Haustið 1976 var skipi hleypt af stokkunum í japönsku skipasmíðastöðinni Hitachi Zosen Corporation. Slíkt var reyndar engin nýlunda. Fyrirtækið, sem var stofnað árið 1881, var á þessum tíma stórt í sniðum, starfsmenn í kringum 25 þúsund. Fram eftir 20. öldinni var smíði skipa af ýmsu tagi, þar á meðal olíuskipa, burðarásinn í starfseminni.
Eftir olíukreppuna 1973 dró mjög úr smíði stórra olíuskipa, ásamt ýmsu því sem tilheyrði olíuvinnslu, og starfsfólki fækkaði. Skipið sem hljóp af stokkunum 1976 hafði verið pantað mörgum árum fyrr og fékk nafnið Esso Japan. Þótt skipið væri ekki meðal stærstu olíuflutningaskipa heims á þessum tíma var það samt sem áður engin smásmíði: 362 metra langt og 70 metra breitt. Tankar skipsins gátu rúmað um það bil þrjár milljónir tunna (1 tunna ca. 158 lítrar).
Fljótandi olíutankur
Árið 1988 var Esso Japan lagt við festar um sjö kílómetrum (4,3 mílum) undan landi við Jemen. Þá var skipið komið í eigu jemenska þjóðarolíufélagsins (undir stjórn ríkisins) og í stað þess að sigla með olíu milli landa var skipið gert að fljótandi olíutanki og nafni þess jafnframt breytt í FSO Safer. Árum saman lá skipið á þessum sama stað í Rauðahafinu úti fyrir borginni Al Hudaydah. Um svera pípulögn streymdi olían frá dælustöð í landi í tankana um borð í Safer og þaðan í olíuflutningaskip sem fluttu farminn til kaupenda. Fjöldi slíkra fljótandi olíutanka er úti fyrir ströndum margra landa, meðal annars á Persaflóa og undan ströndum Venesúela.
Í hendur Húta
Á undanförnum árum hefur Jemen iðulega verið í fréttum einkum vegna átaka og hungursneyðar. Saga landsins er löng og flókin og verður ekki rakin hér.
Árið 2004 efndi hópur Zaidi múslima til uppreisnar gegn stjórninni í einu héraðanna í norðurhluta landsins. Leiðtogi þessa hóps hét Hussein al Houthi og samtök uppreisnarmanna síðan kennd við hann og nefnd Hútar. Kröfur uppreisnarmanna snerust fyrst og fremst um sjálfsstjórn og bætt kjör í héruðum þar sem Zaidi múslimar voru meirihluti íbúanna. Hussein al Houthi féll í átökum við stjórnarherinn haustið 2004.
Arabíska vorið svonefnda, sem hófst um áramótið 2010 - 2011 leiddi til mikilla innanlandsátaka í Jemen. Stjórnin féll og Hútum óx ásmegin og til að gera langa sögu stutta náðu þeir skömmu eftir upphaf borgarastyrjaldarinnar í landinu árið 2015 undir sig strandsvæðunum í suðurhluta landsins og borginni Al Hudaydah. Fljótandi olíutankurinn FSO Safer var sömuleiðis kominn í hendur Húta.
Vaxandi áhyggjur, ryð og gas
Nú eru 7 ár síðan FSO Safer komst í hendur Húta. Á þessum tíma hefur viðhaldi skips og búnaðar í engu verið sinnt og það veldur áhyggjum. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um magn olíu í skipinu en talið að það sé rúmlega 1,1 milljón tunna. Sums staðar þar sem fjallað hefur verið um skipið má lesa að það sé nánast fullhlaðið, með um 3 milljónir tunna.
Áhyggjur vegna ástands skipsins fara vaxandi. Þær snúast einkum um mikla ryðmyndun á skrokki skipsins og hins vegar gasmyndun í farminum. Undir „venjulegum“ kringumstæðum myndi sérstakur lofthreinsibúnaður koma í veg fyrir gasmyndun í olíunni en búnaðurinn er ekki lengur nothæfur. Gasmyndunin gæti leitt til sprengingar og þá myndi olían dreifast um hafsvæðið í grenndinni. Ryðmyndunin á skrokknum getur leitt til þess að olía fari að leka í sjóinn. Þess má geta að skrokkur FSO Safer er einfaldur en í dag er lögbundið að olíuskip skuli hafa tvöfaldan byrðing. Ef olían í tönkum skipsins færi í sjóinn yrðu afleiðingarnar miklar og alvarlegar. Stærstu hafnirnar á svæðinu, í Hudaydah og As Salif yrðu lokaðar vikum eða mánuðum saman. Um þessar tvær hafnir fer stór hluti þeirrar matvæla sem berst til landsins (neyðaraðstoð) og um það bil helmingur íbúa landsins, sem eru samtals um 30 milljónir, treystir á. Fiskveiðar, sem tæpar 2 milljónir íbúa treysta á, sér til viðurværis, myndu leggjast af um langa hríð og fleira mætti nefna. Það er því mikið í húfi.
FSO Safer rætt í Öryggisráðinu
Á fyrsta degi júlímánaðar árið 2020 var haldinn fundur í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Á dagskrá var eitt mál: FSO Safer. Að fundi loknum sendi Öryggisráðið frá sér yfirlýsingu. Þar kom fram að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir það sem gæti orðið eitt alvarlegasta umhverfisslys sögunnar, eins og það var orðað. Í september sama ár náðust samningar milli stjórnar Húta og Sameinuðu þjóðanna um að fulltrúar samtakanna fengju leyfi til að skoða FSO Safer.
Svört skýrsla og samkomulag
Nokkuð dróst að fulltrúar SÞ gætu skoðað skipið því bréf frá stjórn Húta um að öryggi sendinefndarinnar væri tryggt barst ekki fyrr en seint og um síðir. Í október 2021 kynnti nefndin niðurstöður skoðunarferðarinnar. Þar kom fram að ástand skipsins væri mjög varhugavert og brýnt væri að bregðast við sem allra fyrst. Í mars á þessu ári var undirritað samkomulag milli stjórnar Húta og Sameinuðu þjóðanna um að dæla olíunni úr FSO Safer yfir í annað skip. Kostnaðurinn við þetta verk er áætlaður jafngildi tæpra 11 milljarða íslenskra króna. Þótt það séu miklir peningar eru það þó smáaurar miðað við það tjón sem yrði ef olían færi i sjóinn. Kostnaður af völdum slíks slyss gæti numið jafngildi 2800 milljarða íslenskra króna.
Hver á að borga?
Þegar stjórn Húta samþykkti að nefnd á vegum SÞ fengi að skoða FSO Safer tilkynnti hún jafnframt að fjármagn til hugsanlegs björgunarstarfs yrði að koma frá öðrum en Jemenum. Fundur um hugsanlega fjármögnun var haldinn í Hollandi í maí á þessu ári, þar tókst að fá loforð fyrir um það bil helmingi þess fjár sem til þarf. Sameinuðu þjóðirnar hafa nú sett af stað sérstakt átak til að safna þeim peningum sem enn skortir. Í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum er skorað á þjóðir heims að bregðast við og leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir alvarlegt umhverfisslys. Fyrir nokkrum dögum tilkynnti danski utanríkisráðherrann að Danir myndu leggja til jafngildi 130 milljóna króna. „Ef aðrar þjóðir leggja hlutfallslega jafn mikið fram er fjármögnun tryggð“ sagði Jeppe Kofod utanríkisráðherra. Hann sagði jafnframt að almenningur í Jemen ætti það skilið að ríkar þjóðir rétti fram hjálparhönd.
Ef tekst að tryggja fjármagn til að tæma olíuna úr FSO Safer gæti verkið hafist innan nokkurra mánaða að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna.