Blikastaðaland á teikniborðinu með borgarlínuleið sem forsendu
Þrátt fyrir að enn sé rúmur áratugur í að Borgarlína eigi að aka um land Blikastaða í Mosfellsbæ hefur bærinn kallað eftir því að verkefnastofa Borgarlínu skilgreini hvernig skuli hanna götur á fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum með tilliti til Borgarlínu.
Verkefnastofa Borgarlínu ætlar að kappkosta við að skilgreining á legu Borgarlínu um Keldur, Keldnaholt og Blikastaðaland liggi fyrir næsta vor, ásamt frumtillögum að gatnasniðum. Þetta kemur fram í minnisblaði sem verkefnastofan sendi Mosfellsbæ í októbermánuði.
Mosfellsbær hafði þá óskað eftir skýrum leiðbeiningum frá verkefnastofu Borgarlínu, sem heyrir undir Vegagerðina, um hvernig ætti að hanna þær götur sem Borgarlínan mun fara eftir í Blikastaðalandi, sem liggur á milli Grafarvogs og Mosfellsbæjar.
Meira en áratugur í að Borgarlína aki þarna um
Tilefnið að þessari beiðni Mosfellsbæjar var yfirstandandi skipulagsvinna landeigenda sitthvoru megin við Korpúlfsstaðaveg, en ekki er gert ráð fyrir því að Borgarlína byrji að þjóna Mosfellingum fyrr en undir lok þess tímabils samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem uppbygging alls borgarlínukerfisins á að taka, eða eftir árið 2030.
Þrátt fyrir að langt sé í að framkvæmdir við þessa sjöttu og síðustu lotu Borgarlínu hefjist er nánari greining á aksturleið Borgarlínu um Blikastaðaland, Keldnaholt og Keldur samkvæmt minnisblaðinu þó komin á dagskrá í tengslum við þessa skipulagsvinnu í Mosfellsbæ og athuganir Betri samgangna ohf. á þróun Keldnalandsins.
„Í dag eru þetta óbyggð svæði og þó svo að dregnar hafa verið fram ákveðnar tengibrautir má búast við að lega þeirra kunni að taka einhverjum breytingum þegar skipulagsvinna og hönnun byggðar fer af stað. Það þarf einkum að huga að útfærslum sem hafa jákvæðust áhrif á aksturstíma Borgarlínunnar til Mosfellsbæjar þar sem viðbótarstopp með nýrri byggð munu lengja ferðatímann,“ segir í minnisblaðinu frá verkefnastofunni.
Þar segir einnig að mikilvægt sé að góð samvinna verði um þetta á milli allra aðila, verkefnastofu Borgarlínu, landeiganda og svo sveitarfélaganna sem fara með skipulagsvaldið. Sérstakur verkefnastjóri verður skipaður á verkefnastofu Borgarlínu sem á að kappkosta við að tryggja góða samræmingu á milli ólíkra skipulagsreita og á milli sveitarfélaga.
Fari bak við Korputorgið
Í minnisblaðinu til Mosfellsbæjar er annars vísað til þeirrar vinnu sem fór fram fyrir nokkrum árum á vettvangi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, varðandi greiningu á bestu legu Borgarlínu.
Þar er lega borgarlínuleiðarinnar sem tengja mun Reykjavík og Mosfellsbæ teiknuð upp í gegnum Keldur, Keldnaholtið og svo sem leið liggur um veginn sem er við bakhlið iðnaðar- og verslunarkjarnans Korputorgs.
Þaðan er svo stefnan sett á beina línu yfir Blikastaðalandið og inn í núverandi þéttbýli Mosfellsbæjar í grennd við Lágafellslaug, en gert er ráð fyrir borgarlínustöð þar í þeim áætlunum sem þegar hafa verið settar fram um þessa lotu Borgarlínunnar.
Skipulagning landsins í fullum gangi
Blikastaðalandið skiptist í tvennt og eru þróunaraðilar beggja vegna Korpúlfsstaðavegar að vinna að hugmyndum sínum um uppbyggingu atvinnuhúsnæðiskjarna annars vegar og íbúðabyggðar hinsvegar, í samvinnu við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ.
Sá hluti landsins sem liggur vestan Korpúlfsstaðavegar er í eigu fasteignafélagsins Reita, sem ætlar sér að byggja upp atvinnukjarna á svæðinu og hefur kynnt skipulagshugmyndir sínar á sérstökum vef.
Þar er því lýst hvernig Borgarlínan komi til með að marka miðju atvinnuhverfisins og í skipulagstillögu, sem unnin var af Arkís, er gert ráð fyrir því að aðalgatan í þessu nýja atvinnuhverfi verði einungis ætluð undir umferð borgarlínuvagna og svo gangandi og hjólandi, á meðan að bílaumferð verði ýtt út í jaðar hverfisins.
Hinn helmingur landsins er svo í eigu fasteignaþróunarfélags sem heitir Landey, en það félag ætlar sér að skipuleggja íbúðabyggð á 95 hektara svæði sem liggur nær Mosfellsbæ.
Fjallað var um áform félagsins í bæjarblaðinu Mosfellingi í fyrra og sagði frá því þar að fulltrúar Landeyjar hefðu kynnt fyrstu hugmyndir sínar fyrir bæjarfulltrúum og óskað eftir því að hefja í sameiningu vinnu með sveitarfélaginu að þróunar-, skipulags og uppbyggingarvinnu.
Í beiðni frá fasteignaþróunarfélaginu sem tekin var fyrir í bæjarráði á snemmsumars í fyrra sagði að mikil tækifæri fælust í uppbyggingu „mannvænnar og sjálfbærrar byggðar á Blikastaðalandi sem yrði í takti við innleiðingu á borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu.“
Í Mosfellingi var haft eftir bæjarstjóranum Haraldi Sverrissyni að Borgarlína væri forsenda fyrir byggðinni í Blikastaðalandinu. „Þetta er auðvitað langtímaverkefni og uppbyggingin myndi eiga sér stað næsta aldarfjórðunginn og þá í takti við uppbyggingu Borgarlínu sem er í raun forsenda fyrir bæði byggðinni og því að Borgarlína liggi að miðbæ Mosfellsbæjar,“ sagði bæjarstjórinn.
Verðmætt land sem rataði úr hlutaeigu ríkisins fyrir slikk
Saga Blikastaðalandsins er um margt áhugaverð. Það var í eigu Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) fram til ársins 2008 er það var selt á heila 11,8 milljarða króna, til félags sem síðar fór á hausinn með þeim afleiðingum að landið rataði í eigu Arion banka.
Einungis fimm árum áður en ÍAV seldi landið, eða árið 2003, höfðu helstu stjórnendur ÍAV keypt 40 prósent hlut íslenska ríkisins í ÍAV á einungis tæpa tvo milljarða króna.
Eigendur ÍAV greiddu ríkinu þannig einungis einn sjötta hluta af söluverði einnar af helstu eignum fyrirtækisins þegar þeir keyptu um 40 prósent hlut í því fimm árum áður. Morgunblaðið sagði frá þessu árið 2009.
Í dómsmáli sem var höfðað vegna útboðs ríkisins vegna sölu ÍAV, sem fór alla leið upp í Hæstarétt þar sem einkavæðingarferli félagsins var dæmt ólögmætt, sökuðu stefnendur eigendur ÍAV um að hafa vísvitandi vanmetið virði Blikastaðalandsins.
Samkvæmt því sem kemur fram í frétt Morgunblaðsins létu eigendur ÍAV endurmeta Blikastaðalandið eftir að þeir keyptu hlut ríkisins og var það þá metið á um þrjá milljarða króna. Í kjölfarið greiddu nýju eigendurnir sér 2,3 milljarða króna í uppsafnaðan arð. Sú arðgreiðsla var þannig hærri en upphæðin sem þeir greiddu fyrir allan hlut ríkisins ári áður.
Lestu meira
-
8. janúar 2023Búast við lýðheilsulegum ávinningi af Borgarlínu
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
14. september 2022Pawel pælir í lestarkerfi – „Það myndi nú stundum ekki drepa okkur að hugsa stórt“
-
9. september 2022Ríkið fjármagnar 87,5 prósent samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins
-
5. júlí 2022Veitumál og stál- og steypuverð gætu helst aukið kostnað við Borgarlínu
-
3. júlí 2022Áskorun að tryggja flæði á meðan það verður grafið og byggt
-
30. júní 2022Borgarlínubreytingar á Suðurlandsbraut strjúka fasteignaeigendum öfugt
-
28. júní 2022Tímalínu framkvæmda við fyrstu lotu Borgarlínu seinkað
-
23. júní 2022Sæbraut verði 1+1 vegur á löngum kafla í meira en tvö ár
-
4. maí 2022Forsendur fyrir þungri Borgarlínu eru brostnar