Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, segir í skriflegu svari til Kjarnans að fjölmargir sem komið hafi fyrir fjárlaganefnd Alþingis hafi lagt „mikla áherslu“ á að úrræðið Allir vinna yrði framlengt, þar sem það hefði reynst vel.
Við fjárlagavinnuna sem fram fór á Alþingi í desember var ákveðið að framlengja úrræðið í takmarkaðri mynd út ágústmánuð. Áfram verður þannig hægt að fá allan virðisaukaskatt vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis endurgreiddan.
Í upphaflegu fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar var gert ráð fyrir að þessar endurgreiðslur takmarkast við 60 prósent frá áramótum, eins og var fyrir kórónuveirufaraldurnn, en það breyttist í meðförum þingsins. Einnig var ákveðið að áfram yrði hægt að fá fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við hönnun og eftirlit íbúðar- og frístundahúsnæðis, nýbyggingar og viðhald frístundahúsnæðis og annað húsnæði sveitarfélaga fram til 30. júní, en að þeim tíma liðnum falla þær endurgreiðslur alveg niður.
Áætlaður tekjumissir ríkissjóðs vegna þessara breytinga nemur 7,2 milljörðum króna á árinu 2022. Til þess að setja þá tölu í samhengi, þá er það sambærileg upphæð og áætlað er að verja til byggingar nýs Landspítala á árinu.
Jákvæð áhrif á hagkerfið
Í svari sínu við fyrirspurn Kjarnans segist Bjarkey álíta niðurstöðuna sem ákveðna millileið á milli ólíkra sjónarmiða. Hún segir skiptar skoðanir hafa verið um málið og að sumir hafi ekki viljað sjá neina framlengingu á úrræðinu, sem komið var á til þess að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Aðrir hafi viljað framlengja það út árið 2022 í óbreyttri mynd.
„Gera má ráð fyrir því að þetta hafi jákvæð áhrif á hagkerfið og mikilvægt að hafa í huga að fjármálaráðuneytið reiknar ekki inn þær tekjur sem skapast á móti m.a. í auknum innheimtum tekjuskatti,“ segir Bjarkey í svari til Kjarnans, en vert er að taka fram að óljóst er hversu miklar aukatekjur skapast vegna aukinnar innheimtu tekjuskatts með því að endurgreiða virðisaukaskatt af útseldri vinnu að fullu.
Spurð nánar um það á hverju hún byggi það að gera megi ráð fyrir jákvæðum áhrifum á hagkerfið með þessari ráðstöfun segir Bjarkey að reynslan hafi sýnt að „endurgreiðslan á virðisaukaskatti jókst töluvert enda eins og við vitum þá var t.d. pallaefni og margt fleira tengt byggingariðnaðinum ill fáanlegt og virtist þetta einnig hvetja til almenns viðhalds.“
Fjármálaráðuneytið mælti eindregið gegn framlengingu
Framlenging verkefnisins var nokkuð umdeild inni á þingi í fjárlagavinnunni sem fram í síðari hluta desember. Hafa stjórnarandstöðuþingmenn sumir hverjir sagt þessa ráðstöfun óskynsamlega og í því samhengi helst vísað til minnisblaðs sem skattaskrifstofa fjármálaráðuneytisins sendi til efnahags- og viðskiptanefndar um málið þann 16. desember.
Þar var mælst til þess á nokkuð eindreginn máta að fallið yrði að öllu leyti frá 100 prósent endurgreiðslu virðisaukaskatts af útseldri vinnu strax um áramótin. Meðal annars var vísað til þess að um væri að ræða innspýtingu fjármagns í þegar þanið hagkerfi – en hagspár bæði Seðlabanka og Hagstofunnar gera ráð fyrir því að framleiðsluspenna myndist í þjóðarbúinu á þessu ári. Auk þess benti fjármálaráðuneytið á að búist væri við vexti í íbúðafjárfestingu.
„Þessar spár benda ekki til að þörf sé fyrir sérstakan skattahvata í byggingarstarfsemi. Varðandi endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis þá bendir fátt til verkefnaskorts. Sú hæfni sem þarf til þeirra verkefna nýtist einnig við byggingu nýs íbúðarhúsnæðis. Þá m á nefna að letjandi áhrif Covid á ferðalög til útlanda hafa að sama skapi haft hvetjandi áhrif á sumarbústaðaframkvæmdir og þau áhrif eru ekki horfin. Auk þess bendir margt til þess að umframeftirspurn sé eftir iðnaðarmönnum og myndi áframhaldandi skattahvati fremur viðhalda því ójafnvægi en draga úr því,“ segir orðrétt í minnisblaðinu frá ráðuneytinu.
Engin rökstuðningur í nefndaráliti
Engan sérstakan rökstuðning er að finna fyrir framlengingu úrræðisins í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem mæltist til þess í fjárlagavinnunni að Allir vinna yrði framlengt og lagði fram breytingartillögu við fjárlögin þess efnis eftir að hafa fengið fjölda hagsmunaðila á sinn fund, meðal annars fjóra hagsmunaverði frá Samtökum iðnaðarins, sem töluðu fyrir því að endurgreiðslum virðisaukaskatts yrði haldið áfram.
Í nefndaráliti meirihlutans sagði svo einfaldlega að meirihlutinn teldi „ekki tímabært“ að fella úrræðið með öllu niður, en frekari rök ekki færð fram fyrir því af hverju. Engin afstaða var tekin til áðurnefndra varnaðarorða fjármálaráðuneytisins.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þó bæði í ræðustól Alþingis og í pistli í Morgunblaðinu gert grein fyrir því af hverju henni þykir þetta skynsamleg ráðstöfun.
Á þingi nefndi hún, eftir að Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar gagnrýndi að ekki hefði verið tekið frekara mið af innihaldi minnisblaðsins frá fjármálaráðuneytinu, að byggingargeirinn hefði tekið á sig gríðarlegt högg eftir bankahrunið og að úrræðið hefði spornað gegn svartri atvinnustarfsemi. Ávinningurinn sagði Guðrún vera „óyggjandi.“
Þá sagði hún að „vitaskuld“ kæmu inn auknar tekjur í formi tekjuskatts á móti útgjöldum ríkisins vegna endurgreiðslu virðisaukaskattsins. Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins kemur þó fram að óvíst sé hvort það að hækka endurgreiðslur úr 60 prósentum upp í 100 prósent hafi einhver áhrif haft á hvata kaupenda til að greiða fyrir vinnu samkvæmt reikningi.
Nefndarmenn spurðir
Fáir þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum hafa mælt þessari ráðstöfun bót opinberlega og lék Kjarnanum forvitni á að vita hver afstaða annarra nefndarmanna í meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar til málsins hefði verið og væri.
Einungis tveir af fjórum þingmönnum sem skrifaðir eru fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar ásamt formanninum Guðrúnu brugðust við skriflegri fyrirspurn Kjarnans sem send var í upphafi vikunnar.
Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri grænna sem situr í nefndinni segir í skriflegu svari að hún hafi stutt breytingartillöguna, sem hafi verið millileið á milli ólíkra sjónarmiða sem komu fram í meðferð þingsins.
„Sumir umsagnaraðilar vildu hafa úrræðið óbreytt árið 2022 annað sjónarmið var að það félli alveg niður. Þá er rétt að benda á að fyrir Covid hafði í mörg ár verið endurgreiðsla upp á 60%“ segir Steinunn Þóra.
Dilja Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks svaraði fyrirspurn blaðamanns og benti einfaldlega á að rökstuðning meirihluta nefndarinnar mætti finna í nefndarálitinu, sem hún væri skrifuð fyrir.
Tveir þingmenn Framsóknarflokksins í nefndinni, þau Ágúst Bjarni Garðarsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, höfðu ekki brugðist við spurningu Kjarnans um þeirra afstöðu til málsins þegar fréttin fór í birtingu. Ágúst Bjarni svaraði blaðamanni 24. janúar og sagðist hafa stutt málið, eins og nefndarálit meirihlutans ber með sér.
„Það voru vissulega ólík sjónarmið til staðar en árið 2022 er ekki allt undir eins og þar fram kemur. Átakið er að mínu mati vel heppnað og þar sem við erum enn ekki komin út úr faraldrinum, þá tel ég mikilvægt að örva atvinnulífið, búa til störf og hvetja til fjárfestinga. Það skilar fjármunum í ríkissjóð,“ segir Ágúst í skriflegu svari til Kjarnans.
Óskað eftir svörum um hvert endurgreiðslurnar hafa farið
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingar, sem gagnrýndi ráðstöfunina og skort á röksemdafærslu fyrir framlengingu úrræðisins harðlega í minnihlutaáliti sínu úr fjárlaganefnd, beindi fyrr í þessari viku fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra og óskaði eftir upplýsingum um hvernig endurgreiðslur vegna Allir vinna skiptust eftir sveitarfélögum, lögaðilum, einstaklingum og tekjutíundum.
Auk þess spurði hún hvort farið hefði fram mat á áhrifum úrræðisins á innheimtu tekjuskatts – og ef svo væri, hverju verkefnið hefði skilað.
Fréttin var uppfærð 24. janúar með svörum sem bárust frá Ágúst Bjarna Garðarssyni þingmanni Framsóknar.