Arion banki varð á miðvikdag síðastur stóru bankanna þriggja að hækka íbúðavexti sína í kjölfar ákvörðunar Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig þann 24. nóvember, upp í sex prósent. Það var tíunda skiptið í röð sem Seðlabankinn hækkaði vexti á vaxtaákvörðunardegi, en þeir voru 0,75 prósent í maí í fyrra áður en vaxtahækkunarferlið hófst.
Vextir Arion banka á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum hækka um 0,25 prósentustig og verða 7,84 prósent. Íslandsbanki og Landsbankinn höfðu þegar tilkynnt um sömu hækkun en grunnvextir þeirra á íbúðarlánum. Hjá Landsbankanum, sem er með lægstu vextina af stóru bönkunum þremur, eru þeir 7,5 prósent.
Stærstu lífeyrissjóðirnir sem lána óverðtryggð á breytilegum vöxtum hafa líka hækkað síðan vexti. Hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna hækka þeir um 0,35 prósentustig og verða 6,91 prósent frá 1. febrúar næstkomandi. Gildi var nýbúið að tilkynna um vaxtahækkun þegar Seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti, og við það fóru vextir á óverðtryggðum grunnlánum með breytilega vexti í 6,9 prósent. Sú breyting tók gildi 12. desember. Lífsverk var sömuleiðis búið að hækka sína vexti upp í 7,05 prósent en sú hækkun tekur gildi um áramót. Brú ákvað að breyta sínum vöxtum í lok nóvember þannig að óverðtryggðir breytilegir vextir á grunnlánum fóru upp í 6,9 prósent.
Fjörðungur heimila undir
Í svörum sem Seðlabanki Íslands tók saman vegna spurninga Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, og Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram að um fjórðungur allra íbúðalána séu óverðtryggð á breytilegum vöxtum. Sá hópur tekur því á sig þessar vaxtahækkanir af fullum þunga.
Ef horft er styttra aftur í tímann, til maí 2022, hefur greiðslubyrðin af ofangreindu láni hækkað um 89.500 krónur á mánuði, eða um 39 prósent.
Í svörunum sem Þorbjörg Sigríður fékk frá Seðlabankanum kemur einnig fram að 4.451 heimili séu með óverðtryggð lán á föstum vöxtum sem komi til endurskoðunar næsta árið. Fjöldi heimila lýkur líka fastvaxtatímabili sínu á árinu 2024 en alls koma 340 milljarðar króna í óverðtryggðum íbúðalánum til vaxtaendurskoðunar á þessum tveimur árum. Á árinu 2025 koma svo lán upp á 250 milljarða króna í viðbót til endurskoðunar, en þorri þeirra lána eru óverðtryggð.
Því er ljóst að stór hluti heimila í landinu annað hvort býr við verulega aukinn húsnæðiskostnað eða sér fram á verulega aukningu.
Fjármálaleg skilyrði heimila versnað
Í nýjasta riti Peningamála Seðlabanka Íslands, sem kom út í lok nóvember, kom fram að fjármálaleg skilyrði heimila landsins hafi versnað. Vaxtagjöld heimila í hlutfalli við ráðstöfunartekjur hafi hækkað frá því í fyrra eftir mikla lækkun í kjölfar lækkunar vaxta í heimsfaraldrinum Vaxtagjöldin eru þó enn undir sögulegu meðaltali þrátt fyrir mikla hækkun vaxta í ár enda hafa ráðstöfunartekjur hækkað umtalsvert.
Í ritinu segir að áhrif vaxtahækkana á greiðslubyrði skuldugra heimila gætir fyrr nú en áður þar sem liðlega fjórðungur íbúðalána ber breytilega óverðtryggða vexti og óverðtryggð lán á föstum vöxtum séu að stærstum hluta með fasta vexti til einungis þriggja ára. „Greiðslubyrði lántakenda sem festu vexti á fasteignalánum þegar vextir voru í sögulegu lágmarki mun því að öðru óbreyttu aukast þegar tímabil fastra vaxta rennur út. Á sama tíma hefur hlutur verðtryggðra íbúðalána af nýjum lánum aukist þótt verðtryggðir vextir hafi einnig hækkað frá fyrri hluta árs í takt við almennt hækkandi raunvexti.“
Hlutdeild verðtryggðra lána af útistandandandi lánum er nú um 56 prósent.
Greiðslubyrði þeirra er lægri en óverðtryggðra fyrstu árin eftir að lánin eru tekin, en eykst svo skarpt séu þau látin lifa allan sinn líftíma. Í verðbólguástandi líkt og nú ríkir, þar sem verðbólgan er 9,6 prósent, leggjast hinsvegar miklar verðbætur á höfuðstól lána.
Í skýrslu HMS segir að greiðslubyrði 50 milljón króna láns til 30 ára á verðtryggðum vöxtum sé nú um 192 þúsund krónur, eða um 119.500 krónum lægri en í dæminu um óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum sem tekið var hér í upphafi.
Kaupmáttur ekki dregist jafn mikið saman í tólf ár
Kjarninn greindi frá því um liðna helgi að það hafi gerst í fyrsta sinn frá lok árs 2012 og byrjun árs 2013 á þriðja ársfjórðungi 2022 að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi dregist saman tvo ársfjórðunga í röð. Þá dróst hann saman um 6,1 prósent sem er mesti samdráttur sem mælst hefur á þremur mánuðum frá lokum árs 2010.
Ráðstöfunartekjur eru þeir peningar sem standa eftir þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá launum viðkomandi og kaupmáttur þeirra lýsir því hvað hver getur keypt fyrir þær tekjur. Þegar kaupmátturinn dregst saman þá getur viðkomandi keypt minna fyrir krónurnar sem hann hefur til ráðstöfunar í hverjum mánuði.
Í tölunum eru vaxtagjöld heimilanna dregin frá tekjum við útreikning ráðstöfunartekna. Þannig er í tölunum tekið tillit til áhrifa vaxtahækkana á heimilin.