Nærri þrjú þúsund keppendur tóku þátt í 109 keppnisgreinum á 24. vetrarólympíuleikunum sem lauk í Beijing í Kína um síðustu helgi. Noregur fór heim með flestar gullmedalíur, Finnar unnu til gullverðlauna í fyrsta sinn þegar þeir lögðu Rússa í ísknattleik og breska kvennaliðið í krullu hreppti fyrstu og einu gullverðlaun Breta á leikunum.
Fjöldi gullverðlauna og skipting þeirra var hins vegar ekki það sem vakti mesta athygli á vetrarólympíuleikunum í Beijing. Alþjóðaólympíunefndin hefur verið gagnrýnd fyrir að hunsa alfarið andlega og líkamlega heilsu íþróttafólks.
Í opnu bréfi sem birtist í Washington Post eftir Richard W. Pound, sem hefur setið hvað lengst í alþjóðaólympíunefndinni, fullyrðir hann að ólympíuleikar geri heiminn að betri stað og að nefndin setji ólympíufara ávallt í fyrsta sæti. Margt bendir hins vegar til þess að á vetrarólympíuleikunum í Beijing hafi ýmislegt annað en velferð íþróttafólksins verið í forgangi, svo sem íburður og gróði, og hafi það ekki síst sést á andlegri heilsu keppenda. Pressan var einfaldlega óbærileg oft á tíðum.
Simone Biles átti að veita bandarískum keppendum innblástur
Í herbúðum Bandaríkjanna fyrir leikana var andleg heilsa keppenda sett í forgrunn. Simone Biles, fremsta fimleikakona heims, setti tóninn á ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar þegar hún dró sig að hluta úr keppni þar sem hún sagðist þurfa að einbeita sér að andlegri heilsu sinni. Ákvörðun Biles vakti heimsathygli og hlaut hún mikið lof fyrir að vekja athygli á andlegri heilsu íþróttafólks, þrátt fyrir að gagnrýnisraddirnar hafi ekki verið langt undan.
Biles átti því að vera bandarísku keppendunum í Beijing hugleikin þegar leikarnir hófust í upphafi mánaðarins. Biles hafði veitt tilfinningunum sem flest íþróttafólk upplifir rödd, tilfinningum á borð við efa, áhyggjur og að upplifa gríðarlega pressu. Með því að tala opinskátt um andlega heilsu voru keppendur ekki lengur berskjaldaðir. Biles minnti aðdáendur, vini og fjölskyldu á að jafnvel besta íþróttafólks heims hefur tilfinningar og upplifir ótta.
„Það sem Biles gerði var kröftugt og sendi okkur skýr skilaboð, að það er í lagi að vera ekki allt í lagi,“ segir Anna Gasser í samtali við New York Times. Grasser hefur unnið til gullverðlauna á snjóbretti og keppti nú á sínum þriðju leikum.
En það reyndi svo sannarlega á andlega heilsu bandarísku keppendanna, auk fjölda annarra, á leikunum.
„Nú er mér líka kalt á rassinum“
Mikaela Shiffrin, ein fremsta skíðakona heims í alpagreinum, var vonarstjarna Bandaríkjanna á leikunum, rétt eins og Biles var á sumarólympíuleikunum. Hún gat orðið fyrst Bandaríkjamanna til að vinna til þriggja gullverðlauna á einu og sömu vetrarleikunum og var hún talin eiga raunhæfa möguleika á því. Mörgum stóð því ekki á sama þegar hún keyrði út úr brautinni í fyrstu keppnisgreininni, stórsvigi. Daginn eftir gerðist það sama, hún skíðaði út úr brautinni ofarlega í brekkunni. Fjölmiðlar veittu ógöngum Shiffrin athygli, of mikla að margra mati, og voru gagnrýndir fyrir að sýna Shiffrin sitjandi í brekkunni með krosslagðar hendur yfir hnén.
