Afglæpavæðing: Fyrir valdhafa eða fólkið?
Íslenskt samfélag á langt í land þegar kemur að notendasamráði að mati Kristjáns Ernis Björgvinssonar, sem situr í starfshópi um afglæpavæðingu neysluskammta. Sjálfur er hann í bata frá vímuefnanotkun og kvartaði sig, að eigin sögn, inn í starfshópinn. Hann er óviss hvort hópnum takist ætlunarverk sitt, að skilgreina neysluskammta, ekki síst vegna tregðu lögreglunnar.
Ég kvartaði mig eiginlega inn í þennan hóp. Ég er búinn að vera að vinna í málaflokknum í svolítinn tíma og bý líka yfir persónulegri reynslu, bæði af refsistefnunni og af því að glíma við vímuefnavanda,“ segir Kristján Ernir Björgvinsson, sem er í bata frá vímuefnum og brennur fyrir hugmyndafræði um skaðaminnkun sem hann hefur starfað í kringum síðustu ár.
Hópurinn sem hann á við er starfshópur um afglæpavæðingu neysluskammta sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði í febrúar.
„Mér fannst fáránlegt að það væri verið að skipa þennan starfshóp og það væri enginn þarna inni sem hafði persónulega reynslu hvernig það er að vera undir hæl refsistefnunnar. Ég hringdi bara og minnti á mig og náði að komast þarna inn,“ segir Kristján í samtali við Kjarnann.
Umræða um hugmyndafræði skaðaminnkunnar og afglæpavæðingar neysluskammta hefur aukist hér á landi síðustu ár, umræða þar sem fjallað er um að ekki eigi að refsa fólki fyrir vörslu takmarkaðs magns fíkniefna til eigin nota og að efnin eigi ekki að gera upptæk hjá fullorðnu fólki.
Fjórar árangurslausar tilraunir til afglæpavæðingar neysluskammta
Samkvæmt gildandi löggjöf er varsla hvers kyns skammta af ávana- og fíkniefnum óheimil og refsiverð. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, hefur fjórum sinnum lagt fram frumvarp um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta, nú síðast í september.
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, lagði fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta í apríl 2021 og byggði það að hluta til á vinnu við og umsögnum um frumvarp Halldóru og meðflutningsfólks hennar. Til stóð að endurflytja frumvarpið með breytingum af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra á síðasta þingi. Frumvarpið var hins vegar fellt niður af þingmálaskrá í mars.
Í svari ráðuneytisins til Kjarnans í vor vegna ákvörðunarinnar sagði að ráðherra hefði ákveðið að vinna að frekari útfærslu á frumvarpinu, meðal annars með því að skilgreina hugtakið neysluskammtur. Því hafi verið skipaður starfshópur. Í frumvörpunum sem lögð hafa verið fram hingað til hefur ekki verið tilgreint hvar mörkin verða dregin um hversu mikið magn ávana- og fíkniefna einstaklingur megi hafa undir höndum án þess að það sé refsivert, verði breytingarnar að veruleika.
Hægt að horfa til annarra ríkja við skilgreiningu á neysluskammti
Kristján kom inn í vinnu starfshópsins að tveimur fundum loknum. Hann og Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi, eru skipaðir án tilnefningar en meðal þeirra sem eiga fulltrúa í hópnum eru Lyfjastofnun, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Rauði krossinn, ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari, embætti landlæknis og SÁÁ.
Ekki liggur fyrir hvenær starfshópurinn mun skila tillögum en áætlað er að hópurinn fundi fram yfir áramót að sögn Kristjáns. Erfiðlega hefur gengið að komast að samkomulagi um meginverkefni hópsins: Að skilgreina neysluskammt.
„Þetta hefur reynst sumum aðilum mjög flókið. Það eru skiptar skoðanir innan hópsins hvernig á að tækla þessi mál. Sumir vilja bara sjá um veikasta hópinn, þann hóp sem er heimilislaus, þau eru tilbúin að afglæpavæða neysluskammta fyrir þann hóp en hafa áhyggjur af því að afglæpavæða fyrir almennari notendur, sem ég er mjög ósammála.“
Halldóra er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem nú liggur fyrir þingi og hefur hún bent á að hægt er að líta til annarra ríkja þegar kemur að því að skilgreina neysluskammt. „Það liggur ljóst fyrir að þegar hafa mörg lönd farið í þá vinnu að skilgreina neysluskammta með einum eða öðrum hætti. Í ljósi þess að þekkingu megi sækja til Evrópuríkja sem hafa nú áratugalanga reynslu af afglæpavæðingu vímuefna er engin ástæða til að ætla að skilgreining neysluskammta verði of erfitt viðfangsefni,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Lögreglan telji ógerlegt að afglæpavæða neysluskammta
Kristján segir að það hafi komið sér á óvart hversu íhaldssamir sumir fulltrúar starfshópsins eru, þar á meðal lögreglan, sem hafi meðal annars talað um það á fyrstu fundunum að það væri ógerlegt að afglæpavæða neysluskammta.
