Ekki er vitað hversu margir Ísraelar koma til Íslands sem ferðamenn á hverju ári. Þeir eru ekki á meðal þeirra 17 þjóðerna sem talin eru þegar farþegar fara í gegnum vopnaleit á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ísrael falla því í flokkinn „aðrir“, þar sem um 14 prósent allra ferðamanna lenda.
Hins vegar er hægt að sjá hversu margar gistinætur Ísraelar kaupa á Íslandi. Á árinu 2014 keyptu erlendir ferðamenn 4.404.937 gistinætur hérlendis og af þeim keyptu Ísraelar 27.821 eða 0,6 prósent allra gistinátta, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu Íslands.
Alls var fjöldi ferðamanna á Íslandi í fyrra rétt undir einni milljón og í ár verður hann um 1,3 milljónir.
Samskipti Íslands og Ísrael hafa verið mikið í sviðsljósinu hérlendis eftir að Reykjavíkurborg samþykkti sniðgöngu á ísraelskum vörum fyrr í þessum mánuði. Borgarstjórn dró síðan tillöguna til baka í liðinni viku og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagt að hún hafi ekki verið nægilega vel undirbúin. Fréttir hafa verið sagðar af því að Ísraelar hafi verið hvattir til að ferðast ekki til Íslands vegna sniðgönguáætlanna höfuðborgarinnar og að ferðaþjónustuaðilum hafi borist afbókanir.
Sjöundi hver ferðamaður lendir í flokknum "aðrir"
Þegar ferðamenn fara í gegnum vegabréfaeftirlitið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru þeir taldir. Sú talning er gerð að undirlagi Ferðamálastofu sem heldur utan um opinberar upplýsingar um fjölda erlendra og íslenskra flugfarþegar sem fara um flugvöllinn.
Sem stendur er hægt að flokka erlendu farþeganna (þeir sem millilenda eru ekki taldir með) eftir 17 mismundi þjóðernum. Sjöundi hver útlendingur sem kemur til landsins er ekki hluti af þeim þjóðum sem flokkunin býður upp á og lendir því í flokknum „Aðrir“. Þar á meðal eru ferðamenn frá Ísrael. Á árinu 2014 flugu 969 þúsund erlendir ferðamenn um flugvöllinn í Keflavík og þar af lentu 142 þúsund í þessum óskilgreinda þjóðernishóp.
Sem stendur er hægt að flokka erlendu farþeganna (þeir sem millilenda eru ekki taldir með) eftir 17 mismundi þjóðernum. Sjöundi hver útlendingur sem kemur til landsins er ekki hluti af þeim þjóðum sem flokkunin býður upp á og lendir því í flokknum „Aðrir“. MYND: ISAVIA
Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu hafa viðræður staðið yfir í langan tíma við Isavia, sem annast talningarnar, um að fá að fjölga þjóðernum sem talin eru. Um það hefur hins vegar ekki samist.
Það er líka vandkvæðum bundið að fjölga þeim þjóðernum sem talin eru mikið því aukin talning mun tefja öryggisleit á flugvellinum enn frekar, en samhliða auknum ferðamannastraumi til Íslands hefur flugvöllurinn oft verið yfirfullur af fólki á álagstímum og er að margra mati sprunginn. Frá árinu 2008 hefur farþegum í millilandaflugi, að meðtöldum þeim sem bara millilenda, enda fjölgað um tæp 100 prósent, farið úr tveimur milljónum í 3,9 milljónir. Það er því líkast til ekki forgangsatriði hjá Isavia, sem þarf að tvöfalda innviði flugvallarins í Keflavík á næstu 25 árum til að takast á við vænta fjölgun ferðamanna, að hægja á öryggisleitinni hjá sér með aukinni talningu.
Ísraelar gista 0,6 prósenta af gistinóttum á Íslandi
Ferðamálastofa hefur horft til þess að bæta fimm til sex þjóðernum við talninguna, náist samningar við Isavia um það. Afar ólíklegt er að Ísrael yrði þar á meðal, enda telst landið alls ekki til lykilmarkaðar í íslenskri ferðaþjónustu. Hvorki er flogið beint þaðan til Íslands né eru ísraelskir ferðamenn, miðað við fjölda gístinátta sem þeir kaupa á Íslandi, nægjanlega stór hluti af þeim hópi sem sækir Ísland heim til að réttlæta slíka talningu á sér.
Líkt og áður sagði gista Ísraelar 0,6 prósent af öllum gistinóttum sem keyptar eru á Íslandi. Það þarf þó ekki endilega að endurspegla fjölda þeirra ferðamanna sem koma til Íslands frá landinu. Samkvæmt ferðavenjukönnun Ferðamálastofu, sem gerð var sumarið 2014, var meðaldvalarlengd útlendinga hérlendis í heild tíu nætur.
Þeir sem flokkast undir „önnur þjóðerni“ í þeirri könnun, þar með talið Ísraelar, dvelja hins vegar lengur á Íslandi að meðaltali en flestir ferðamenn. Því má vel vera að hlutfall Ísraela í fjölda gistinátta sé hærra en hlutfall þeirra í fjölda ferðamanna.
Vert er að taka fram að sniðgöngutillaga Reykjavíkurborgar hafði ekki bara neikvæð áhrif í Ísrael. Gyðingar víða annarsstaðar í heiminum, til dæmis í Bandaríkjunum, hafa gagnrýnt hana harkalega. Það sem af er árinu 2015 þá hafa flestir ferðamenn sem heimsækja Ísland flogið hingað frá Bandaríkjunum, eða fimmti hver ferðamaður. Um 20 þúsund fleiri ferðamenn komu þaðan á fyrstu átta mánuðum ársins 2015 en allt árið í fyrra, en það sem af er ári er fjöldi gesta frá Bandaríkjunum 171 þúsund talsins. Til að setja þessa miklu aukningu í samhengi má nefna að allt árið 2008 komu 40 þúsund ferðamenn frá Bandaríkjunum til Íslands. Í júlí á þessu ári komu rúmlega 37 þúsund ferðamenn þaðan. Fjöldi flugfélaga sem fljúga til og frá landinu til Íslands hefur vitanlega aukist mikið á þessu tímabili.
Eru stór verkefni í hættu?
Þá hafa verið sagðar af því fréttir að vörur sem íslenskir framleiðendur selji erlendis hafi verið teknar úr verslunum vegna tillögunar um sniðgöngu á vörum frá Ísrael og að samþykkt tillögunar geti haft afdrifaríkar viðskiptalegar afleiðingar. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að fá skýr svör við því hvert umfang þess skaða sem á að hafa orðið sé.
DV hélt því fram á forsíðu í vikunni að aðilar sem ætla að byggja hótel við Hörpu hefðu hótað að hætta við áformin vegna sniðgönguáætlanna Reykjavíkurborgar. Forsvarsmenn verkefnisins sendu hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu það alrangt. Þá hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagt að hann viti um stór verkefni sem gætu verið í hættu vegna þessa. Hann hefur hins vegar ekki upplýst um hvaða verkefni það eru.
Íslendingar eiga ekki í miklum beinum viðskiptum við Ísraela. Hér sést ein þekktasti pg helgasti staður landsins, Grátmúrinn. MYND: EPA
Lítil bein viðskipti við Ísrael
Þegar umfang utanríkisviðskipta Íslands við Ísrael er skoðað á vef Hagstofu Íslands kemur hins vegar í ljós að þau viðskipti eru mjög lítil. Á fyrri hluta ársins 2015 fluttu Íslendingar út vörur fyrir 385,2 milljarða króna. Virði þeirra vara sem fluttar voru til Ísrael voru 39,8 milljónir króna, eða 0,01 prósent af heildarútflutningi Íslands á tímabilinu.
Við flytjum heldur meira inn frá Ísrael en við flytjum út, eða fyrir alls 540 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Heildarinnflutningur Ísland á vörum á tímabilinu var 391,5 milljarðar króna. Því var heildarumfang innfluttra vara frá Ísrael um 0,1 prósent af öllum innflutningi Íslendinga.
Íslendingar eiga ekki bara í viðskiptum með vörur, heldur líka þjónustu. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs fluttum við út þjónustu fyrir 249,5 milljarða króna og inn slíka fyrir 175 milljarða króna.
Allt árið í fyrra nam útflutningur á þjónustu, líkast til mest á ferðaþjónustu, til Ísrael 1.241 milljónum króna. Um er að ræða 0,2 prósent af þjónustuútflutningi Íslendinga á árinu. Innflutt þjónusta þaðan var 108,4 milljónir króna. 0,02 prósent af innfluttri þjónustu á árinu 2014.
Aftur ber að taka fram að áhrif ákvörðunar borgarinnar um sniðgöngu á vörum frá Ísrael getur haft áhrif á verslun víðar en í landinu sjálfu, þar sem stór gyðingasamfélög er að finna víða um heim, t.d. í Bandaríkjunum. Íslendingar flytja reyndar ekki út mikið af vörum til Bandaríkjanna. Það sem af er ári hefur fimm prósent útflutnings okkar farið þangað.