Rockstar Games hefur dansað á áhugaverðri línu á þeim tuttugu árum síðan fyrirtækið var stofnað. Um er að ræða eitt virtasta tölvuleikjafyrirtæki heims í dag, sem hefur framleitt marga af vinsælustu og söluhæstu tölvuleikjum allra tíma. Leikur frá Rockstar hefur verið með ákveðinn gæðastimpil á sér; spilarar vita að þeir eru að fá gæðavöru í hendurnar.
Fyrirtækið hefur annan stimpil á sér, fyrir það að framleiða umdeilda og ofbeldisfulla leiki þar sem ævintýragjarnir glæpamenn hyggjast klífa metorðastigann í undirheimunum. Rockstar hefur komist upp á kant við hagsmunahópa á borð við kirkjur, foreldrasamtök, ritskoðara og heilu ríkisstjórnirnar með umdeildum og ofbeldisfullum leikjum sínum.
Nú virðast nýir og breyttir tímar vera að ganga í garð hjá tölvuleikjarisanum.
Samkvæmt fréttaflutning hefur verið hreinsað til á skrifstofunum, stjórnendur hafa unnið markvisst að því að innleiða jákvæðari og skipulagðari starfsanda. Bæði fyrrum og núverandi starfsmenn hafa birt ásakanir af slæmum vinnuaðstæðum, þá sérstaklega kvenkyns starfsmenn sem lýsa kerfisbundnu ofbeldi í þeirra garð.
Breytingarnar ná einnig yfir viðfangsefni tölvuleikjanna. Næsti leikur í Grand Theft Auto seríunni, titlaður GTA 6, verður með einn kvenkyns spilanlegan karakter, eitthvað sem hefur ekki verið í neinum leik þeirra hingað til. Einnig verður andrúmsloft leikjanna meira í takt við nútímann. GTA hefur ávallt verið svört ádeila á bandarískt samfélag, en húmor leikjanna er oftar en ekki á kostnað minnihlutahópa.
Heimildir herma að leikurinn verði kominn út innan tveggja ára, en níu ár er síðan síðasti leikur í seríunni kom út. Það er ljóst að mikil eftirvænting ríkir eftir leiknum, en biðin hefur lengst vegna bættra vinnuaðstæðna hjá starfsmönnum Rockstar.
Háðsádeila á Bandarískt samfélag
Í gegnum rúmlega tuttugu og fimm ára sögu GTA hafa allar spilanlegar persónur verið karlkyns. Lengst af var bara einn slíkur sem ferðaðist í gegnum sögusvið síns leiks, iðulega byggt á bandarískum borgum eins og Miami, Los Angeles eða New York, og vann sig upp metorðastigann í undirheimunum. Spilarar hafa algjört frelsi í leikjunum, geta rænt bílum, skotið fólk á förnum vegi og flúið undan lögreglunni.
Í GTA 6 verður ein af spilanlegum aðalpersónum leiksins kona af latneskum uppruna. Fram hefur komið að leikurinn verði undir áhrifum sögu Bonnie og Clyde, glæpapars sem fór ránshendi um miðríki Bandaríkjanna í Kreppunni Miklu. Spilanlegar persónur verða því líklegast tvær, ef marka má efniviðinn.
Annað sem tekið hefur verið fram er yfirfærsla á andrúmslofti og viðfangsefni leikjanna. Aðalpersónan mun vissulega vera glæpamaður sem rænir og ruplar á ofbeldisfullan hátt, en umhverfið í kring og aðrar persónur verða aðeins meira í takt við nútímann.
Svartur húmor, kvenfyrirlitning og transfóbía
Leikirnir eru þekktir fyrir raunverulega og sannfærandi eftirmyndir í sögusviðum sínum. Með hækkandi gæðum eru borgirnar áþekkar venjulegri borg. Öll fyrirtæki sem sjást á förnum vegi eru með nafn og jafnvel slagorð. Þessi nöfn eru oftar en ekki orðagrín í klósett-húmorsstíl. Þar má nefna Brown Streak Railroad eða Pharte Gas.
Það sem hefur þótt gagnrýnisvert er karllægur og svartur húmor sem hefur verið mjög einkennandi fyrir leikina frá upphafi. Gagnrýnendur hafa kallað leikina kvenfyrirlítandi, hómófóbíska og transfóbíska. Aukapersónur, sem annað hvort hjálpa eða standa í vegi fyrir aðalpersónum leikjanna, eru margar hverjar ýktar staðalmyndir af minnihlutahópum, eins og samkynhneigðum karlmönnum eða innflytjendum.