Shiffrin tók þá ákvörðun eftir keppnisgreinarnar tvær að veita fjölmiðlum ekki frekari viðtöl. Hún tók alls þátt í sex greinum en náði sér ekki á strik og lauk leikunum án verðlauna. Shiffrin gerði upp leikana að þeim loknum þar sem hún fór meðal annars yfir það sem hún hugsaði eftir að hafa skíðað út úr brautinni. „Það er kannski ekki eins áhugavert og fólk vill halda. Mér var kalt og ég settist í snjóinn en hugsaði um leið: Þetta var mjög slæm hugmynd, nú er mér líka kalt á rassinum og blaut - mér leið eins og væri föst.“
Shiffrin viðurkennir að hún hafi byrjað að efast um skíðaiðkun sína, ekki síst eftir að henni bárust mörg svívirðileg skilaboð eftir frammistöðuna. En hún ákvað að bregðast við með því að birta þau og taka þannig völdin af nettröllunum.
Of mikil pressa er ekki það sem varð Shiffrin að falli á leikunum að hennar mati. „Það hræðir mig ekki að detta, sérstaklega þar sem ég datt þar sem ég var að leggja mig alla fram, kannski of mikið,“ segir Shiffrin, sem er staðráðin í að skíða á ný, og það fljótlega. „Það er hægt að mistakast án þess að vera misheppnuð.“
Óbærileg pressa á 15 ára stúlku
Önnur keppnisgrein sem vakti mikla athygli á leikunum var listdans á skautum. Það ætti ekki að koma á óvart, enda fangar greinin gjarnan athygli flestra, óháð áhuga á vetraríþróttum yfir höfuð.
Augu allra beindust fljótt að hinni 15 ára gömlu Kamilu Valievu. Stuttu eftir að leikarnir hófust kom í ljós að Valieva hafði fallið á lyfjaprófi sem var tekið eftir rússneska meistaramótið í desember. Niðurstöðurnar bárust hins vegar ekki fyrr en eftir að Valieva keppti í liðakeppninni en áður en keppni hófst í flokki einstaklinga.
Lyfið sem greindist í sýni hennar er hjartalyfið trimetazidine sem getur aukið úhald. Alþjóða íþróttadómstóllinn ákvað hins vegar að veita Valievu leyfi til að halda áfram keppni, meðal annars sökum ungs aldur hennar og að það gæti valdið henni varanlegum skaða að banna henni að taka þátt á leikunum.
Allt gerðist þetta á örfáum dögum og voru því allra augu á Valievu þegar hún steig á ísinn í einstaklingskeppninni. Fyrirkomulag keppninnar er með þeim hætti að fyrri daginn skauta keppendur svokallaðar skylduæfingar og daginn eftir frjálsar æfingar. Samanlögð einkunn gildir svo til að ákvarða árangur keppenda.
Valieva var efst eftir skylduæfingar en þegar kom að frjálsu æfingunum var ljóst að hún var mjög stressuð, pressan var gríðarleg og það fór ekki á milli mála að allir voru að fylgjast með henni. Valieva féll nokkrum sinnum á meðan æfingunum stóð og fljótlega varð ljóst að hún kæmist ekki á pall. Einhverjir önduðu þá léttar þar sem nú var mögulegt að halda verðlaunaafhendingu. Alþjóðaólympíunefndin hafði nefnilega gefið það út fyrir keppnina að verðlaunaafhending færi ekki fram ef Valieva yrði í einu af þremur efstu sætunum.
Valieva brast í grát eftir að hún lauk keppni og viðbrögð þjálfara hennar vöktu athygli en hún virtist skamma Valievu harðlega fyrir frammistöðuna. Valieva kom þjálfara sínum til varnar á færslu á Instagram eftir leikana. „Með þér mér við hlið líður mér öruggri og finnst ég vera tilbúin í hvaða áskorun sem er. Takk fyrir að hjálpa mér að vera sterk. Ég verð ein af þessum góðu,“ skrifar hún í færslunni.
„Ég ætla aldrei að skauta aftur“
Tvær rússneskar skautadrottningar komust hins vegar á verðlaunapall. Anna Shcherbakova fékk gull og Alexandra Trusova silfur. Báðar eru þær 17 ára. Viðbrögð Trusovu vöktu athygli en hún var afar ósátt með niðurstöðuna og lét þjálfarann sinn heyra það. „Allir fá gullverðlaun nema ég. Ég hata skauta. Ég hata alla. Ég hata þessa íþrótt. Ég ætla aldrei að skauta aftur. Aldrei. Þetta er ömurlegt. Svona á þetta ekki að vera,“ sagði Trusova.
Aðspurð á blaðamannafundi eftir keppnina af hverju hún hefði grátið sagði Trusova að svarið væri einfalt. „Af því bara. Ég vildi gráta og þess vegna grét ég. Ég hef verið ein í þrjár vikur, án mömmu minnar og hundanna minna. Þess vegna grét ég,“ sagði hún.
Takmarkanir vegna COVID-19 settu settu óneitanlega aukinn þrýsting á keppendur í ár, líkt og Trusova greindi frá. Keppendur nutu ekki stuðnings fjölskyldu og vina þar sem áhorfendur voru ekki leyfðir á leikunum.
Trusova stóð þó ekki við stóru orðin og var mætt aftur á ísinn á lokadegi leikana, sem Wonder Woman á galasýningu sem var hluti af lokaathöfn leikanna. Hvað hún var hins vegar að hugsa um á meðan sýningunni stóð liggur ekki fyrir.
Hávær krafa um að hækka lágmarksaldur keppenda
Ungur aldur keppenda hefur líka verið til umræðu eftir leikana, sérstaklega í keppni á listskautum. Valieva er aðeins 15 ára og mörgum þykir um of að leggja það á barn að keppa á Ólympíuleikum, hvað þá þegar lyfjahneyksli bætist ofan á allt saman.
15 ára er einmitt lágmarksaldur Alþjóðaskautasambandsins til að öðlast keppnisrétt en nú heyrast raddir þess efnis að hækka verði aldurinn, meðal annars frá keppendum og þjálfurum í greininni. Þannig geti keppendur borið ábyrgð á sjálfum sér og haft meiri þroska í að takast á við pressuna sem fylgir keppnum eins og ólympíuleikum.
Í þessu samhengi hefur verið litið til fimleika á sumarólympíuleikum þar sem meðalaldur kvenkyns þátttakenda hefur farið hækkandi eftir að lágmarksaldrurinn var hækkaður í 16 ár fyrir leikana í Sydney árið 2000.
Meðalaldur fimleikakvenna sem tóku þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra var 21 ár og 11 mánuðir, samanborið við 20 ár og níu mánuðir í Ríó 2016 og er því um töluvert stökk að ræða. Meðalaldur í þessari vinsælustu keppni hverra ólympíuleika hefur ekki verið svona hár frá árinu 1964.
Oft hefur ungur aldur fimleikakvenna verið gagnrýndur, en svo virðist sem margar þjóðir sendi nú eldri fimleikakonur til leiks en áður. Frá árinu 2000 hefur reglan verið sú að til að fá að keppa á ólympíuleikum þurfi fimleikakona að hafa náð 16 ára aldri þegar hún keppir.
Óvíst er hvort hærri aldur keppenda á ólympíuleikum komi til með að skila sér í betri andlegri heilsu keppenda. Margt annað virðist spila þar inn í. Samkvæmt könnun sem gerð var í Bretlandi í fyrra glíma um 24 prósent ólympíufara við andlegan heilsubrest að ólympíuleikum loknum. Augljóst er þó síðustu tvennir ólympíuleikar, í Tókýó og Beijing, hafa opnað umræðuna um andlega heilsu ólympíufara.
Ætli hinn sanni ólympíuandi muni felast í áherslu á andlega heilsu íþróttafólks í París 2024?