Eigendur Hörpu, íslenska ríkið og Reykjavíkurborg, lögðu tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu til alls 728 milljónir króna í rekstrarframlag í fyrra. Upphaflega átti rekstrarframlagið að vera 450 milljónir króna en vegna áhrifa heimsfaraldursins var það aukið um 278 milljónir króna. Aðrar tekjur af starfsemi hússins voru 538 milljónir króna og drógust saman um 56 prósent milli ára. Því var rekstrarframlag eigenda tæplega 58 prósent af öllum tekjum Hörpu á árinu 2020.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Hörpu fyrir síðasta ár.
Þar segir að lil viðbótar við framlög að fjárhæð 450 milljónir króna árið 2021 hafi eigendur staðfest sérstakt framlag vegna áhrifa COVID-19 og muni það tryggja rekstrarhæfi samstæðunnar að óbreyttu út árið 2021. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) lagði blessun sína yfir viðbótarstuðning eigenda Hörpu við húsið í desember í fyrra. ESA veitti eigendum hússins heimild til þess að bæta tjón Hörpu vegna heimsfaraldursins að fullu með fjárframlögum úr opinberum sjóðum ríkis og borgar.
Ríki og borg tóku yfir
Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg samþykktu að taka yfir og klára byggingu Hörpu snemma árs 2009. Þá höfðu framkvæmdir við byggingu hússins, sem Eignarhaldsfélagið Portus stóð fyrir, stöðvast í kjölfar bankahrunsins. Ástæðan var sú Portus og dótturfélög þess, sem voru í eigu Landsbanka Íslands og Nýsis, fóru í þrot.
Eftir yfirtöku ríkis og borgar á verkefninu, sem var gerð þegar Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, var menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í Reykjavík, var tekið sambankalán hjá íslensku bönkunum til að fjármagna yfirtökuna. Í skriflegu svari Katrínar við fyrirspurn þingmannsins Marðar Árnasonar um Hörpu, sem birt var í mars 2011, kom mjög skýrt fram að ekki ætti að setja meira fé en þar var umsamið í Hörpu.
Þar sagði orðrétt að „forsendur fyrir yfirtöku verkefnisins voru þær að ekki þyrftu að koma til önnur framlög frá ríki og borg en gert var ráð fyrir í samningi Austurhafnar-TR og Portusar frá 9. mars 2006".
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpan er nú í 54 prósent eigu ríkisins og 46 prósent í eigu Reykjavíkurborgar.
Kostnaður eigenda kominn í 14,4 milljarða króna
Eigendurnir hafa alls greitt 11,6 milljarða króna í endurgreiðslu láns vegna byggingarkostnaðar Hörpu frá því að húsið opnaði árið 2011. Fyrsti gjalddagi lánsins var í maí 2013 og síðasti gjalddagi verður þann 15. febrúar 2046. Áætluð afborgun næsta árs er um 500,6 milljónir króna en áætluð heildargreiðsla lánsins með vöxtum og verðbótum er 1.201,6 milljónir króna á árinu 2021.
Til viðbótar hafa þeir greitt áðurnefnd rekstrarframlög sem samtals hafa numið rúmlega 2,8 milljörðum króna síðastliðinn áratug. Samanlagt hafa ríki og borg því greitt 14,4 milljarða króna vegna Hörpu á tímabilinu. Í ár munu bætast hátt í tveir milljarðar króna við þá tölu án tekist tillits til viðbótarkostnaðar vegna uppsafnaðs viðhalds.
Reykjavíkurborg fær umtalsverðar beinar tekjur vegna hússins á móti sínu framlagi í formi fasteignagjalda. Þau voru 311 milljónir króna í fyrra. Mikillar óánægju hefur gætt á meðal þeirra sem stýra málum hjá Hörpu með það hversu há fasteignagjöld eru lögð á starfsemina. Upphaflega miðaði Þjóðskrá Íslands fasteignamat Hörpu við byggingarkostnað hússins. Rekstrarfélag Hörpu var afar ósátt með þá flokkun og málið fór fyrir dómstóla, enda ljóst að þorri rekstrartekna Hörpu fyrstu árin eftir að húsið opnaði myndi fara til greiðslu fasteignagjalda, sem rukkuð voru af öðrum eiganda hússins. Hæstiréttur Íslands ógilti úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í málinu snemma árs 2016 og við það lækkuðu fasteignaskattar Hörpu umtalsvert. Þeir eru þó enn háir og í fyrra voru þeir til að mynda 58 prósent af öllum rekstrartekjum Hörpu utan framlags eigenda. Það er þó vert að endurtaka að þær tekjur rúmlega helminguðust á milli áranna 2019 og 2019 vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru.