Forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslu ríksins hafa sent fjármálaráðherra bréf þess efnis að stofnunin skili af sér tillögu til ráðherra, um sölumeðferð á 30 prósent eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, fyrir 31. janúar 2016. Bréfið er sent ráðherra þrátt fyrir að í fjárlagafrumvarpi fyrir 2016 sé ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til Bankasýslunnar. Því er alls óvíst hvort stofnunin hafi nokkurt hlutverk í söluferlinu en Bjarni Benediktsson lagði á síðasta þingi fram frumvarp sem ætlað var að leggja niður stofnunina og færa hlutverk hennar beint til ráðherra.
Í bréfi þeirra Jóns G. Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, og Lárusar L. Blöndal, stjórnarformanns hennar, segir að Bankasýslan hafi kynnt sér áform um sölu á allt að 30 prósent eignarhlut í Landsbankanum í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016. Stofnunin hafi nú þegar hafið nauðsynlega undirbúningsvinnu og áætlar að skila formlegri tillögu til ráðherra, í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta ríksins í fjármálafyrirtækjum, fyrir 31. janúar næstkomandi.
Ætlaði að leggja niður stofnunina
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður Bankastofnuninni ekki lagt til fé til starfsrækslu á næsta ári. Í frumvarpinu er gengið út frá að Bankasýslan verði lögð niður, í samræmi við það sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði á síðasta þingi. Þá lagði Bjarni fram frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í því var lagt til að eignarhlutir ríksins í fjármálafyrirtækjum færist beint undir fjármálaráðherra. Nær hundrað prósent eign ríksins í Landsbankanum er langstærsta eign ríksins sem nú er í umsjón Bankasýslunnar.
Frumvarp ráðherra var til umræðu í þingsal í maí og fór til fjármálanefndar eftir fyrstu umræðu. Þaðan var það afgreitt úr nefnd um miðjan júní en varð ekki að lögum fyrir þinglok.
Fyrirkomulagið til skoðunar
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2016 þá hafa áætlanir um að leggja niður Bankasýsluna ekki breyst. „Í fjárlagafrumvarpinu er tekið mið af frumvarpi til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem var til umfjöllunar á sl. vorþingi en það gerir m.a. ráð fyrir því að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og er því ekki gert ráð fyrir fjárheimild vegna stofnunarinnar í frumvarpinu,“ segir í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2016.
„Breytingin er til þess fallin að styrkja eigendahlutverk ráðuneytisins gagnvart fjármálafyrirtækjum og öðrum hlutafélögum sem og félögum utan ríkisins. Framtíðarfyrirkomulag á stjórnsýslu á þessu sviði verður áfram til skoðunar í haust og gert er ráð fyrir að niðurstaða þeirrar skoðunar muni liggja fyrir við lokaafgreiðslu frumvarpsins,“ segir ennfremur.
Árið 2014 fékk Bankasýslan 74,5 milljónir króna í rekstrarfé og árið 2015 fékk hún 33,6 milljónir. Stofnunin var sett á laggirnar árið 2009 og heyrir stjórn hennar undir fjármálaráðherra. Hlutverk hennar er að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Boðar „framúrskarandi samstarf“
Í bréfi Bankasýslunnar til fjármálaráðherra, dagsett þann 9. september síðastliðinn, segir að stofnunin muni fram að 31. janúar nk. ræða mögulega útfærslu á sölu við Landsbankann, stærstu stofnanafjárfesta innanlands eins og lífeyrissjóði og fjárfestingasjóði, og alþjóðlega fjárfeestingarbanka, sem stofnunin kann svo að kalla til ráðgjafar við formlegt söluferli. Að því gefnu að stöðugleiki ríki á fjármálamörkuðum og að rekstrarafkoma Landsbankans verði í takt við áætlanir þá ætti fyrstu sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum að vera lokið á seinni hluta árs 2016.
„Bankasýsla ríkisins mun leggja ríka áherslu á að upplýsa fjármála- og efnahagsráðuneytið með reglubundnum hætti um framvindu málsins og að eiga framúrskarandi gott samstarf við alla hagsmunaaðila, sem munu þurfa að koma að ferlinu,“ segir í lok bréfsins.
Óvíst um hluverk stofnunarinnar
Þrátt fyrir bréf æðstu manna Bankasýslunnar til ráðherra þá er alls óvíst um hlutverk stofnunarinnar í boðuðu söluferli á 30 prósent hlut ríkisins í Landsbankanum. Samkvæmt frumvarpinu sem fjármálaráðherra lagði fram á síðasta þingi, og vísað er til í fjárlögum fyrir næsta ár, þá hyggst ráðherra eins og fyrr greinir leggja niður Bankasýsluna. Eignarhlutir í bönkunum verða í kjölfarið færðir undir ráðherra, sem samtímis skipar þriggja manna ráðgjafanefnd til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferðina. Ríkiskaup eiga að annast sölumeðferðina og skila ráðherranum rökstuddu mati á því hvaða tilboð sé best.