Þá segir Kristján að hann upplifi eins og skoðanir fulltrúa lögreglu, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara fái meira vægi innan starfshópsins. „Ég veit ekki hvort Guðmundur Ingi deili þessari upplifun með mér en mér líður pínu stundum eins og ég hafi verið fenginn þarna inn svo hægt sé að segja að verið sé að eiga samráð við notendur. Ég upplifi mig ekkert rosalega áhrifamikinn þarna inni, reynsla mín er allavega ekki mjög veigamikil.“
Vill fá einstaklinga í virkri vímuefnanotkun inn í starfshópinn
Fyrir Kristjáni er markmiðið ljóst. „Við viljum augljóslega aukið öryggi fyrir fólk sem er að nota vímuefni.“
Hann vill fá fleiri inn í vinnu starfshópsins sem hafa reynslu af notkun ólöglegra vímuefna. „Ég og Guðmundur Ingi komum þarna inn með persónulega reynslu sem er dýrmætt og það er stórt skref að við fengum að taka þátt í þessum hópi. En við þurftum að biðja ítrekað um það. Draumurinn minn er að fá inn einstaklinga í virkri vímuefnanotkun og þá sem eru í viðhaldsmeðferð. Það vantar líka konur með persónulega reynslu af refsistefnunni. Við eigum ennþá langt í land þegar kemur að notendasamráði.“
Þekkir það að óttast að skammturinn verði tekinn
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kristján starfað við verkefni tengd skaðaminnkun um árabil. Hann hefur hins vegar rekið sig á ýmsa veggi við vinnuna í starfshópnum sem kom honum á óvart. „Ég er bara 23 ára og það kom mér á óvart hvað þetta er rosalega mikil pólitík. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að fólk væri svona íhaldssamt ennþá. Þetta á ekki að vera svona flókið. Það er alls konar pólitík sem flækir þetta rosalega mikið og mér finnst það ógeðslega erfitt og leiðinlegt. Mig langar að vera þarna því ég brenn fyrir málefnum fólks sem notar vímuefni og mér finnst það svolítið falla í skuggann á pólitíkinni því þetta endar alltaf í einhverjum málamiðlunum.“
Meðal málamiðlanna nefnir hann að til tals hafi komið að tala um afnám refsinga í stað afglæpavæðingar, það er að lögreglan leggi hald á vímuefni en beiti ekki sektum. „Fyrir mér er það samt refsing, ég hef verið að vinna í gistiskýlum með heimilislausu fólki og ef þau lenda í því að efnin eru tekin af þeim þá er það bara drullu mikil refsing og getur einnig verið hættulegt.“ Sjálfur þekkir hann það af persónulegri reynslu að búa við stöðugan ótta um að skammturinn verði tekinn og eiga yfir höfði sér refsingu.
Afglæpavæðing mun minnka ótta við viðbragðsþjónustu
Heilt yfir segir hann vinnu starfshópsins hafa gengið ágætlega, en óvissa ríki enn um niðurstöðuna. Vinna hópsins hingað til hefur meðal annars falist í gagnaöflun af ýmsu tagi. Sjálfur hefur Kristján rætt við skjólstæðinga sína sem nýta sér skaðaminnkandi úrræði á vegum borgarinnar.
„Ég tók viðtöl við 25 einstaklinga og spurði hvaða vímuefni þau voru að nota, hvaða áhrif full afglæpavæðing myndi hafa á líf þeirra og hvað þau töldu vera neysluskammt. Það töluðu allir nema einn um það að afglæpavæðing myndi hafa jákvæð áhrif á líf sitt. Það voru margir áhugaverðir punktar sem komu. Ein sagði að hún þyrfti kannski mögulega ekki að skipta á kynlífi og efnum jafn oft,“ segir Kristján.
Hann segir skýrustu skilaboðin í gegnum alla gagnaöflunina vera að afglæpavæðing neysluskammta mun minnka ótta fólks við viðbragðsþjónustu. Það er í takt við umsögn Rauða krossins um frumvarpið sem nú liggur fyrir þingi þar sem segir meðal annars að mikilvægt sé fyrir notendur vímuefna að hafa greiðan aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu, án fordóma og jaðarsetningar.
„Dæmi eru um að einstaklingar sem glíma við vímuefnavanda veigri sér við að hringja eftir bráðaaðstoð eða leita sér aðstoðar af ótta við að lögregla geri neysluskammta þeirra upptæka og/eða vera handtekin vegna annars ólögmæts athæfis. Getur það jafnvel átt við í bráðatilfellum eins og við ofskömmtun á vímuefnum, sem og í tilvikum heimilisofbeldis eða annarskonar ofbeldis,“ segir í umsögn Rauða krossins.
Samtök vímuefnanotenda mikilvægt skref í átt að notendasamráði
Kristján starfar í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir og hefur meðal annars starfað í neyðarskýlum á vegum Reykjavíkurborgar. Nýlega tók hann við starfi verkefnastjóra hjá Viðmóti – samtökum um mannúðlega vímuefnastefnu á Íslandi. Um er að ræða fyrstu samtök notenda vímuefna hér á landi og er um mikilvægt skref að ræða í átt að frekara notendasamráði.
Viðmót stóð fyrir setuverkfalli í neyðarskýlinu á Grandagarði í vikunni. Neyðarskýlið er úrræði fyrir heimilislausa karlmenn á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem er opið frá klukkan 17 til klukkan 10 næsta dag. Menn sem nýta sér þjónustuna neituðu að yfirgefa úrræðið í mótmælaskyni. Samtökin krefjast þess að sett verði á fót úrræði sem heimilislausir karlmenn geta nýtt sér á daginn, auk þess sem neyðarskýlum verði ekki lokað yfir daginn þegar gul veðurviðvörun, eða hærri, hefur verið gefin út.
Setuverkfallið er fyrsta verkefni Viðmóts og segir Kristján starfsemi neyðarskýlisins kjarna hugmyndafræði skaðaminnkunar. „Skaðaminnkun í grunninn snýst um að minnka valdaójafnvægi og gefa persónulegri reynslu meira vægi en hingað til hefur verið gert. Auðvitað skiptir sérfræðiþekking gríðarlegu máli en skaðaminnkun gengur líka út á að við þurfum að hlusta á fólkið sem um ræðir og vinna með þeim,“ segir Kristján.
Setuverkfallið fellur því undir hugmyndafræði skaðaminnkunar. „Það eru heimilislausir menn sem standa fyrir þessu sjálfir og þeir eru að tala fyrir sjálfan sig, þeir eru ekki með forsvarsmann. Það er í hjarta skaðaminnkunnar, þetta er í fyrsta sinn sem þeir eru að taka málin í sínar eigin hendur og eru ekki feimnir við það að vera heimilislausir .“
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að neyðarskýli fyrir heimilislausa verði ekki opin á daginn. Stefna borgarinnar sé að fjölga búsetuúrræðum en ekki neyðarskýlum. Það fellur ekki undir hugmyndafræði skaðaminnkunar að mati Kristjáns. „Markmiðin eru í raun og veru að reyna að auka mannlega reisn og mannréttindi þeirra sem eru að nota vímuefni, ólögleg og lögleg. Við dæmum ekki fólk út frá því hvaða vímugjafa það kýs að nota.“
Þurfum að stíga skrefi lengra
Hvað framhald vinnu starfshópsins varðar segist Kristján vona að hópnum takist ætlunarverk sitt, að skila tillögum sem fela meðal annars í sér skilgreiningu á neysluskammti.
„Ég hef ekkert bilaðslega trú á því en ég vona það. Raunsætt þá held ég að þetta muni fara út í afnám refsingar sem er kannski bara fínt skref áfram,“ segir hann. Hvert skref skiptir máli en helst vill Kristján stíga alla leið. „Það er rosalega mikið af hálfum skrefum sem fólk er tilbúið að taka en við þurfum að stíga skrefi lengra, við þurfum fulla afglæpavæðingu.“
Kristján segir alla tapa eins og staðan er í dag. „Það er enginn sem græðir á refsistefnunni, nema kannski þeir sem eru að flytja inn fíkniefnin og selja þau.“
Lestu meira:
-
24. október 2022Upphafleg umsögn borgarinnar um afglæpavæðingu „óþarflega neikvæð“
-
16. október 2022Afglæpavæðing: Fyrir valdhafa eða fólkið?
-
8. október 2022Vandi vímuefnanotenda verði meðhöndlaður í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu
-
1. júní 2022Þeim fækkar sem lögregla hefur afskipti af vegna neysluskammta
-
28. mars 2022„Enn og aftur skal einn viðkvæmasti hópur landsins bíða eftir réttarbót“
-
21. mars 2022Segir núverandi ástand bitna mest á jaðarhópum en ekki bankamönnum á „kókaín-djamminu“
-
12. mars 2022Fyrsta neyslurýmið á Íslandi endurspegli viðhorfsbreytingu á skaðaminnkun
-
1. mars 2022Embætti landlæknis styður afglæpavæðingu neysluskammta en kallar eftir heildrænni stefnu
-
2. desember 2021Afglæpavæðing neysluskammta er enn á dagskrá hjá ríkisstjórninni