123RF

Útilokunarmenning: Hin réttláta útilokun eða múgæsingur?

Internetið er stórbrotið fyrirbæri þar sem ólíkar skoðanir fá að njóta sín og með tilkomu samfélagsmiðla geta allir haft sína rödd. Miklar orrustur í þágu mannréttinda hafa verið háðar á netinu undanfarin ár og breytt miklu fyrir marga. Þó er óneitanlega skuggahlið á þessari þróun sem vekur upp margar spurningar. Kjarninn talaði við aðgerðasinnann Elísabetu Ýr Atladóttur og fræðimanninn Arnar Eggert Thoroddsen um fyrirbærið til þess að skilja það betur.

Úti­lok­un­ar­menn­ing, eða „cancel cult­ure“ eins og hug­takið er kallað á ensku, er til­tölu­lega nýtt fyr­ir­bæri sem varð aðal­lega til á net­inu. Með gríð­ar­lega miklu upp­lýs­inga­flæði og aðgengi almenn­ings að inter­net­inu hefur umræða færst yfir á opin­bera vett­vang­inn og geta allir verið sinn eigin fjöl­mið­ill. 

Kost­ur­inn við tækn­ina og þessa nýju þróun er að raddir sem áður fengu aldrei að heyr­ast fá nú tæki­færi til að hljóma. Þeir valda­litlu geta tjáð sig á net­inu án þess að fara í gegnum rit­stjórn stóru miðl­anna – hlið­ar­verðir umræð­unnar eru teknir út úr mynd­inn­i. 

Úti­lok­un­ar­menn­ing gengur út á það að úti­loka ein­stak­linga sem brotið hafa gegn sam­fé­lags­legum gildum og hags­munum þjóð­fé­lags­ins – ýmist með því að hafa tjáð sig á ákveð­inn máta eða gert eitt­hvað á hlut ann­arra. Segja má að um ákveðið félags­legt aðhald sé að ræða. Almenn­ingur sýnir þannig andóf gegn þessum ein­stak­lingum sem brjóta af sér. Bak­hliðin á þessu and­ófi er að stundum skortir mál­efna­lega umræðu og getur gagn­rýni snú­ist upp í per­sónu­legar árásir á net­in­u. 

Auglýsing

Arnar Egg­ert Thorodd­sen, aðjunkt við félags­fræð­i-, mann­fræði- og þjóð­fræði­deild við HÍ, segir í sam­tali við Kjarn­ann að út frá fræð­unum séu rann­sóknir stutt á veg komnar en hug­takið hefur aðeins verið í notkun í um þrjú ár þrátt fyrir að sögnin að vera „cancelled“ – eða að vera úti­lok­aður – sé aðeins eldri.

Hann segir það vera áhuga­vert verk­efni fyrir félags­fræð­inga, fjöl­miðla­fræð­inga og mann­fræð­inga að sjá hvernig þessi úti­lokun eigi sér stað því eng­inn einn taki ákvörðun um að úti­loka ein­stak­ling. Frekar sé hægt að segja að ein­hvers konar stemn­ing mynd­ist og í fram­hald­inu verði þessi úti­lok­un.

Til þess að kafa betur ofan í hug­takið sé þó best að taka dæmi. Arnar Egg­ert tekur sjálfur dæmi um það sem liggur næst hjarta hans, tón­list.

„Mig langar til að hlusta á hann af því að lögin hans gleðja mig“

Morrissey er breskur tón­list­ar­maður og kannski mest þekktur fyrir að vera söngv­ari hljóm­sveit­ar­innar The Smiths sem gerði garð­inn frægan á níunda ára­tugnum og þrátt fyrir stuttan feril hafði hljóm­sveitin gríð­ar­leg áhrif á svo­kall­aða indí-tón­list. Söngv­ar­inn hóf sól­ó­feril eftir að The Smiths hættu en hann hefur verið umdeildur til margra ára. Nú er hann sak­aður um öfga­full hægri­við­horf og ras­isma en sjálfur neitar hann slíku.

Morrissey hefur verið umdeildur fyrir ummæli sín undanfarin ár Mynd: EPA

Arnar Egg­ert seg­ir, þegar hann er spurður út í þá pressu að hætta á hlusta á ákveðna lista­menn vegna gjörða þeirra eða orða, að fólki sé þannig stillt upp við vegg. „Ég er til dæmis ekki per­sónu­lega til­bú­inn að hætta að hlusta á Morriss­ey. Mig langar til að hlusta á hann af því að lögin hans gleðja mig. Sér­stak­lega þá Smiths, ég gæti svo sem lifað af án sól­ó­fer­ils­ins.“

Að hlusta á tón­list er svo per­sónu­leg upp­lifun, að hans mati. „Tón­list skil­greinir þig og er partur af lífi þínu. Það gefur eitt­hvað og lyftir þér upp.“ Svo svekk­elsið verður mikið þegar átrún­að­ar­goðið hagar sé ósæmi­lega eða brýtur af sér með ein­hverjum hætti. Hann spyr hvort það sé þá gild­is­dómur gegn þeim sem hlustar enn á tón­list þess sem hagar sér illa, gild­is­dómur um það hvernig mann­eskja hann er.

