Að minnsta kosti sex börn hafa greinst með ebólu í Kampala, höfuðborg Úganda. Átta fullorðnir hafa greinst í borginni. Fleiri sýna einkenni og greiningar er beðið. 26. október höfðu 115 tilfelli ebólu verið staðfest í landinu og 32 þeirra endað með dauða. Ellefu heilbrigðisstarfsmenn höfðu þá greinst og fjórir þeirra látist úr sjúkdómnum.
Þetta eru slæmar fréttir fyrir milljónirnar sem búa í Austur-Afríkuríkinu Úganda við miðbaug. Íbúarnir og efnahagurinn var við það að rétta úr kútnum eftir mjög strangar ferðatakmarkanir og fjölda annarra aðgerða í kórónufaraldrinum. Í landi þar sem flestir afla sér tekna frá degi til dags við að rækta matvæli og selja varning sinn voru takmarkanir vegna faraldursins verulega íþyngjandi. Fátækt jókst og börn flosnuðu upp úr námi í stórum stíl. Ein stærsta atvinnugrein landsins, ferðaþjónustan, var þurrkuð út á einu bretti.
Og loks þegar allt var að fara í samt horf þá birtist hún: Veiran sem veldur ebólu. Sjúkdómnum sem hefur slæmt orð á sér enda getur hann verið banvænn. Hann uppgötvaðist fyrst árið 1976 í nágrannaríki Úganda. Það hét þá Zaire en heitir í dag Austur-Kongó. Síðan þá hefur veiran vonda skotið upp kollinum hist og her í Afríku – í ríkjum þar sem heilbrigðiskerfið er almennt veikt, fátækt útbreidd, hreint vatn á fæstra færi og allar hömlur sem settar eru á athafnir fólks bíta fastast þá verst settu.
Þetta er í fimmta sinn sem ebóla breiðist út í Úganda. Versti faraldurinn var árið 2000. Þá létust yfir 200 manns.
Ríki í Afríku hafa mörg hver orðið góða þekkingu og reynslu af því að fást við ebólu. Að grípa til aðgerða sem virka hratt og vel. En stjórnvöld í Úganda voru sein til og aðgerðirnar fálmkenndar.
Faraldurinn hófst í lok september er nokkur tilfelli greindust í miðhluta landsins. Börnin sex sem nú hafa greinst í Kampala eru talin hafa smitast af karlmanni sem hafði farið til þessa svæðis og komið svo aftur til borgarinnar þar sem hann lést skömmu síðar, sýktur af ebólu. Í síðustu viku hafði ríkisstjórn Yoweri Museveni forseta þvertekið fyrir það að ebóla væri komin til borgarinnar. „Okkur tókst að greina þetta hópsmit vegna umfangsmikillar smitrakningar ráðuneytisins,“ sagði Jane Ruth Aceng, heilbrigðisráðherra, sér og stjórninni til varnar er sannleikurinn kom í ljós.
Vantraust grafið enn frekar um sig
Sérfræðingar í heilbrigðismálum hafa hins vegar gagnrýnt stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi. Útfærsla aðgerða hafi verið veikbyggð og sömuleiðis kenna þeir stjórnvöldum um aukið vantraust fólks á yfirvöld almennt. Það hafi orðið til þess að fólk fór ekki eftir leiðbeiningum og hunsaði varúðarorð. Ástæðan fyrir vantraustinu á sér m.a. rætur í aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Nær hvergi í heiminum var ströngum takmörkunum haldið jafn lengi til streitu og í Úganda. Skólar voru lokaðir í tæp tvö ár. Útgöngubann var algjört á tímabili og allt þar til í byrjun ársins mátti ekki vera á ferli eftir kl. 19 á kvöldin.
En þetta er líka talin skýringin á því að stjórnvöld voru treg til að grípa til harðra aðgerða um leið og fyrstu tilfelli ebólu greindust. Fyrsta tilfellið var staðfest 20. september í Mubende-héraði í um 150 kílómetra fjarlægð frá Kampala. Það var hins vegar ekki fyrr en um miðjan október að Museveni forseti setti á ferðabann á því svæði og fyrirskipaði að Kampala yrði sett á óvissustig og að sérstaklega ætti að gæta að smitvörnum og fleiri atriðum í borginni til að verjast stórum faraldri.
Um miðja síðustu viku höfðu tilfelli greinst í sjö héruðum, þar á meðal í Kampala.
En eru ferðabönn og útgöngubönn rétta aðferðin?
Faraldsfræðingurinn Samuel Etajak, sem starfar við Makarere-háskóla í Úganda, segir við Al Jazeera að ríkisstjórnin hafi átt í erfiðleikum með að hefta útbreiðsluna þar sem ekki hafi verið farið í ítarlegra smitrakningu þegar í stað. Þá hafi ekki verið viðhaft nægjanlegt eftirlit með fólki sem átti í samskiptum við smitaða. En Etajak vill ekki skella skuldinni eingöngu á ríkisstjórn Úganda. Hann segir að til að ná góðum tökum á útbreiðslu þurfi að vera til staðar ákveðin verkfæri; lyf, bílar til flutninga og fleira, svo að skipulagning gangi upp og aðgerðir skili árangri. Slíkt sé einfaldlega ekki alls staðar tiltækt í Úganda.
Stjórnarandstaðan, sem er veik í landinu enda haldið niðri af valdhöfum, hefur einnig gagnrýnt stjórnvöld og segir þau hafa dregið lappirnar við að senda neyðaraðstoð til héraðanna þar sem fyrstu tilfellin greindust. Greiningartól og tæki, svo sem til smitrakningar, hafi einnig verið í skötulíki. Fyrrverandi leiðtogi FDC, flokks sem kennir sig við lýðræðisumbætur, segir við úganska dagblaðið New Vision að þegar fyrstu sýkingarnar voru greindar hafi veiran þegar verið farin að breiðast út. Yfirvöld hafi sofið á verðinum gagnvart þessari heilsufarsógn.
Sá er alls ekki á því að útgöngubann forsetans sé til bóta. Það rústi efnahagnum á örskotsstund. Hann bendir á að boda-boda, skellinöðrurnar sem flestir Úgandabúar nota til að ferðast um, megi ekki aka til og frá miðhéruðunum. Þetta finnst honum „fáránlegt“ þar sem sjúkrabílar séu alltof fáir og fólk noti boda-boda til að sækja sér læknisaðstoð. Smitrakning og einangrun séu miklu öflugri tæki en takmarkanir á ferðalögum allra.
Bóluefni handan við hornið?
Á sunnudaginn ávarpaði heilbrigðisráðherrann Aceng þjóðina og bað alla að vera vel á verði. Tilkynnti hún að héðan í frá þyrftu þeir sem hefðu verið í nánum samskiptum við sýkta að fara í 21 dags einangrun. „Ég skora á alla Úgandabúa að taka mark á þessu og reyna að skilja af hverju það þarf að grípa til þessa. Ég hvet þá alla til að fylgja þessu svo að við getum náð tökum á faraldrinum sem fyrst og snúið aftur til venjulegs lífs.“
Ekkert bóluefni er til við þessu tiltekna afbrigði ebólu. Hins vegar eru nokkur bóluefni langt komin í þróun og að mati Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) verður mögulega hægt að nota þau bráðlega í klínískum rannsóknum.
Sérfræðingar WHO virðast bjartsýnir á að yfirvöldum í Úganda takist að hemja veiruna. Þeir sögðu í lok október að til nauðsynlegra aðgerða hefði verið gripið, að heilbrigðisyfirvöld í nágrannaríkjunum, m.a. Rúanda, Búrúndi og Kenía, væru einnig á tánum. Hins vegar bendir stofnunin á þá staðreynd að heilbrigðiskerfið í Úganda sé veikt og að útbreiðsla ebólu hafi þegar valdið gríðarlegu álagi á kerfið. Sérfræðingar stofnunarinnar vara við því að ferða- og viðskiptatakmörk verði sett á Úganda vegna faraldursins, unnið sé að því hörðum höndum að ná utan um smit með þekktum ráðum á borð við smitrakningu og einangrun. Enn sem komið er virðist slíkt duga.
Næstu dagar og vikur munu leiða í ljós hvort yfirvöldum takist ætlunarverk sitt.