Undanfarin misseri hefur aukin harka verið að færast í deilur um yfirráð á Suður Kínahafi. Kínverjar hafa þar slegið eign sinni á eyjar og kóralrif og lagt í stórfelldar framkvæmdir við uppbyggingu manngerðra eyja, sem m.a. þjónar auknum hernaðarlegum viðbúnaði. Til núnings hefur komið í samskiptum og kínverski flotinn m.a. stuggað við bandarískum eftirlitsflugvélum á svæðinu. En um hvað snýst deilan, hvað eru Bandaríkjamenn að gera þarna og gætu brotist út átök milli ríkjanna eins og sumir hafa spáð?
Um hvað snýst deilan?
Mikilvægt er að átta sig á því að um þriðjungur allra sjóflutninga í heiminum fer um Suður Kínahaf. Næðu Kínverjar markmiðum sínum myndu þeir ráða yfir þessum mikilvægu flutningsleiðum, en einnig gætu þeir neitað erlendum ríkjum um siglingar af hernaðarlegum toga. Þetta er eitthvað sem hvorki Bandaríkjamenn né aðrir telja sig geta horft uppá þegjandi og hljóðalaust.
Kínverjar hafa verið sakaðir um að beita þeirri aðferð við innlimun landsvæða að teikna kortið fyrst og láta síðan reyna á yfirráðin. Hafa þeir verið að eigna sér eyjar og eyjaklasa sem mynda hina svokölluðu níu-punkta línu sem fyrst var dregin árið 1947. Á lýðveldistímanum á fyrri hluta 20. aldar, kortlögðu þeir fjölda eyja eða kóralrifja og halda því nú fram að þeir eigi m.a. sögu um veiðar fiskimanna á svæðinu—langt aftur í aldir, sem styðji kröfur þeirra.
Til að einfalda málið má segja að Kínverjar geri tilkall til 200 mílna lögsögu umhverfis hverja þessara níu eyja eða punkta, sem þýðir í raun alger yfirráð yfir hafsvæðinu sem deilurnar snúast um. Ríkin sem eiga hagsmuna að gæta auk Kína í norðri — þ.e. Víetnam í vestri, Filippseyjar í austri og Malasía í suðri — myndu þá einungis eiga eftir mjó sund meðfram ströndum ríkjanna.
Um borð í flugmóðuskipinu SSS George Washington.
Þessi ríki, auk Bandaríkjanna, hafa því öll gagnrýnt framferði Kínverja og telja kröfur þeirra ekki eiga neina stoð í alþjóðalögum—þetta sé alþjóðlegt hafsvæði sem falli undir Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt honum getur ríki ekki gert tilkall til hafsvæðis umhverfis eyjar sem fara á kaf á flóði, það á einnig við um land sem hefur verið reist úr hafi—eins og þær manngerðu eyjar sem byggðar eru á kóralrifjum.
Kínverjar hafa nýlega tekið til við slíka eyja-uppbyggingu og hafa verið gríðarlega athafnasamir. Á síðustu 18 mánuðum hafa þeir byggt upp meira landsvæði en öll hin ríkin á svæðinu samanlagt. Þeir hafa jafnframt lagt í talsverða hernaðarlega uppbyggingu og nýlega lauk gerð flugbrautar á einni eyjunni. Þar getur nánast hvaða flugvél þeirra sem er athafnað sig, sem styrkir hernaðarlega fótfestu á svæðinu.
Uppbygging slíkra fljótandi eyja hefur viðgengist meðal þeirra ríkja sem eiga land að Suður Kínahafi um áratuga skeið, sér í lagi hafa Víetnamar og Taivanar verið atkvæðamiklir. Flest þessara ríkja hafa komið þar fyrir einhverskonar herstöðvum en ekki mjög burðugum. Það sem er mikilvægt í þessu samhengi er að Kína er eina ríkið sem hefur hernaðarlega burði til að verja það svæði sem það reynir nú að helga sér.
Hvað eru Bandaríkjamenn að gera þarna?
Einhver kynni að spyrja hvað Bandaríkjamenn séu að gera í Suður Kínahafi, hvaða rétt hafa þeir á að skipta sér af á hafsvæði sem er víðsfjarri þeirra formlegu lögsögu?
Bandaríski sjóherinn hefur verið virkur á Suður Kínahafi allar götur frá seinni heimsstyrjöld, vegna mikilvægi siglingaleiða þar um og kínversk yfirvöld hafa viðurkennt stöðu og hlutverk Bandaríkjanna á svæðinu. Jafnframt hafa þau bent á að ekki megi túlka athafnir þeirra sem ögrun í keppni stórvelda um yfirráð í heiminum, það sé liðin tíð. Bandaríkin verði að sætta sig við tilkomu og tilvist rísandi ríkja án þess að líta á þau sem beina ógn.
Bandaríkjamenn hafa ekkert aðhafst vegna eyja-uppbygginga ríkja Suð-austur Asíu á undanförnum árum, enda hafa þær verið innan hóflegra marka og ekki stangast á við alþjóðasáttmála. Nú er annað uppi á teningnum og hafa einstakir embættismenn Bandaríkjastjórnar m.a. látið hafa eftir sér að hegðun Kínverja sé sambærileg við framkomu Rússa á Krímskaga.
Bandaríkjamenn hafa þó lagt áherslu á að blanda sér ekki í deilur um yfirráð en undirstrika að Suður Kínahaf sé sameign allra þjóða, alþjóðlegt hafsvæðið sem ekki tilheyri neinu ríki sérstaklega.
C-2A Greyhound flugvél undirbýr sig til lendingar á bandarísku flugmóðskipi.
Eru líkur á stríðsátökum?
Á það ber að líta að diplómatísk samskipti Bandaríkjanna og Kína eru þrátt fyrir allt mjög virk. Viðskiptatengsl milli ríkjanna eru gríðarlega umfangsmikil og forystumenn beggja ríkja hafa lagt áherslu á að vilji sé til að leysa deilurnar á friðsamlegan hátt.
Hins vegar ber að hafa í huga að samskipti milli ríkja geta verið að einhverju leyti lagskipt og má búast við því að deilan milli ríkjanna geti magnast upp. Um leið og bandarísk stjórnvöld hafa almennt verið hófstillt í yfirlýsingum hefur varnamálaráðuneytið ekki alveg gengið í takt, sem líklega er gert að yfirlögðu ráði.
Áætlanir Kyrrahafsflota Bandaríkjanna ganga því út á að sigla og fljúga innan við 12 mílna mörk þess svæðis sem Kínverjar hafa helgað og vilja skilgreina sem sitt. Bandarísk skip og loftför hafa nú þegar siglt nálægt þessum mörkum og Kínverjar mótmælt en ekki brugðist við að öðru leyti.
Kínverjar hafa þó lýst því yfir að þeir muni verja það sem þeir telja sitt landsvæði. Þarna hafa innanlandsþættir áhrif, því geti kínversk stjórnvöld ekki haldið andlitinu gagnvart Bandaríkjunum gæti það haft slæmar afleiðingar heima fyrir. Á sama hátt þurfa bandarísk stjórnvöld að sýna fram á að þau láti ekki vaða yfir sig, ekki aðeins heima fyrir heldur umheiminum öllum—að þau hafi ennþá stjórn á hlutunum.
Bandaríkin hafa verið að þétta raðirnar með bandamönnum á svæðinu, auk þess að njóta fulltingis Japana og Ástrala—og myndað tengsl við nýja bandamenn eins og Víetnam. Það gæti orðið til þess að Kínverjar sjái sitt óvænna gagnvart slíku sameinuðu afli. Þetta er hins vegar tvíeggja sverð og gæti hvatt til enn frekari viðbúnaðar af þeirra hálfu.
Kínverjar hafa staðfest Hafréttarsáttmálann og Bandaríkjamenn virða ákvæði hans sem alþjóðalög. Því eru allar aðstæður til þess að semja um kröfur Kínverja og jafnframt tryggja frelsi til siglinga. Með vel skipulögðum diplómatískum aðgerðum á því að vera hægt að forða alvarlegum átökum milli heimsveldanna tveggja á Suður Kínahafi.