Jafn­ingja­þrýst­ingur gæti enn fremur haft áhrif á ákvarð­anir fólks. „Eitt hug­tak úr fjöl­miðla­fræð­inni heitir þagn­ar­svelg­ur­inn, eða „the spiral of silence“ á ensku. Það lýsir sér þannig að ef þú stendur inn í her­bergi með tutt­ugu manns og allir hata til dæmis Morrissey þá er mun lík­legra að þú takir undir það en hitt. Að þú þorir ekki að brjóta gegn fjöld­an­um,“ segir hann.

Ákveðin sjálfs­rit­skoðun á sér stað

Fleiri spurn­ingar vakna þó upp þegar rætt er um tón­list­ar­menn og hvort list þeirra hafi eitt­hvað með per­sónu þeirra að gera. Ein þeirra snýst um tím­ann, þ.e. á hvaða tíma­punkti í ferli tón­list­ar­manns sem er úti­lok­aður sé eðli­legt að hætta að hlusta á hann? Arnar Egg­ert nefnir tón­list­ar­mann­inn Mich­ael Jackson sem dæmi en hann hefur verið ásak­aður í gegnum tíð­ina um gróf kyn­ferð­is­brot gegn börn­um. Arnar Egg­ert spyr í því sam­hengi hvort það sé í lagi að hlusta á plöt­urnar sem hann gerði áður en hann varð full­orð­inn og hver ákveði það í raun.

Hann bendir á að það verði einnig ákveðin sjálfs­rit­skoðun eftir að upp kemst um mál þeirra frægu. „Ég til dæmis er sjálfur hættur að vitna í Woody Allen því ég finn að maður fær alltaf svip. Ég bara sleppi því.“ Þarna á Arnar Egg­ert við um leik­stjór­ann fræga sem hefur verið ásak­aður um mis­notkun á barni.

Woody Allen ásamt  Soon-Yo Previn í Cannes Mynd: EPA

En hefur hann fundið fyrir því í eigin brjósti hvort hann vilji hætta að vitna í fyrr­nefndan leik­stjóra eða kom þrýst­ing­ur­inn ein­ungis utan frá? „Ég er bara ekki viss – ég er svona mis­volgur og heitur þegar aðilar eiga í hlut. Með Woody Allen er ég hrein­lega ekki viss. Varð­andi Bill Cosby þá finn ég innra með mér að ég hef ekki lyst á því að horfa á þætt­ina hans. Þetta er mjög furðu­legt allt sam­an.“

Bill Cosby er banda­rískur grínisti sem var sak­felldur fyrir tveimur árum fyrir kyn­ferð­is­brot sem áttu sér stað fyrir meira en ára­tug áður. Mál hans varð umtalað – en lengi hafði verði orðrómur um hegðun hans gagn­vart kon­um.

Arnar Egg­ert segir að stóra spurn­ingin sé sú hvort hægt sé að aðgreina lista­mann­inn frá list­inni sjálfri. Hann telur að rosa­lega erfitt sé að svara þeirri spurn­ingu. „Sumir segja að það sé hægt að aðgreina þetta tvennt og aðrir bara alls ekki. Síðan er hægt að rök­ræða það út í hið óend­an­lega. Þetta er í raun stór­heim­speki­leg spurn­ing.“

Auglýsing

Úti­lok­un­ar­menn­ing ekki skammar­yrði

Hegðun fólks er oft ólík þeirri sem það sýnir á inter­net­inu. Þannig virð­ist heilt yfir vera auð­veld­ara fyrir fólk að tjá sig og vera leið­in­legt á net­inu, að mati Arn­ars Egg­erts. Auð­veld­ara sé að vera dóna­legur við aðra á net­inu þar sem fólk þurfi ekki standa augliti til auglit­is.

Honum finnst þó ekki vera hægt að ganga svo langt að segja að úti­lok­un­ar­menn­ing sé skammar­yrði, eins og sumir vilja halda fram.

