Í öðrum þætti af Ferð til fjár truflaði Helgi Seljan, annar umsjónarmanna þáttanna, Boga Ágústsson eina ferðina enn við að lesa upp kvöldfréttir. „Fyrirgefðu Bogi, viðskiptajöfnuður,“ sagði Helgi með spurnartón. Bogi var þá að greina frá nýjum upplýsingum frá Seðlabankanum um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi.
„Viðskiptajöfnuður mælir muninn á verðmæti inn- og útflutnings. Ef við flytjum út fyrir tíu milljarða og inn fyrir níu milljarða þá er viðskiptajöfnuðurinn hagstæður um einn milljarð króna,“ sagði Bogi. „Þetta er mælitæki til þess að fylgjast streymi peninga inn og út úr landinu. Viðskiptajöfnuðurinn tekur tillit til bæði einkaaðila og opinbera aðila.“
Eins og hann benti Helga á, þá þarf viðskiptahalli ekki endilega að vera slæmur. „Það getur verið merki um að einhver sé að fjárfesta í einhverju, sem síðan mun leiða til meiri útflutnings. Þá jafnast viðskiptahallinn út,“ sagði Bogi.
Auk þess að mæla mun á verðmæti inn- og útflutnings þá tekur viðskiptajöfnuður tillit til greiðslna á vöxtum, arði og lánum milli innlendra og erlendra aðila. Kallast það jöfnuður frumþáttatekna og saman kallast peningaflæðið greiðslujöfnuður.
Skiptir þetta mál?
„Nei, í rauninni ekki,“ sagði hann síðan þegar Helgi spurði hvort viðskiptajöfnuðurinn skipti hann þá engu máli í daglegu lífi. „En ef viðskiptahallinn er viðvarandi þá getur það leitt til þess að krónan veikist, við gætum þurft að taka lán til þess að bæta upp viðskiptahallann og að allt sem við flytjum inn frá útlöndum hækki í verði,“ sagði Bogi.
Gengi krónunnar hefur mikið að segja um verðmæti útflutningsvarnings og verð á innfluttum vörum. Sterkara gengi krónunnar þýðir að minna fæst fyrir útflutninginn, ódýrara er að flytja inn og ýtir þannig sterkara gengi undir viðskiptahalla. Þessi þróun sást vel fyrir efnahagshrunið 2008, eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan. Súlurnar sýna viðskiptajöfnuðinn á hverju ári frá 2004, mikill viðskiptahalli var á árunum fyrir hrun: verðmæti útflutningsvara og þjónustu var miklu minna en verðmæti varnings sem var fluttur til landsins.
Viðskiptajöfnuður 2004 - 2014 |Create infographics
Með veikara gengi, auknu virði útflutnings og minni innflutningi, þá dróst viðskiptahalli verulega saman eftir hrun og var jákvæður árið 2013. Allt útlit er fyrir að það verði einnig afgangur af viðskiptum í ár, en upplýsingar um viðskiptajöfnuð á síðasta ársfjórðungi 2014 hafa ekki verið birtar (og sýnir súlan fyrir 2014 því aðeins viðskiptajöfnuðinn á fyrstu níu mánuðum ársins).
Viðskiptajöfnuður 2004 til 2014 (án áhrifa gömlu bankanna frá 4. ársfjórðungi 2008) |Create infographics
Í fyrsta grafinu er ekki tekið sérstakt tillit til þrotabúa gömlu bankanna. Vegna þess hve mikil áhrif uppgjör þeirra getur haft á viðskiptajöfnuðinn, þá birtir Seðlabankinn viðskiptajöfnuð bæði með og án áhrifa gömlu bankanna. Í grafinu hér að ofan má sjá þróunina án áhrifa gömlu bankanna.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 29. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.