Rússar herða tökin í Úkraínu

Rússar sýna nú ógnandi tilburði við landamæri Úkraínu. Samhliða beita þeir ýmsum tólum fjölþáttahernaðar og Vesturlönd velkjast í vafa um viðbrögð.

Skriðdreki rússneskra aðskilnaðarsinna í Donbas á ferðinni á heræfingu í upphafi þessa árs. Yfir 15 þúsund hafa látið lífið síðan átökin í Úkraínu hófust árið 2014. Nú eru blikur á lofti.
Skriðdreki rússneskra aðskilnaðarsinna í Donbas á ferðinni á heræfingu í upphafi þessa árs. Yfir 15 þúsund hafa látið lífið síðan átökin í Úkraínu hófust árið 2014. Nú eru blikur á lofti.
Auglýsing

Stríðið í Aust­ur-Úkra­ínu, sem hefur kraumað í nokkur ár og vakið mis­mikla athygli, hefur stig­magn­ast að und­an­förnu. Rússar hafa flutt mik­inn her­afla að landa­mærum Úkra­ínu, allt að hund­rað þús­und her­menn, og Banda­ríkin séð ástæðu til að bregð­ast við og íhug­uðu um tíma að senda flug­móð­ur­skip inn á Svarta­haf. Átökin hófust árið 2014, skömmu eftir að Rússar inn­lim­uðu Krím­skaga, þegar upp úr sauð á milli aðskiln­að­ar­sinna – sem Rússar styðja – og stjórn­valda í Kænu­garði.

Úkra­ína færir sig í átt að Evr­ópu – Rússar bregð­ast við

Ástæða átak­anna er m.a. meint ósætti hins fjöl­menna rúss­neska minni­hluta við til­burði stjórn­valda til auk­inna sam­skipta í vest­ur­átt, m.a. með nán­ari sam­vinnu við Evr­ópu­sam­bandið og NATO. Átökin fara nú fram í hér­uð­unum Donetsk og Luhansk á svæði sem kall­ast Don­bas og liggur að landa­mærum Rúss­lands. Svæðið á sér langa sögu, hvar rúss­nesk áhrif hafa ætíð verið mikil og Rússar verið fjöl­menn­ir. Þeir eru minni­hluti sem telur tæp­lega 40 pró­sent þeirra rúm­lega 6 millj­óna sem þar búa.

Í nóv­em­ber 2013 til­kynnti Janúkó­vit­sj, þáver­andi for­seti – sem hlið­hollur var Rússum – að úkra­ínsk stjórn­völd myndu ekki und­ir­rita umfangs­mik­inn sam­starfs­samn­ing við Evr­ópu­sam­band­ið. Sá samn­ingur fól í sér fyrsta skrefið í átt að nán­ari sam­vinnu og á end­anum inn­göngu lands­ins í Sam­band­ið. Úkra­ínu­búar streymdu út á götur í mót­mæla­skyni og örygg­is­sveitir gerðu árásir á mót­mæl­endur sem komu saman á Mai­dan-­torgi í mið­borg höf­uð­borg­ar­innar Kænu­garðs. And­staðan var mikil og á end­anum hrökkl­að­ist Janúkó­vitsj for­seti frá völd­um.

Á vor­mán­uðum árið 2014 kaus úkra­ínska þingið starf­andi for­sæt­is­ráð­herra og for­seta. Þeir tóku upp þráð­inn og lýstu þegar í stað yfir þeim fyr­ir­ætl­unum að und­ir­rita samn­ing­inn og færa landið nær nán­ara Evr­ópu­sam­starfi. Rússar brugð­ust við með her­valdi og inn­limun Krím­skaga og í kjöl­farið brut­ust út bar­dagar í Don­bas, þar sem rúss­neskar örygg­is­sveitir studdu dyggi­lega hreyf­ingu aðskiln­að­ar­sinna. Rússar hafa nú náð und­ir­tökum á svæð­inu og rétt­læta aðgerðir og stuðn­ing við upp­reisn­ar­menn með því að rúss­neskur minni­hluti sé kúg­aður og ofsóttur innan landamæra Úkra­ínu – sem þeim beri skylda að verja.

Síðan átökin hófust árið 2013 hafa hátt í 15 þús­und manns lát­ist og tugir þús­unda særst. Þar með taldir þau 298 sem létu lífið þegar upp­reisn­ar­menn studdir af rússum skutu niður mala­síska far­þega­þotu á leið frá Hollandi. Hryðju­verk eru dag­legt brauð á her­náms­svæð­unum og um ein og hálf milljón manna, íbúar Krím­skaga og Don­bas-­svæð­is­ins, eru á flótta inn­an­lands eftir að hafa verið neyddir til að yfir­gefa heim­ili sín vegna her­náms Rússa. Mik­il­vægt er að taka fram að þar á meðal eru margir íbúar af rúss­neskum upp­runa.

Nýlega til­kynntu Úkra­ína og NATO um sam­eig­in­legar her­æf­ingar og kallar Vla­dimir Zel­en­sky for­seti eftir því að inn­göngu Úkra­ínu í banda­lagið verði flýtt. Hann hefur lagt áherslu á frið­sam­lega lausn deil­unnar en hvatti NATO til að styrkja hern­að­ar­lega veru sína á Svarta­hafs­svæð­inu og full­yrti að slík ráð­stöfun myndi virka sem „öfl­ugur fæl­ing­ar­mátt­ur“ gagn­vart Rúss­um. Eftir fund­inn tísti Stol­ten­berg: „NATO styður full­veldi Úkra­ínu og land­helgi. Við erum áfram skuld­bundin til náins sam­starfs.“

Aðferðir Rússa – fjöl­þátta­hern­aður í sinni skýr­ustu mynd

Fyrir Rússa er Úkra­ína eins og varn­ar­múr milli þeirra og Vest­ur­landa og eru hin auknu vest­rænu tengsl því aug­ljós þyrnir í aug­um. Þetta á ekki bara við um Úkra­ínu því svip­aðir hlutir hafa verið að ger­ast í öðrum fyrrum Sov­étlýð­veldum eins og Georg­íu. Til að við­halda ítökum sínum og vörnum hefur Rúss­land þannig í reynd aldrei við­ur­kennt algilt full­veldi margra fyrrum Sov­étlýð­velda.

Eftir að Rússar inn­lim­uðu Krím­skaga árið 2014 hafa þeir jafnt og þétt einnig náð und­ir­tökum á Don­bas-­svæð­inu. Að þeirra sögn með hjálp rúss­neskætt­aðra sjálf­boða­liða – litlu grænu kall­anna – en ekki skipu­lögðum hern­að­ar­að­gerð­um.

Hins vegar er það stað­reynd að Rússar beita fjöl­þátta­hern­aði til að ná fram mark­miðum sín­um, aðferðum sem þeir nota einnig í Eystra­salts­ríkj­unum og á Balkanskaga – í ríkjum sem þó sum eiga aðild bæði að NATO og ESB. Fjöl­þátta­hern­aður Rússa er ekki ein­ungis bund­inn við lönd þar sem þeir telja sig eiga ein­hverra beinna hags­muna að gæta því þeir beita slíkum aðferðum víða um heim. Vest­ur­-­Evr­ópu­lönd hafa t.a.m. ekki farið var­hluta af upp­lýs­inga­óreið­u-her­ferðum Rússa en þar er Þýska­land aðal skot­mark­ið.

Auglýsing

Rússar hafa beitt fjöl­þátta­hern­aði til hins ítrasta í Úkra­ínu. Má þar nefna netárás­ir, efna­hags- og við­skipta­legan þrýst­ing og hindr­anir á orku­flutn­ingi, bein hryðju­verk og ógnun við úkra­ínska rík­is­borg­ara, upp­lýs­inga­óreiðu þar sem stað­reyndum er afneitað og and­stæð­ingum kennt um eigin glæpi.

Jafn­framt beita Rússar kúg­un­ar­að­gerðum og stunda stór­felld og kerf­is­bundin brot á mann­rétt­indum og grund­vall­ar­frelsi borg­ar­anna. Var ógn­vekj­andi ástand mann­rétt­inda­mála á her­teknum Krím­skaga for­dæmt með ályktun Alls­herj­ar­þings Sam­ein­uðu þjóð­anna sem var sam­þykkt 19. des­em­ber 2016.

Sjón­ar­mið Rússa – og sumra Vest­ur­landa­búa

Frá sjón­ar­hóli Rússa líta málin tals­vert öðru­vísi út og á Vest­ur­löndum eru til þeir sem taka undir þau sjón­ar­mið. Sam­kvæmt þeim er ábyrgð Vest­ur­landa mun meiri í mál­inu en þau vilji vera láta. Úkra­ína sé marg­klofin vegna ágrein­ings hvað varðar þjóð­erni, tungu­mál, trú, menn­ingu, efna­hag og stjórn­mál. Úkra­ína sé vissu­lega eitt ríki en mjög langt frá því að vera sam­einuð þjóð og spillt yfir­stétt hafi gert deil­urn­ar, sem eru langt í frá nýtil­komn­ar, enn verri. Borg­ara­stríðið stafi af innri deilum þar sem ofbeld­is- og öfga­fullar hreyf­ingar komi að mót­mælum og hafi náð und­ir­tökum í stjórn­málum vegna ómark­vissrar aðkomu Vest­ur­landa.

Rússar litu á aðkomu ESB að mál­efnum Úkra­ínu sem ögrun en Sam­bandið hafði frá árinu 1991 tekið þátt í stækk­un­ar­að­gerðum með fyrrum Sov­étlýð­veld­um, undir ýmsum for­merkjum. Hvort ein­feldni hafi verið um að kenna skal ósagt látið en lítið sam­starf var haft við Rússa. Þeir sjá þannig fyrr­nefndan við­skipta­samn­ing Evr­ópu­sam­bands­ins sem leið til að lokka Úkra­ínu til Vest­ur­heims, þar með talið inn í NATO. Þetta sé ögrun við Rúss­land sem neyð­ist til að bregð­ast hart við.

Rússar hafa brotið gegn full­veldi Úkra­ínu – en þeir eru ekk­ert að fara

Þessi sögu­skýr­ing Rússa er ansi hæpin og sprottin af þeim miklu hags­munum sem þeir telja sig eiga að gæta. Þarna er mik­il­vægt að halda til haga að hvort sem Rússum líkar betur eða verr er Úkra­ína sjálf­stætt full­valda ríki sem Rússar hafa brotið alvar­lega gegn. Þá er rétt að taka fram að stuðn­ingur rúss­neska minni­hlut­ans við aðskiln­að­ar­stefnu eða þýlyndi við Moskvu er heldur ekki algilt – og ríkur vilji er meðal Úkra­ínu­búa til nán­ara sam­starfs við Vest­ur­lönd.

Það sem vekur ugg hjá vest­rænum stjórn­ar­er­ind­rekum og sér­fræð­ingum er harka í orð­færi emb­ætt­is­manna í Kreml og eðli umfjöll­unar rúss­neskra fjöl­miðla. Þeir segja frá meintum áætl­unum úkra­ínskra stjórn­valda um að sækja fram í Don­bas og að þau séu mögu­lega að skipu­leggja þjóð­ern­is­hreins­anir á Rúss­um. Sagði tals­maður Pútíns nýlega að ráða­menn í Kreml ótt­ist vopna­hlés­brot og þeir væru reiðu­búnir til að grípa til ráð­staf­ana til að vernda rúss­neska borg­ara. Yfir­maður Úkra­ínu­hers vís­aði þessum full­yrð­ingum Rússa á bug og sakar þá um að leita að yfir­skini til að hefja inn­rás.

Banda­ríkin og Evr­ópu­lönd hafa aug­ljós­lega mik­illa hags­muna að gæta en við­brögð við ógn­andi til­burðum Rússa und­an­farið hafa þó verið mis­jöfn. Sumir segja að með auk­inni hern­að­ar­legri nær­veru séu Rússar ein­ungis að þyrla upp ryki og muni ekki fylgja því eftir með raun­veru­legum aðgerð­um. Aðrir hafa meiri áhyggjur og telja að fyr­ir­ætl­anir Pútíns séu ófyr­ir­sjá­an­leg­ar, ögrun sem ætlað er að prófa nýjan og óreyndan for­seta og gæti stig­magn­ast með slæmum afleið­ing­um.

Auglýsing

Hinn afger­andi stuðn­ingur NATO – í orði – og Banda­ríkj­anna sem veitt hafa miklum fjár­hæðum í aðstoð við Úkra­ínu, gæti reynst tví­eggjað sverð. Þegar hafðir eru í huga land­fræðipóli­tískir hags­munir Rússa, sem munu ólík­lega sætta sig við Úkra­ínu sem „vest­rænt“ ríki, mögu­lega í ESB og NATO, má gera ráð fyrir að þeir séu ekk­ert að fara að bakka út. Þeir muni því halda áfram að beita hámarks­þrýst­ingi með þeim ógeð­felldu aðferðum fjöl­þátta­hern­aðar sem til­tækar eru og þeir eru þekktir fyr­ir, ef ekki fara í beina inn­rás í land­ið.

Van­máttur Vest­ur­landa – Rússar hafa lært að ofbeldi borgar sig

Þarna kemur til kasta sam­stöðu vest­rænna ríkja og get­unnar til að leika leik­inn af yfir­veg­un, en um leið nægi­legri ákveðni. Sam­kvæmt kenn­ing­unum í alþjóða­sam­skiptum er vara­samt að króa af sterkan and­stæð­ing sem gerir sér grein fyrir því að veldi hans fer hnign­andi, því hann er þá lík­legur til að láta skeika að sköp­uðu. Ákjós­an­leg nið­ur­staða er að aðgerðir Vest­ur­landa fái Rússa til að sjá hag sínum best borgið með því að taka þátt í alþjóða­sam­fé­lag­inu á eðli­legum for­sendum – án þess að treysta á yfir­ráð og bein ítök í nágranna­ríkjum – sem er við­haldið með ófyr­ir­leitni og yfir­gangi eins og Rússar eru þekktir fyr­ir.

Það má segja að áður­nefndar kenn­ingar hafi í reynd litað við­brögð Vest­ur­landa. Við­skipta­þving­an­ir, ferða­bönn og hefð­bundin diplómasía eru aðferð­irnar sem beitt hefur verið í stað beinnar íhlut­unar sem leitt gæti til vopn­aðra átaka. Aðferða­fræði Rússa á Krím­skaga og í Don­bas svipar mjög til atburða í Georgíu 2008 þegar „sjálf­stæði“ Abkasíu og Suð­ur­-Ossetíu, tveggja hér­aða innan Georgíu var „tryggt“ með rúss­neskri íhlut­un. Þá, eins og í Úkra­ínu, varð það til þess að hreyf­ing í átt til aðildar að ESB og NATO sigldi í strand.

Rússar hafa þannig lært að íhlut­un, yfir­gangur og ofbeldi er aðferð sem virk­ar. Vest­ur­lönd, þrátt fyrir hern­að­ar- og efna­hags­lega yfir­burði eru ein­fald­lega of van­máttug til að bregð­ast við með afger­andi hætti því sam­staða þeirra brestur á end­an­um. Við­skipta­hags­munir verða gjarnan ofan á: Gasleiðslur verða áfram lagð­ar, jarð­efna­elds­neyti áfram keypt, sama hversu oft er hlut­ast til um inn­an­rík­is­mál nágranna­ríkja með hern­aði og und­ir­róðri, eða rúss­neskir and­ófs­menn myrtir af rúss­neskum flugu­mönn­um.

Miðað við aukna hörku í umræð­unni und­an­farið – og mun meira afger­andi talsmáta nýrra stjórn­valda í Was­hington, má velta fyrir sér hvort senn dragi til meiri tíð­inda. Verður áhuga­vert að fylgj­ast með þegar utan­rík­is­ráð­herr­arnir Ant­ony Blin­ken og Sergei Lavrov hitt­ast á ráð­herra­fundi Norð­ur­skauts­ráðs­ins sem hald­inn verður Reykja­vík í næsta mán­uði.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Rannsóknarskipið Hákon krónprins við rannsóknir í Norður-Íshafi.
Ískyggilegar niðurstöður úr Norður-Íshafi
Lífríkið undir ísnum í Norður-Íshafinu er ekki það sem vísindamenn áttu von á. Í nýrri rannsókn kom í ljós að vistkerfið einkennist ekki af tegundum sem helst einkenna hin köldu heimskautasvæði.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Ingrid Kuhlman
Tölum um dauðann
Kjarninn 17. ágúst 2022
Lilja Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra.
Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram drög að nýjum heildarlögum um tónlist. Stofna á Tónlistarmiðstöð, sjálfseignarstofnun sem á að verða hornsteinn íslensks tónlistarlífs og rekin með svipuðum hætti og Íslandsstofa.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Í sumar hafa tugir borga í Kína lýst yfir hættuástandi vegna hita.
Verksmiðjum lokað og mikill uppskerubrestur blasir við
Hitabylgja sumarsins hefur haft gríðarleg áhrif á stórum landsvæðum í Kína. Rafmagn er skammtað og algjörum uppskerubresti hefur þegar verið lýst yfir á nokkrum svæðum.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Seðlabankinn mun kynna næstu stýrivaxtaákvörðun í næstu viku.
Búast við að stýrivextir verði komnir upp í sex prósent í byrjun næsta árs
Markaðsaðilar vænta þess að verðbólgan sé við hámark nú um stundir en að hún muni hjaðna hægar. Í vor bjuggust þeir við að verðbólga eftir ár yrði fimm prósent en nú telja þeir að hún verði 5,8 prósent.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Segja toppana í samfélaginu hafa tekið sitt og að lágmark sé að launafólk fái það sama
Í Kjarafréttum Eflingar er lagt til að almenn laun hækki um 52.250 krónur á mánuði miðað við núverandi verðbólgu. Ríkið þurfi auk þess að koma að kjarasamningaborðinu með tug milljarða króna aðgerðir til að bæta stöðu þeirra verst settu í samfélaginu.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Starfsmenn Hvals hf. komu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglunnar á Akranesi án þess að til húsleitaraðgerðar þyrfti að koma.
Hvals-menn skiluðu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglu
Lögreglan á Akranesi fékk kvikmyndatökudróna sem starfsmenn Hvals hf. hirtu af starfsmönnum svissnesks ríkisfjölmiðils afhentan og kom honum til eigenda sinna. Bæði drónaflugið og drónastuldurinn eru á borði lögreglunnar.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Suðurhringþokan mynduð af WEBB-sjónaukanum í tveimur ólíkum útfærslum.
2.000 ljósár á sextíu sekúndum
Þau sem dreymir um að ferðast um geiminn ættu ekki að láta nýtt myndband geimferðastofnana Bandaríkjanna og Evrópu framhjá sér fara. Á sextíu sekúndum er boðið upp á 2.000 ljósára ferðalag með hjálp hins magnaða WEBB-sjónauka.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar