Alls bjuggu 24.160 erlendir ríkisborgarar í Reykjavík um nýliðin áramót, eða rúmlega 44 prósent allra erlendra ríkisborgara sem skráðir eru til heimilis á Íslandi. Þeir eru nú tæplega 18 prósent allra íbúa höfuðborgarinnar en þar búa 36 prósent allra landsmanna.
Þetta má lesa úr nýjum mannfjöldatölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku.
Til samanburðar búa 950 erlendir ríkisborgarar í Garðabæ, sem gera þá að rétt rúmlega fimm prósent allra íbúa í því sveitarfélagi. Í Mosfellsbæ eru þeir 1.120, eða níu prósent íbúa, og á Seltjarnarnesi eru þeir 450, eða tæplega tíundi hver íbúi.
Í næst stærsta sveitarfélagi landsins, Kópavogi, eru erlendu ríkisborgararnir 4.260, eða um ellefu prósent íbúa, og í Hafnarfirði eru þeir 3.630, eða rúmlega tólf prósent íbúa.
Fjórði hver íbúi Reykjanesbæjar er erlendur ríkisborgari
Á áratug hefur erlendum ríkisborgurum sem búa hérlendis fjölgað um 33.840 alls, eða 162 prósent. Rúmlega 44 prósent þeirra settist að í Reykjavík og tæplega 12 prósent í Reykjanesbæ, en þar hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um úr 1.220 í 5.130 á áratug, eða um 320 prósent.
Erlendum ríkisborgurum í Kópavogi hefur fjölgað um 2.500 á síðustu tíu árum, sem þýðir að rúm sjö prósent þeirra sem hingað fluttu settust að í því sveitarfélagi. Í Hafnarfirði er þróunin svipuð, útlendingunum hefur fjölgað um 1.890. Það þýðir að tæplega sex prósent aukningarinnar frá árslokum 2011 hefur komið sér fyrir í Hafnarfirði.
Alls búa 63 prósent allra erlendra ríkisborgara sem eru með heimilisfesti á Íslandi á höfuðborgarsvæðinu og 37 prósent utan þess. Það er í takti við hlutfall allra íbúa landsins sem búa á því svæði, sem er 64 prósent. Fjórðungur allra erlendra ríkisborgara sem búa á landsbyggðinni búa í Reykjanesbæ en þar er hlutfall aðfluttra af heildarfjölda íbúa komið yfir 25 prósent. Í lok árs 2011 voru erlendir ríkisborgarar undir níu prósent íbúa þar.
Fóru ekki þegar kreppan kom
Landsmönnum öllum hefur fjölgað um 56.440 síðastliðinn áratug og eru nú 376.000. Það þýðir að 60 prósent fjölgunar landsmanna á síðastliðnum áratug hefur verið vegna aðflutnings fólks hingað til lands sem er af erlendu bergi brotið.
Mest var fjölgunin á árunum 2017 og 2018, þegar ferðaþjónustugeirinn var í mestum vexti, en á þeim tveimur árum fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem búa hér um 13.930 alls. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum öllum um 18.600. Því voru innflytjendur ábyrgir fyrir 75 prósent af mannfjöldaaukningu á þessum tveimur árum.
Á Þjóðarspegli Háskóla Íslands, sem fór fram haustið 2019, voru málefni erlends starfsfólks á Íslandi til umræðu. Á meðal þeirra sem sátu þar í pallborði var Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félags- og barnamálaráðuneytinu og fyrrverandi forstjóri Vinnumálastofnunar. Hann sagði þar að það væri mikill kostur að á Íslandi væri svo einfalt að „losa sig“ við erlent vinnuafl um leið og samdráttur byrjaði í efnahagslífinu. Það hefði enginn beðið erlenda verkamenn um að koma til landsins til að vinna og því væri það ekki á ábyrgð Íslenska ríkisins að hjálpa fólkinu við að koma undir sig fótunum með nokkrum hætti.
Ljóst má vera af þróun á fjölda þeirra erlendu ríkisborgara sem búa á Íslandi að þessi útlegging ráðuneytisstjórans hefur ekki gengið eftir. Gríðarlegur samdráttur hefur verið í hagkerfinu frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á sem skilaði því að áætlað er að ríkissjóður verði rekinn í mörg hundruð milljarða króna halla samanlagt árin 2020 og 2021.
Samt sem áður fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi um 5.270 frá byrjun árs 2020 og út síðasta ár.
Atvinnuleysi eykst hjá erlendu fólki
Í lok síðasta mánaðar var atvinnuleysi hérlendis komið niður fyrir fimm prósent, og er hlutfallslega nánast það sama og það var í febrúar 2020, áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Í apríl 2020, þegar fjöldi fyrirtækja setti starfsfólk sitt á hlutabætur, mældist atvinnuleysið 17,8 prósent en 10,3 prósentustig féllu til vegna þeirra sem voru tímabundið sett á hlutabætur.
Þetta atvinnuleysi bitnaði mest á erlendum ríkisborgurum. Í janúar 2021 var atvinnuleysi á meðal þeirra 24 prósent og í lok desember mældist það enn 11,6 prósent, eða langt umfram almennt atvinnuleysi.
Í lok desember 2021 voru rúmlega 42 prósent allra atvinnulausra á Íslandi erlendir ríkisborgarar og þeim fjölgaði í hópi atvinnulausra í jólamánuðinum.