„En um leið tek ég undir það að ákveðin stemn­ing í kringum úti­lok­un­ar­menn­ingu lík­ist norna­brenn­um. Fólk fer offari. Við sjáum stundum hversu mikil hóp­dýr við erum í þessum aðstæð­um, við sveifl­umst með stemn­ingu nán­ast án þess að pæla mikið í því.“

Metoo-­bylt­ingin jákvæð – en stundum hafi verið farið offari

Þegar Arnar Egg­ert er spurður út í hvað það þýðir að axla ábyrgð. Hann bendir á að metoo-­bylt­ingin hafi fellt stóra menn á borð við Bill Cosby og Har­vey Wein­stein. Hann segir að þetta séu aug­ljós dæmi um það sem vannst með metoo.

Kvik­­­mynda­fram­­­leið­and­inn Har­vey Wein­­­stein var dæmdur í 23 ára fang­elsi fyrr á þessu ári fyrir kyn­­­ferð­is­brot og nauð­g­un. Segja má að metoo-­bylt­ingin fyrir þremur árum hafi haf­ist með því að konur stigu fram og greindu frá ósæmi­legri og brot­legri hegðun Wein­steins.

„Þegar við sjáum hreina og beina upp­ræt­ingu á ákveðnu mynstri sem hafði við­geng­ist og við­haldið með rosa­legu félags­neti í kringum hann í ára­tugi. Það segir okkur svo mikið um það hvernig við sem mann­eskjur getum geng­ist við ein­hverju með því til dæmis að segja: „Þú veist hvernig hann er.“ Mér finnst það vera svaka­lega jákvæð þróun að setja mörk við svona hegð­un,“ segir hann.

Þannig hafi metoo-­bylt­ingin verið mjög jákvæð. „En svo eins og með allt þá er stundum farið offari – og það er mjög erfitt að greina hvenær það nákvæm­lega ger­ist. Þá þarf að taka hvert dæmi fyrir sig, vegna þess að þau eru ólík og á mis­mun­andi svið­u­m.“

Arnar Eggert gagnrýnir ákveðna þætti í útilokunarmenningu en segir að hugtakið ætti þó ekki að vera skammaryrði.
Aðsend mynd

Hvað þýðir í raun og veru að vera úti­lok­að­ur?

Hinir ýmsu leik­ar­ar, stjórn­mála­menn, uppi­stand­arar og lista­menn hafa opin­ber­lega verið úti­lok­aðir – þ.e. kall­aðir til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar af sam­fé­lag­inu. Þá má spyrja hvort það að vera úti­lok­aður á inter­net­inu hafi raunaf­leið­ing­ar. Hefur það raun­veru­leg áhrif á stöðu, vald og áhrif ein­stak­lings­ins?

Fleiri spurn­ingar vakna á borð við hvað það þýði að halda öllu tengsla­neti og starfi þrátt fyrir að vera úti­lok­að­ur. Hefur hug­takið ein­hverja merk­ingu?

Arnar Egg­ert segir að sitt sýn­ist hverj­um. Hann telur þó að fólk sé annað hvort úti­lokað eða ekki. Sumir hafa kom­ist „í gegn“ og telur hann erfitt að segja hvaða þættir það séu sem valdi því að fólk geti haldið áfram að starfa á sama sviði.

„Björn Bragi tók þannig á því að hann fór aftur í grínið og gerði grín að því sem kom fyrir hann. Fólk er mjög mis­á­nægt með þá nálg­un. Það fer kannski líka eftir því hvaða kyni þú til­heyr­ir, ég varð var við það. Þetta að menn hafi – af því að þeir eru í ákveð­inni styrkri stöðu – ein­hvern veg­inn spilað þetta vel,“ segir hann.

Í þessu sam­hengi veltir hann því fyrir sér hvernig hægt sé að mæla hversu alvar­legt brotið þurfi að vera til þess að fólk sé úti­lok­að. „Er í lagi að strjúka óvið­ur­kvæmi­lega? Þarf að nauðga einu sinni, tvisvar eða þrisvar? Hver ákveður það?“ spyr hann.

Auglýsing

Um 150 rit­höf­und­­ar, aðgerða­sinnar og fræði­menn, meðal ann­­ars J.K. Rowl­ing, Marga­ret Atwood, Salman Rushdie og Noam Chom­sky, skrif­uðu und­ir opið bréf, sem birt var í júlí síð­ast­liðnum í Harper‘s Mag­azine, þar sem beðið var um svig­rúm til að hafa ólíkar skoð­an­ir. 

„Við verðum að við­halda mögu­leik­anum á því að geta verið ósam­mála í góðri trú án alvar­legra afleið­inga gagn­vart starfs­ferli okk­ar. Ef við stöndum ekki vörð um þann grund­völl sem vinna okkar hvílir á þá getum við ekki búist við því að almenn­ingur eða ríkið standi vörð um hann fyrir okk­ur,“ sagði í loka­orðum bréfs­ins en lesa má bréfið í heild sinni hér að neð­an­.  

Opið bréf varðandi réttlæti og opna umræðu

Menningarstofnanir okkar standa frammi fyrir áskorun á þessu augnabliki. Kröftug mótmæli í þágu kynþáttajafnréttis og samfélagslegs réttlætis eru að leiða til löngu tímabærra krafna um löggæsluumbætur, auk víðtækari krafna um meira jafnrétti og meðtekningu í samfélagi okkar, ekki síst hvað varðar háskólamenntun, blaðamennsku, góðgerðastarfsemi og listir. En þetta nauðsynlega uppgjör hefur einnig fært í aukana ný siðferðisleg viðmið og stjórnmálalega málstaði sem eiga það til að veikja opinbera umræðu og umburðarlyndi okkar fyrir fjölbreytni og ýta undir hugmyndafræðilega fylgispekt. Um leið og við fögnum fyrrnefndri þróun vörum við við hinni síðarnefndu. Öflum umburðarleysis vex ásmegin víða í veröldinni og þau eiga voldugan bandamann í Donald Trump, sem er veruleg ógn gegn lýðræðinu. En ekki má leyfa andspyrnu að steingervast þannig að hún verði sjálf að kreddutrú eða valdbeitingartóli – nokkuð sem hægrisinnaðir lýðskrumarar eru nú þegar byrjaðir að nýta sér. Lýðræðislegu meðtekningunni sem við þráum verður aðeins komið í kring ef við tölum gegn því andrúmslofti umburðarleysis sem sækir að henni núna úr öllum áttum.

Frjálsri framsetningu upplýsinga og hugmynda, sem er frjálslyndu samfélagi lífsnauðsynleg, eru daglega fleiri skorður settar. Þó svo að við búumst við þessari hegðun hjá róttæku hægrifólki eru ritskoðunartilhneigingar að breiðast út enn víðar í menningu okkar: óþol fyrir gagnstæðum skoðunum, sú tíska að fólk sé útilokað með skömm í hattinum, og tilhneigingin til að drepa flóknum spurningum um opinbera stefnu á dreif með blindandi siðferðislegum einstrengingshætti. Við kunnum að meta hressileg og jafnvel harðorð andmæli úr öllum áttum. En nú er orðið alltof algengt að kallað sé eftir skyndilegum, alvarlegum hefndaraðgerðum til refsingar fyrir meint afglöp í ræðu og hugsun. Enn frekari ugg vekur sú staðreynd að leiðtogar ýmissa stofnana eru farnir að útdeila fljótfærnislegum og hlutfallslega ósanngjörnum refsingum í fátkenndum tilraunum sínum til skaðaminnkunar, í stað þess að stuðla að vel ígrunduðum umbótum. Ritstjórar eru reknir fyrir að birta umdeildar greinar, bækur eru teknar úr umferð vegna ásakana gegn trúverðugleika innihalds þeirra, blaðamönnum er bannað að skrifa um tiltekin umfjöllunarefni, háskólaprófessorar sæta rannsóknum fyrir að vitna í bókmenntaverk í kennslustundum, fræðimanneskja er rekin fyrir að deila ritrýndri fræðilegri rannsókn og framámönnum samtaka er úthýst, stundum fyrir klaufaleg mistök. Hvert sem ósættið hefur verið í hverju tilfelli fyrir sig er ljóst að þetta hefur orðið til þess að endimörk þess hvað segja megi án þess að eiga yfir höfði sér hefndaraðgerðir hafa dregist saman. Við erum nú þegar farin að sjá afleiðingar þessa í því hversu hikandi rithöfundar, listamenn og blaðamenn eru orðnir við að taka áhættu, enda eru þeir uggandi yfir því hvað yrði um afkomu þeirra ef þeir myndu víkja frá ráðandi skoðunum, eða jafnvel ef vandlæting þeirra í þágu málstaðarins myndi teljast ónægilega sterk.

Þetta kæfandi andrúmsloft mun á endanum skaða mikilvægustu málstaði samtíma okkar. Takmörkun umræðunnar, hvort sem hún er á vegum undirokandi stjórnvalda eða umburðarlauss samfélags, kemur undantekningalaust niður á hinum valdalausu og dregur úr möguleikum okkar allra til lýðræðislegrar þátttöku. Aðeins er mögulegt að sigrast á slæmum hugmyndum með gagnsæi, rökræðum og fortölum, ekki með því að þagga niður í þeim eða óska þess að þær hverfi. Við höfnum því að valið standi á milli réttlætis og frelsis, enda getur hvorugt þeirra án hins verið. Sem rithöfundar þörfnumst við menningar sem gefur okkur pláss til þess að gera tilraunir, taka áhættur og jafnvel gera mistök. Við verðum að viðhalda möguleikanum á því að geta verið ósammála í góðri trú án alvarlegra afleiðinga gagnvart starfsferli okkar. Ef við stöndum ekki vörð um þann grundvöll sem vinna okkar hvílir á þá getum við ekki búist við því að almenningur eða ríkið standi vörð um hann fyrir okkur.

Bréfið fékk þó mis­jafnar við­tök­ur. Margir fögn­uðu umræð­unni en aðrir gagn­rýndu þá sem skif­uðu und­ir. Rit­höf­und­ur­inn Jenni­fer Finney Boylan baðst afsök­unar á því að hafa skrifað undir bréfið eftir að hún sá hverjir aðrir skrif­uðu undir það en lík­leg­ast var hún að vísa í und­ir­skrift J.K. Rowl­ing vegna ummæla hennar um trans fólk. 

Erfitt að eiga núanser­aða umræðu um málið

Kjarn­inn leit­aði einnig til Elísa­betar Ýrar Atla­dóttur aðgerða­sinna en hún segir að úti­lok­un­ar­menn­ing sé marg­slungið fyr­ir­bæri. Margir vilji jafn­vel halda því fram að fyr­ir­bærið sé ekki til og að stundum sé auð­velt að vísa því á bug sem beisk­leika yfir því að vera úti­lok­að­ur.

Þá hefur hún enn fremur tekið eftir því að fólk fái ein­hvers konar inter­net-­stig fyrir að úti­loka aðra – meðal ann­ars í formi „læka“ og „end­ur-­tísta“.

Að sama skapi séu lang­há­vær­ustu radd­irnar sem kvarta yfir úti­lok­un­ar­menn­ingu frá þeim sem verið sé að gagn­rýna fyrir ras­isma eða kven­hat­ur. „Þá er auð­velt að taka ekki mark á þeim röddum sem segja að kannski sé þetta orðið vanda­mál,“ segir hún.

Þannig sé erfitt að eiga núanser­aða umræðu um mál­efnið „því allir eru í svo mik­illi vörn og að passa sig svo mikið – og eng­inn vill heldur vera úti­lok­aður sjálf­ur.“ Ef ein­hver spyr hvort umræður á net­inu séu hugs­an­lega að ganga of langt þá séu líkur á að umræðan snú­ist gegn ein­stak­lingnum sem spyr spurn­ing­ar­inn­ar. Þannig sé ákveðin hræðsla við það að tjá sig um úti­lok­un­ar­menn­ingu.

Fólk skipt­ist í tvo hópa

Elísa­bet Ýr segir að við fyrstu sýn virð­ist úti­lok­un­ar­menn­ing vera borð­leggj­andi – en þegar nánar sé að gáð flækj­ast mál­in.

Fólk skipt­ist iðu­lega í tvo hópa varð­andi úti­lok­un­ar­menn­ingu; með eða á móti. „Þetta er aftur á móti miklu núanser­aðri umræða, sér­stak­lega þegar við spyrjum okkur um hvað verið sé að tala. Erum við að tala um stjórn­mála­menn eða instagram-­stjörn­ur?“ spyr hún. Mik­ill munir sé þarna á.

Þingmenn Miðflokksins sem sátu á Klaustur bar og viðhöfðu niðrandi ummæli um samferðafólk sitt sitja enn á þingi þrátt fyrir að hafa verið útilokaðir um stund.
Samsett mynd

Hún tekur Klaust­ur­málið svo­kallað sem dæmi í þessu sam­hengi. Þar voru stjórn­mála­menn úti­lok­aðir fyrir orð­ræðu sem þeir við­höfðu en þeir héldu störfum sínum áfram þrátt fyrir það eins og ekk­ert hefði í skorist. Hún telur að instagram-­stjarnan ætti hugs­an­lega erf­ið­ara með að jafna sig eftir við­líka útskúfun og koma til baka.

Elísa­bet Ýr bendir enn fremur á að fólk sé í raun aldrei algjör­lega úti­lok­að, þ.e. að ein­hver geri eitt­hvað eða segi sem ekki fellur í kramið og að sá hinn sami eigi aldrei aft­ur­kvæmt á sam­fé­lags­miðla.

Úti­lok­unin end­ist illa

Varð­andi við­brögð fólks við því þegar það mis­stígur sig þá telur Elísa­bet Ýr það skipta máli hvernig ein­stak­ling­arnir sem um ræðir bregð­ist við.

Eitt dæmi þess er þegar Björn Bragi Arn­ars­son, grínisti og uppi­stand­ari, var á sínum tíma úti­lok­aður þegar upp komst um kyn­ferð­is­legt áreiti hans gegn ungri konu í októ­ber 2018 en í kjöl­farið baðst hann afsök­unar og tók stúlkan þeirri afsök­un­ar­beiðni, sem og fjöl­skylda henn­ar.

Elísa­bet Ýr segir að þrátt fyrir allt þá hafi það þó ekki verið umræðu­efnið í raun. „Í þessu til­felli náði umræðan að snú­ast þannig að þetta varð að ómerki­legu og pirr­andi umræðu­efni. Þá nennti eng­inn að hugsa um þetta leng­ur. Hann var þannig „cancelled“ í mjög stuttan tíma.“

Björn Bragi uppistandari lofaði „persónulegra gríni en áður“ þegar hann kynnti nýja sýningu í ágúst í fyrra.
Skjáskot

Þessi svo­kall­aða úti­lokun end­ist illa, að hennar mati. „Oft endar þetta með meiri vin­sældum ef þau spila þetta rétt. Ég held reyndar að Björn Bragi hafi ekki náð meiri vin­sældum en hann að minnsta kosti kom út á núlli. Þetta hafði engin sér­stök áhrif á hann. Jú, kannski leið honum illa, ég veit það ekki, en von­andi lærði hann eitt­hvað af þessu. En á end­anum var hann ekki að missa nein gigg.“

Það sama megi segja um Egil Ein­ars­son, eða Gillz eins og hann kall­aði sig, en hann var kærður fyrir nauðgun árið 2011 en kærunni var vísað frá á sínum tíma. „Það má ekk­ert segja um hvernig hann var úti­lok­að­ur, þú verður bara kærð,“ segir hún.

Konur lenda verr í hakka­vél­inni en karlar

Elísa­bet Ýr telur ljóst að auð­veld­ara sé að úti­loka konur en karla. „Það er þetta klass­íska kven­hat­ur. Það er svo inn­byggt í okkur að ef kona nær langt þá er ógeðs­lega gaman að sjá hana falla. Djöf­ull finnst fólki það gam­an. Og þá er auð­velt að ná konu niður og skemma fyrir henni frekar en karli því mörgum finnst gaman að sjá karl ná árangri. Ef fólk sér karl­inn rif­inn niður þá er eitt­hvað plott í gangi – en ef konan er rifin niður þá á hún það skil­ið.“

Þessi kynja­vídd er svo lúmsk oft og tíð­um, að hennar sögn. Elísa­bet Ýr segir að Twitter sé ein­stak­lega auð­veldur vett­vangur til að úti­loka fólk, því engin umræða eigi sér raun­veru­lega stað þar. Eng­inn eigi í raun núanser­aða umræðu þar.

„Mér finnst mjög mikið af konum lenda í hakka­vél­inni á Twitter og lenda verr í henni en nokkurn tím­ann karl­ar. Þetta er venju­lega ekki fólk með nein völd, bara fólk sem er orðið opin­berar per­sónur vegna þess að það er orðið vin­sælt á til dæmis Instagram. Ekki þurfi mikið að ger­ast til þess að það verði úti­lok­að,“ segir hún.

Margir til­búnir að vera hneyksl­aðir með þér

Elísa­bet Ýr bendir enn fremur á að sam­fé­lags­miðlar séu orðnir stór hluti af lífi fólks – og telur hún að ekki sé hægt að fella mikla gild­is­dóma á þá, þ.e. hvort þeir séu góðir eða slæmir fyrir umræð­una. „Þetta er líka svo mik­ill hluti af þró­un­inni sem við erum að ganga í gegnum núna. Allt sam­fé­lagið er í raun komið á sam­fé­lags­miðla, ef þú ert ekki á sam­fé­lags­miðlum þá er nær ómögu­legt að vita hvað þú ert að gera. Ertu til í alvör­unn­i?,“ segir hún og hlær.

Það sem sé gott og slæmt við sam­fé­lags­miðla er það sem sé gott og slæmt við fólk almennt. „Þetta er svona ýkt á sam­fé­lags­miðlum vegna þess að það er svo auð­velt að þróa eitt­hvert „trend“ á sam­fé­lags­miðlum – og það er rosa­lega auð­velt að láta hneyksl­un­ina verða stóra vegna þess að það eru svo margir til­búnir að vera hneyksl­aðir með þér og það er hægt að finna mjög rétt­mætar ástæður til þess.“

Hún segir létt í bragði að hún sé síð­asta mann­eskjan til að gagn­rýna það þegar fólk hneyksl­ast á net­inu. „Þetta er samt ákveð­inn þroski sem við göngum nú í gegn­um. Eftir metoo þá fór það að verða þannig að hægt var að kalla fólk til ábyrgð­ar. Við erum enn í þeirri öldu; að krefj­ast ábyrgðar af fólki og að læra hvernig það getur gerst. Ég held að þetta sé partur af þeirri þró­un, við erum ennþá að læra hvernig við getum kraf­ist ábyrgðar og á sama tíma gert það á hátt sem vit er í – og er á ein­hvern hátt upp­byggi­legur fyrir fólkið sem þarf á þessu að halda. Núna er þetta að mörgu leyti nið­ur­rif en mér finnst þetta vera að þró­ast áfram. Hvert það fer er síðan óljóst.“

Elísabet Ýr segir að erfitt sé að eiga núanseraða umræðu um útilokunarmenningu.
Aðsend mynd

Erum enn í metoo-­bylgju

Varð­andi metoo-­bylt­ing­una sem hófst fyrir þremur árum og áhrif hennar þá segir Elísa­bet Ýr að sam­fé­lagið sé enn í þeirri bylgju, þrátt fyrir að hún sé ekki eins stór og áður. Þó rís hún á ólíkum stöðum á ólíkum tímum eins og nú er að ger­ast í Dan­mörku. Mis­mun­andi bylgjur eigi sér stað innan ólíkra stétta – bylgjan rís og dalar því á mis­mun­andi tímum á mis­mun­andi stöð­um.

„Hver ein­asta bylgja skilur eftir sig meiri lær­dóm, þannig að fyrstu bylgj­urnar end­uðu í miklu rifr­ildi þar sem allt var brjál­að. Eng­inn vissi hvernig ætti að haga sér,“ segir hún. Núna aftur á móti sé fólk búið að læra af þess­ari fyrstu umræðu – og þannig verði það sífellt skiln­ings­rík­ara.

„Þessi lær­dómur er ennþá að eiga sér stað og mér finnst ég sjá fólk enn vera að átta sig á því hvernig það á að takast á við þessa umræðu vegna þess að nú eru komin for­dæmi sem ekki voru til áður,“ bendir hún ár.

Ekki hægt að aftengja lista­mann­inn frá list­inni – en þetta er ekki svo ein­falt

Hvað á þá að gera við lista­menn­ina sem verða upp­vísir að óvið­eig­andi hegðun og list þeirra? Elísa­bet Ýr seg­ist í því sam­bandi ekki vera með svör á reiðum hönd­um, þau séu vissu­lega ekki aug­ljós.

„Vegna þess að það er ofsa­lega mikið af mik­il­vægri list og mik­il­vægri fram­för þar sem gott fólk hefur komið að. Mér finnst samt ekki að við getum aftengt lista­mann­inn og list­ina. Það er ákveðin mót­sögn; þú getur ekki aftengt hluti sem tengj­ast. Það er bara ekki hægt,“ segir hún.

Hún vill frekar spyrja hvort eitt­hvað gott sé að koma út úr þessu eða hinu verki eða eitt­hvað slæmt. Það finnst henni skipta meira máli en hvort lista­mað­ur­inn sé „skít­hæll eða ekki“. Hvort verkið sé í raun­inni beint eða óbeint að setja slæm við­horf lista­manns­ins út í sam­fé­lag­ið.

„Þannig finnst mér ekki hægt að aftengja lista­mann­inn frá verk­inu en að sama skapi finnst mér skipta máli að horfa á verkið og spyrja hvort það sé að setja slæm við­horf út í sam­fé­lag­ið. Er þetta verk að kenna mér að hata fólk, eða að vera kven­hat­ari eða ekki? Hvað er þetta verk að segja mér?“

Hún hefur mikið velt fyrir sér hug­taki sem nefn­ist skrímsla­væð­ing en með því að afskrímsla­væða ger­endur þá er hægt að gera sér grein fyrir því að góðir menn geta gert slæma hluti. „Mér finnst þetta sam­tal um að aftengja lista­mann­inn lykta af ákveð­inni skrímsla­væð­ing­u.“

Auglýsing

Erum öll hluti af heild­inni

Elísa­bet Ýr bendir á vanda þegar við tölum um list og úti­lok­un­ar­menn­ingu sem liggur í því hvort við rétt­lætum sjálf list vegna þess að okkur langar að líka við hana. „Frá hvaða stað kemur rétt­læt­ing­in?“ spyr hún og bætir því við að hún viti sjálf ekki endi­lega svörin við þessum spurn­ing­um.

Elísa­bet Ýr telur enn fremur mik­il­vægt að ein­stak­ling­svæða ekki umræð­una, þ.e. að segja að þetta sé ein­ungis per­sónu­leg ákvörðun hvers og eins. Hún bendir á að við séum öll hluti af heild­inni; partur af kerf­inu. Þetta sé allt hluti af stærri menn­ingu og ef við getum fundið teng­ing­arnar – og gert það á hátt án þess að smána fólk fyrir skoð­anir þess.

Hver er raun­veru­lega með vald­ið?

Þegar talið berst að valdi, hefur Elísa­bet Ýr mikið að segja. Frá því sam­fé­lags­miðlar komu til skjal­anna hefur orð­ræðan verið á þá leið að valdið hafi verið fært að ein­hverju leyti til almenn­ings.

Alltaf þegar hún heyrir orðið vald, þá spyr hún sig: „Hvernig vald?“ Hún segir að vert sé að spyrja þegar talað er um vald hver áhrifin raun­veru­lega séu. Hefur orð­ræða á net­inu virki­lega áhrif á laga­setn­ing­ar? Ef svarið er nei, þá er ekki um raun­veru­legt vald að ræða, að hennar mati.

„Rosa­lega mikið af umræðu sem við eigum sem sam­fé­lag er mjög góð og miklu fleiri taka þátt í henni en áður – en svo er kerfið nákvæm­lega eins og það var fyrir fimm­tíu árum. Þarna sé ég ekki raun­veru­legt vald,“ segir hún.

Athygli á sam­fé­lags­miðlum ekki raun­veru­legt vald

Athygli getur verið afskap­lega yfir­borðs­legt vald, að mati Elisa­betar Ýrar. Hversu mörg „læk“ ein­hver fær á stöðu­upp­færslu á Face­book eða end­ur­deil­ingar á Twitter sé þannig ekki vald. Ein­ungis ef hægt er að gera raun­veru­legar breyt­ingar sé mögu­legt að tala um vald.

Vissu­lega sé auð­veld­ara en áður fyrir fólk að koma sér inn í umræð­una, og jafn­vel færa sér völd – hugs­an­lega sé auð­veld­ara núna að hrinda hug­myndum í fram­kvæmd og ná til fólks sem er með raun­veru­leg völd til að vinna að þeim.

„Ég held aftur á móti að það sé ekk­ert vald falið í umræð­unni, þannig séð. Þetta er kannski svart­sýni en ég hef samt tekið eftir því að þrátt fyrir til dæmis metoo þá eru nákvæm­lega sömu málin í rétt­ar­kerf­in­u.“ Þar breyt­ist lítið sem ekk­ert þrátt fyrir metoo.

Elísa­bet Ýr spyr jafn­framt hvort ein­hver sé raun­veru­lega að hlusta þrátt fyrir að ein­stak­lingar hafi millj­ónir fylgj­enda. „Margir halda að ef þú ert með marga fylgj­endur og færð mörg „læk“ þá sértu með ein­hver völd eða ein­hverja stjórn.“ Hún heldur því fram að hin raun­veru­legu völd liggi hjá þeim sem búa til sjálf lögin og regl­urnar – en ekki þeim sem hafa hvað hæst á sam­fé­lags­miðl­um.

123RF

Mik­il­vægt að valda­fólk sé dregið til ábyrgðar

Sam­talið við Elísa­betu Ýr hófst á því að ræða gagn­rýni á úti­lok­un­ar­menn­ingu. Hún vill því taka það sér­stak­lega fram að hún vilji alls ekki að fólk haldi að hún tali gegn því að fólk láti í sér heyra eða að ein­stak­lingar séu dregnir til ábyrgð­ar. „Því mér finnst rosa­lega mik­il­vægt að við getum dregið valda­fólk til ábyrgð­ar. Þá er ég ekki að tala um ein­hverja 16 ára stelpu sem er að vera hálf­viti á inter­net­inu – mér finnst að full­orðið fólk þurfa að haga sér.“

Hún segir að fólk þurfi jafn­framt að geta lært af mis­tökum sín­um. „Ég er viss um að hver ein­asta mann­eskja sem hefur verið á inter­net­inu hefur ein­hvern tím­ann verið hálf­viti þar. Það er bara þannig. Þetta er sann­leik­ur­inn, við getum ekki tekið þessa lær­dóma úr okk­ur. Við þurfum að geta sagt: „Ég hef lært þessa hluti og þeir voru ofsa­lega mik­il­vægir fyrir mig að læra. Þetta er núna í for­tíð­inni hjá mér“ – án þess að ein­hver komi og rifji eitt­hvað eld­gam­alt upp á ein­hverri síð­u.“

Varð­andi það að úti­lok­un­ar­menn­ing sé ofbeldi út af fyrir sig, eins og sumir hafa haldið fram, þá hlær hún og segir að svo sé ekki. „Rosa­lega mikið af fólki sem kallar þetta úti­lok­un­ar­menn­ingu er pirrað yfir því að ein­hver sé dreg­inn til ábyrgð­ar. Að kalla það ofbeldi að benda á ofbeldi eða eitt­hvað sem var gert rangt er ansi fimmára­legt. Ég tek það alls ekki til greina,“ segir hún.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar