Bikiní- og stuttbuxnadeilan

Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.

Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Auglýsing

Á sjöunda áratug síðustu aldar var borgarstjórinn í spænska strandbænum Benidorm bannfærður af kaþólsku kirkjunni. Ástæðan var sú að hann birti tilkynningu þar sem fram kom að konum væri heimilt að klæðast tvískiptum baðfötum, buxum og brjóstahaldara.

Þessi klæðnaður nefndist bikiní. Nafnið var þó eldra. Árið 1946 auglýsti Frakkinn Louis Rérard baðfatnað sem hann nefndi bikini eða bikiní. Móðir hans hafði rekið nærfataverslun en eftir hennar dag tók Louis Rérad við rekstrinum og fór sjálfur að dunda sér við fatahönnun. Hann hafði séð veggmyndir frá tímum Rómverja og það vakti athygli hans að þar mátti sjá stúlkur klæddar tvískiptum baðfötum.

Auglýsing

Louis Rérad gekk illa að fá stúlkur til að láta mynda sig fyrir auglýsingarnar, en fékk loks Michelini Bernardini 19 ára gamla nektardansmær, til að sitja fyrir á auglýsingamyndunum, þar sem naflinn á fyrirsætunni sást. Þótt baðfatnaður af þessu tagi hefði áður sést hafði ekki tíðkast að naflinn sæist, nema hjá Rómverjunum til forna. Auglýsingin vakti mikla athygli og Michelini Bernardini fékk á næstu vikum 50 þúsund bréf frá aðdáendum. Nafnið bikiní er dregið af samnefndri eyju í Kyrrahafinu.

Vinsælt en umdeilt

Á árunum um og eftir 1950 jukust vinsældir bikinísins og margar þekktar kvikmyndastjörnur létu mynda sig í þessum „tískufatnaði“ og þær myndir birtust í blöðum og tímaritum víða um heim.

Árið 1951 efndi Bretinn Eric Morley til keppni sem hann nefndi Festival Bikini Contest. Keppnin fékk síðar heitið Miss World. Í þessari fyrstu keppni bar sænska stúlkan Kiki Håkansson sigur úr býtum. Við verðlaunaafhendinguna klæddist hún bikiní, það mæltist misjafnlega fyrir og meðal annars fordæmdi páfinn vinningshafann. Árið 1952 var ákveðið að þátttakendur í áðurnefndri keppni myndu ekki koma fram í bikiní en það breyttist svo aftur mörgum árum síðar. Þess má geta að Kiki Håkansson er eina stúlkan sem tekið hefur á móti verðlaunum í þessari keppni íklædd bikiní.

Veggmynd frá tímum Rómverja af konum í því sem í dag kallast bikiní.

Víða mætti bikiní andstöðu og ástæðurnar voru ýmsar. Klæðnaðurinn þótti djarfur og jafnvel ýta undir „undarlegar kenndir“ eins og virtur þýskur fjölmiðill komst að orði. Líka heyrðust raddir um að bikiní væri lítillækkandi fyrir konur, það væri verið að gera kvenlíkamann að söluvöru.

Eitt þekktasta bikiní allra tíma er vafalítið „hvíta bikiníið“ sem leikkonan Ursula Andress klæddist árið 1962 í kvikmyndinni Dr. No, fyrstu myndinni um njósnara hennar hátignar, James Bond.

Smám saman jukust vinsældir bikinísins og er það í dag víða um heim viðurkenndur bað- og sundfatnaður.

Reglur evrópska handknattleikssambandsins

Hann hefði líklega brosað út í annað borgarstjórinn í Benidorm ef hann er á lífi og hefði séð fréttir frá Evrópumótinu í strandhandbolta sem fór fram í Varna í Búlgaríu. Það var ekki keppnin sjálf sem vakti mesta athygli heldur fréttirnar af mótmælum norsku stúlknanna vegna reglna um klæðaburð. Þær fréttir fóru víða um um heim.

Reglur evrópska handknattleikssambandsins, EHF, um fatnað keppenda í strandhandbolta eru ekki þær sömu fyrir bæði kyn. Í reglum fyrir karlana segir að þeir skuli vera í stuttbuxum, ekki alltof víðum og skálmarnar ekki lengri en svo að 10 sentimetrar séu að hné. Bolur skal vera ermalaus.

Norsku strandhandboltaliðin í fötum sem samræmast ströngum reglum Evrópska handknattleikssambandsins.

Varðandi konurnar eru reglurnar mun ítarlegri. Þær eiga að vera í bikiní og buxurnar mega ekki vera meira en 10 sentimetrar á hliðunum, sniðið þannig að séð framan frá líkist buxurnar þríhyrningi. Efri hlutinn, brjóstahaldarinn, skal vera þröngur og ekki aðskorinn undir handarkrikanum.

Þessar reglur hafa lengi verið umdeildar en stjórn EHF hefur setið við sinn keip og ekki hlustað á fjölmargar kvartanir.

Norsku stúlkurnar kvörtuðu

Meðal norska kvennalandsliðsins í strandhandbolta hafa lengi heyrst óánægjuraddir vegna reglna EHF um bikiníklæðnaðinn. Í nýlegu viðtali við norska sjónvarpið, NRK, sagðist landsliðskonan Katinka Haltvik þekkja dæmi þess að stúlkur vildu ekki spila strandhandbolta vegna bikiníreglnanna. „Í upphafi var ég uppteknari af því að passa uppá að buxurnar villtust ekki af leið á kroppnum en af leiknum sjálfum. Þessar reglur settu miðaldra og gamlir karlar og þær eru illskiljanlegar, allavega fyrir kvenfólk.“

Á ráðstefnu EHF í apríl á þessu ári lögðu fulltrúar norska handknattleikssambandsins fram tillögu um breytingar á bikiníreglunum. Tillögunni var ágætlega tekið en þegar Evrópukeppnin hófst 13. júlí sl. voru reglurnar óbreyttar. Norska liðið tilkynnti að það myndi mæta í stuttbuxum til keppni. EHF svaraði með hótunum um sekt og hugsanlega brottrekstri úr keppninni. Þegar þær norsku hófu keppni mættu þær í bikiníbúningnum, að sögn til að verða ekki vísað úr keppninni. En stuttbuxnamálinu var ekki lokið.

Mættu í stuttbuxum til að spila um bronsið

Þegar norska liðið mætti til að spila um bronsið (töpuðu fyrir Spánverjum) voru stúlkurnar allar í stuttbuxum. Þetta fór fyrir brjóstið á stjórn EHF sem aflýsti ekki leiknum en tilkynnt að honum loknum að norska liðið yrði sektað um 1500 evrur (220 þúsund íslenskar) fyrir að brjóta bikiníreglurnar. Kåre Geir Lio, formaður norska handknattleikssambandsins sagði að sambandið myndi, með ánægju, borga þessa sekt. „Við höfum stutt stúlkurnar, reglurnar eru vonlausar og við höfum árum saman talað fyrir breytingum á klæðnaðinum.“

Kvennalið Póllands og Danmerkur keppa í standhandbolta í klæðum samkvæmt reglum Evrópska handknattleikssambandsins. Norska liðið hafnar þeirri forsjárhyggju. Mynd: EPA

Stuðningur víða að skapar þrýsting

Fjölmargir hafa lýst stuðningi við þá ákvörðun norska strandhandboltaliðsins að krefjast breytinga. Fréttir af því þegar norsku stúlkurnar mættu til leiks í stuttbuxum, og sektarhótunum EHF, vöktu athygli víða um heim. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið og lýst stuðningi við norsku stúlkurnar er söngkonan Pink. Hún sagðist með glöðu geði borga þær sektir sem liðið fengi.

Þýska fimleikaliðið keppti í heilgöllum á Ólympíuleikunum og vonar að fleiri lið feti í sín fótspor. Mynd: EPA

Nú hefur stjórn Evrópska handknattleikssambandsins tilkynnt að unnið verði að breytingum á bikiníreglunum. Talsmaður sambandsins sagði að breytingar yrði að gera í samvinnu við, og á vegum, Alþjóða handknattleikssambandsins. Norska landsliðskonan Katinka Haltvik sagðist hreykin af staðfestu landsliðsins „nú verða breytingar, sjálfsagðar breytingar. Þetta er bara einn liður í jafnréttisbaráttunni“.

Í þessu samhengi má geta þess að fimleikastúlkurnar sem kepptu fyrir hönd Þýskalands á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrir nokkrum dögum klæddust ökklasíðum „heilgalla“ í stað „sundbols“ eins og eitt þýsku dagblaðanna komst að orði. Fimleikabolur væri kannski réttara orð. Í viðtölum sögðu nokkrar úr hópnum að þeim þætti heilgallinn einfaldlega þægilegri og þjálfararnir hefðu sagt að vitaskuld ættu þær að klæðast því sem þær vildu helst.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar