Fangelsidómur, 4 krónur gerðar upptækar

Rúmenskur maður var í liðinni viku dæmdur í 14 daga fangelsi í Kaupmannahöfn. Fyrir betl. Fjórar krónur sem maðurinn hafði betlað voru gerðar upptækar. Margir danskir stjórnmálamenn segja dóminn ganga gegn úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu.

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Auglýsing

Í Danmörku eru þrjú dómsstig: Bæjarréttur, Landsréttur og Hæstiréttur. Öll mál sem rata fyrir dómstóla fara fyrst fyrir Bæjarréttinn, nema í undantekningatilvikum og sérstakar reglur gilda um framhaldið, hvort hægt sé að áfrýja til æðra dómsstigs. Í Bæjarrétti eru á hverjum degi kveðnir upp dómar sem vekja ekki sérstaka athygli. Það eru einkum þeir sem kalla mætti „stærri mál“ sem rata í fjölmiðlana. Málið sem vitnað var til í upphafi þessa pistils flokkast ekki undir það sem kalla mætti stórmál, en niðurstöðunnar hefur verið beðið um nokkurra mánaða skeið og niðurstaða Bæjarréttar hefur vakið athygli og fyrir því eru nokkrar ástæður.

Betlaralögin

Árið 2017 samþykkti danska þingið, Folketinget, breytingar á lögum um betl. Samkvæmt nýju lögunum var heimilt að handtaka, án undangenginnar áminningar, fólk sem staðið var að betli á götum og torgum. Jafnframt var í nýju lögunum heimild til fangelsisdóms, tvær vikur að hámarki. Fyrir betl.

Auglýsing
Ástæðan fyrir þessum hertu ákvæðum laganna var stóraukinn fjöldi betlara á götum borga og bæja. Árið 2017 voru heimilislausir í Danmörku um það bil eitt þúsund og hafði fjöldinn um það bil tvöfaldast á tveimur árum. Stærstur hluti þessa hóps hafði komið til Danmerkur frá Austur- Evrópu og  dró fram lífið á betli og snöpum. Í umræðum á danska þinginu kom fram að þingmenn höfðu áhyggjur af sívaxandi fjölda betlara og þótt ýmsir úr hópi þingmanna hefðu orðið til að gagnrýna herta löggjöf var hún samþykkt í þinginu, með stuðningi Sósíaldemókrata, flokks Mette Frederiksen. Stuðningsflokkar núverandi ríkisstjórnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Síðan lögin tóku gildi árið 2017 og fram til síðustu áramóta hafa 67 hlotið fangelsisdóm fyrir betl og 17 til viðbótar skilorðsbundinn dóm. 

Mannréttindadómstóllinn og Sviss

Í janúar á þessu ári sneri Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg við dómi svissnesks dómstóls í máli rúmenskrar konu (svokölluðu Lacatus máli) sem dæmd var í fimm daga fangelsi. Hún gat ekki borgað sekt sem hún hafði verið dæmd til að greiða og var þess vegna gert að sitja inni. Konan kærði úrskurðinn til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að hún gæti ekki sinnt börnum sínum ef henni yrði gert að sitja inni. Mannréttindadómstóllinn tók, eins og áður sagði, undir þessi sjónarmið og svissnesk yfirvöld ákváðu að una niðurstöðunni og áfrýja ekki til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. 

Dómsmálaráðherra vill ekki breyta lögunum 

Dómurinn vakti mikla athygli í Danmörku. Fjöldi þingmanna og Danska Mannréttindastofnunin hvöttu Nick Hækkerup dómsmálaráðherra til að breyta lögunum um betl, sem eru strangari en svissnesku lögin. Eftir ítarlega skoðun ráðherrans og lögfræðinga hans ákvað ráðherrann að lögin skyldu standa óbreytt.

Í svari við fyrirspurn þingmanns Sósíalíska Þjóðarflokksins sagði Nick Hækkerup að réttur lögreglunnar til að bregðast við betli væri mikilvægur til að borgararnir í landinu gætu verið öruggir þegar þeir væru á ferðinni á almannafæri (i det offentlige rum). Ráðherrann sagði í svari við fyrirspurn þingmanns að Danmörk gæti hugsanlega tapað hliðstæðu máli og Sviss gerði ef sambærilegt danskt mál kæmi til kasta Mannréttindadómstólsins. 

Ríkislögmaður beið átekta 

Þegar dómurinn í Strassborg var kveðinn upp biðu allmargar „betlaraákærur“ meðferðar hjá danska ákæruvaldinu. Ríkislögmaður Danmerkur ákvað að á meðan dómsmálaráðuneytið væri að skoða dóm Mannréttindadómstólsins skyldu ákærur settar í bið. Eftir að dómsmálaráðherrann tilkynnti að dönskum lögum yrði ekki breytt var rykið dustað af ákærunum. 

Þegar tilkynnt var fyrir nokkru að dómur yrði kveðinn upp í fyrsta „betlaramálinu“  í Danmörku, eftir úrskurð Mannréttindadómstólsins  frá í janúar, ríkti nokkur eftirvænting hvernig Bæjarréttur Kaupmannahafnar myndi dæma. Dómur féll fyrir þrem dögum, 12. ágúst.  

14 daga fangelsi og fjórar krónur gerðar upptækar

Rúmeninn sem hlaut dóm sl. fimmtudag hafði setið á Strikinu í Kaupmannahöfn með útrétta hönd og poka með tómum flöskum fyrir framan sig þegar hann var handtekinn. Í lófanum lágu fjórar krónur sem einhverjir sem framhjá fóru höfðu rétt honum. Þegar lögregla spurði hvers vegna hann sæti þarna svaraði maðurinn því til að hann hefði verið þreyttur og sest þarna til að hvíla sig og fólk einfaldlega rétt honum þessar fjórar krónur. „Ég er með fimm börn á mínu framfæri“ bætti hann við. 

Við uppkvaðningu dómsins lagði forseti dómsins áherslu á að Rúmeninn hefði með hegðan sinni, þar sem hann sat á gangstéttinni, sýnt þeim sem framhjá fóru áreitni. Á þessum stað er Strikið fremur mjótt og Rúmeninn valið þann stað til að ná athygli fólks. 

Niðurstaða dómarans var fjórtán daga fangelsi auk þess sem Rúmenanum var gert að borga málskostnað og loks voru fjórar krónur, sem hann hélt á, gerðar upptækar. 

Eins og hraðahindrun

Lögmaður Rúmenans sagði dóminn vonbrigði og líkti honum við hraðahindrun (et bump på vejen). Hann sagði jafnframt að skjólstæðingur sinn hefði strax ákveðið að áfrýja til Landsréttar og væri jafnframt tilbúinn til að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar