Aksturskostnaður Ásmundar Friðrikssonar 34 milljónir frá því að hann settist á þing
Kostnaður almennings vegna aksturs þingmanna jókst um ellefu prósent milli ára. Fjórir af þeim fimm þingmönnum sem keyra mest eru í Sjálfstæðisflokknum og fá yfir 30 prósent allra endurgreiðslna vegna aksturs. Ný lög sem tóku gildi í fyrrasumar komu í veg fyrir að þingmenn gætu látið skattgreiðendur greiða fyrir akstur sinn í prófkjörs- og kosningabaráttunni.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, er áfram sem áður sá þingmaður sem keyrir mest á kostnað Alþingis. Á árinu 2021 var samanlagður aksturskostnaður hans um 2,6 milljónir króna og jókst um 17 prósent milli ára. Það þýðir að Ásmundur keyrði fyrir rúmlega 216 þúsund krónur á mánuði að meðaltali í fyrra.
Þetta er hægt að lesa út úr tölum um kostnaðargreiðslur til þingmanna á árinu 2021 sem birtar voru á vef Alþingis í lok síðustu viku. Um er að ræða kostnað vegna notkunar á eigin bíl eða bílaleigubíl og kostnað vegna eldsneytis, jarðganga eða leigubíla sem þingmenn hafa krafið Alþingi um endurgreiðslu á.
Þriðja árið í röð fékk Ásmundur engar endurgreiðslur vegna notkunar á eigin bíl heldur notaðist hann við bílaleigubíla á ferðalögum sínum, líkt og Alþingi hefur beðið þingmenn um að gera.
Frá því að Ásmundur settist á þing árið 2013 hefur samanlagður aksturskostnaður hans verið 34 milljónir króna. Mestur var hann árið 2014, þegar Ásmundur fékk alls um 5,4 milljónir króna endurgreiddar vegna keyrslu á eigin bifreið, eða 450 þúsund krónur á mánuði.
Fjórir Sjálfstæðismenn með tæplega þriðjung alls kostnaðar
Ásmundur er í sérflokki þegar það kemur að endurgreiðslu á aksturskostnaði. Um tíu prósent af öllum endurgreiðslum þingsins falla til vegna aksturs hans og næsti maður á kostnaðarlistanum, flokksbróðir hans Haraldur Benediktsson, keyrði fyrir 1,9 milljón krónur í fyrra, eða tæplega 37 prósent lægri upphæð en Ásmundur. Haraldur situr sem þingmaður Norðvesturkjördæmis.
Skammt á hæla Haraldar kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Vilhjálmur Árnason, sem fékk 1,8 milljónir króna endurgreiddar í fyrra. Vilhjálmur sker sig þó úr gagnvart félögum sínum að því leyti að hann notast við eigin bíl, ekki bílaleigubíl, þegar hann keyrir og fær því endurgreitt á grundvelli akstursdagbókar sem hann heldur sjálfur, ekki kvittanna vegna bílaleigu.
Þeir tíu þingmenn sem keyrðu mest á síðasta ári:
Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki 2.595.001 krónur
Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki 1.877.59 krónur
Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki 1.741.470 krónur
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri græn 1.679.225 krónur
Birgir Þórarinsson Sjálfstæðisflokki 1.663.555 krónur
Guðjón S. Brjánsson Samfylkingu 1.324.486 krónur
Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki 1.044.249 krónur
Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki 1.033.932 krónur
Sigurður Páll Jónsson* Miðflokki 1.008.756 krónur
Lilja Rafney Magnúsdóttir* Vinstri grænum 995.782 krónur
*Féll út af þingi eftir kosningarnar í september 2021 og því er um kostnað að ræða sem féll til hluta af ári.
Tveir aðrir þingmenn þáðu endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar sem voru yfir 1,5 milljón króna á síðasta ári. Annars vegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, og hins vegar Birgir Þórarinsson, nú þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi sem sat áður á þingi fyrir Miðflokkinn. Alls voru endurgreiðslur til þeirra beggja um 1,7 milljónir króna.
Þeir fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks sem eru á meðal fimm kostnaðarsömustu þingmanna þjóðarinnar þegar kemur að akstursendurgreiðslum fengu alls 7,9 milljónir króna endurgreiddar í fyrra. Það er meira en 30 prósent af öllum kostnaði sem féll til vegna aksturs á árinu 2021.
Aksturgreiðslur loks birtar í byrjun árs 2018
Alþingi endurgreiðir þingmönnum kostnað sem fellur til vegna aksturs þeirra sem skilgreindur er vinnutengdur. Þingmennirnir þurfa að sækja þessar endurgreiðslur sérstaklega með því að leggja fram gögn sem sýna fram á akstur hafi átt sér stað. Greiðslurnar eru skattfrjálsar.
Akstursgreiðslur komust í hámæli í byrjun árs 2018 þegar forseti Alþingis svaraði í fyrsta sinn fyrirspurn um þá tíu þingmenn sem þáðu hæstu endurgreiðslurnar vegna aksturs fimm árin á undan. Svarið var ekki persónugreinanlegt en í ljós kom að fjórir þingmenn hefðu þegið samtals 14 milljónir króna í akstursendurgreiðslur, sem var tæplega helmingur allra endurgreiðslna. Síðar staðfesti Ásmundur að hann væri sá sem keyrði mest.
