Bara pláss fyrir 10-30 þúsund nýja jarðefnaeldsneytisbíla í flotann
Einungis um 130 þúsund fólksbílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti mega vera á götunni árið 2030, ef markmið stjórnvalda um samdrátt í losun frá vegasamgöngum eiga að ganga eftir. Yfir hundrað þúsund brunabílar hafa komið nýir á götuna undanfarin sex ár, sem þýðir að plássið fyrir nýja bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti er orðið ansi lítið.
Ef Ísland ætlar að ná þeim markmiðum í loftlagsmálum sem sett voru á seinasta kjörtímabili er svigrúmið fyrir nýja bensín- og díselbíla á götum landsins orðið „ofboðslega lítið“, segir Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun.
Samkvæmt útreikningum hans mega eingöngu á bilinu 10 til 30 þúsund bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti bætast við fólksbílaflotann ef það á að takast að standa við framsettar áætlanir um samdrátt í losun frá vegasamgöngum árið 2030.
Sigurður Ingi talaði um að plássið væri orðið lítið í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1 í síðustu viku, en nefndi þar engar tölur. Hann segir í samtali við Kjarnann að hann hafi viljað tala varlega um þessi mál. Raunveruleikinn í þessu sé þó sá að hver einasti nýskráði bensín- eða díselbíll sé „nánast yfirskot á skuldbindingar okkar“ í loftslagsmálum.
Búið að lýsa yfir enn háleitari loftslagsmarkmiðum
Frá því að Sigurður Ingi gerði útreikninga sína hafa stjórnvöld sett sér enn háleitari markmið áður um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, eða sjálfstætt markmið um 55 prósent samdrátt í losun árið 2030 m.v. árið 2005, samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ekki er búið að útfæra hvernig þeim markmiðum skal náð.
Það má því segja að svigrúmið fyrir nýskráningar jarðefnaeldsneytisbíla sé að öllum líkindum orðið enn minna en Sigurður gerir ráð fyrir, nema til standi hjá stjórnvöldum að ná markmiðum sínum um samdrátt í losun á annan hátt en að horfa til vegasamgangna. Það er þó vandséð að það verði, enda eru vegasamgöngur stærsti einstaki losunarþáttur gróðurhúsalofttegunda á ábyrgð Íslands.
Það sem Sigurður Ingi er að miða við í útreikningum sínum er það að losun frá vegasamgöngum á Íslandi verði búin að dragast saman um 21 prósent frá viðmiðunarárinu 2005 árið 2030, eða niður í 615 þúsund tonn af CO2, en það er markmið stjórnvalda samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Til þess að þetta takmark náist mega jarðefnaeldsneytisbílarnir í fólksbílaflota landsins einungis vera um 120 þúsund talsins árið 2030, samkvæmt útreikningum Sigurðar Inga, sem nálgast má á vef Orkuseturs. Af þeim 250 þúsund fólksbílum sem hann gerir ráð fyrir að verði í umferð þyrftu 130 þúsund að vera bílar sem ganga eingöngu fyrir rafmagni, vetni eða metan.
Þær forsendur sem Sigurður Ingi lagði til grundvallar útreikningunum voru þær að fjöldi ökutækja á Íslandi myndi aukast um 10 prósent, sem hann segir „örugglega varlega áætlað“, auk þess sem hann gerir ráð fyrir að eldsneytisnýtni þeirra bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti muni batna um 10 prósent. Hann tekur tengiltvinnbíla inn í útreikningana sem hálfan rafbíl og hálfan jarðefnaeldsneytisbíl.
Rúmlega hundrað þúsund jarðefnaeldsneytisbílar á götuna frá 2015
Þá gerir hann ráð fyrir því að líftími bíla á götunum séu á bilinu 10-15 ár, sem þýðir að við erum þegar byrjuð að ganga verulega á þann kvóta jarðefnaeldsneytisbíla sem má vera á götunum árið 2030 ef orkuskiptin eiga að ganga upp.
„Bara bensín- og díselbílar skráðir frá 2018 og þar til í dag eru um 52 þúsund og ofan í það kemur svo að jarðefnaeldsneytisbílar skráðir á árunum 2015-2018 eru líka í kringum 50 þúsund,“ segir Sigurður Ingi við Kjarnann.
Reikna má með að stór hluti þessara bíla verði enn á götunum árið 2030, og líka einhver fjöldi bíla sem nýskráðir voru fyrir árið 2015. „Þá erum við bara með eitthvað á bilinu 10-30 þúsund nýskráningar eftir,“ segir Sigurður Ingi, sem er í þessu dæmi bara að tala um flokk fólksbíla, hvar nýskráningar hreinorkubíla hafa verið flestar til þessa.
