Reykjavíkurborg hefur keypt þjónustu af H. Pálsson ehf. fyrir 37,2 milljónir króna frá árinu 2008 og út ágústmánuð 2014. Þjónustan sem um ræðir er umbrot og birtingar auglýsinga, en allar auglýsingar sem borgin birtir í gegnum H. Pálsson ehf. birtast einvörðungu í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Þorri viðskiptanna er vegna birtinga auglýsinga á vegum umhverfis- og skipulagssviðs. Skrifstofustjóri þess segir ástæðuna fyrir því að viðskiptunum sé beint til H. Pálsson ehf. vera þá að fyrirtækið nái betri afsláttum á birtingum auglýsinga hjá Fréttablaðinu en borginni býðst. Samkvæmt atvinnugreinaflokkum ríkisskattstjóra er H. Pálsson ehf. „Heildverslun með aðrar ótaldar vélar og tæki".
Auglýsingakaup Reykjavíkurborgar komust í sviðsljósið eftir að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, lagði fram fyrirspurn um þau í borgarráði. Hún fékk svör við fyrirspurninni í síðustu viku. Þar kom í ljós að H.Pálsson ehf. var það fyrirtæki, á eftir Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, sem var í mestum viðskiptum við borgina þegar kom að auglýsingum og birtingum.
Viðskiptin byggja á gamalli hefð
Hákon Pálsson, framkvæmdastjóri H. Pálsson ehf., segir að viðskipti fyrirtækisins við Reykjavíkurborg byggi á gamalli hefð. Fyrirtækið sé með nokkra aðra kúnna í birtingum og auglýsingagerð en sá hópur sé ekki mjög stór. Hluti af starfsemi H.Pálsson snúist um birtingar. „Við erum hefðbundið fyrirtæki úr prentiðnaði. Það sem við erum að gera fyrir borgina eru lögbundnar auglýsingar. Þessi viðskipti voru skoðuð fyrir nokkrum árum og borgin ákvað þá ekki að breyta neinu.“
Að sögn Hákonar fer þorri þeirrar upphæðar sem borgin greiðir til fyrirtækis hans vegna birtinga áfram til fjölmiðlanna sem birta auglýsingarnar. „Við tökum mjög hóflegt gjald fyrir uppsetninguna. Megnið af þessum kostnaði er birtingar.“
Reykjavíkurborg hefur samtals keypt þjónustu af H. Pálsson fyrir rúmlega 37 milljónir króna frá árinu 2008.
Engin gildandi samningur
Í svari Birgis. B. Sigurjónssonar, fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, við fyrirspurn Kjarnans um magn viðskipta borgarinnar við H. Pálsson vegna birtinga auglýsinga, segir að „flest öll viðskipti eru að eiga sér stað frá skipulagsfulltrúa á Umhverfis- og skipulagssviði[...]eða yfir 90% viðskipta kom frá kostnaðarstöðum sem tilheyra þeim“.
Aðspurður hvort viðskipti Reykjavíkurborgar við H. Pálsson séu á grunni einhvers konar samnings svarar Birgir því neitandi. „Engin gildandi samningur er á milli Reykjavíkurborgar og H. Pálsson ehf. sem Innkaupdeild Reykjavíkurborgar hefur staðið að; þetta fyrirtæki er ekki aðili að rammasamningi við Reykjavíkurborg né samningi um afsláttarkjör. Samkvæmt upplýsingum er verið að greiða fyrir birtingar í miðlum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins ásamt umbrotsvinnu við gerð auglýsinga þessa,“ segir Birgir.
Ná betri afslætti hjá Fréttablaðinu
Kjarninn beindi fyrirspurn til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur vegna viðskipta þess við H. Pálsson. Í svari Nikulásar Úlfars Mássonar, skrifstofustjóra sviðsins, segir að H. Pálsson sé „auglýsingastofa [sem] sér um auglýsingar í dagblöðum fyrir umhverfis- og skipulagssvið og er milliliður á milli sviðsins annars vegar og Morgunblaðsins og Fréttablaðsins hinsvegar. Ekki er til sérstakur samningur um þessa þjónustu en viðskiptin hafa gengið mjög vel í mörg ár.“
Að sögn skrifstofustjóra hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar fær H. Pálsson ehf. allt að 40 prósent afslátt á birtingum hjá Fréttablaðinu, sem er meira en borginni býðst í beinum viðskiptum.
Nikulás Úlfar segir að þjónustan sem H. Pálsson veitir sé að setja upp auglýsingar, passa upp á allar birtingar í dagblöðum, fara yfir texta og dagsetningar, senda PDF-skjal til yfirlestrar áður en auglýsing er birt og senda úrklippur úr blöðum með reikningum sem sendir eru á borgina.
Hann segir sviðið hafa verið í samskiptum við innkaupaskrifstofu vegna þessara viðskipta. „Þau hafa ekkert við þetta að athuga þar sem H. Pálsson hefur náð meiri afslætti við Fréttablaðið vegna auglýsinga fyrir sviðið heldur en Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg fær 20% afslátt af auglýsingum hjá báðum þessum aðilum en H. Pálsson fær 40% afslátt hjá Fréttablaðinu en 20% afslátt hjá Morgunblaðinu“.