Andrew Cuomo ríkisstjóri New York í Bandaríkjunum áreitti fjölda kvenna kynferðislega og braut með því bæði lög New York ríkis sem og alríkisins samkvæmt skýrslu sem saksóknari New York ríkis, Letitia James, sendi frá sér í gær. Í skýrslunni, sem er 165 síðna löng, er Cuomo sagður hafa brotið gegn ellefu konum, hann hafi ítrekað snert og þuklað konur án þeirra samþykkis og viðhaft óviðeigandi orðbragð. Þar kemur einnig fram að á skrifstofu ríkisstjórans hafi vinnustaðamenningin verið eitruð og að starfsfólk hafi óttast um vinnu sína. Það hafi svo stuðlað að því að áreitni hafi fengið að viðgangast.
Haft er eftir saksóknaranum Letitia James í ítarlegri umfjöllun New York Times um málið að Cuomo hafi áreitt opinbera starfsmenn, bæði núverandi og fyrrverandi, og hafi með hegðun sinni farið á svig við lögin. „Niðurstaða óháðrar rannsóknar leiðir það í ljós að Cuomo ríkisstjóri áreitti fjölda kvenna, þar af voru margar mjög ungar, með því að hafa án þeirra vilja káfað á þeim, kysst þær og faðmað og með því að láta frá sér óviðeigandi athugasemdir,“ segir saksóknarinn. Cuomo er nú til rannsóknar og svo gæti farið að hann verði ákærður.
Cuomo svaraði þessum ásökunum með myndbandsávarpi sem hann birti á Twitter-síðu sinni. Þar sagði hann meðal annars að hann hefði aldrei snert neinn á óviðeigandi hátt. „Svona er ég ekki. Svona hef ég aldrei verið,“ sagði Cuomo meðal annars um ásakanirnar á hendur honum.
Governor Cuomo Responds to Independent Reviewer Report: https://t.co/sgPuPEDXRU
— Andrew Cuomo (@NYGovCuomo) August 3, 2021
Stuðningur bandamanna á bak og burt
Cuomo hefur verið ríkisstjóri í New York ríki í rúm 10 ár en hann tók við embættinu í upphafi árs 2011. Hann hefur í áraraðir verið áhrifamaður meðal Demókrata, klifið metorðastigann innan flokksins svo eftir var tekið og ekki skemmir ættarnafnið fyrir – pabbi hans, Mario Cuomo, var ríkisstjóri í ellefu ár á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. En nú hefur hver bandamaðurinn á fætur öðrum sagt það opinberlega að Cuomo sé ekki stætt í embætti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti er á meðal þeirra sem hafa sagt að Cuomo eigi að stíga til hliðar og það sama hefur Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, gert. Biden hefur hingað til verið hikandi í að taka svo skýra afstöðu.
Þegar fyrstu ásakanirnar á hendur Cuomo litu dagsins ljós seint á síðasta ári sagði fjöldinn allur af Demókrötum að Cuomo ætti að stíga til hliðar. Hans helstu bandamenn voru þó ekki í þeim hópi, þeirra á meðal Joe Biden. Þegar Biden var spurður um málið í mars síðastliðnum sagði hann að Cuomo ætti að stíga til hliðar ef rannsókn á atferli hans myndi leiða í ljós að hann hefði gerst sekur um áreitni. Nú liggur niðurstaða rannsóknarinnar fyrir og Biden hefur því tekið afstöðu gegn veru Cuomo í embætti.
„Mér leið mjög óþægilega og ég var hrædd“
Ásakanir á hendur Cuomo litu dagsins ljós í desember í fyrra. Þá sakaði Lindsey Boylan Cuomo um kynferðislega áreitni en hún starfaði á skrifstofu ríkisstjórans. Hún sagði Cuoma hafa ítrekað talað um líkamsvöxt Boylan á vinnustaðnum og hefði gert það um árabil. „Ég vissi aldrei við hverju ég mátti búast: yrði ég gagnrýnd fyrir árangur minn í starfi (sem var mjög góður) eða yrði ég áreitt vegna útlits míns,“ sagði Boylan í færslu sem hún birti á Twitter. „Eða yrði það jafnvel bæði í einu?“
Á blaðamannafundi sem haldinn var sama dag og Boylan birti færslu sína sagði talskona ríkisstjórans þessar ásakanir ekki vera sannar. Cuomo gerði slíkt hið sama degi síðar. „Ég hef barist fyrir því og það er mín skoðun að kona eigi að geta stigið fram og lýst skoðun sinni og þeim áhyggjum sem hún kann að hafa,“ sagði Cuomo á blaðamannafundi. „En þetta er hreinlega ekki satt.“
Í febrúar á þessu ári steig fram önnur kona sem unnið hafði með Cuomo og sakaði hann um kynferðislega áreitni. Charlotte Bennett sem unnið hafði sem ráðgjafi á sviði heilbrigðismála á skrifstofu Cuomo sagði hann hafa spurt hana út í hennar einkalíf, hvort hún væri í opnu sambandi og hvort hún hefði einhvern tímann sofið hjá eldri mönnum. Eitt sinn þegar hún var ein á skrifstofunni ásamt Cuomo hafi hann sagt henni að hann væri sjálfur opinn fyrir ástarsamböndum með konum á þrítugsaldri en Bennett er 25 ára. Með þessum ummælum fannst Bennet sem Cuomo væri að ýja að því að þau tvö ættu að eiga í ástarsambandi.
„Ég skildi það sem svo að ríkisstjórinn vildi sofa hjá mér og mér leið mjög óþægilega og ég var hrædd,“ sagði Bennett í viðtali við New York Times. „Ég hugleiddi hvernig ég kæmist út úr þessum aðstæðum og gerði ráð fyrir að störfum mínum þarna væri lokið.“
Gæti verið kosið um embættismissi
Þrátt fyrir niðurstöður rannsóknarskýrslunnar hefur Cuomo sagt að hann ætli ekki að segja af sér. Stuðningur við ríkisstjórann er hins vegar í algjöru lágmarki innan Demókrataflokksins og svo gæti farið að kosið verði um embættismissi hans. Slík kosning hefur ekki farið fram í New York ríki í rúma öld.
Forseti neðri deildar löggjafarþingsins í New York ríki, Carl E. Heastie, getur hrundið því ferli af stað en hann hefur sjálfur sagst vilja koma slíkri kosningu af stað, auk þess sem hann hefur fundað með öðrum þingmönnum sem eru sama sinnis.
Samkvæmt umfjöllun New York Times er þó talið að rannsókn, sem er nauðsynlegur undanfari kosningar um embættismissi, geti tekið allt að mánuð í framkvæmd. Á þeim tíma gæti áhrifamáttur nýútkominnar skýrslu verið á farinn og vilji stjórnmálamanna til þess að víkja Cuomo úr embætti einnig.