Endurkoma smurbrauðsins

Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.

Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Auglýsing

Í dönsku orða­bók­inni er smør­rebrød útskýrt sem „sam­mentrækn­ing af smør og brød“. Í íslensku orða­bók­inni er útskýr­ingin á smur­brauði álíka ein­föld: brauð með áleggi. Íslend­ing­ar, að minnsta kosti margir hverj­ir, gera hins vegar grein­ar­mun á smurðu brauði og smur­brauði. Smurt brauð er brauð­sneið með ein­földu áleggi, til dæmis osti eða rúllupylsu. Smur­brauð er íburð­ar­meira, brauð­sneið með kjöti, eða rækj­um, sem svo er skreytt með sal­ati, eggi svo eitt­hvað sé nefnt. Sem sé flott­ara. Danir nota orðið smør­rebrød um hvort tveggja.

Danir full­yrða að „smør­rebr­ødet“ sé ein­stakt og þekkt um allan heim. Eins­konar ein­kenn­is­tákn Dan­merk­ur, ásamt rauðu pyls­unum og fán­anum Dannebr­og. Þeir telja að smur­brauð­ið, þar sem grunn­ur­inn er rúg­brauð, sé fram­lag Dan­merkur til mat­ar­gerð­ar­listar heims­ins.

Auglýsing

Árið 2014 gekkst danska mat­væla­ráðu­neytið fyrir kosn­ing­um. Þar átti að kjósa það sem kalla mætti „þjóð­ar­rét“ Dana. Úrslitin komu mörgum á óvart, steikt þykk­skorið flesk með stein­seljusósu (stegt flæsk með persil­lesovs) fékk flest atkvæði, smur­brauðið var númer tvö og hakk­buff (hakkebøf) númer þrjú. Í óform­legri könnun meðal erlendra ferða­manna komst fleskið ekki á blað, þar var smur­brauð­ið, pyls­urn­ar, pur­u­steikin og hakk­buffið það sem flestir nefndu.

Brauð­bakstur á sér tug­þús­unda ára sögu

Brauð er mik­il­væg grunn­fæða og eitt af elstu til­búnu mat­vælum í Evr­ópu. Fund­ist hafa yfir 30 þús­und ára gamlar leifar sterkju á steinum sem not­aðir hafa verið til að mala rætur plantna, sem síðan hafa verið not­aðar í bakst­ur, í þunnar kökur (eins­konar flat­brauð). Um 10 þús­und fyrir Krist, við upp­haf nýstein­ald­ar, varð korn und­ir­stöðu­efni í brauð­gerð­inni. Brauð kemur víða við sögu í bók­menntum og þar eru til dæmis ótal sögur af fólki sem hefur með sér nesti, lang oft­ast brauð, þegar lagt er af stað til vinnu. Brauð á sér sem sagt langa sögu og brauð­sneiðar með áleggi ekki sér­danskt fyr­ir­bæri.

Smør­rebrød og højt­belagt smør­rebrød

Um 1880 höfðu skotið upp koll­inum í Kaup­manna­höfn, og víðar í Dan­mörku, litlir veit­inga­staðir sem seldu smur­brauð. Til að auka fjöl­breytn­ina létu veit­inga­menn ekki nægja að smella einni rúllupylsu­sneið ofan á rúg­brauð­ið, og þá varð til þetta sem Danir kalla højt­belagt smør­rebr­ød, hátimbrað smur­brauð. Þá eru á brauð­sneið­inni fleiri en ein teg­und áleggs, þaðan kemur nafn­ið. Elsti mat­seð­ill, sem varð­veist hefur þar sem boðið er uppá højt­belagt er frá árinu 1883, frá veit­inga­staðnum Nimb við Tívolí.

Mynd: Hallernes

Dav­id­sen og langi mat­seð­ill­inn

Einn þeirra sem átti stóran þátt í að gera það hátimbraða frægt um víða ver­öld var Oskar Dav­id­sen. Hann hafði um ára­bil, ásamt konu sinni Petru, rekið vín­bar við Åbou­levar­den í Kaup­manna­höfn en fékk árið 1888 jafn­framt leyfi til að selja smur­brauð. Smur­brauðið naut strax mik­illa vin­sælda og hjónin ein­skorð­uðu úrvalið ekki við fáeinar teg­und­ir. Mat­seð­ill­inn, sem lengd­ist sífellt, er skráður í heims­meta­bók Guinness, hann var heilir 140 senti­metrar á lengd og smur­brauðs­teg­und­irnar 178 tals­ins.

Mynd: Rynkeby

Veit­inga­staður Dav­id­sen fjöl­skyld­unnar hefur frá árinu 1974 verið rek­inn undir nafni Idu Dav­id­sen, hún er af fjórðu kyn­slóð Dav­id­sen fjöl­skyld­unn­ar. Á heima­síðu veit­inga­stað­ar­ins má lesa að hann sé nú lok­aður en verði opn­aður fljót­lega, eins og það er orð­að, á nýjum stað og fimmta kyn­slóð Dav­id­sen sé tekin við stjórn­inni.

Hefð­bundið en lítil fjöl­breytni

Fyrri hluti síð­ustu aldar var gullöld smur­brauðs­ins í Dan­mörku. Flestir þess­ara staða voru litlir og buðu flestir upp á það sama. Lifr­ar­kæfa, síld, pur­u­steik, reyktur lax, egg og rækj­ur, reyktur áll og rúllupylsa voru á mat­seðlum allra smur­brauðs­staða, en lítið um nýj­ung­ar. Sumir þess­ara staða höfðu sína sér­út­gáfur sem þeir aug­lýstu sem slík­ar.

Pizzu­bylt­ingin

Uppúr 1960 fóru að verða breyt­ing­ar. Pizz­urnar héldu inn­reið sína í Dan­mörku, eins og víð­ar, kín­verskir, franskir, víetnamskir og ind­verskir staðir spruttu upp. Smur­brauðið þótti smám saman gam­al­dags, eitt­hvað sem eldra fólk borð­aði (orða­lag blaða­manns) en unga fólkið snið­gekk. Pizzu­bylt­ingin var lýs­ing blaða­manns Politi­ken á þessum breyt­ing­um. Alls kyns skyndi­bita­staðir skutu líka upp koll­in­um, pylsusal­arnir urðu illi­lega fyrir barð­inu á þeirri nýj­ung og þeim hefur fækkað mjög mik­ið.

Auglýsing

Þótt ýmsir lýstu áhyggjum yfir að þetta sér­danska, eins og kom­ist var að orði, væri í útrým­ing­ar­hættu breytti það litlu. Smur­brauð­sveit­inga­stöð­unum fækk­aði jafnt og þétt, og útlitið var ekki bjart. Sumir gömlu og rót­grónu stað­anna héldu velli, lifðu kannski að ein­hverju leyti á fornri frægð.

Nýj­ungar og end­ur­nýjun líf­dag­anna

Um og uppúr síð­ustu alda­mótum fór að örla á breyt­ing­um. Ferða­fólki sem lagði leið sína til Dan­merkur fór hratt fjölg­andi og áhugi fyrir því sem kall­ast mætti sér­kenni dansks þjóð­líf jókst. Eitt þess­ara sér­kenna er vita­skuld smur­brauð­ið. Í takt við tím­ann hefur smur­brauðið þó breyst, þótt pur­u­steikin og allt það gamla sé enn til stað­ar.

Mynd: Pinterest

Einn þeirra sem danskir fjöl­miðlar nefna gjarna þegar rætt er um nýbylgj­una í smur­brauð­inu er mat­reiðslu­mað­ur­inn Adam Aamann. Hann opn­aði í des­em­ber árið 2006 lít­inn heim­töku­stað (take away) í Kaup­manna­höfn. Hjá Aamann var allt heima­gert, brauð og álegg. Jafn­framt því að bjóða upp á „hefð­bund­ið“ smur­brauð gátu við­skipta­vinir valið alls kyns græn­meti og ávexti sem álegg á smur­brauð­ið. Skemmst er frá því að segja að þessi nýbreytni mælt­ist vel fyrir og Adam Aamann rekur nú fleiri veit­inga­staði í Kaup­manna­höfn. Fleiri fylgdu í kjöl­farið og „gömlu“ stað­irnir breyttu sínum áhersl­um, leggja nú aukna áherslu á „líf­rænt“.

Mynd: Tripadvisor

Søren Frank, mat­ar- og vín­sér­fræð­ingur dag­blaðs­ins Berl­ingske hefur und­an­farið skrifað tals­vert um það sem hann kallar upp­risu smur­brauðs­ins. Hann fagnar því að smur­brauð­ið, bæði hið hefð­bundna og nýj­ung­arn­ar, njóti vax­andi vin­sælda. „Ég var smeykur um að smur­brauðs­stað­irnir myndu smám saman hverfa en sem betur fer lifa þeir nú góðu lífi og fer fjölg­and­i.“

Í lokin má nefna að fyrir ára­tugum voru starf­ræktar að minnsta kosti tvær smur­brauðs­stofur í Reykja­vík. Starf­semi þeirra leið undir lok en fyrir 25 árum var opn­aður veit­inga­staður í Reykja­vík, Jóm­frú­in, sem býður gestum sínum ekta danskt smur­brauð. Stofn­and­inn, Jakob Jak­obs­son er sagður fyrsti karl­maður í heim­inum til að útskrif­ast sem smør­rebr­ød­sjom­fru, hann lærði hjá fyrr­nefndri Idu Dav­id­sen. Fleiri staðir sem selja smur­brauð hafa fylgt í kjöl­far­ið.

Loks má geta þess að nokkrar íslenskar mat­vöru­versl­anir bjóða nú uppá smur­brauð, til að taka með heim. Þar eru þó ekki 178 teg­undir í boði.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Engin lagaleg skilgreining til á orðinu kona
Samkvæmt svari frá forsætisráðherra þarf menningar- og viðskiptaráðherra sem „fer með málefni íslenskunnar“ að svara því hverjar orðsifjar nafnorðsins kona séu og hver málfræðileg merking orðsins sé.
Kjarninn 30. júní 2022
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar.
Bankasýslan borgaði LOGOS 6,2 milljónir og lét Morgunblaðið fá upplýsingar fyrirfram
Bankasýslan sendi Morgunblaðinu einum fjölmiðla fyrirfram tilkynningu um að lögfræðilegur ráðgjafi hennar hefði komist að þeirri niðurstöðu að jafnræðis hafi verið gætt við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Kjarninn 30. júní 2022
Til þess að komast ferða sinna þurfa Íslendingar að borga 85 prósentum meira heldur en íbúar í löndum Evrópusambandsins gera að meðaltali.
Samgöngukostnaður hvergi hærri í Evrópu en á Íslandi
Norðurlöndin raða sér í efstu sæti á lista þeirra landa í Evrópu þar sem samgöngukostnaður er mestur. Verð á gistingu, mat, fötum og skóm er hærra hér á landi en víðast hvar annars staðar í álfunni.
Kjarninn 30. júní 2022
Ríkið þurfi að kortleggja á hverjum loftslagsskattarnir lenda
Upplýsingar liggja ekki fyrir í dag um það hvernig byrðar af loftslagssköttum dreifast um samfélagið. Í greinargerð frá Loftslagsráði segir að stjórnvöld þurfi að vinna slíka greiningu, vilji þau hafa yfirsýn yfir áhrif skattanna.
Kjarninn 30. júní 2022
Í frumdrögum að fyrstu lotu Borgarlínu var Suðurlandsbrautin teiknuð upp með þessum hætti. Umferðarskipulag götunnar er enn óútkljáð, og sannarlega ekki óumdeilt.
Borgarlínubreytingar á Suðurlandsbraut strjúka fasteignaeigendum öfugt
Nokkrir eigendur fasteigna við Suðurlandsbraut segja að það verði þeim til tjóns ef akreinum undir almenna umferð og bílastæðum við Suðurlandsbraut verði fækkað. Unnið er að deiliskipulagstillögum vegna Borgarlínu.
Kjarninn 30. júní 2022
Í austurvegi
Í austurvegi
Í austurvegi – Einlæg gjöf en smáræði 千里送鹅毛
Kjarninn 30. júní 2022
Úlfar Þormóðsson
Taglhnýtingar þétta raðirnar
Kjarninn 30. júní 2022
Viðbragðsaðilar og vegfarendur á vettvangi aðfaranótt sunnudags. 22 unglingar létust á Enyobeni-kránni.
Hvers vegna dóu börn á bar?
Meðvitundarlaus ungmenni á bar. Þannig hljómaði útkall til lögreglu í borginni East London í Suður-Afríku aðfaranótt sunnudags. Ýmsar sögur fóru á kreik. Var eitrað fyrir þeim? Og hvað í ósköpunum voru unglingar – börn – að gera á bar?
Kjarninn 30. júní 2022
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar