Þrælahald

Fimmtán klukkustunda vinna á hverjum degi mánuðum saman, kröfur um afköst, sem ekki er hægt að uppfylla, tímaáætlun sem ekki gerir ráð fyrir salernisferðum og kaffitímum. Svona er vinnuaðstæðum lýst hjá þekktri danskri netverslun.

„Stundum hef ég hugsað um hvað gerist ef það kviknaði í hér inni. Það eru margir neyðarútgangar en innan við þá alla eru full vörubretti, þetta er kolólöglegt en enginn gerir neitt,“ sagði einn starfsmaður undir nafnleynd við dagblaðið Information nýlega
„Stundum hef ég hugsað um hvað gerist ef það kviknaði í hér inni. Það eru margir neyðarútgangar en innan við þá alla eru full vörubretti, þetta er kolólöglegt en enginn gerir neitt,“ sagði einn starfsmaður undir nafnleynd við dagblaðið Information nýlega
Auglýsing

Skrifari þessa pistils flutti til Kaupmannahafnar sumarið 2010. Íbúðin var í blokk í fjölbýlishúsahverfi, þúsundir íbúða á tiltölulega litlu svæði, húsin allt upp í tólf hæðir. Íbúarnir á öllum aldri, meirihlutinn fjölskyldufólk í yngri kantinum.

Fljótlega eftir komuna fór pistlaskrifari að veita athygli sendibílum sem komu á öllum tímum dags að húsum í hverfinu og lögðu, iðulega að hluta uppi á gangstéttum, kyrfilega merktir Nemlig.com. Bílstjórarnir virtust alltaf vera á hraðferð. Hlupu nánast út úr bílunum, stöfluðu gráum frauðplastkössum, merktum nemlig.com, á handvagna og tóku svo til fótanna að tilteknum húsnúmerum, þar sem hringt var á bjöllu. Eftir skamma stund kom bílstjórinn aftur út, oft með samskonar kassa (tóma) og smellti þeim í bílinn. Svo var haldið að næstu húsaþyrpingu þar sem sagan endurtók sig. Pistlaskrifari, sem hafði ungur lært að nemlig þýddi nefnilega, einmitt, eða það er að segja, komst brátt að því að Nemlig.com var netverslun sem hafði verið stofnuð þetta sama ár, 2010. Bílstjórarnir með frauðplastkassana voru sem sé að færa fólki mat, og aðrar nauðsynjar til heimilisins, heim að dyrum. Nemlig.com hitti í mark, ef svo má segja, og starfsemin óx hratt og það gerði vöruúrvalið líka.

Stórfyrirtæki á dönskum dagvörumarkaði

Til að gera langa sögu stutta er Nemlig.com í dag stórfyrirtæki á dönskum dagvörumarkaði. Þótt æ fleiri „hefðbundnar“ verslanir í Danmörku bjóði nú samskonar þjónustu hafa viðskiptin hjá Nemlig.com aukist ár frá ári.

Sendibílar Nemlig vöktu athygli pistlaskrifara er hann var búsettur í Kaupmannahöfn. Mynd: Nemlig.

Á heimasíðu fyrirtækisins má sjá að vörutegundirnar eru um það bil 12 þúsund og starfmenn um 9 hundruð. Fyrirtækið státar sig af hraðri og góðri þjónustu, miklu vöruúrvali og verði sambærilegu því sem lægst gerist í hefðbundnum verslunum, sem kenna sig við lágt verð. Í könnun sem óháð rannsóknarstofnun gerði á tveggja mánaða tímabili sl. haust kom í ljós að meira en fjórðungur allra heimila í landinu hafði átt viðskipti við Nemlig.com. Könnunin sýndi líka að nær allir sem verslað höfðu við fyrirtækið hugðust halda því áfram.

Losna við að fara í búðina

Stefan Plenge, stofnandi og framkvæmdastjóri Nemlig.com, hefur í viðtölum sagt að ástæðurnar fyrir velgengni fyrirtækisins séu nokkrar.

Mörgum þyki þægilegt að þurfa ekki að fara í búðina, rölta um með minnismiðann og standa svo í röðinni við kassann. Og að vera laus við að drösla vörunum heim. Geta bara setið við tölvuna heima og gert innkaupin í rólegheitum. Frá upphafi hafi verið lögð mikil áhersla á að pantanir væru afgreiddar á réttum tíma, miðað er við að afhending fari fram innan sólarhrings. Ennfremur að viðskiptavinurinn geti treyst því að fá það sem hann bað um, fái ekki pakka af hafragrjónum í staðinn fyrir kjúklingabringurnar, eins og framkvæmdastjórinn orðaði það í viðtali. Síðast en ekki síst þurfi verðið að vera sambærilegt við það sem býðst í hefðbundnum verslunum.

„Þetta eru ástæðurnar fyrir velgengni Nemlig.com“ sagði framkvæmdastjórinn í viðtali við DR, danska útvarpið.

Hin hliðin

Stundum er komist svo að orði að á hverjum peningi séu tvær hliðar. Það á sannarlega við um netverslunina Nemlig.com. Viðskiptavinirnir eru ánægðir, viðskiptin fara vaxandi, allt í lukkunnar velstandi. Það er önnur hlið peningsins, ef svo mætti segja. Hin hliðin, sú sem snýr að starfsfólkinu er ekki jafn fögur.

Neytendur eru ánægðir. En brotalamir virðast vera að koma í ljós hvað starfsaðstæður varðar. Mynd: Nemlig.

Fyrir skömmu birtist í dagblaðinu Politiken frásögn fyrrverandi starfsmanns hjá Nemlig.com. Í framhaldi af þessu viðtali fóru blaðamenn fleiri danskra miðla að birta frásagnir, fyrrverandi og núverandi starfsmanna Nemlig.com. Blaðamaður Information sagði að það hefði verið eins og að taka lok af potti og allt bullar uppúr. Frásagnir starfsfólksins eru allar á sömu lund og lýsa þeim kröfum sem stjórnendur fyrirtækisins gera til starfsfólksins. Þar þarf að hlaupa hratt, svo hratt að með ólíkindum virðist.

Auglýsing

Áðurnefndur starfsmaður, sem Politiken ræddi við vann á lagernum hjá Nemlig.com. Hann sagðist hafa vaknað klukkan fimm á morgnana og borðað góðan morgunmat, og nokkrar verkjatöflur. Þegar komið var á vinnustaðinn fékk hann stóran vagn. Iðulega eru allt að tólf kassar, áðurnefndir frauðplastkassar, á vagninum. Hver kassi með vörum í getur vegið 10 – 12 kíló.

Kapphlaup við klukkuna

Svo hefst það sem kalla mætti kapphlaup við tímann. Starfsmaðurinn er með heyrnartól og gegnum þau fær hann fyrirskipanir um hvaða vörur eigi að setja í kassana. Hver vara hefur hillunúmer og tölvuröddin skipar fyrir. Hraðinn skiptir öllu máli, afköstin eru tímamæld og allt byggist á því að vera sem fljótastur. Ef viðkomandi vara er ekki á lagerhillunni verður að kalla eftir aðstoð (sem tefur fyrir) og það kemur niður á afkastamælingunni. Þessi starfsmaður, sem að lokum sagði upp, sagði að á meðan hann vann hjá Nemlig.com hefði hann iðulega fengið martraðir á nóttunni. Þær voru alltaf eins, hann var að klifra upp í hillu til að ná í vöru og datt niður á hart steingólfið. Varð óvinnufær og þá missti fjölskyldan landvistarleyfið. ,,Þegar við fluttum til Danmerkur hélt ég að við myndum kynnast frelsi, ekki því sem ég vil kalla þrælahald. Á lagernum hjá Nemlig.com. Ég gat ekki einu sinni fengið mér að drekka, því það kallaði á salernisferð. Slíkt kemur niður á afkastamælingunni. Nú er ég atvinnulaus, en er að leita að vinnu. Hún getur ekki orðið verri en hjá Nemlig.com.“

Eingöngu útlendingar á lagernum

Starfsmaður sem blaðamaður Information ræddi við (undir nafnleynd) sagði að margt hefði komið á óvart þegar hann hóf störf hjá Nemlig.com. Það fyrsta sem hann tók eftir að á lagernum var ekki ekki einn einasti Dani. Eingöngu fólk frá Asíu, Mið- Austurlöndum, Afríku og Austur- Evrópu. Svo er það kapphlaupið um að raða í kassana, þar keppast allir við að vinna sem hraðast. Hlaupa um með níðþunga vagnana, inn á milli koma lyftarar á fullri ferð eftir göngunum, þeir skapa stórhættu. „Stundum hef ég hugsað um hvað gerist ef það kviknaði í hér inni. Það eru margir neyðarútgangar en innan við þá alla eru full vörubretti, þetta er kolólöglegt en enginn gerir neitt.“

Frá lagernum hjá Nemlig. Mynd: Nemlig.

Dagblaðið Politiken komst yfir blað sem sýnir hvað starfsmaður á lagernum hefur langan tíma til að finna hverja vöru og koma henni fyrir í heimsendingarkassanum, á vagninum. Í grænmetisdeildinni hefur starfsmaðurinn 9 sekúndur til að finna vöruna, í þurrvörudeildinni og kælivörunum 12 sekúndur, í kælivörunum og í frystivörunum 14 sekúndur. Þarna þarf aldeilis að halda vel á spöðunum að mati blaðamanns Politiken.

Svo eru það bílstjórarnir

Fyrirkomulagið hjá Nemlig.com hefur til þessa verið þannig að bílstjórarnir hafa verið verktakar en Nemlig.com á bílana. Þeir fá iðulega, með mjög skömmum fyrirvara, boð um að mæta til vinnu. Þegar þeir mæta vita þeir ekki hvað vinnutíminn verður langur í það skiptið. Í viðtölum hefur komið fram að margir þeirra hafa unnið allt að 15 klukkustundir á sólarhring, vikum saman. Einn þeirra sagðist hafa unnið 12- 14 tíma á dag í meira en fjóra mánuði, án þess að fá einn einasta frídag. „Af hverju læturðu bjóða þér þetta“ spurði blaðamaðurinn. Svarið var að ef hann segðist ekki geta komið í dag væri ekki víst að það yrði aftur hringt í hann þannig að „ég þori ekki annað en að mæta“.

Tímaáætlunin sem bílstjórunum er gert að vinna eftir er ströng. Svo ströng að útilokað er að fylgja henni. Það hafa blaðamenn sannreynt. Og ef þeir mæta ekki með vörurnar á tilteknum tíma, fá þeir sekt. Svo háa að hún nemur launum heils dags. Einn viðmælandi Information sagði frá því að einu sinni hefði orðið árekstur við gatnamót einstefnugötu þar sem hann átti að afhenda vörur. Vegna þessa varð hann 12 mínútum of seinn með vörurnar. Ekkert var hlustað á skýringar hans.

Ráðherra, þingmenn og stéttarfélög blanda sér í málið

Umfjöllunin um Nemlig.com hefur vakið mikla athygli í Danmörku. Atvinnumálaráðherrann hefur tjáð sig og sagt að í sínu ráðuneyti verði mál Nemlig.com skoðuð sérstaklega og sömuleiðis önnur fyrirtæki, án þess að hann nefndi þau með nafni. Þingmenn hafa talað á sömu nótum. Framkvæmdastjóri Nemlig.com hefur sagt að um sé að ræða sérstaka ófrægingarherferð gegn fyrirtækinu. Þetta kalla þingmenn og forsvarsmenn stéttarfélaga aumlegt yfirklór. Stéttarfélögin segja að nú verði Nemlig.com sett undir smásjána og það vinnulag sem tíðkast hefur verði ekki liðið.

Síðastliðinn mánudag, 12. apríl héldu forsvarsmenn stéttarfélaga fund með stjórnendum Nemlig.com. um málefni bílstjóranna. Þar hélt framkvæmdastjóri Nemlig.com því fram að bílstjórarnir væru verktakar og ynnu því á eigin ábyrgð, varðandi tímaáætlanir og fleira. Þetta segja stéttarfélögin ólöglegt. Skömmu eftir fundinn sendi Nemlig.com frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að fyrirkomulagi vörudreifingarinnar yrði breytt, og sektakerfið fellt úr gildi. „Við munum ekki láta staðar numið og einskorða aðgerðir okkar við bílastjórana“ sagði Jan Villadsen stjórnarmaður í stéttarfélagi bílstjóra.

Ekki látið sitja við orðin tóm

Annar fundur Nemlig.com með stéttarfélögum var haldinn sl. miðvikudag. Að honum loknum sagði talsmaður stéttarfélaganna ljóst að verkefnið sem leysa þyrfti væri í sjálfu sér ekki sérlega flókið. Reglurnar séu til staðar, þær sé að finna í samningum og vinnulöggjöf. „Það þarf einfaldlega að tryggja að þeim reglum og samningum sé fylgt.“ Hann benti líka á að að til stæði að skoða mörg fleiri fyrirtæki og bætti svo við „við kærum okkur ekki um að vinnulag eins og tíðkast til dæmis hjá sumum bandarískum fyrirtækjum verði tekið upp hér.“ Hann vildi ekki nefna nöfn en blaðamenn telja fullvíst að hann hafi verið að vísa til netverslunarinnar Amazon.com.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í Laugardalshöllinni í gær. Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar