Innan við hálft ár er til næstu þingkosninga, sem fara fram 25. september næstkomandi. Stjórnmálaflokkarnir eru í óða önn við að ákveða hvaða einstaklingar verði í framboði fyrir þá og hvaða megináherslur verða settar á oddinn til að hvetja sem flesta kjósendur til að setja X við þá.
Heilt yfir er staðan þannig, og hefur verið í nokkurn tíma samkvæmt könnunum, að flókið gæti orðið að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Stjórnarflokkarnir hafa allir tapað fylgi, stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir ekki bætt nægilega miklu við sig til að gera afgerandi kröfu á stjórnarmyndun og nýir flokkar sem hafa ekki átt sæti á Alþingi áður eru að banka á dyrnar. Ekki er útilokað að flokkarnir á þingi verði níu talsins eftir að atkvæði haustsins verða talin, og hafa þá aldrei verið fleiri.
Kjarninn fékk gögn frá MMR úr könnunum fyrirtækisins á fylgi stjórnmálaflokka síðustu þrjá mánuði. Á meðal þeirra upplýsinga sem þar er að finna er fylgi þeirra eftir landsvæðum. Tölur MMR miða þó ekki við kjördæmi í öllum tilvikum og því gefa þær fyrst og síðast vísbendingu um hver staða stjórnmálaflokkanna er í hverju kjördæmi fyrir sig.
Næstu daga mun Kjarninn fjalla um stöðu mála á hverju landsvæði fyrir sig. Fyrst á dagskrá er höfuðborgin, Reykjavík, sem skipt er í tvö kjördæmi, suður og norður.
Á svipuðum stað og síðast
Framsóknarflokkurinn glímir við umtalsverðan vanda á höfuðborgarsvæðinu. Í þremur stærstu kjördæmum landsins – Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og í Suðvesturkjördæmi – mælist fylgi flokksins samanlagt 6,9 prósent. Á svæðinu búa alls 236.520 manns, eða 64 prósent allra íbúa landsins.
Fylgi Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu mælist 6,9 prósent sem er er 34 prósent minna fylgi en flokkurinn mælist með heilt yfir og það sem hann fékk í síðustu kosningum. Meðaltalsfylgi flokksins á svæðinu í kosningunum 2017 var á svipuðum nótum, eða 7,1 prósentustig. Þá gekk Framsókn best í Reykjavík suður, þar sem varaformaðurinn Lilja Alfreðsdóttir leiddi lista flokksins, en hann fékk alls 8,1 prósent atkvæða þar haustið 2017. Það skilaði því að Lilja varð síðasti kjördæmakjörni þingmaður kjördæmisins, en þeir eru alls níu.
Þegar hann tilkynnti um vistaskiptin sagði Ásmundur Einar að Framsókn muni ekki ná að verða leiðandi afl í stórum kerfisbreytingum sem hann telur að þurfi að eiga sér stað í íslensku samfélagi án þess að flokkurinn nái að styrkja sig í þéttbýli og þá sérstaklega í Reykjavík.
Alls óljóst er hvernig listi flokksins verður skipaður þar fyrir utan. Heimildir Kjarnans herma að reynt hafi verið að fá þekkt fólk úr ýmsum áttum til að taka sætin á listanum fyrir neðan Ásmund Einar og Lilju en án árangurs. Þá hefur nafn Guðna Ágústssonar, fyrrverandi formanns flokksins, verið nefnt en hann íhugaði að fara fram fyrir Framsókn í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum 2014.
Barátta í pípunum hjá Sjálfstæðisflokknum
Sjálfstæðisflokkurinn er nokkuð öruggur með að verða stærsti flokkurinn á höfuðborgarsvæðinu að óbreyttu. Fylgi flokksins í síðustu þremur könnunum MMR þar mældist samanlagt 22,6 prósent. Það er nánast á pari við það sem flokkurinn fékk í Reykjavíkurkjördæmunum 2017 þegar hann fékk fyrsta þingmann í báðum kjördæmunum. Vert er þó að muna að inni í tölum MMR er stuðningur flokksins í Kraganum, kjördæmi flokksformannsins, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var hlaut fleiri atkvæði en í nokkru öðru kjördæmi fyrir þremur og hálfu ári.
Fyrirliggjandi er að slagur verður í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar munu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og hóparnir í kringum þau takast á.
Fyrstu merki þess mátti sjá þegar kjörið var í fulltrúaráð Varðar (fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík) fyrr í þessum mánuði. Þar buðu fram tvær fylkingar tengdar áðurnefndum ráðherrum. Mikil óánægja spratt upp á meðal sumra stuðningsmanna Áslaugar Örnu þegar formaður ráðsins deildi óvart skjáskoti af samskiptum sínum við lykilfólk í hinni fylkingunni á fjarfundi þar sem verið var að fjalla um kjörið. Af skjáskotinu, sem sent var í stað skjals sem formaðurinn ætlaði að deila, mátti sjá að hann hefði verið í samræðum á Messenger við hópinn sem tengist Guðlaugi Þór.
Hallarbyltingin skilaði hins vegar ekki árangri og stuðningsfólk Guðlaugs Þór er enn með tögl og hagldir í Verði líkt og verið hefur undanfarin áratug. Það þarf þó ekki endilega að leiða til sigurs í prófkjöri.
Áslaug Arna var í öðru sæti á eftir Guðlaugi Þór í Reykjavík norður í síðustu kosningum. Þriðji þingmaður flokksins í því kjördæmi var svo Birgir Ármannsson. Í hinu Reykjavíkurkjördæminu leiddi Sigríður Á. Andersen lista flokksins eftir að Brynjar Níelsson ákvað að gefa oddvitasætið eftir fyrir hana. Þau tvö náðu bæði inn og því eru þingmenn flokksins frá Reykjavík sem stendur fimm. Nokkuð víst er talið að Diljá Mist Einarsdóttir, annar aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, muni sækjast eftir sæti ofarlega á lista og ekki er ósennilegt að Hildur Sverrisdóttir, annar aðstoðarmanna Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, muni gera slíkt hið sama.
Samfylkingin í deilum við sjálfa sig
Í þingkosningunum 2003 náði Samfylkingin þeim árangri að þáverandi formaður flokksins, Össur Skarphéðinsson, varð fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður þegar flokkurinn fékk 29,7 prósent atkvæða þar. Við það fór þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, niður í annað sætið í kjördæminu. Stór breyta í þessum árangri var að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, settist í fimmta sæti á framboðslista flokksins. Með því vildi hún undirstrika hvað þyrfti til að Samfylkingin yrði leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum. Markmiðið náðist ekki. Flokkurinn náði einungis fjórum inn í kjördæminu.
Flokkurinn hélt áfram þó áfram og í kosningunum 2009 varð Samfylkingin stærsti flokkur landsins. Þá fékk flokkurinn 32,9 prósent atkvæða í sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu og var langstærsti flokkurinn í höfuðborginni.
Þessi tími er liðinn. Fylgi flokksins mælist nú 15,6 prósent á öllu höfuðborgarsvæðinu samkvæmt síðustu þremur könnunum MMR en hefur verið að dala.
Það gerist þrátt fyrir að framboðslistar Samfylkingarinnar í Reykjavík liggi þegar fyrir. Flokkurinn ákvað að fara hina svokölluðu sænsku leið til að velja á þá, sem fól í sér að gerð var könnun á meðal flokksfélaga í Reykjavík um hvaða fólk það vildi tilnefna. Sami hópur merkti svo við hverja úr hópnum, sem taldi á endanum 49 manns, þeir vildu sjá á lista Samfylkingarinnar og niðurstaðan úr þeirri könnun var höfð til hliðsjónar þegar uppstillingarnefnd raðaði á lista.
Þessi aðferð skilaði því að elga Vala Helgadóttir og Kristrún Frostadóttir munu sitja í oddvitasætum á framboðslistum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum í komandi Alþingiskosningum. Í næstu sætum á eftir verða Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem gekk til liðs við flokkinn nýverið, og Jóhann Páll Jóhannsson, sem var áður blaðamaður á Stundinni. Á eftir þeim Rósu Björk og Jóhanni Páli koma þau Viðar Eggertsson, leikstjóri, í þriðja sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður og Dagbjört Hákonardóttir, lögfræðingur, í þriðja sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Mikil opinber óánægja hefur verið á meðal hluta félagsmanna með þessa niðurstöðu, og þá sérstaklega þá ákvörðun að bjóða oddvita flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu, Ágústi Ólafi Ágústssyni, einungis þriðja sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, sem hann hafnaði. Innanflokksmeinin hafa verið borin á torg og því virðist flokkurinn vera að glíma við sjálfan sig, samhliða því að undirbúa sig fyrir kosningar.
Hnökkralausar breytingar hjá Pírötum
Höfuðborgarsvæðið er langsterkasta vígi Pírata. Þeir mælast nú með 14,1 prósent fylgi þar heilt yfir samkvæmt síðustu þremur könnunum MMR. Það er nokkuð yfir meðalfylgi þeirra á svæðinu í síðustu kosningum, sem var 11,1 prósent.
Píratar hafa lokið prófkjörum sínum í öllum kjördæmum og engar deilur hafa sprottið upp vegna niðurstöðu þeirra. Fyrir lá að fyrirferðamiklir þingmenn höfðu þegar ákveðið að stíga til hliðar. Í Reykjavík eru til að mynda báðir oddvitarnir frá 2017 horfnir á braut. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir færði sig í Kragann og Helgi Hrafn Gunnarsson ákvað að bjóða sig ekki fram að nýju.
Björn Leví greindi frá því á Facebook í kjölfarið að hann ætli að leiða Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður, sama kjördæmi og hann er nú þingmaður fyrir. Það þýðir að Halldóra Mogensen verður leiðtogi flokksins í Reykjavík norður.
Vinstri græn í vanda í Reykjavík
Í kosningunum 2017 munaði sáralitlu að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og nú forsætisráðherra, næði að verða fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norðurs og velta Guðlaugi Þór Þórðarsyni úr því sæti. Einungis munaði 381 atkvæðum á þeim tveimur.
Flokkurinn náði inn fimm þingmönnum úr Reykjavíkurkjördæmunum, en Svandís Svavarsdóttir leiddi í suðri. Steinunn Þóra Árnadóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Andrés Ingi Jónsson náðu líka inn. Andrés Ingi hefur síðan yfirgefið flokkinn og er nú í framboði fyrir Pírata.
Meðalfylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu var um 18 prósent árið 2017. Það mælist nú verulega minna samkvæmt meðaltali síðustu þriggja kannanna MMR, eða um 11,8 prósent. Enginn flokkur hefur dalað jafn mikið á kjörtímabilinu í fylgi eins og Vinstri græn. Því má búast við því að þingmenn flokksins í Reykjavík verði þrír eða fjórir miðað við núverandi stöðu. Það þarf lítið til að þeir verði jafnvel færri.
Vinstri græn munu fara í forval í Reykjavík og fyrir liggur að nær öruggt er að Katrín og Svandís muni leiða lista flokksins áfram. Forvalið fer þó ekki fram fyrr en 16. til 19. maí og því liggur ekki ljóst fyrir hverjir aðrir muni sækjast eftir sæti ofarlega á lista. Steinunn Þóra verður þar að öllum líkindum en Kolbeinn hefur ákveðið að reyna fyrir sér í Suðurkjördæmi, þar sem hann sækist eftir oddvitasæti. Forvali þar lýkur um miðjan apríl og því gæti Kolbeinn, nái hann ekki þeim árangri sem hann sækist eftir í Suðurkjördæmi, ákveðið að gefa kost á sér í Reykjavík aftur.
Landsbyggðarflokkur í höfuðborg
Miðflokkurinn varð til rétt fyrir síðustu kosningar, í kringum Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem hafði ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokknum eftir að hafa tapað formannskosningu gegn Sigurði Inga Jóhannssyni.
Flokkurinn vann mikinn kosningasigur og náði besta árangri sem nýr flokkur hefur náð í fyrstu kosningum sínum. Sá árangur helgaðist þó aðallega af góðum árangri á landsbyggðinni.
Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fékk flokkurinn annars vegar 7,6 prósent atkvæða og hins vegar 7,0 prósent. Það skilaði engum kjördæmakjörnum þingmanni en Þorsteinn Sæmundsson náði inn sem jöfnunarþingmaður.
Þorsteinn hefur þegar tilkynnt framboð að nýju en auk hans vill Ólafur Ísleifsson vera á lista Miðflokksins í Reykjavík. Ólafur var kjörinn á þing fyrir Flokk fólksins 2017 en var rekinn úr honum eftir Klausturmálið, og gekk í kjölfarið til liðs við Miðflokkinn.
Hvað á að gera við Daða Má?
Viðreisn fékk að meðaltali um 8,8 prósent fylgi í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu 2017, en flokkurinn er langsterkastur í þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins.
Staða flokksins er mun betri þar nú en þá, en fylgið á höfuðborgarsvæðinu mælist 12,1 prósent. Raunhæfar væntingar eru því til þess að Viðreisn geti fjölgað Reykjavíkurþingmönnum sínum, en þeir eru tveir sem stendur.
Árið 2017 voru þau Þorsteinn Víglundsson og Hanna Katrín Friðriksson kosin á þing í sitthvoru Reykjavíkurkjördæminum fyrir Viðreisn. Þorsteinn ákvað að hætta þingmennsku í fyrra og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tók sæti hans. Bæði Hanna Katrín og Þorbjörg Sigríður hafa gefið það út að þær sækist eftir þvi að leiða sitt hvorn lista Viðreisnar í í höfuðborginni.
Viðreisn hefur ákveðið að stilla upp í Reykjavíkurkjördæmunum og því verður ekkert prókjör milli þeirra sem sækjast eftir framgangi.
Enn á eftir að finna lausn á því innan Viðreisnar hvað eigi að gera við Daða Má Kristófersson, sem var kjörinn varaformaður flokksins í fyrra. Hann sækist eftir forystusæti á höfuðborgarsvæðinu og er augljóslega ekki að fara að velta formanni flokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, úr oddvitasætinu í Kraganum. Þá vill Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, aftur á þing og sækist eftir oddvitasæti á suðvesturhorninu.
Hamborgaramaður, slembival og nýir flokkar
Flokkur fólksins náði inn tveimur þingmönnum í Reykjavík árið 2017, þeim Ingu Sæland og Ólafi Ísleifssyni. Ólafur hefur síðan yfirgefið flokkinn, líkt og áður var rakið. Meðalfylgi Flokks fólksins var um 7,3 prósent á höfuðborgarsvæðinu í síðustu kosningum en mælist 4,0 prósent að meðaltali í síðustu þremur könnunum MMR. Það er því brekka framundan hjá Flokki fólksins miðað við þá stöðu.
Inga Sæland mun áfram leiða flokkinn í Reykjavík norður og þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, og Tómas Tómasson, oftast kenndur við Hamborgarabúlluna, hafa bæði tilkynnt framboð. Flokkurinn hefur safnað upp digrum kosningasjóði á undanförnum árum, eftir að framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega. Að óbreyttu hefur hann um 100 milljónir króna til að spila úr í aðdraganda komandi kosninga, en rekstrarkostnaður flokksins er mjög lítill.
Sósíalistaflokkur Íslands mun bjóða fram til Alþingis í fyrsta sinn í haust. Fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu öllu mælist 4,3 prósent að meðaltali úr þremur síðustu könnunum MMR.
Kjörnefnd flokksins var slembivalinn úr hópi almennra félaga, mun raða fólki á framboðslista. Hann hefur ekki kynnt lista sína enn. Gunnar Smári Egilsson, framkvæmdastjóri flokksins, sagði við Fréttablaðið í janúar að búist væri við að listar Sósíalistaflokksins yrðu fullskipaðir í mars eða apríl. Það muni í síðasta lagi gerast 1. maí næstkomandi, á baráttudegi verkalýðsins, en flokkurinn verður fjögurra ára þann dag.
Alls segjast 1,7 prósent höfuðborgarbúa að þeir myndu kjósa annað en þá níu flokka sem hafa hér verið nefndir. Tveir aðrir flokkar hafa tilkynnt um framboð. Þeir eru Landsflokkurinn, með kvikmyndagerðarmanninn Jóhann Sigmarsson í broddi fylkingar, og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, þar sem Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, er í brúnni og Glúmur Baldvinsson verður í oddvitasæti í Reykjavík.