„Brandarar“ á kostnað kvenna lituðu helst leikina til að byrja með.
GTA 3 frá 2001 endar á því að aðalpersónan, Claude, bjargar kærustunni sinni frá aðalskúrknum. Lokaatriðið sýnir þau tvö ganga hægt og rólega frá vígvellinum, en kærastan talar Claude í kaf. Þegar skjárinn verður svartur heyrist hleypt af byssu.
Andrúmsloft leikjanna batnaði reglulega með árunum, kolsvartur endir GTA 3 er til að mynda líklegast hápunktur kvenfyrirlítandi „brandara“ fyrirtækisins.
Það sem helst hefur verið umdeilt er frjálsleg notkun leikjahönnuða á gríni á kostnað trans samfélagsins. Síðasti útgefni leikurinn í seríunni er GTA V, en hann kom út árið 2013. Til er fjölspilunarútgáfa af leiknum, GTA Online, þar sem hópar spilara eru saman á einum netþjón. Sá er reglulega uppfærður með nýjum aukapersónum og spilanlegum athöfnum.
Frá 2013 hafa orðið talsverðar byltingar varðandi orðræðu í garð minnihlutahópa. Síðustu ár hefur það helst verið trans samfélagið að keyra af stað vitundarvakningu á meiðandi orðræðu sem eykur fordóma í garð trans einstaklinga. Leikurinn er því orðinn barn síns tíma, árið 2013 var það enn nokkuð vinsælt að nota trans fólk sem einhvers konar brandaralínu í kvikmyndum, sjónvarpi og tölvuleikjum.
Forsvarsmenn Rockstar hafa sýnt fram á vilja til að koma til móts við aðdáendur. Í endurútgáfu á GTA V sem kom út á nýjustu kynslóð leikjatölva í ár, voru teknir út ýmsir hlutir sem töldust móðgandi í garð trans samfélagsins. Þar á meðal voru gangandi vegfarendur sem líktust dragdrottningum fjarlægðir.
„Þessar persónur fóru aldrei í taugarnar á mér sem kynsegin einstaklingur, af því að ég sá þær alltaf bara sem dragdrottningar, frekar en einhvers konar birtingarmynd af trans konum,“ skrifar einn af stjórnendum GTA Base, aðdáendarekinn fjölmiðill um allt sem tengist leiknum. „Ég held frekar að það hafi verið transfóbískt fólk sem ákvað að þetta ættu að vera transkonur, sem varð til þess að allt í einu voru þetta orðnar ýktar staðalmyndir.“
Miðað við þessar breytingar og hvernig húmorinn í fyrri leikjum hefur verið byggður á ýmsum staðalmyndum og orðagríni, lítur allt út fyrir að næsti leikur verði með allt annað andrúmsloft en spilarar hafa vanist síðustu tuttugu ár.
Vandamál sem nær yfir alla menninguna
Síðustu tvö ár hafa nokkur af stærstu tölvuleikjafyrirtækjum heims verið í brennidepli vegna slæmra vinnuaðstæðna. Í fyrra var Activision Blizzard, framleiðandi á sumum af vinsælustu leikjum okkar tíma eins og World of Warcraft og Call of Duty, kært af Atvinnu og Húsnæðismálaráðuneyti Kaliforníu-ríkis fyrir það sem hefur verið kallað typpamenning (e. frat boy culture). Svipaða sögu er að segja um franska tölvuleikjarisann Ubisoft, sem hefur verið á bak við heimsfrægar seríur á borð við Assassin’s Creed og Far Cry. Fyrirtækið fékk á sig kæru í heimalandinu fyrir svipaðar sakir.
Í þessum fyrirtækjum eru starfsmenn ekki bara af meirihluta karlkyns, heldur eru stjórnunarstöður almennt mannaðar af körlum. Kvenkyns starfsmenn hafa lýst stanslausu áreiti, bæði kynferðislegu og kynbundnu, á vinnustaðnum. Í málsókninni á hendur Activision Blizzard var því lýst að menn skriðu eftir gólfum og undir skrifborð kvenna í margvíslegum tilgangi. Konur lýstu annars konar kynferðislegu áreiti og ofbeldi í starfsmannahittingum.
Þessu til viðbótar hefur tölvuleikjaiðnaðurinn verið umdeildur fyrir það sem er kallað crunch, þar sem starfsmenn vinna alla daga vikunnar þegar það styttist í útgáfu leiks. Starfsmenn hafa lýst 60 til 100 klukkustunda vinnuvikum með litlu sem engu fríi, margir hverjir án almennilegs yfirvinnukaups. Í mörgum tilfellum var um að ræða verktaka, ekki fastráðið starfsfólk.
Rockstar hefur verið sakað um þessa typpamenningu, ásamt því að hafa verið eitt fyrsta fyrirtækið sem var ásakað um að þræla starfsmönnum sínum út í aðdraganda leikjaútgáfu.
Árið 2018 kom hópur starfsmanna fram og kvartaði yfir ósanngjörnum vinnuaðstæðum og löngum vinnutíma í aðdraganda útgáfu á Red Dead Redemption 2. Í kjölfarið voru fleiri fyrirtæki ásökuð um tilneydda yfirvinnu sem var oftar en ekki án yfirvinnukaups.
Samkvæmt nýjustu fréttum hafa forsvarsmenn Rockstar farið í naflaskoðun á þessum tímapunkti og hafist handa við að taka fyrirtækið í gegn.
Óþægilegum millistjórnendum hent út
Í desember 2018 lét Jeronimo Barrera, þá einn af framkvæmdastjórum vöruþróunar Rockstar, af störfum eftir tuttugu ára feril hjá fyrirtækinu. Hann hafði verið einn af mikilvægustu mönnum í brúnni, yfirséð framleiðslu á öllum útgefnum leikjum og meira til. Í viðtali við Variety tjáði hann blaðamanni að hann væri tilbúinn að róa á ný mið eftir langan og góðan feril.
Að öllum líkindum spilaði meira inn í þessa ákvörðun hans að hætta. Á dögunum og mánuðum eftir tilkynninguna fóru á flug sögusagnir að innan veggja Rockstar hafði Barrera verið eins konar harðstjóri sem hikaði ekki við að öskra á undirmenn sína og hóta fólki brottrekstri við minnstu sakir.
Einnig fóru á flug sögusagnir um kynferðislega áreitni af hálfu Barrera. Hann átti að hafa beðið leikjahönnuð, sem var þá nýbyrjaður, að setjast í kjöltu sína og nudda innra læri sitt. Starfsmaðurinn, Colin Bundschu, reyndi að tilkynna atvikið til mannauðsdeildar Rockstar en ekkert varð úr. Hann gaf út bók um málið árið 2017, með breyttum nöfnum.
Hluti af umbreytingu Rockstar hefur því verið að kasta út stjórnendum sem starfsfólk hefur lýst sem óþægilegum að vinna með, eða voru hluti af typpamenningunni sem var ráðandi á nokkrum skrifstofum í landinu.
Einnig hefur starfsfólki verið lofað að fá frekari vinnuréttindi, þá helst að fara úr verktakavinnu yfir í launað starf. Helst hefur fyrirtækið lofað að enginn starfsmaður verður neyddur til að vinna yfirvinnu við framleiðslu leiksins.
Brottför ýmissa manna, ekki bara Barrera, heldur einnig eins af stofnendum Rockstar, Dan Houser, hefur tvímælalaust áhrif á næstu leiki.
Þetta þýðir auðvitað að lengri tími fer í framleiðsluferlið. Leikjaframleiðendur vinna oft baki brotnu í aðdraganda leikjaútgáfu sökum skilafrests sem útgefendur og fjárfestar ákveða. Hvort GTA 6 verði lengur en tvö ár í viðbót í framleiðslu á eftir að koma í ljós, en einnig verður áhugavert að sjá hvernig spilarar taka í fyrirhugaðar breytingar.
Það gæti komið í ljós á sunnudaginn, þann 7. ágúst, en plakötum með þeirri dagsetningu var bætt við leikinn fyrir nokkrum vikum síðan. Á plakatinu er auglýst einhvers konar mótorhjólakeppni í borginni Vice City. Þetta rennir stoðum undir kenningar spilara að sögusviðið verði í þeirri borg, sama og í samnefndum leik frá 2002, byggt á borginni Miami í Flórída.