Útreikningar hans taka einnig til hópbifreiða, sendibifreiða og vörubifreiða í bílaflota landsmanna og segir Sigurður Ingi að ef það „klikki“ að koma hreinorkubílum inn í þá flota í því magni sem þurfi til sé rýmið fyrir nýskráningar fólksbíla sem ganga fyrir bensíni eða dísil enn minna en hann gerir ráð fyrir.
Tengiltvinnbílar búnir að vera góð brú
Í fjárlagavinnunni sem fram fór á Alþingi fyrir áramót var tekin ákvörðun um að láta niðurgreiðslur hins opinbera vegna kaupa á nýjum tengiltvinnbílum renna sitt skeið, sem þýðir að búast má við að fimmtánþúsundasta og þar með síðasta tengiltvinnbifreiðin með afslætti af vörugjöldum verði seld á vormánuðum.
Þrír hagsmunaaðilar í íslenska bílageiranum; Bílgreinasambandið, sem hefur bílaumboð innan sinna vébanda, Samtök verslunar og þjónustu, þar sem stærstu olíufélög Íslands eru á meðal félaga og Samtök ferðaþjónustunnar, sem gæta hagsmuna bílaleiga, risu upp á afturlappirnar vegna þessa áforma og rituðu sameiginlegar umsagnir til Alþingis þar sem því var haldið fram að ekki væri tímabært hætta niðurgreiðslu tengiltvinnbíla – það væri líklegt til að hægja á orkuskiptunum og auka hlutdeild meira mengandi bíla í nýskráningum.
Fréttaskýring um orkuskipti í samgöngum
Sigurður Ingi segir að hann hafi ekki miklar áhyggjur af þeirri ákvörðun Alþingis, það sé ef til vill eðlilegt að trappa niður niðurgreiðslur á tengiltvinnbílum nú þegar það sé orðið mögulegt.
„Úrval af hreinum rafbílum er betra og þetta eru betri bílar, forsendur fyrir fleiri að fara alla leið eru orðnar betri. En hins vegar hafa þeir virkað mjög vel sem brú, til þess að fá fleiri til þess að stökkva á snúruna og taka skref, eitthvað skref í staðinn fyrir ekkert skref,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að hann sé „ekkert rosalega hræddur“ við að niðurgreiðsla tengiltvinnbíla fjari út þar sem að þróunin í Evrópu og víðar hafi verið á þá leið að þeir séu að gefa eftir gagnvart hreinu rafbílunum, sem áfram verða niðurgreiddir til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum.
„Úrvalið af þeim er að verða svo gott og margar útgáfur, að þeir sem haf verið að taka þetta hálfa skref [og kaupa tengiltvinnbíl] eru að sýna vilja til að taka skrefið og ef þeir fá svo sénsinn á að taka skrefið alla leið munu þeir gera það og hefðu gert það ef bílar sem hentuðu þörfum hvers og eins hefðu verið til,“ segir Sigurður Ingi.
Í umræðunni um tengiltvinnbíla er stundum rætt um að erfitt sé að áætla raunlosun þessara bíla í daglegri notkun, en rannsóknir hafa sumar gefið til kynna að heilt yfir línuna losi þeir umtalsvert meira magn gróðurhúsalofttegunda en opinberar losunartölur gefa til kynna, þar sem allur gangur sé á því hvort bílarnir séu hlaðnir rafmagni eða ekki.
Sigurður Ingi segir að sumar rannsóknir á þessu hafi verið bjagaðar, til dæmis ein frá Bretlandi sem tók til margra fyrirtækjabíla, sem eðli málsins samkvæmt eru nýttir á annan hátt en einkabílar fólks. Hann segir að miðað við bensínverð á Íslandi þurfi að „vera eitthvað sérstakt í gangi“ til að eigendur tengiltvinnbíla nýti sér það ekki að geta ekið tugi kílómetra á hreinu rafmagni.
Til skoðunar að lengja í ívilnunum fyrir rafmagnsbíla
Samkvæmt tölum sem birtar voru í nýlegri samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um orkuskipti fólksbílaflotans hafa ívilnanir vegna tengiltvinnbíla alls numið 12,4 milljörðum íslenskra króna frá því að byrjað var að veita afslátt af virðisaukaskatti vegna þeirra árið 2012, þar af 3,8 milljörðum bara í fyrra.
Á sama tíma er búið að veita 11 milljarða króna skattaafslætti vegna kaupa á hreinum rafbílum, þar af um 5 milljarða króna á síðasta ári. Þá bera hreinorkubílar engin vörugjöld, sem einnig lækkar markaðsverð þessara bíla.
Í áðurnefndri samantekt ráðuneytisins fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 6. janúar segir að ráðuneytið hafi þegar hafist handa við að skoða möguleikann á því að auka við þann kvóta rafmagnsbíla sem verði niðurgreiddir, í ljósi markmiða stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum og aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind