Félag í eigu Árna Harðarsonar, stjórnarmanns og lögmanns lyfjafyrirtækisins Alvogen, á um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem eru að baki hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Árni á hlutabréfin, sem hann hefur keypt af islenskum lífeyrissjóðum á liðinni viku, í gegnum félag sem heitir Urriðahæð ehf. Samtals hefur Árni greitt á milli 25 til 30 milljónir króna fyrir hlutabréfin, sem eru verðlaus nema að til takist að fá viðurkennt fyrir dómstólum að Björgólfur Thor eigi að greiða fyrrum hluthöfum Landsbankans skaðabætur. Til viðbótar þarf Urriðhæð að greiða sinn hluta málskostnaðar. Hann gæti hlaupið á tugum milljóna króna.
Árni er nánasti samstarfsmaður Róberts Wessmans. Þeir störfuðu áður báðir hjá Actavis, á meðan að Björgólfur Thor var aðaleigandi þess fyrirtækis. Síðan að Árni og Róbert hættu störfum hjá Actavis árið 2008 hefur andað verulega köldu milli þeirra og Björgólfs Thors. Hann hefur meðal annars stefnt þeim til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt auk þess sem báðir aðilar hafa ítrekað atyrt hinn á opinberum vettvangi á undanförnum árum.
Árna og Róberti er, vægast sagt, ekki vel við Björgólf Thor. Og honum er ekki vel við þá.
50 blaðsíðna stefna
Hópmálsókn gegn Björgólfi Thor var þingfest í gærmorgun. Málshöfðunin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi er lýtur að dómsmálum sem tengjast bankahruninu. Aldrei áður hafa fyrrum hluthafar í íslenskum banka tekið sig saman og stefnt fyrrum aðaleiganda hans fyrir að hafa blekkt sig með saknæmum hætti til að eiga í bankanum. Og krefjast skaðabóta fyrir. Björgólfur Thor hefur ávallt neitað sök og sagt málshöfðunina vera gróðrabrall lögmanna sem að henni starfa.
Kjarninn hefur stefnuna í málinu, sem er 50 blaðsíður að lengd, undir höndum. Hana má lesa hér.
Alls taka 235 aðilar þátt í málsókninni. Þeir eiga samtals 5,67 prósent af heildarhlutafé í Landsbankans, sem féll haustið 2008.
Málsóknarfélagið krefst þess að skaðabótaskylda Björgólfs Thors á því tjóni sem aðilar að félaginu urðu fyrir þegar hlutabréf í Landsbankanum urðu verðlaus við fall hans 7. október 2008. Í stefnunni kemur fram að félagsmenn byggi málsóknina á því „að þeir hefðu ekki verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. og þar með ekki orðið fyrir tjóni, ef ekki hafði komið til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda [Björgólfs Thors]“.
Það sem málsóknarfélagið telur að Björgólfur Thor hafi gert, og hafi ollið þeim skaða, er þrennt. Í fyrsta lagi hafi ekki verið veittar upplýsingar um lánveitingar Landsbanka Íslands til Björgólfs Thors og tengdra aðila í ársreikningum bankans fyrir rekstrarárið 2005 og í öllum uppgjörum eftir það fram að hruni.
Í öðru lagi hafi Björgólfur Thor vanrækt á tímabilinu 30. júní 2006 til 7. október 2008, að „upplýsa opinberlega um að Samson eignarhaldsfélag ehf. [Í aðaleigu Björgólfs Thors og föður hans] færi með yfirráð yfir Landsbanka Íslands hf., og teldist því móðurfélag bankans“.
Í þriðja lagi telur félagið að Björgólfur Thor hafi vanrækt að „sjá til þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. gerði öðrum hluthöfum Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð hinn 30. júní 2006, eða síðar, í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti“.
Hófu uppkaup á hlutabréfum fyrir viku
Urriðahæð hóf fyrir um viku síðan að gera tilboð í hlutabréf fyrrum hluthafa í Landsbanka Íslands í bankanum. Kjarninn hefur skjal þar sem tilboð til hluthafanna er útskýrt undir höndum. Í skjalinu Íslands segir meðal annars að þeir hluthafar sem ekki taki þátt í málarekstri málsóknarfélagsins muni „nær örugglega missa bótarétt sinn vegna fyrningar.“
Þar sem einhverjir hluthafanna hafi sett félagsgjald málsóknarfélagsins fyrir sig og telji áhættu á því að tapa frekari fjármunum með þátttöku býðst þeim að gerast aðili að málsókninni. Í því felst að ónafngreindir fjárfestar greiði félagsgjald þeirra að fullu, og ábyrgjast greiðslu á frekari kostnaði, gegn því að þeir fái 50 prósent allra innheimtra skaðabóta. Tapist málið fellur því enginn kostnaður á hluthafann, en vinnist það fær hann hann helming þeirra skaðabóta sem hann á rétt á.
Ef hluthafar hafa ekki áhuga á þessari leið þá býðst þeim að selja hlutafé sitt og framselur samhliða skaðabótakröfuna til fjárfesta fyrir fimm prósent af nafnvirði hlutafjár sem hann á. Samkvæmt tilboðinu fær hluthafinn samt sem áður 25 prósent af skaðabótum eftir uppgjör á kostnaði, án þess að leggja út neinn kostnað. „Ef málið tapast hefur hluthafi fengið greitt fyrir verðlausa eign,“ segir í tilboðsskjalinu.
Sá sem skrifar undir skjalið er Jóhann Ómarsson, framkvæmdastjóri Urriðahæðar.
Áralangar deilur
Eigandi Urriðahæðar ehf. er Árni Harðason. Hann er yfirmaður lögfræðisviðs lyfjafyrirtækisins Alvogen, sem Róbert Wessman stýrir. Árni og Róbert hafa verið nánir samstarfsmenn árum saman. Í samtali við Kjarnann segir Árni að hann sé eini eigandi félagsins og stjórnarformaður þess. Jóhann Ómarsson sé framkvæmdastjóri.
Árni segir að stutt sé síðan að Urriðahæð hóf uppkaup á hlutabréfum í Landsbankanum. Þau uppkaup hafi átti sér stað á um viku. Samtals hafi hann greitt um 25-30 milljónir króna fyrir þau hlutabréf sem Urriðahæð hefur þegar keypt.
Róbert Wessman og Árni hafa átt í miklum og opinberum útistöðum við Björgólf Thor á undanförnum árum. Bæði Róbert og Árni störfuðu áður sem stjórnendur hjá Actavis, á sama tíma og Björgólfur Thor var aðaleigandi félagsins. Í ágúst 2008 lét Róbert af störfum hjá lyfjafyrirtækinu, en hann hafði þá verið forstjóri þess í níu ár. Björgólfur Thor segir að Róbert hafi verið rekinn en Róbert segir það vera rangt. Hann hafi einfaldlega viljað hætta.
Síðan að þetta átti sér stað hafa verið hnútaköst á milli mannanna í fjölmiðlum og fyrir dómstólum. Björgólfur Thor stefndi bæði Róberti og Árna fyrir að hafa á ólögmætan hátt dregið að sér fjórar milljónir evra frá sér og nýtt í eigin þágu. Hann vill að þeir greiði sér skaðabætur vegna þessa. Róbert og Árni hafa ítrekað hafnað þessum málatilbúnaði, sagt stefnuna tilefnislausa og að hún eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Málið var þingfest í sumar.
235 taka þátt í málsókninni
Kjarninn er einnig með lista yfir þá sem taka þátt í málsókninni undir höndum. Alls eru skráðir félagar í málsóknarfélagið 235 samkvæmt honum. Listann má sjá hér.
Um 60 prósent þeirra hlutabréfa þáttakenda í hópmálsókninni eru í eigu eða umsjá Urriðahæðar. Félagið hefur keypt bréf af öllum stærstu lífeyrissjóðum landsins utan lífeyrissjóðs Verslunarmanna, sem hefur ekki viljað selja. Urriðhæð heldur því á bréfum vegna lífeyrisjóðanna, Festu, Gildis, Stafa, LSR og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og er langstærsti einstaki aðilinni sem þátt tekur í málsókninni. Á meðal annarra stórra eigenda að hlutabréfum sem taka þátt í málsókninni eru Karen Millen, sem átti einu sinni tískuvörukeðju sem bar nafn hennar, en varð síðar umsvifamikill fjárfestir í íslenskum fjármálafyrirtækjum.
Björgólfur Thor hefur farið fram á að málinu verði vísað frá. Í færslu á bloggsíðu sinni, btb.is, í gær sagði hann að að störfum hlaðið dómskerfi Íslands þurfi nú að bæta á sig duttlungum Vilhjálms Bjarnasonar. "Málefni mín og bankans hafa verið rannsökuð í þaula af þar til bærum yfirvöldum og ekki talin ástæða til aðgerða í nokkru þeirra. Þar að auki hef ég gert upp allar mínar skuldir við bankann og hann því skaðlaus af viðskiptum við mig. Slitastjórn bankans hefur staðfest að hann eigi engar kröfur á mig. Misfærslum í skýrslu rannsóknarnefndar hef ég svarað ítarlega enda hef ég ekkert saknæmt unnið.
Þráhyggja Vilhjálms Bjarnasonar á sér hins vegar lítil takmörk. Með hana að vopni sér hann rangfærslur og svik þar sem sérfróðir rannsakendur sjá ekkert aðfinnsluvert. Það er illt að dómskerfið þurfi að eyða tíma sínum í slíkan málatilbúnað."