Söngleikur um poppstjörnuna Michael Jackson var forsýndur á Broadway í desember fyrir fullu húsi. Lynn Nottage, sem hefur í tvígang hlotið Pulitzer-verðlaunin, skrifar handritið og leikstjórn er í höndum Christopher Wheeldon, þekkts danshöfundar. Miklum fjármunum hefur verið varið í gerð söngleiksins og hans beðið með mikilli eftirvæntingu, ekki síst þegar kemur að því hvernig ásakanir á hendur Jackson um barnaníð verða teknar fyrir í söngleiknum. En svarið er einfalt: Það er ekki gert.
Það ætti kannski ekki að koma á óvart þar sem aðstandendur Jackson eru með í ráðum við gerð söngleiksins. En samt.
„Hver í fjandanum er þessi fjölskylda sem hann vill taka með í tónleikaferðalagið?“
Söngleikurinn ber heitið MJ og gerist að mestu árið 1992, ári áður en Jackson var fyrst sakaður um misnotkun. Söngleikurinn dregur því upp mynd af honum, poppkónginum, á toppi ferilsins en á sama tíma glímdi hann við fjárhagsvandræði tengd búgarðinum Neverland og ofneyslu verkjalyfja, sem á enfanum varð hans banamein sumarið 2009. Á einum tímapunkti er örlítið gefið til kynna að Jackson hafi mögulega átt í vafasömum samskiptum við unga drengi þegar umboðsmaðurinn varpar fram spurningu í einu atriðinu þar sem hann spyr „hver í fjandanum þessi fjölskylda sé sem hann vill taka með í tónleikaferðalagið?“
Lífshlaup og frægð Jackson eru merkileg fyrir margra hluta sakir, útlit hans var sífellt til tals og heimsbyggðin fylgdist með umdeildum uppátækjum hans, líkt og að halda á nýfæddum syni sínum yfir svalahandrið á hóteli í Berlín. En á seinni hluta ferilsins urðu raddir sífellt háværari þess efnis að Jackson hafi misnotað unga drengi.
Árið 1993 sakaði fjölskylda 12 ára drengs Jackson um að hafa misnotað drenginn á hótelherbergi. Fjölskyldan hafði ferðast með Jackson til Las Vegas eftir að Jackson vingaðist við föður drengsins þegar hann leigði sér bíl eftir að bíllinn hans bilaði. Drengurinn varði síellt meiri tíma með Jackson og fór fjölskylduna að gruna að ekki væri allt með felldu. Drengurinn greindi sálfræðingi frá misnotkuninni þar sem hann sagði Jackson hafa snert sig á óviðeigandi hátt og þvingað hann til munnmaka. Þá sagði hann að Jackson hafi viðurkennt að hafa átt í svipuðu sambandi við aðra drengi. Málið fór aldrei fyrir dóm en lauk með 20 milljón dollara sáttagreiðslu frá Jackson til foreldranna.
Um tíu árum síðar var gefin út ákæra í sjö liðum þar sem Jackson er sakaður um barnaníð og fyrir að hafa gefa barni eiturlyf í þeim tilgangi að deyfa það og tæla. Réttarhöld fóru fram í febrúar 2005 en Jackson var að lokum sýknaður af öllum ákæruliðum.
Robson og Safechuck neita að tjá sig um söngleikinn
Wade Robson var meðal þeirra sem bar vitni í réttarhöldunum, en hann kom fram í nokkrum tónlistarmyndböndum með Jackson. Í réttarhöldunum þvertók hann fyrir að hafa verið misnotaður. Árið 2013, fjórum árum eftir andlát Jackson, viðurkenndi Robson að hann hafi verið misnotaður af Jackson. Ári síðar steig annar maður fram, James Safechuck, og sakaði Jackson um kynferðislegt ofbeldi. Robson og Safechuck segja ítarlega frá misnotkuninni sem fór fram þegar þeir voru ungir drengir í heimildamyndinni Leaving Neverland sem var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í janúar 2019. Hvorki Robson né Safechuck hafa viljað tjá sig um uppfærslu söngleiksins þegar eftir því hefur verið leitað.
Jackson neitaði öllum ásökunum og eftir andlár hans í júní 2009 hefur fjölskylda hans hafnað öllum ásökunum á hendur Jackson. Það ætti því ekki að koma á óvart að ásakanir um barnaníð komi ekki fram í söngleiknum þar sem fjölskylda Jackson kemur að uppsetningunni. Frá því að söngleikurinn var forsýndur 6. desember hefur verið uppselt á allar sýningar. Stefnan er að þróa söngleikinn og koma að mögulegum breytingum til 1. febrúar þegar almennar sýningar hefjast.
Í því samhengi er áhugavert að velta fyrir sér áhrifum slaufunarmenningu (e. Cancel culture) í tengslum við feril Michael Jackson. Er hann einfaldlega of stór fyrir slaufunarmenningu?
Útilokunarmenning eða slaufunarmenning er tiltölulega nýtt fyrirbæri sem varð aðallega til á netinu. Með gríðarlega miklu upplýsingaflæði og aðgengi almennings að internetinu hefur umræða færst yfir á opinbera vettvanginn og geta allir verið sinn eigin fjölmiðill.
Slaufunarmenning gengur út á það að útiloka einstaklinga sem brotið hafa gegn samfélagslegum gildum og hagsmunum þjóðfélagsins – ýmist með því að hafa tjáð sig á ákveðinn máta eða gert eitthvað á hlut annarra. Segja má að um ákveðið félagslegt aðhald sé að ræða. Almenningur sýnir þannig andóf gegn þessum einstaklingum sem brjóta af sér.
Kjarninn fjallaði um þetta tiltölulega nýja fyrirbæri í ítarlegri fréttaskýringu í október 2020 þar sem meðal annars var rætt við Arnar Eggert Thorarensen, aðjunkt við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild við HÍ, fjallaði um tímann í tengslum við slaufunarmenningu, þ.e. á hvaða tímapunkti í ferli tónlistarmanns sem er útilokaður sé eðlilegt að hætta að hlusta á hann? Arnar Eggert nefndi Michael Jackson sem dæmi og spurði í því samhengi hvort það sé í lagi að hlusta á plöturnar sem hann gerði áður en hann varð fullorðinn og hver ákveði það í raun?
Úr „Don’t Stop ’Til You Get Enough“ í „MJ“
Söngleikur um Michael Jackson hefur lengi verið í smíðum en greint var frá fyrirhugaðri Broadway-uppfærslu vorið 2018. Hvort sem það er af ásettu ráði eða ekki er sögusviðið og tímalínan afar þröng. Söguþráðurinn er aðeins bundinn við tvo daga og gerist í æfingahúsnæði í Los Angeles þar sem Jackson einbeitir sér að undirbúningi fyrir næsta tónleikaferðalag sitt um heiminn: Dangerous. Með þessu móti er einblínt á snilligáfu Jackson, söng- og danshæfileikana. Einnig má finna nokkur endurlit frá upphafi ferli Jackson, en ekkert þegar nær dregur ásökunum um barnaníð.
Til stóð að setja upp söngleikinn í Chicago skömmu eftir frumsýningu heimildamyndarinnar Leaving Neverland en fallið var frá þeirri hugmynd auk þess sem nafni söngleiksins var breytt úr „Don’t Stop ’Til You Get Enough“ í aðeins hlutlausara nafn, einfaldlega „MJ“. Í framhaldinu var stefnt á frumsýningu á Broadway sumarið 2020 en þegar leikhúsinu var lokað sökum kórónuveirufaraldursins var frumsýningunni frestað.
Nottage og Wheeldon, handritshöfundur og leikstjóri MJ, sögðu verkefnið áskorun eftir að heimildamyndin kom út í mars 2019. Hvorki Nottage né Wheeldon tóku afstöðu um ásakanirnar á hendur Jackson. „Hluti af því sem við gerum sem listamenn er að bregðast við flækjustigum,“ sagði Wheeldon í viðtali vorið 2019. Að hans sögn er áherslan í söngleiknum fyrst og fremst á sköpunarferli Michael Jackson.
„Ég horfi á listformið sem við erum að skapa sem leið til að dýpka skilning okkar á Michael Jackson og vinna úr ýmsum tilfinningum,“ sagði Nottage, en að hennar mati er það einmitt það sem leikhúsið getur gert.
Formlegar sýningar hefjast í febrúar og þá kemur í ljós hvort takist að fyllast þau 1.145 sæti Neil Simon-leikhússins, en allt bendir til þess að almenningur, eða stór hluti hans, sé tilbúinn að segja skilið við ásakanir á hendur Jackson, að minnsta kosti á meðan það fylgist með leikurum og dönsurum segja frá hluta ferils poppkóngsins með dansi og leik á Broadway.