Reykjavíkurborg stefndi íslenska ríkinu í lok síðasta árs og krafðist þess að það greiði sér 8,7 milljarða króna auk vaxta og dráttarvaxta. Málið var þingfest í lok janúarmánaðar 2021. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stendur yfir gagnaöflun vegna málsins og að óbreyttu verður það leyst fyrir dómstólum. Viðræður um sátt stóðu þó yfir framan af ári en þær hafa legið niðri frá því í sumar og ekki er búist við að þær hefjist aftur fyrr en ný ríkisstjórn verður kynnt til leiks.
Til að setja upphæðina sem er undir í samhengi má nefna að fjárhagsáætlun samstæðu Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hún verði rekin með 8,6 milljarða króna afgangi á næsta ári, að meðtöldum arðgreiðslum frá fyrirtækjum í eigu hennar. Sá taprekstur sem verður á A-hluta borgarinnar, þeim hluta sem fjármagnaður er með skatttekjum, og er rekin til áhrifa af kórónuveirufaraldrinum er áætlaður 18,9 milljarðar króna á árunum 2020 til 2022. Upphæðin sem borgin er að reyna að sækja á ríkið nemur næstum helmingi þess taps.
Ástæða kröfunnar er að borgin telur sig hafa verið útilokaða með ólögmætum hætti frá því að eiga möguleika á að fá ákveðin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Um er að ræða tekjujöfnunarframlög, jöfnunarframlög vegna reksturs grunnskóla og framlög til nýbúafræðslu. Deilurnar snúa að uppistöðu að reglum sem útiloka borgina frá framlögum í skólamálum, t.d. vegna barna af erlendum uppruna, en þau eru langflest í Reykjavík (44 prósent erlendra ríkisborgara á Íslandi búa í Reykjavík).
Samanlagt metur borgin þá upphæð sem hún inni á 8,7 milljarða króna auk vaxta vegna tímabilsins 2015-2019.
Byggir á niðurstöðu Hæstaréttardóms
Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins og greiðir mest allra sveitarfélaga í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en um 12 prósent af útsvari borgarinnar fer í hann árlega. Það gera rúmlega ellefu milljarðar króna. Borgin fær til baka um átta milljarða króna vegna málaflokks fatlaðs fólks og reksturs Klettaskóla.
Reykjavík sendi ríkislögmanni bréf 5. nóvember síðastliðinn og krafðist greiðslu á upphæðinni, alls 8,7 milljörðum króna. Ef hún fengist ekki greidd myndi borgin höfða mál.
Ráðherra kallaði kröfuna „fráleita“
Íslenska ríkið hefur neitað að greiða upphæðina og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, gagnrýndi Reykjavíkurborg harðlega fyrir að setja kröfuna fram og sagt hana fráleita.
Áður en málinu var stefnt áttu sér stað þreifingar um sættir eða sáttaviðræður fyrir síðustu jól. Þær skiluðu ekki samkomulagi.
Í bréfi sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, lagði fyrir borgarráð snemma árs, sem stílað var á Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og dagsett 5. janúar, var því lýst yfir að Reykjavíkurborg væri viljug til viðræðna við íslenska ríkið um hugsanlegar sættir í málinu þrátt fyrir að búið væri að stefna. „Reykjavíkurborg hefur fulla trú á að slíkar viðræður geti skilað árangri og vonast til að ríkið nálgist málið af sama hug,“ sagði í bréfinu.
Heimildir Kjarnans að þær viðræður hafi farið fram og að ágætur gangur hafi verið í þeim fram eftir ári. Þegar nær dró kosningum hafi hins vegar dregið úr þeim og viðræðurnar legið í þagnargildi síðan í sumar. Innan borgarinnar er búist við því að þannig verði málum háttað að minnsta kosti þangað til að ný ríkisstjórn verði mynduð, en nýjustu fregnir benda til þess að það verði í fyrsta lagi í næstu viku.