Mynd: ARK Blikastaðaland rammaskipulag ASK
Mynd: ARK

Blikastaðalandið sem var í aðalhlutverki í ólögmætri einkavæðingu ríkisfyrirtækisins

Nýverið var tilkynnt um stórtæka uppbyggingu á jörðinni Blikastöðum, sem tilheyrir Mosfellsbæ. Þar á að byggja þúsundir íbúða og fjölga íbúum bæjarins um tugi prósenta. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áform hafa verið uppi um uppbyggingu þar. Landið lék til að mynda lykilhlutverk í einkavæðingu ríkisfyrirtækis skömmu eftir aldamót. Einkavæðingu sem Hæstiréttur dæmdi síðar ólögmæta þar sem bjóðendur hafi ekki setið við sama borð.

Níu dögum fyrir síð­ustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar var und­ir­rit­aður samn­ingur milli félags Arion banka og Mos­fells­bæjar um upp­bygg­ingu á stærsta óbyggða svæð­inu innan vaxta­marka höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, Blika­staða­land­in­u. 

Skipu­lags­­svæðið sem um ræðir er alls um 90 hekt­­arar og gert er ráð fyrir að landið sem hægt verði að nýta til fyr­ir­hug­aðrar upp­­­bygg­ingar nýs íbúða­­svæðið sé um 80 hekt­­ar­­ar. Alls á að byggja um 3.500 til 3.700 íbúðir sem er ekki fjarri þeim fjöld íbúð­ar­ein­inga sem eru í Mos­fellsbæ í dag, en sam­­kvæmt tölum frá Þjóð­­skrá eru full­­búnar íbúðir í bænum rúm­­lega 4.400 tals­ins. Þegar upp­bygg­ing Blika­staða­lands­ins er lok­ið, sem talið er taki 15 til 20 ár, að íbúar þar fari langt með að tvö­falda núver­andi íbúa­fjölda í sveit­ar­fé­lag­inu, en i lok mars síð­ast­lið­ins bjuggu þar 13.130 manns. 

Raunar gerir aðal­skipu­lag Mos­fells­bæjar ráð fyrir að bær­inn geti orðið að  40 til 50 þús­und manna sveit­ar­fé­lagi á næstu árum og ára­tugum með mik­illi upp­bygg­ingu á óbyggðum svæð­um. Þar ræður Blika­staða­landið miklu. 

Þetta er sann­ar­lega ekki í fyrsta sinn sem stefnt er að upp­bygg­ingu á þessum landi. Áform um það hafa verið uppi ára­tugum sam­an, margir hafa tekið mikla áhættu og hingað til tapað veð­mál­inu sem þeir hafa lagt út í, af ýmsum ástæð­u­m. 

Þá náði Blika­staða­landið að verða mið­punktur í mála­ferlum þar sem einka­væð­ing rík­is­eignar var úrskurðuð ólög­mæt. Hér verður saga þeirra mála rak­in. 

Bygg­inga­fyr­ir­tæki í rík­i­s­eigu eign­ast risa­stórt land

Reykja­vík­ur­borg festi kaup á jörð­inni Blika­stöðum vorið 1991, stærsta óbyggða svæð­inu innan vaxta­marka höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Kaup­verðið var 244,9 millj­ónir en samn­ing­ur­inn var með fyr­ir­vara um að bæj­ar­yf­ir­völd í Mos­fellsbæ sætt­ust á breyt­ingar á lög­sögu­mörk­um. Þegar það gekk ekki eftir gengu kaupin til baka. Þegar leið á ára­tug­inn var Blika­staða­land svo selt bygg­inga­fé­lagi sem hlaut nafnið Úlf­ars­fell og var áætlað að byggja þar 1.575 íbúðir fyrir lið­lega 5.000 íbúa. Einn eig­enda Úlf­ars­fell var verk­taka­fyr­ir­tækið Íslenskir aðal­verk­takar (ÍA­V). Áður en Úlf­ars­felli var slitið fór Blika­staða­landið til ÍAV sem var þá enn að stóru leyti í eigu íslenska rík­is­ins.

Árið 2003 ákvað íslenska ríkið að selja tæp­lega 40 pró­sent hlut sinn í ÍAV. Það var gert með þeim hætti að svokölluð fram­kvæmda­nefnd um einka­væð­ingu, aldrei kölluð annað en einka­væð­ing­ar­nefnd­in, sá um fram­kvæmd söl­unnar og ráð­herra­nefnd um einka­væð­ingu, sem í sátu helstu ráð­herrar þáver­andi rík­is­stjórn­ar­flokka, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, sam­þykkti svo til­lögur henn­ar. 

Fjórir hópar buðu í hlut­inn í einka­væð­ing­ar­ferl­inu en einka­væð­ing­ar­nefnd ákvað að selja Eign­ar­halds­fé­lag­inu AV (EA­V), félagi í eigu helstu stjórn­enda ÍAV, hlut­inn. Þeir áttu ekki hæsta til­boðið en þeir greiddu tæpa tvo millj­arða króna fyrir þennan ráð­andi hlut í fyr­ir­tæk­inu. Eig­endur EAV, gerðu í kjöl­farið öðrum eig­endum ÍAV yfir­tökutil­boð sem þeir máttu ekki hafna lögum sam­kvæmt og eign­uð­ust félagið að fullu. Miðað við gengið á kaup­unum á hlut rík­is­ins hefur EAV greitt um fimm millj­arða króna á þávirði fyrir allt fyr­ir­tæk­ið. 

Í reglum ÍAV um með­ferð trún­að­ar­upp­lýs­inga sagði að „trún­að­ar­upp­lýs­ingar séu aldrei birtar án þess að for­stjóri eða sá sem hann til­nefnir hafi sam­þykkt það.“ Því var upp­lýs­inga­gjöf til ann­arra bjóð­enda í hlut rík­is­ins háð sam­þykki stjórn­enda ÍAV.

Ári eftir að salan var frá­geng­in, 2004, var Blika­staða­landið end­ur­metið á þrjá millj­arða króna. ​​Í kjöl­farið greiddu nýju eig­end­urn­ir, EAV, sér 2,3 millj­arða króna í upp­safn­aðan arð. Sú arð­greiðsla er hærri en upp­hæðin sem þeir greiddu fyrir allan hlut rík­is­ins ári áður.

Töldu stjórn­endur hafa mis­notað aðstöðu sína

Einn hópanna sem buðu í hlut rík­is­ins í ÍAV, JB Bygg­inga­fé­lag og Tré­smiðja Snorra Hjalta­son­ar, töldu að fram­kvæmd söl­unnar stang­ast á við lög, hafi verið veru­lega ábóta­vant og að bjóð­endur hafi ekki setið við sama borð. Þeir vildu meina að kaupin á hlut rík­is­ins hefðu í raun verið fjár­mögnuð með eignum ÍAV og skuld­setn­ingu félags­ins, sér­stak­lega Blika­stað­ar­land­inu sem var verð­metið upp á nýtt og það nýja verð­mat notað til að fá há lán í bönk­um.

Með öðrum orðum þá hefðu hinir nýju eig­endur notað eignir ÍAV, sem þeir einir vissu hvers virði voru, til að kaupa fyr­ir­tæk­ið. Þá hafi hæsta til­boði ekki verið tek­ið.

Þeir töldu einnig aðkomu Jóns Sveins­son­ar, þáver­andi for­manns einka­væð­ing­ar­nefnd­ar, að sölu­ferl­inu hafa verið óeðli­lega því hann var á sama tíma einnig stjórn­ar­for­maður ÍAV og starf­aði náið með stjórn­endum fyr­ir­tæk­is­ins, hinum sömu og einka­væð­ing­ar­nefnd seldi hlut rík­is­ins í ÍAV.

Auk þess hafi Hall­dór Ásgríms­son, þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra og for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, látið þau boð ganga inn á fund einka­væð­ing­ar­nefnd­ar, tveimur dögum áður en til­boði EAV var tek­ið, að hann væri „á þeirri skoðun að tvö til­boð væru sam­bæri­leg“ líkt og segir í fund­ar­gerð einka­væð­ing­ar­nefndar frá 28. mars 2003. Þetta þótti stefn­end­unum í hæsta máta óeðli­legt þar sem einka­væð­ing­ar­nefnd átti að starfa í friði fyrir fram­kvæmda­vald­inu og fyrir lá á þeim tíma að til­boð EAV hafði alls ekki verið hæst.

Hæsti­réttur dæmdi einka­væð­ing­una ólög­mæta

Bjóð­enda­hóp­ur­inn ákvað að stefna íslenska rík­inu vegna þessa og krafð­ist þess að fá við­ur­kennda skaða­bóta­skyldu íslenska rík­is­ins vegna þess kostn­aðar sem þeir lögðu út í með þátt­töku í útboð­inu, gerð til­boðs­ins og tap­aðs hagn­aðar vegna þess að til­boði þeirra var ekki tek­ið. Hér­aðs­dómur vís­aði mál­inu frá og sýkn­aði ríkið af bóta­kröfu. Þeirri nið­ur­stöðu var þó áfrýjað til Hæsta­rétt­ar.

Blikastaðalandið er risavaxið byggingaland milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.
Mynd: Aðsend

Hæsti­réttur dæmdi fram­kvæmd á sölu á hlut rík­is­ins í ÍAV ólög­mæta þann 8. maí 2008.

Í dómnum sagði að stjórn­endur ÍAV hefðu verið frum­inn­herjar í fyr­ir­tæk­inu í merk­ingu þágild­andi laga um verð­bréfa­við­skipti og að þeir hefðu ekki virt ríkar skyldur sem lagðar voru á þá sem slíka í við­skiptum þeirra með verð­bréf ÍAV. Með því að „láta þetta undir höfuð leggj­ast var ekki tryggt jafn­ræði þeirra, sem tóku þátt í útboð­inu eða réttra sam­skipta­reglna gætt. Verður því að fall­ast á með áfrýj­endum að fram­kvæmd útboðs stefnda á nefndum eign­ar­hlut í Íslenskum aðal­verk­tökum hafi verið ólög­mæt.“ 

Selt fyrir millj­arða með láni frá Kaup­þingi

Þessi nið­ur­staða breytti því þó ekki að EAV eign­að­ist ÍAV, og þar með Blika­staða­land­ið. Í jan­úar 2008 keypti félag sem kall­að­ist Bleiks­staðir ehf. landið af ÍAV á 65 millj­ónir evra, um 4,3 millj­arðar króna á þávirði en 8,6 millj­arðar króna á núvirði. Eig­endur Bleiks­staða voru ann­ars vegar móð­ur­fé­lag bygg­inga­verk­tak­ans Eykt­ar, Holta­sel, sem átti 80 pró­sent og hins vegar fjár­fest­inga­bank­inn VBS sem átti 20 pró­sent. Kaup­þing lán­aði fyrir 80 pró­sent af kaup­verð­inu gegn fyrsta veð­rétti og var því stærsti kröfu­hafi Bleiks­staða. VBS lán­aði sem sem upp á vant­aði gegn öðrum veð­rétt­i.  

Kaupþing banki lánaði 80 prósent af kaupverði Bleikstaða á Blikastaðalandinu snemma árs 2008 gegn fyrsta veðrétti. Þess vegna er landið nú í eigu Arion banka.
Mynd: Úr safni

Í lána­bók Kaup­þings, sem lak út eftir hrun­ið, kom fram að til hafi staðið að byggja 1.800 íbúðir á land­inu auk þess sem hluti svæð­is­ins átti að fara undir atvinnu­starf­semi. Þegar lánið var veitt var reiknað með að íbúð­irnar myndu selj­ast á næstu sjö til tíu árum. Í áhættu­grein­ingu Kaup­þings kom fram að þar sem vextir á lán­inu væru svo háir sé ljóst að virði láns­ins muni fljót­lega fara fram úr áætl­uðu virði full­byggðs Blika­staða­lands ef fram­kvæmdir myndu ekki hefj­ast fljót­lega. 

Það gerðu þær ekki.

Arion banki að ráð­ast í stór­tæka upp­bygg­ingu

Lánið greidd­ist því aldrei, VBS fór á haus­inn og Arion banki, sem var reistur á grunni Kaup­þings, leysti Blika­staða­landið til sín. Og ekk­ert gerð­ist, þangað til fyrr í þessum mán­uði. Þá var til­kynnt að stefnt væri að því að byggja 3.500 til 3.700 nýjar íbúðir á Blika­­staða­land­inu þegar samn­ingar þessa efnis voru und­ir­­rit­aðir á milli bæj­­­ar­yf­­ir­­valda í Mos­­fellsbæ og Blika­­staða­lands ehf., félags sem er í end­an­­legri eigu Arion banka.

Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ og Þorgerður Arna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Blikastaðalands ehf. við undirritun samningsins fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Aðsend

Um 20 pró­­sent nýrra íbúða í hverf­inu eiga að vera  sér­­býli og einnig er stefnt að upp­­­bygg­ingu 66 þús­und fer­­metra atvinn­u­hús­næð­­is. Sá fer­­metra­­fjöldi kann þó að minnka ef ákveðið verður að byggja upp fleiri íbúðir sem sér­­stak­­lega verða hugs­aðar fyrir 55 ára og eldri, en í dag er gert ráð fyrir að þær verði um 150 tals­ins.

Í mark­að­stil­kynn­ingu sem Arion banki sendi frá sér vegna þessa kom fram að vonir stæðu til þess að aðal­­­skipu­lags­vinna myndi klár­ast á þessu ári og að deiliskipu­lag fyrsta áfanga upp­­­bygg­ing­­ar­innar liggi fyrir innan tveggja ára.

Á skjön við lýð­ræð­is­stefnu Mos­fells­bæjar

Það er þó ekki endi­lega víst að svo verði. Sam­komu­lagið var und­ir­ritað níu dögum fyrir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar þar sem meiri­hluti Sjálf­stæð­is­flokks og Vinstri grænna sem stóð að sam­komu­lag­inu féll. 

Þáver­andi minni­hluti í bæj­ar­stjórn, sem átti í meiri­hluta­við­ræðum í sið­ustu viku, sat ýmist hjá eða greiddi atkvæði gegn samn­ingnum og sagði þörf á meiri umræðu um mál­ið. 

Í sam­tali við Kjarn­ann kall­aði Stefán Ómar Jóns­son, bæj­ar­full­trúi Vina Mos­fells­bæj­ar, með­­­ferð máls­ins í stjórn­­­sýslu bæj­­­ar­ins hrein­­lega dóna­­lega og sagði það vera á skjön við lýð­ræð­is­­stefnu Mos­­fells­bæjar að bera ekki stóra ákvörðun eins og þessa fram til meira sam­tals við bæj­­­ar­­búa. „Það var ekki bara verið að sýna mér sem bæj­­­ar­­full­­trúa dóna­­skap heldur fleiri hund­ruðum kjós­­enda sem greiddu götu mína þarna inn.“

Fleiri bæj­­­ar­­full­­trúar voru á sama máli.

Á laug­ar­dag var Vinum Mos­fells­bæjar hins vegar sparkað út úr meiri­hluta­við­ræð­unum, sem standa nú yfir milli Fram­sókn­ar, Sam­fylk­ingar og Við­reisn­ar. Í til­kynn­ingu frá Vinum Mos­fells­bæjar sagði flokk­ur­inn að vera kunni að afstaða flokks­ins varð­andi skipu­lags­mál og aðkomu íbúa að þeim eigi þar hlut í máli.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar