasta í Evrópu (fyrir ofan Færeyjar, Liechtenstein, Andorra og San Marínó) náð þessum árangri? Hvernig getur svona þjóð átt á áttunda tug atvinnumanna í fótbolta, sem spila í sterkustu deildum heims á borð við þá ensku (64,8 milljón íbúa í Stóra-Bretlandi), ítölsku (60,8 milljónir íbúa), spænsku (46,5 milljónir íbúa), hollensku (16,9 milljónir íbúa) og rússnesku (ennþá 146,6 milljón íbúa) fyrir utan alla þá tugi sem spila í Skandinavíu. Íslensku leikmennirnir eru líka að ná ótrúlegum árangri. Sumir þeirra eru meira að segja markahæstu leikmenn þeirra deilda sem þeir spila í.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrum landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu og fræðslustjóri KSÍ um margra ára skeið, skrifaði grein á heimasíðu sína,www.siggiraggi.is, í lok september 2012 sem útskýrir ástæðurnar nokkuð vel. Þar fer hann yfir breytingu á aðstöðu á Íslandi á einungis einum áratug. Sigurður Ragnar segir að yfir tíu knattspyrnuhallir hafi verið byggðar (þeim hefur fjölgað síðan og mun fjölga enn frekar á næstu árum), yfir 20 gervigrasvellir og 130 sparkvellir. Hann bendir líka á að meðalknattspyrnuþjálfari á Íslandi er yngri, með meiri reynslu af knattspyrnuiðkun og miklu menntaðri í þjálfunarfræðum en kollegar hans erlendis, sem eru venjulega foreldrar iðkenda sem þjálfa í sjálfboðavinnu. „Ef barnið þitt ætlar að læra að spila á píanó er það auðvitað líklegra til að ná betri árangri ef það fengi kennslu hjá fagmanni frekar en foreldri sem oft kann ekki nógu vel til verka. Sama í fótbolta,“ segir Sigurður Ragnar.
Í greininni fer hann auk þess yfir það að íslensk börn og unglingar æfa miklu meira en jafnaldrar þeirra í mörgun löndum. Afreksþjálfun, viðbótarþjálfun fyrir þá sem eru líklegir til að skara fram úr, er einnig mun meiri hérlendis.
Að vaða áfram á sér bjartar hliðar
Að mörgu leyti er sú mikla og hraða uppbygging sem hefur átt sér stað í íslenskri knattspyrnu því afleiðing af góðærinu. Á rúmum áratug hafa íslenskir knattspyrnumenn farið frá því að æfa hluta af ári á vondum malarvöllum í aftakaveðrum yfir í að æfa í sérhönnuðum knattspyrnuhúsum með gervigrasvelli samkvæmt nýjustu tísku.
Aðstaðan sem tók stakkaskiptum, sérstaklega knattspyrnuhúsin, er að mestu byggð fyrir erlent lánsfjármagn, þó sum húsanna hafi verið byggð fyrir eigið fé sem streymdi til sveitarfélaga eða einkaverktaka. Þegar erfiðleikar dundu yfir var auðvitað ekki hægt að slíta þessi hús upp og leggja þau í skuldahítina. Þau eru því orðin fastur hluti af innviðum á Íslandi, sem gera íbúunum kleift að stunda knattspyrnuiðkun við bestu aðstæður allt árið um kring, óháð veðri og vindum.
Fjárfesting í íslenskum knattspyrnuliðum, meðal annars frá fjáðum stuðningsmönnum, jókst líka mikið á þessum góðærisárum.
Þessi fjárfesting, ásamt mikilli áræðni og dugnaði, hefur skapað þær eiginlega fáránlegu aðstæður að Ísland, sem hýsir svipað marga íbúa og breski bærinn Coventry (329.810 íbúar), er orðið á meðal 35 bestu þjóða heims í karlaknattspyrnu og 20 bestu þjóða heims í kvennaboltanum. Mikilmennskubrjálæði og „að-vaða-áfram“-hugarfarið hefur sínar björtu hliðar líka.
Fréttaskýringin byggir að hluta á annarri sem birt var í september 2014.