Í kjölfarið varð það krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs yrðu gerðar opinberar og að þær yrðu persónugreinanlegar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um væri að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.
Það var gert og þær upplýsingarnar vöktu upp mikla reiði og ásakanir um mögulega sjálftöku þingmanna. Sérstaklega þegar fyrir lá að Ásmundur Friðriksson hafði sagst keyra 47.644 kílómetra á árinu 2017 einu saman vegna vinnu sinnar sem þingmaður, og fékk kostnað vegna þeirrar keyrslu endurgreiddan, alls 4,6 milljónir króna.
Kostnaður birtur mánaðarlega
Forsætisnefnd ákvað að bregðast við og allar upplýsingar um kostnað sem fylgir störfum þingmanna er nú birtur mánaðarlega. Auk þess var ákvæði í reglum um þingfarakostnað, sem fjallar um bílaleigubíla, gert skýrara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þingmenn séu að nota eigin bifreiðar. Breytingarnar náðu einkum til þingmanna sem falla undir svokallaðan heimanakstur, þ.e. akstur til og frá heimili daglega um þingtímann. Það eru þingmenn sem búa í nágrenni Reykjavíkur (á Suðurnesjum, Vesturlandi, Árnessýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bifreiðum, sem kemur til endurgreiðslu, varð eftir breytingarnar bundinn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kílómetrafjölda á skrifstofa Alþingis láta umræddum þingmanni í té bílaleigubíl.
Mesta breytingin sem orðið hefur síðastliðin ár er því sú að þingmenn keyra nú mun meira á bílaleigubílum en áður. Sú tilhneiging hefur stökkbreyst eftir að akstursgreiðslurnar voru opinberaðar í fyrsta sinn í byrjun árs 2018.
Kostnaðurinn jókst í fyrra eftir samdrátt árið 2020
Kórónuveirufaraldurinn, sem skall á hérlendis í febrúar 2020, hefur haft þau áhrif á akstur þingmanna á síðustu tveimur árum að hann hefur dregist saman frá því sem áður var. Samkomutakmarkanir og aðrar sóttvarnarráðstafanir hafa enda gert hefðbundna kosningafundi oft á tíðum ómögulega og hamlað getu þingmanna til að eyða tíma með skjólstæðingum sínum í kjördæmunum. Auk þess hefur hluti nefndarstarfa farið fram í gegnum fjarfundarbúnað sem gerir það að verkum að viðvera landsbyggðarþingmanna í höfuðborginni hefur ekki verið jafn knýjandi og áður.
Þess sást strax merki þegar akstur þeirra á árinu 2020 var gerður upp, en á því ári keyrðu þingmenn fyrir 23,2 milljónir króna, eða fyrir 23 prósent lægri upphæð en árið 2019 þegar heildarkostnaður skattgreiðenda vegna þingmannaaksturs var 30,2 milljónir króna. Árið 2018 var kostnaðurinn 30,7 milljónir króna og árið 2017 var hann 29,2 milljónir króna.
Í fyrra jókst kostnaðurinn aftur, alls um tæp ellefu prósent, og var 25,7 milljónir króna.
Komið í veg fyrir að akstur í kosningabaráttu yrði greiddur
Það er sérstaklega athyglisvert að kostnaðurinn hafi ekki verið meiri í fyrra í ljósi þess að þá fóru fram þingkosningar. Kjarninn hefur áður greint frá því að kostnaður vegna aksturs, sem greiddur er úr sameiginlegum sjóðum, hefur sögulega aukist mjög á kosningaári, sem gefur til kynna að þingmenn láti skattgreiðendur greiða fyrir sig keyrslu í kosningabaráttunni. Aðrir sem eru að sækjast eftir sæti á listum í t.d. prófkjörum, eða eru að bjóða fram fyrir nýja flokka, geta ekki gert slíkt.
Ástæðan er, að minnsta kosti að hluta, lagabreyting.
Í apríl í fyrra mælti Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi forseti Alþingis, fyrir frumvarpi sem átti að koma í veg fyrir að Alþingi myndi borga fyrir akstur þingmanna í kosningabaráttu. Frumvarpið var samþykkt í júní 2021 og varð því að lögum fyrir kosningarnar í september sama ár.
Samkvæmt þeim fellur réttur þingmanna til endurgreiðslu á aksturskostnaði niður sex vikum fyrir kjördag, með tilteknum undanþágum þó. Takmarkanir ná til að mynda ekki til þeirra þingmanna sem hyggjast ekki gefa kost á sér áfram til setu á þingi og ef þingmaður sem verður í framboði þar að sinna opinberum erindagjörðum á vegum Alþingis innan ofangreinds tímaramma þá má hann áfram fá aksturskostnaðinn endurgreiddan.
Steingrímur ræddi þessa stöðu í sjónvarpsþætti Kjarnans í febrúar 2018. Þar sagði hann að ef menn hafi rukkað þingið fyrir akstur vegna prófkjörsþátttöku þá væri eðlilegast að þeir endurgreiddu þær greiðslur. „Eigum við bara að hafa það skýrt að þátttaka í prófkjörum er ekki tilefni til að senda inn eigin reikning?“
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um aukinn kostnað vegna endurgreiðslna á aksturskostnaði í kringum kosningar.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars