Hrein nýfjárfesting erlendra aðila á Íslandi var neikvæð um 60 milljarða króna í fyrra. Ástæða þess var aðallega sala þeirra á innlendum hlutabréfum, sérstaklega í Arion banka en erlendir fjárfestinga- og vogunarsjóðir sem áttu hlut í honum seldu fyrir 55 milljarða króna á árinu 2021.
Þetta kemur fram í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem var birt fyrir helgi.
Að sama skapi keyptu erlendir sjóðir í Íslandsbanka fyrir um tíu milljarða króna nettó á síðasta ári, en bankinn var skráður á markað í fyrrasumar og tveir erlendir sjóðir, Capital World Investors og RWC Asset Management LLP, voru á meðal þeirra sem skuldbundu sig til að kaupa hlut í aðdraganda útboðs. Sá síðarnefndi hefur þegar selt hluta af því sem hann keypti.
Neikvæða útflæðið var nær allt á fyrstu þremur mánuðum ársins þegar stærstu erlendu eigendur Arion banka, aðallega vogunarsjóðanna Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management, seldu um þriðjungshlut sinn í bankanum á örfáum vikum fyrir um 60 milljarða króna og fluttu þá fjármuni úr landi.
Því hafa samtals 117 fleiri milljarðar króna í eigu erlendra fjárfesta yfirgefið landið á árunum 2020 og 2021 en hafa komið inn.
Yfirgefa líflegan hlutabréfamarkað
Í Fjármálastöðugleikaritinu segir að umtalsverð verðbréfasala erlendra aðila síðastliðin tvö ár hafi dregið verulega úr heildarstöðu þeirra og þar með áhættu af fjármagnsútstreymi á komandi misserum. „Síðustu mánuði hafa erlendir aðilar fyrst og fremst átt í viðskiptum með íslensk hlutabréf í MSCI FM 100-vísitölunni. Færist íslensk verðbréf úr flokki vaxtarmarkaða í flokk nýmarkaðsríkja gæti það ýtt undir frekara fjármagnsflæði erlendra aðila.“
Þetta gerist á sama tíma og íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið afar líflegur. Frá því að úrvalsvísitala Kauphallarinnar náði lággildi í mars í fyrra hefur hún hækkað um 96 prósent.
Það félag sem hefur leitt hækkunina á árinu 2021 er Arion banka, félagið sem erlendu fjárfestarnir hafa verið að selja sig hratt niður í. Bankinn hefur hækkað um 246 prósent frá því í mars og virði hlutabréfa hans tvöfaldaðist á síðasta ári. Þess utan hefur hann skilað miklum hagnaði, sem hefur leitt af sé að bankinn er að skila tugum milljarða króna til hluthafa sinna.
Vegna frammistöðu síðasta árs greiddi Arion banki alls 22,5 milljarða króna í arð og boðaði enn frekari endurkaup á eigin bréfum. Samanlagt mun Arion banki vera búinn að greiða hluthöfum sínum 86,6 milljörðum króna út úr rekstrinum með arðgreiðslum og endurkaupum frá byrjun árs 2021 miðað við fyrirliggjandi áætlanir. Samt létu erlendir fjárfestar, sem héldu á þriðjungshlut, sig hverfa.
Vaxtamunur að aukast
Í riti Seðlabankans segir einnig að vaxtamunur við útlönd hefur aukist síðustu misserin en verði áframhald á þeirri þróun gæti það ýtt undir fjármagnsinnflæði til landsins. Þar er vísað til þess að svokölluð vaxtamunaviðskipti gætu hafist að nýju, en þau voru stór orsakavaldur fyrir þeirri stöðu sem kom upp á Íslandi fyrir bankahrun.
Þessi vaxtamunaviðskipti áttu stóran þátt í að blása upp þá bólu sem sprakk á Íslandi haustið 2008. Það erlenda fé sem leitaði í íslenska skuldabréfaflokka var endurlánað til viðskiptavina íslensku bankanna og við það stækkaði umfang þeirra gríðarlega. Við hrun, þegar setja þurfti fjármagnshöft á til að hindra útflæði gjaldeyris, voru vaxtamunafjárfestingar vel á sjöunda hundrað milljarða króna.
Höftin héldu peningum inn, þegar þau voru losuð flæddu þeir út
Á Íslandi voru sett fjármagnshöft í nóvember 2008 til að koma í veg fyrir að umfangsmiklar krónueignir, meðal annars í eigu kröfuhafa fallinna banka, væri ekki skipt yfir í aðra gjaldmiðla með tilheyrandi áhrifum á íslensku krónuna. Höftin voru svo losuð að mestu í mars 2017, en ekki að öllu leyti. Enn var til staðar svokölluð bindiskylda. Samkvæmt henni var erlendum fjárfestum gert að festa fimmtung af fjármagni sínu hér til lengri tíma, en með því varð Ísland að óálitlegri kosti fyrir fjárfestingar erlendis frá. Bindiskyldan var svo afnumin í mars 2019.
Bindiskyldan kom í veg fyrir að þeir erlendu aðilar sem áttu fjárfestingar hérlendis, til dæmis í ríkisskuldabréfum eða hlutabréfum skráðra félaga, seldu þær eignir og færu. Þar var að uppistöðu um að ræða fjárfesta sem áttu eignir með rætur í bankahruninu. Um var að ræða til dæmis aflandskrónueigendur eða erlendu sjóðina sem áttu kröfur á Kaupþing og breyttu þeim í hlutafé í Arion banka.
Innbyggður hvati var til að halda fjárfestingunum hérlendis á meðan að bindiskyldan var við lýði. Fyrstu tvo mánuðina eftir að hún var afnumin virtist sem að þessi breytta staða myndi stuðla að jákvæðri þróun fyrir íslenskt hagkerfi. Hrein nýfjárfesting erlendra aðila hérlendis var jákvæð um 25 milljarða króna. Á öllu árinu 2019 var hún jákvæð um 30 milljarða króna.
Síðan þá hefur staðan gjörbreyst, líkt og rakið er hér að ofan. Fjármagnsflótti erlendra fjárfesta sem höfðu fjárfest í eftirköstum íslenska bankahrunsins brast á og lítið hefur flætt inn í staðinn. Fyrir vikið er hrein nýfjárfesting erlendra aðila hér á landi neikvæð um 117 milljarða króna á tveimur árum.