„Að sjá saklausa konu vera drepna að ástæðulausu, það var kornið sem fyllti mælinn. Þetta gat komið fyrir hverja sem er, þetta gæti verið dóttir hvers sem er, systir hvers sem er, eiginkona hvers sem er. Allir eru reiðir.“
Þannig hljóða orð íransks manns um ástandið í heimalandinu þar sem allt leikur á reiðiskjálfi eftir að Mahsa Amini, 22 ára kona frá Kúrdistan, lést í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran. Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, er búsettur hér á landi og kom til Íslands fyrir nokkrum árum sem flóttamaður. Hann ræddi við Kjarnann um mótmælin í Íran, ástæðu þeirra og vonir hans um hverju mótmælin muni skila. Hann kýs að koma ekki fram undir nafni þar sem hann vill vernda fjölskyldu sína sem búsett er í Íran.
Umdeild siðgæðislögregla
Mahsa Amini var á ferðalagi í Teheran, höfuðborg Íran, í síðustu viku þegar íranska siðgæðislögreglan handtók hana fyrir meint brot á reglum um að bera slæðu. Mat siðgæðislögreglan það svo að slæðan huldi ekki nægilega mikið af höfði hennar þar sem hár hennar var sýnilegt. Þá hafi klæðnaður hennar einnig verið „óviðeigandi“. Skikka átti Amini á námskeið um klæðaburð en skömmu eftir handtöku hennar féll hún í dá. Hún lést á sjúkrahúsi þremur dögum síðar. Fjölskylda hennar og vitni segja að hún hafi verið barin til dauða. Yfirvöld fullyrða hins vegar að hún hafi fengið hjartaáfall.
Siðgæðislögreglan hefur það hlutverk að tryggja að íslömsk gildi séu í hávegum höfð og sjá um að refsa þeim sem virða það ekki, til að mynda þeim klæðast óviðeigandi. Meðal ákvæða sem finna má í írönskum lögum, sem byggja á túlkun stjórnvalda á sjaría, lagakerfi íslam, eru að konum ber að bera slæðu (hijab) og klæðast skósíðum, víðum fötum til að fela líkamsvöxt sinn.
Faðir Amini hefur gagnrýnt yfirvöld harðlega, meðal annars fyrir að takmarka aðgang fjölskyldunnar að líki Amini. Í samtali við fréttaritara BBC í Íran segir hann að honum hafi verið meinaður aðgangur að krufningarskýrslu dóttur sinnar og að hluti líkama hennar hafði verið hulinn þegar fjölskyldan fékk loksins að sjá hana. Stór hluti líkama hennar hafi verið hulinn og fékk fjölskyldan aðeins að sjá andlit hennar og fætur, þar sem greina mátti marbletti.
Faðir Amini óskaði einnig eftir öllum gögnum frá lögreglu vegna handtökunnar en var þá tjáð af yfirvöldum að ekki væri hægt að skoða myndavélar sem lögreglumenn siðgæðislögreglunnar bera þar sem þær væru rafhlöðulausar.
Feminísk bylting þar sem krafan snýst um frelsi til að velja
Mótmælin hófust í Kúrdistan, heimahéraði Amini, þar sem konur tóku sig saman og brenndu slæður sínar. Mótmælin breiddust fljótt út og nú er mótmælt í að minnsta kosti 80 borgum í 31 héraði í Íran, auk fjölda annarra landa þar sem mótmælt hefur verið fyrir utan sendiráð Írans. Mótmælendur eru á öllum aldri, konur jafnt sem karlar, en það sem er ef til vill nýtt við mótmælin nú er að þau eru leidd af komum af öllum kynslóðum og hafa stjórnmálaskýrendur fullyrt að um feminíska byltingu sé að ræða, byltingu þar sem krafan snýst um frelsi til að velja.
Samkvæmt opinberum tölum frá yfirvöldum hafa 35 látið lífið síðustu daga í mótmælunum, sem eru þær mestu í áraraðir. Mannréttindasamtök, til að mynda Hengaw, sem berjast fyrir réttindum Kúrda, telja að tala látinna sé mun hærri. Mótmælt hefur verið daglega í meira en viku og hefur herinn boðað frekari hörku gegn mótmælendum, sem kallaðir eru óvinir ríkisins í yfirlýsingu hersins.
Mótmælin hafa farið stigmagnandi og ekki er útlit fyrir að hægist um á næstunni. Mótmælendur hafa sjálfir sagt að ef þau bregðist ekki við núna geti sömu örlög mætt þeim og Amini.
Hræðslan kemur ekki í veg fyrir þátttöku í mótmælunum
Ströng lög um klæðnað hafa verið í gildi frá byltingunni árið 1971 en áherslurnar hafa verið mismunandi eftir hvaða forseti er við völd hverju sinni. Sitjandi forseti, Ebrahim Raisi, verður að teljast mjög íhaldssamur.
Viðmælandi Kjarnans segir fólk hrætt en það stöðvi það ekki í að taka þátt í mótmælunum. „Það er svo þreytt á ástandinu. Unga kynslóðin vill hafa frelsi til að klæðast eins og þau vilja en það er einræðisstjórn í Íran svo auðvitað reynir hún að bæla niður mótmælin. Þau vilja ekki gefa fólkinu rödd.“
Hann segir mótmælin snúast um meira en að bera slæðu. „Þetta eru ekki fyrstu mótmælin en með hverjum mótmælunum eykst stuðningurinn við þau. En fólk verður ekki sátt fyrr en breytingum verður náð. Fólk þráir frelsi til að velja.“
Hann á vini í mismunandi borgum í Íran og hefur átt í samskiptum við nokkra þeirra. „Þau eru auðvitað mjög hrædd, sama hvort þau eru innandyra eða utandyra. Þau passa sig í öllum samskiptum í lögreglu, hvort sem það er öryggissveitin eða siðgæðislögreglan, þau vita aldrei hverju þau mega eiga von á.“
Instagram var um tíma eini samfélagsmiðillinn sem var aðgengilegur, áður en lokað var fyrir allan aðgang að internetinu, líkt og gert var á miðvikudag. „Instagram var eina leiðin til að eiga í samskiptum við umheiminn en svo þurfti að fara krókaleiðir til þess,“ segir hann. Foreldrar hans eru búsettir í Íran en hann hefur ekki náð sambandi við þau síðustu daga.
„Hann ber ábyrgð á dauða þeirra“
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kom saman í vikunni. Raisi, forseti Írans, sótti þingið og tjáði viðstöddum að málfrelsi ríkti í landinu. Viðmælandi Kjarnans gagnrýnir sýnileika forsetans á alþjóðasviðinu og að honum hafi verið heimilt að vera viðstaddur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. „Hann ber ábyrgð á dauða þeirra sem hafa látið lífið í mótmælunum. Þetta er eins og að bjóða leiðtoga talíbana eða íslamska ríkisins í Sameinuðu þjóðirnar.“
Hann segir það sérstaka stöðu að fylgjast með þróuninni í Íran á Íslandi en það hafi fengið hann til að hugsa um muninn á aðstæðum fólks hér á landi og í Íran, sem hann segir átakanlegan. „Hér geta konur gert það sem þær vilja og verið þær sem þær vilja vera. Í Íran er það ekki þannig. Konur í Íran völdu ekki að fæðast þar en þær hafa ekki grundvallarmannréttindi. Þær þurfa að berjast fyrir tilvist sinni og lífsviðurværi.“
Hann hvetur alla sem geta til að vera rödd fólksins í Íran. „Það er auðveldara að ræða málin en grípa til beinna aðgerða, en einhvers staðar verðum við að byrja.“