Blikastaðalandið sem var í aðalhlutverki í ólögmætri einkavæðingu ríkisfyrirtækisins
Nýverið var tilkynnt um stórtæka uppbyggingu á jörðinni Blikastöðum, sem tilheyrir Mosfellsbæ. Þar á að byggja þúsundir íbúða og fjölga íbúum bæjarins um tugi prósenta. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áform hafa verið uppi um uppbyggingu þar. Landið lék til að mynda lykilhlutverk í einkavæðingu ríkisfyrirtækis skömmu eftir aldamót. Einkavæðingu sem Hæstiréttur dæmdi síðar ólögmæta þar sem bjóðendur hafi ekki setið við sama borð.
Níu dögum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var undirritaður samningur milli félags Arion banka og Mosfellsbæjar um uppbyggingu á stærsta óbyggða svæðinu innan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins, Blikastaðalandinu.
Skipulagssvæðið sem um ræðir er alls um 90 hektarar og gert er ráð fyrir að landið sem hægt verði að nýta til fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs íbúðasvæðið sé um 80 hektarar. Alls á að byggja um 3.500 til 3.700 íbúðir sem er ekki fjarri þeim fjöld íbúðareininga sem eru í Mosfellsbæ í dag, en samkvæmt tölum frá Þjóðskrá eru fullbúnar íbúðir í bænum rúmlega 4.400 talsins. Þegar uppbygging Blikastaðalandsins er lokið, sem talið er taki 15 til 20 ár, að íbúar þar fari langt með að tvöfalda núverandi íbúafjölda í sveitarfélaginu, en i lok mars síðastliðins bjuggu þar 13.130 manns.
Raunar gerir aðalskipulag Mosfellsbæjar ráð fyrir að bærinn geti orðið að 40 til 50 þúsund manna sveitarfélagi á næstu árum og áratugum með mikilli uppbyggingu á óbyggðum svæðum. Þar ræður Blikastaðalandið miklu.
Þetta er sannarlega ekki í fyrsta sinn sem stefnt er að uppbyggingu á þessum landi. Áform um það hafa verið uppi áratugum saman, margir hafa tekið mikla áhættu og hingað til tapað veðmálinu sem þeir hafa lagt út í, af ýmsum ástæðum.
Þá náði Blikastaðalandið að verða miðpunktur í málaferlum þar sem einkavæðing ríkiseignar var úrskurðuð ólögmæt. Hér verður saga þeirra mála rakin.
Byggingafyrirtæki í ríkiseigu eignast risastórt land
Reykjavíkurborg festi kaup á jörðinni Blikastöðum vorið 1991, stærsta óbyggða svæðinu innan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Kaupverðið var 244,9 milljónir en samningurinn var með fyrirvara um að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ sættust á breytingar á lögsögumörkum. Þegar það gekk ekki eftir gengu kaupin til baka. Þegar leið á áratuginn var Blikastaðaland svo selt byggingafélagi sem hlaut nafnið Úlfarsfell og var áætlað að byggja þar 1.575 íbúðir fyrir liðlega 5.000 íbúa. Einn eigenda Úlfarsfell var verktakafyrirtækið Íslenskir aðalverktakar (ÍAV). Áður en Úlfarsfelli var slitið fór Blikastaðalandið til ÍAV sem var þá enn að stóru leyti í eigu íslenska ríkisins.
Árið 2003 ákvað íslenska ríkið að selja tæplega 40 prósent hlut sinn í ÍAV. Það var gert með þeim hætti að svokölluð framkvæmdanefnd um einkavæðingu, aldrei kölluð annað en einkavæðingarnefndin, sá um framkvæmd sölunnar og ráðherranefnd um einkavæðingu, sem í sátu helstu ráðherrar þáverandi ríkisstjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, samþykkti svo tillögur hennar.
Fjórir hópar buðu í hlutinn í einkavæðingarferlinu en einkavæðingarnefnd ákvað að selja Eignarhaldsfélaginu AV (EAV), félagi í eigu helstu stjórnenda ÍAV, hlutinn. Þeir áttu ekki hæsta tilboðið en þeir greiddu tæpa tvo milljarða króna fyrir þennan ráðandi hlut í fyrirtækinu. Eigendur EAV, gerðu í kjölfarið öðrum eigendum ÍAV yfirtökutilboð sem þeir máttu ekki hafna lögum samkvæmt og eignuðust félagið að fullu. Miðað við gengið á kaupunum á hlut ríkisins hefur EAV greitt um fimm milljarða króna á þávirði fyrir allt fyrirtækið.
Í reglum ÍAV um meðferð trúnaðarupplýsinga sagði að „trúnaðarupplýsingar séu aldrei birtar án þess að forstjóri eða sá sem hann tilnefnir hafi samþykkt það.“ Því var upplýsingagjöf til annarra bjóðenda í hlut ríkisins háð samþykki stjórnenda ÍAV.
Ári eftir að salan var frágengin, 2004, var Blikastaðalandið endurmetið á þrjá milljarða króna. Í kjölfarið greiddu nýju eigendurnir, EAV, sér 2,3 milljarða króna í uppsafnaðan arð. Sú arðgreiðsla er hærri en upphæðin sem þeir greiddu fyrir allan hlut ríkisins ári áður.
Töldu stjórnendur hafa misnotað aðstöðu sína
Einn hópanna sem buðu í hlut ríkisins í ÍAV, JB Byggingafélag og Trésmiðja Snorra Hjaltasonar, töldu að framkvæmd sölunnar stangast á við lög, hafi verið verulega ábótavant og að bjóðendur hafi ekki setið við sama borð. Þeir vildu meina að kaupin á hlut ríkisins hefðu í raun verið fjármögnuð með eignum ÍAV og skuldsetningu félagsins, sérstaklega Blikastaðarlandinu sem var verðmetið upp á nýtt og það nýja verðmat notað til að fá há lán í bönkum.
Með öðrum orðum þá hefðu hinir nýju eigendur notað eignir ÍAV, sem þeir einir vissu hvers virði voru, til að kaupa fyrirtækið. Þá hafi hæsta tilboði ekki verið tekið.
Þeir töldu einnig aðkomu Jóns Sveinssonar, þáverandi formanns einkavæðingarnefndar, að söluferlinu hafa verið óeðlilega því hann var á sama tíma einnig stjórnarformaður ÍAV og starfaði náið með stjórnendum fyrirtækisins, hinum sömu og einkavæðingarnefnd seldi hlut ríkisins í ÍAV.
Auk þess hafi Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, látið þau boð ganga inn á fund einkavæðingarnefndar, tveimur dögum áður en tilboði EAV var tekið, að hann væri „á þeirri skoðun að tvö tilboð væru sambærileg“ líkt og segir í fundargerð einkavæðingarnefndar frá 28. mars 2003. Þetta þótti stefnendunum í hæsta máta óeðlilegt þar sem einkavæðingarnefnd átti að starfa í friði fyrir framkvæmdavaldinu og fyrir lá á þeim tíma að tilboð EAV hafði alls ekki verið hæst.
Hæstiréttur dæmdi einkavæðinguna ólögmæta
Bjóðendahópurinn ákvað að stefna íslenska ríkinu vegna þessa og krafðist þess að fá viðurkennda skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna þess kostnaðar sem þeir lögðu út í með þátttöku í útboðinu, gerð tilboðsins og tapaðs hagnaðar vegna þess að tilboði þeirra var ekki tekið. Héraðsdómur vísaði málinu frá og sýknaði ríkið af bótakröfu. Þeirri niðurstöðu var þó áfrýjað til Hæstaréttar.
Hæstiréttur dæmdi framkvæmd á sölu á hlut ríkisins í ÍAV ólögmæta þann 8. maí 2008.
Í dómnum sagði að stjórnendur ÍAV hefðu verið fruminnherjar í fyrirtækinu í merkingu þágildandi laga um verðbréfaviðskipti og að þeir hefðu ekki virt ríkar skyldur sem lagðar voru á þá sem slíka í viðskiptum þeirra með verðbréf ÍAV. Með því að „láta þetta undir höfuð leggjast var ekki tryggt jafnræði þeirra, sem tóku þátt í útboðinu eða réttra samskiptareglna gætt. Verður því að fallast á með áfrýjendum að framkvæmd útboðs stefnda á nefndum eignarhlut í Íslenskum aðalverktökum hafi verið ólögmæt.“
Selt fyrir milljarða með láni frá Kaupþingi
Þessi niðurstaða breytti því þó ekki að EAV eignaðist ÍAV, og þar með Blikastaðalandið. Í janúar 2008 keypti félag sem kallaðist Bleiksstaðir ehf. landið af ÍAV á 65 milljónir evra, um 4,3 milljarðar króna á þávirði en 8,6 milljarðar króna á núvirði. Eigendur Bleiksstaða voru annars vegar móðurfélag byggingaverktakans Eyktar, Holtasel, sem átti 80 prósent og hins vegar fjárfestingabankinn VBS sem átti 20 prósent. Kaupþing lánaði fyrir 80 prósent af kaupverðinu gegn fyrsta veðrétti og var því stærsti kröfuhafi Bleiksstaða. VBS lánaði sem sem upp á vantaði gegn öðrum veðrétti.
Í lánabók Kaupþings, sem lak út eftir hrunið, kom fram að til hafi staðið að byggja 1.800 íbúðir á landinu auk þess sem hluti svæðisins átti að fara undir atvinnustarfsemi. Þegar lánið var veitt var reiknað með að íbúðirnar myndu seljast á næstu sjö til tíu árum. Í áhættugreiningu Kaupþings kom fram að þar sem vextir á láninu væru svo háir sé ljóst að virði lánsins muni fljótlega fara fram úr áætluðu virði fullbyggðs Blikastaðalands ef framkvæmdir myndu ekki hefjast fljótlega.
Það gerðu þær ekki.
Arion banki að ráðast í stórtæka uppbyggingu
Lánið greiddist því aldrei, VBS fór á hausinn og Arion banki, sem var reistur á grunni Kaupþings, leysti Blikastaðalandið til sín. Og ekkert gerðist, þangað til fyrr í þessum mánuði. Þá var tilkynnt að stefnt væri að því að byggja 3.500 til 3.700 nýjar íbúðir á Blikastaðalandinu þegar samningar þessa efnis voru undirritaðir á milli bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ og Blikastaðalands ehf., félags sem er í endanlegri eigu Arion banka.
Um 20 prósent nýrra íbúða í hverfinu eiga að vera sérbýli og einnig er stefnt að uppbyggingu 66 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis. Sá fermetrafjöldi kann þó að minnka ef ákveðið verður að byggja upp fleiri íbúðir sem sérstaklega verða hugsaðar fyrir 55 ára og eldri, en í dag er gert ráð fyrir að þær verði um 150 talsins.
Í markaðstilkynningu sem Arion banki sendi frá sér vegna þessa kom fram að vonir stæðu til þess að aðalskipulagsvinna myndi klárast á þessu ári og að deiliskipulag fyrsta áfanga uppbyggingarinnar liggi fyrir innan tveggja ára.
Á skjön við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar
Það er þó ekki endilega víst að svo verði. Samkomulagið var undirritað níu dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar þar sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem stóð að samkomulaginu féll.
Þáverandi minnihluti í bæjarstjórn, sem átti í meirihlutaviðræðum í siðustu viku, sat ýmist hjá eða greiddi atkvæði gegn samningnum og sagði þörf á meiri umræðu um málið.
Í samtali við Kjarnann kallaði Stefán Ómar Jónsson, bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar, meðferð málsins í stjórnsýslu bæjarins hreinlega dónalega og sagði það vera á skjön við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar að bera ekki stóra ákvörðun eins og þessa fram til meira samtals við bæjarbúa. „Það var ekki bara verið að sýna mér sem bæjarfulltrúa dónaskap heldur fleiri hundruðum kjósenda sem greiddu götu mína þarna inn.“
Fleiri bæjarfulltrúar voru á sama máli.
Á laugardag var Vinum Mosfellsbæjar hins vegar sparkað út úr meirihlutaviðræðunum, sem standa nú yfir milli Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar. Í tilkynningu frá Vinum Mosfellsbæjar sagði flokkurinn að vera kunni að afstaða flokksins varðandi skipulagsmál og aðkomu íbúa að þeim eigi þar hlut í máli.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði