Bogi Ágústsson fréttamaður greindi frá hækkun vísitölu neysluverðs í síðasta þætti Ferðar til fjár. Helga Seljan þótti fréttalesturinn heldur óskýr og bað Boga um að útskýra þetta betur, rétt eins og hann gerði þegar hann stöðvaði Boga við að lesa upp heldur torskyldar fréttir um viðskiptajöfnuð og gengi krónunnar.
„Þetta kann að þykja flókið fyrst. Vísitala neysluverðs er í rauninni mæling á því hversu mikil verðbólga er. Í hverjum mánuði þá athugar Hagstofan verð á yfir fjögur þúsund vörutegundum og þjónustu. Ef að verð hefur hækkað, þá vegur það inn í vísitöluna sem hækkar. Ef að vöruverð hefur lækkað, til dæmis ef bensín lækkar í verði, þá lækkar vísitalan sem þýðir minni verðbólgu,“ útskýrði Bogi.
Síðastliðna mánuði hefur verðbólga á Íslandi, það er breyting á vísitölu neysluverðs síðastliðna tólf mánuði, mælst afar lág. Við síðustu mælingu var verðbólgan 0,8 prósent, sem þýðir að almennt hefur verðlag í landinu hækkað um 0,8 prósent á tólf mánaða tímabili. Eins og fram kom í nýlegri umfjöllun okkar um verðbreytingar á Íslandi 2014, þá var afar misjafnt hvernig undirliðir vísitölunnar, það eru allar þær vörur og þjónustuliðir sem Hagstofan mælir í hverjum mánuði, breyttust á árinu. Á meðan sykur og þjónusta sérfræðilækna hækkuðu um fimmtung, þá lækkaði verð á sjónvarpstækjum og sveppum töluvert.
Hefur áhrif á lánin
Eins og Íslendingar þekkja vel, þá hefur vísitala neysluverðs áhrif á verðtryggð lán. „Þau eru miðuð við vísitölu neysluverðs. Ef að vísitalan hækkar, þá hækkar höfuðstóllinn á láninu þínu. Ef hún hækkar mikið, þá hækkar lánið,“ sagði Bogi við Helga.
Hér sést hvernig vísitala neysluverðs hefur breyst frá janúar 2014 til janúar 2015. Rauða línan mælir verðbreytingar án húsnæðis en sú gula með húsnæði.
Á seinni myndinni má síðan sjá hvernig verðbólgan, það er tólf mánaða breyting vísitölunnar, hefur breyst frá ársbyrjun 2014. Ef ekki væri fyrir hækkun fasteignaverðs og tengdra liða, þá væri verðhjöðnun en ekki verðbólga á Íslandi.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.