Þegar Svíar vilja fá nánari upplýsingar um líkamsárásir og morðmál en þeir fá í fjölmiðlum fara þeir á spjallsíðuna Flashback. Þar má gjarnan finna spjallþræði þar sem fólk er nafngreint og bakgrunnur árásanna rakinn í smáatriðum. Þeir sem vilja kaupa eiturlyf geta fengið upplýsingar á síðunni og þar má einnig finna einkunnagjöf fyrir vændiskonur og nuddstofur. Þetta efni er ekki falið heldur aðgengilegt frá forsíðunni innan um umræðuþræði um sjónvarpsþætti, umhverfismál, sælgæti og raunar hvað eina sem fólk vill ræða um. Flashback er stórmerkilegur hluti af sænskri netsögu sem einnig hefur getið af sér skráardeilingarsíðuna Piratebay og fyrsta Pírataflokkinn, stofnaðann 1. janúar árið 2006.
Síðustu vikur hefur sænska Aftonbladet fjallað ítarlega um Flashback og nafngreint einstaklinga sem skrifa undir dulnefni. Læknir við Karolinska sjúkrahúsið reyndist hafa skrifað um sjúklinga á síðunni þar sem hann gerðist bæði sekur um gróft kynþáttahatur auk þess sem hann opinberaði trúnaðarupplýsingar. Og það eru ekki bara Svíþjóðardemókratar sem breiða út hatursboðskap á netinu undir dulnefni. Joakim Anderson sem tók lengi þátt í starfi Jafnaðarmanna en nú síðast Umhverfisflokksins hefur ítrekað fagnað því á síðunni, undir dulnefni, þegar ráðist er á innflytjendur. Þegar fréttir bárust af skotárás þar sem innflytjandi lét lífið lýsti hann atburðinum sem bestu jólagjöfinni. Opinberlega talar hann hins vegar um nauðsyn þess að fjölmenningarsamfélagið fái að þrífast. Þegar Aftonbladet gekk á hann sagðist hann hafa rétt til að tjá skoðanir sínar.
Skráardeilingasíðan Pirate Bay, sem ítrekað hefur verið reynt að loka með takmörkuðum árangri, varð til í Svíþjóð.
Enn og aftur um tjáningarfrelsið
Stofnandi síðunnar heitir Jan Axelsson og frá byrjun hefur hann sagst vilja vernda tjáningarfrelsið. Reyndar byrjaði hann ferilinn með Flashback TV áður en hann gaf út dagblað með sama nafni árið 1993. Þar var meðal annars fjallað um tilraunir með LSD auk þess sem hann nafngreindi og birti myndir af dæmdum nauðgurum. Árið 1995 flutti síðan svo á internetið þar sem hún hefur verið þótt uppgangur hennar hafi fyrst byrjað fyrir alvöru eftir aldamótin þegar henni var breytt í spjallsvæði.
Hinn umdeildi Jan Axelsson, eigandi og stofnandi Flashback vefsíðunnar.
Fleiri en milljón notendur eru skráðir á síðunni sem eru að langstærstum hluta Svíar. Hún veltir milljónum og jafnvel tugum milljónum sænskra á hverju ári en erfitt er að fá nákvæmar upplýsingar þar sem síðan er skráð í útlöndum. Það er meðal annars gert til að komast hjá því að heyra undir sænska lögsögu.
Stóra spurningin er auðvitað hvað fólki er heimilt að segja á netinu. Eru allar skoðanir jafngildar í þjóðfélögum sem telja tjáningarfrelsið til grunnmannréttinda? Þeir sem standa að síðunni segja að það sé alls ekki þannig að öll ummæli fái að standa óbreytt. Á hverjum degi eru skrifuð milli 15 og 20 þúsund innlegg og stjórnendur síðunnar segja að um það bil 10% þeirra sé breytt eða eytt af stjórnendum. Miðað við það sem fær að standa óbreytt á síðunni veltir maður hins vegar fyrir sér hvað þurfi til að skrif séu ritskoðuð.
Nafnleysi á netinu er ekki bara skjól fyrir þá sem vilja breiða út hatur eða leggja aðra í einelti. Það er vernd fyrir þá sem í krafti stöðu sinnar geta ekki tjáð sig opinberlega, fólk í ofbeldissambandi sem leitar ráða, þá sem glíma við erfiða sjúkdóma og börn og unglinga sem lent hafa í einelti. Flashback er alls ekki bara suðupottur þess versta sem internetið hefur upp á að bjóða heldur má finna þar manngæsku, samúð, góð ráð og stuðning við þá sem eiga við erfiðleika að etja.
Segja að nethatrið færi þeim völd
Aftonbladet hafði samband við nokkra af þeim sem hafa skrifað gróf ummæli um nafngreinda einstaklinga eða lagt fólk í einelti. Í svarbréfi lýsir einn af nethöturunum því hvernig hann dróst sífellt lengra inn í þennan heim. „Á einhvern hátt sogast maður með og því meira sem maður skrifar því dýpra sekkur maður og fer að nota grófari orð sem maður mundi ekki einu sinni hugsa. Að nota orð eins og negri verður eðlilegt. Umhverfið mótar mann“, skrifar hann í bréfinu.
Hann segir að skömmin hafi komið þegar hann slökkti á tölvunni en stuttu síðar hafi hann byrjað aftur. Hann lýsir þessu eins og tölvuleik, hann leiki í raun persónu á síðunni og hugsi ekki út í hvaða áhrif ummælin hafi á fólk. „Tilfinningin að geta séð það sem maður skrifar á síðu sem allur heimurinn getur lesið er svakaleg. Að hugsa sér, segir maður, þetta skrifaði ég. Ég hef völd.“
Forsíða Flashback vefsíðunnar.
Sálfræðingur sem Aftonbladet ræddi við segir að þetta lýsi sér á svipaðan hátt og spilafíkn. Fólk byrji oft sakleysislega en festist fljótt í vítahring sem erfitt sé að losna úr. Til að byrja með skrifi fólk kannski að það eigi að drepa alla kettlinga en seinna að það eigi að nauðga öllum sómölskum börnum. Þetta dæmi er ekki gripið úr lausu lofti. Lýsingar á grófu ofbeldi gagnvart fullorðnum, börnum og dýrum eru nánast daglegt brauð á síðunni. Eiit grófasta dæmið snýst um 27 ára gamla konu sem var myrt af barnsföður sínum í júlí árið 2013, en hann var frá Úganda. Móðir hennar stofnaði minningarsíðu á Facebook sem var lokað tveimur tímum seinna vegna grófra ummæla. Á Flashback má ennþá finna umræðuþráð um konuna þar sem hún er kölluð hóra, því er haldið fram að hún hafi svikið kynstofninn og að börnin hennar séu skrýmsli. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafa stjórnendur síðunnar ekki fjarlægt þráðinn.
Mega fjölmiðlar nýta sér allar upplýsingar?
Aftonbladet fékk upplýsingar um notendur frá sjálfstæðum hópi sem segist hafa komist yfir gögn um notendur án þess að útskýra það nánar. Í kjölfarið hefur hins vegar verið rætt um samskipti fjölmiðla við hópa sem af hugmyndafræðilegum ástæðum leka gögnum um bæði nafngreindar og ónafngreindar persónur. Hvenær mega fjölmiðlar nýta sér upplýsingar sem eru fengnar með ólöglegum eða að minnsta kosti vafasömum hætti? Þess utan má velta fyrir sér hver sé raunveruleg vernd þeirra sem skrifa á netið og telja sig gera það nafnlaust. Hópurinn sem situr nú á lista yfir notendur Flashback segir að þeir sem eru saklausir þurfi ekkert að óttast. En hver ákveður hver sé saklaus? Er lærdómurinn kannski sá að við þurfum alltaf að gera ráð fyrir því að það sem við skrifum geti komið í hausinn á okkur síðar og hvað þýðir það fyrir hina kúguðu sem hingað til hafa getað tjáð sig í skjóli nafnleysisins?
Fæstir vilja láta loka Flashback og reyndar hefur þeirri skoðun verið haldið fram að síðuna ætti að vernda á sama hátt og sögufrægar byggingar eða önnur menningarverðmæti. Gagnrýnin nú snýr að því að stjórnendur síðunnar þurfi að ganga mun harðar fram í ritskoðun. Í raun má segja að þetta mál snúist um grundvallarspurningar um viðhorf okkar til netsins, hvort þar gildi sömu reglur og í samfélaginu utan þess, eða hvort þetta sé fríríki utan laga og reglna þar sem venjubundin siðferðislögmál gildi ekki. Við erum ennþá á gráa svæðinu þar sem mörk milli haturs, hótana og skoðana eru ennþá hreifanleg. Hvar við svo drögum línuna er verkefni næstu ára og áratuga.