Forstjóri CIA lét nýlega orð falla sem stjórnmálaskýrendur telja tímamótaummæli um bandaríska utanríkisstefnu – sem hefur auðvitað verið nefnt í almennri umræðu lengi vel – að íhlutun Bandaríkjamanna í málefni annarra ríkja auki á ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Eftir árásirnar á Tvíburaturnana árið 2001 héldu Bandaríkjamenn í tvær herfarir. Fyrst inn í Afganistan – með víðtækum stuðningi alþjóðasamfélagsins – þar sem stjórn Talibana, sem skotið hafði skjólshúsi yfir Osama Bin Laden, var komið frá völdum. Vorið 2003 réðust Bandaríkin síðan inn í Írak, við mismikinn stuðning eða fögnuð bandamanna þeirra. Áður höfðu þau gegnt lykilhlutverki í íhlutun vesturlanda vegna átakanna á Balkanskaga. Eftir kjör Baracks Obama árið 2008 hefur sýnilega dregið úr sambærilegum íhlutunum, sem voru órjúfanlegur hluti utanríkisstefnunnar um árabil.
Ástæðan er að hluta til sparnaður þar sem landhernaður er mjög kostnaðarsamur og nauðsynlegt að stýra fjármunum þangað sem þeirra er meiri þörf – auk þess sem hann er mjög áhættusamur. Þessi nýja stefna sýndi sig í Líbýu árið 2011 þar sem Bandaríkjamenn höfðu haldið sig til hlés í fyrstu en tóku með semingi við skipulagi og stjórn aðgerða – leiddu aftanfrá.
Tveimur árum seinna, í Malí, var sama upp á teningnum en þá drógu Bandaríkjamenn enn úr framlagi sínu og íhlutun þegar þeir létu Frakka um beinar aðgerðir en studdu við þær að ofan eins og það var kallað. Þá var brotið blað í sögunni þegar Bandaríkjamenn fóru fram á greiðslu frá Frökkum fyrir leigu á flugvél vegna liðsflutninga. Það varð þó ekki raunin á endanum en sýnir glögglega þá stefnu sem Bandaríkjamenn hafa verið að taka í NATO-samstarfinu—að kalla eftir meira frumkvæði og framlagi annarra bandalagsríkja.
Þessi stefnubreyting Obama er í samræmi við þá raunhyggju sem birtist í bandarískri utanríkisstefnu – að Bandaríkin blandi sér ekki í málin nema að beinir hagsmunir þeirra séu í húfi. Þetta markast einnig af því að bein stríðsátök eru núorðið frekar innan ríkja en milli þeirra, gjarnan milli uppreisnarhópa og vopnaðra sveita sem styðja tiltekinn málstað. Samfara því að horfið er frá beinni íhlutun aukast möguleikar fyrir annars konar hernað, til dæmis notkun dróna til afmarkaðra árása á einstök skotmörk eins og aðsetur skæruliðahópa.
Ólga meðal hauka
Þetta er líklega skynsamleg stefna en kallar á ólgu innanlands því á sama tíma hafa ríki eins og Kína gert sig líkleg til stórræða á alþjóðasviðinu og stefna hraðbyri upp að Bandaríkjunum sem forysturíki í heiminum. Uppgangur hryðjuverkasamtaka sem hugsa vesturlöndum, og sér í lagi Bandaríkjamönnum, þegjandi þörfina veldur ýmsum hópum í Bandaríkjunum einnig áhyggjum. Þessir hópar, m.a. þeir sem kallaðir hafa verið haukar og ný-íhaldsmenn (e. neocon), hafa því gagnrýnt þá linkind sem Obamastjórnin á að hafa sýnt—með þeim afleiðingum að Bandaríkjamenn séu að missa stöðu sína sem forysturíki á heimsvísu.
Úr þessum ranni heyrist gjarnan að heimurinn sé sífellt að verða hættulegri og ógnir sem beinist gegn Bandaríkjunum hafi aldrei verið meiri. Fráfarandi yfirhershöfðingi Bandaríkjanna, Martin Dempsey lýsti ástandinu fyrir Bandaríkjaþingi á þann veg að heimurinn væri hættulegri en nokkru sinni fyrr – og vísaði þá til ógna af völdum hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkið. Á sama hátt hélt hinn þrautreyndi Henry Kissinger því fram að Bandaríkjamenn hefðu ekki staðið frammi fyrir jafn fjölbreyttum og flóknum vandamálum síðan í lok síðari heimsstyrjaldar.
Heimur versnandi fer (Ekki)
Kenningar um öryggisvæðingu segja orðræðu vera eitt grundvallaratriðið og það hvernig gengur að koma ákveðnum hugmyndum inn í orðræðuna í byrjun skipti þar miklu. Ótti er lykilatriði í þessu samhengi því hann er sterkt afl og óöryggi skapar ótta—og þá erum við komin með ansi öflugt stjórntæki.
Gallinn við bandaríska stjórnkerfið er sá að báðir aðilar (repúblikanar og demókratar) hagnast á því að tala upp ógnir gagnvart þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Repúblikanar nota varfærni demókrata gagnvart meintum ógnum sem vönd til að berja á þeim. Að sama skapi vita demókratar að með því að blása í herlúðra ná þeir fylgi frá hinum vængnum. Stjórnmálamenn gera sér jafnframt grein fyrir því að þeir sem fá heimsmynd sína af fréttum munu líklega alltaf álíta að heimurinn fari versnandi. – en gerir hann það?
Fræðimennirnir Steven Pinker og Andrew Mack hafa komist að því að heimurinn fari í raun batnandi og öryggi hafi aukist almennt. Þeir benda á að sífelldur fréttaflutningur allan sólarhringinn af heimsviðburðum virðist fá fólk til að halda að ofbeldi og ófriður fari vaxandi í heiminum. Skýringin er nærtæk því fréttir eru sagðar af því sem gerist – en ekki því sem gerist ekki. Síðan eru það sjónvarpsstöðvar eins og CNN og Fox sem blása fréttir gjarnan upp eins og um dramatískan spennuþátt sé að ræða.
Óttinn magnaður upp
Stephen M. Walt, kunnur fræðimaður á sviði alþjóðasamskipta, tekur í sama streng: „Ótti er það sem lætur Bandaríkin eyða meiru í varnarmál heldur en næstu 12 ríki á listanum samanlagt, tryggir kosningu stjórnmálamanna, réttlætir fyrirbyggjandi stríð, óhóflega leyndarhyggju stjórnvalda, leynilegt eftirlit og dráp eftir pöntunum. Ótti heldur fólki fyrir framan skjáinn að horfa á CNN og Fox og eins og bæði lýðræðisforingjar og einræðisherrar hafa lengi vitað, má fá fólk til að samþykkja allskonar vitleysu sé það nógu hrætt.“
Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin árið 2001 voru notaðar til að réttlæta stríðið gegn hryðjuverkum. Walt bendir á tvískinnunginn þegar metið er það tjón sem þær ollu. Þá hafi tæplega 3000 manns látið lífið og áætlað að 178 milljarðar bandaríkjadala hafi tapast. Þó ekki megi gera lítið úr þessu þá fölna þessar tölur bornar saman við tjónið sem Bandaríkin sköpuðu sjálf vegna hinnar vanhugsuðu innrásar í Írak. Þar týndu tæplega 4500 bandaríkjamenn lífi og yfir 32 þúsund særðust – auk hundruða þúsunda Íraka, fallinna og særðra – í tilgangslausu stríði sem kostaði þrjár billjónir dollara—sem er 17 falt tjónið af árásunum 11. september 2001.
Niðurstaðan er fallið ríki í Írak, uppgangur Íslamska ríkisins og dreginn máttur úr NATO-aðgerðum í Afganistan sem kostuðu eina billjón til. Stríðið gegn hryðjuverkum hafi leitt til óhóflegrar öryggisvæðingar með brotum ríkisvaldsins á rétti borgaranna á verulega umdeildum lagagrunni og afleitrar ímyndar Bandaríkjanna á heimsvísu. Þetta hafi engir utanaðkomandi óvinir þröngvað þeim til að gera heldur hafi stjórnmálamenn á báðum vængjum séð um það hjálparlaust.
Þurfa að hætta að reyna að ráðskast með Mið-austurlönd
Það að til séu öfgaöfl undir merkjum Íslam sem vilja berja á vesturlöndum, Bandaríkjunum einna helst, ætti ekki koma neinum á óvart. Bandaríkin, Bretland og Frakkland beittu diplómatískum brögðum og komu af stað byltingum, stríðum og leynilegum aðgerðum í Mið-austurlöndum til að halda vestrænni stjórn á svæðinu—meira og minna alla tuttugustu öld. Þetta vita sagnfræðingar en fólk almennt ekki því margar þessara aðgerða voru jú einmitt leynilegar.
Bandaríkin reka nú fjölda herstöðva í Mið-austurlöndum auk umfangsmikilla hernaðarumsvifa þeirra á svæðinu. Þau hafa fjármagnað ofbeldisverk áratugum saman, vopnað og þjálfað mujahedin skæruliðasamtök (sem síðan varð grunnur að Al Kaída) til að berjast gegn Sovétmönnum í Afganistan; kynt undir stríði milli Íraks og Íran; reynt að koma Assad frá völdum í Sýrlandi; og gert fjölda dróna-árása á undanförnum árum.
Hvort Bandaríkjamönnum hafi loksins tekist að læra af mistökunum er erfitt að segja til um. Hinn virti fræðimaður Jeffrey Sachs segir framferði Bandaríkjamanna ekki réttlæta aðgerðir hryðjuverkamanna en mikilvægt sé að skilja samhengið þarna á milli. Til að stöðva hryðjuverk Íslamskra hryðjuverkamanna sé nauðsynlegt fyrir vesturveldin að hætta að reyna að ráðskast með Mið-Austurlönd.
Jafnvægislist ábyrgra íhlutanna og listin að segja nei
Hvort minnkandi áhugi Bandaríkjanna á íhlutun í málefni annarra ríkja er raunveruleg og varanleg breyting á utanríkisstefnu landsins er erfitt að spá fyrir um. Sjá má á viðbrögðum Bandaríkjanna og NATO við íhlutun Rússlands í Úkraínu að mjög takmarkaður áhugi er á aðgerðum til aðstoðar sem leitt gæti af sér aukna áhættu á beinum hernaðarátökum við Rússland – um leið og fast er að orði kveðið um sameiginlegar varnarskuldbingar NATO-ríkjanna og mikil endurskipulagning bandalagsins á sér stað í þágu hefðbundinna varnarverkefna.
Forsetakosningar eru framundan í Bandaríkjunum á næsta ári og þær munu hafa veruleg áhrif á framhaldið og hvort þróun bandarískrar utanríkisstefnu til meiri varfærni verði varanlegri. Þó gæti brugðið til beggja vona því flestir frambjóðendur úr hópi repúblikana hafa að hætti hauka, haft uppi möntruna umræddu – um auknar ógnir og nauðsyn þess að styrkja hernaðarlega stöðu Bandaríkjanna – því annars muni illa að fara.
Ekki má gleyma að Bandaríkin eru gjarnan skömmuð þegar þau hlutast ekki til, sbr. þjóðarmorðin í Rúanda og Búrúndi á sínum tíma. Sem öflugasta herveldi og lýðræðisríki í heimi geta Bandaríkin ekki dregið sig að fullu til baka, en vonast má til að gætt sé jafnvægis og varfærni gagnvart íhlutunum. Bandaríkjunum myndi vel farnast að læra að segja nei, bæði við önnur ríki sem kunna að knýja dyra, en ekki síst haukanna í eigin röðum.