Mánudagurinn 13. desember 2021 líður Inger Støjberg líklega seint úr minni. Dómur í Landsdómi Danmerkur (Rigsretten) var lokapunkturinn í máli sem teygir sig aftur til ársins 2016. Í þessum pistli verður stiklað á stóru í Støjberg málinu, eins og Danir kalla það. Málinu er þó ekki alveg lokið því næstkomandi þriðjudag, verða greidd atkvæði í danska þinginu, Folketinget, um það hvort Inger Støjberg geti setið áfram á þingi. Allt bendir til að hún verði gerð brottræk af þingi, mikill meirihluti þingmanna hefur lýst sig fylgjandi því.
Upphafið
10. febrúar 2016 sendi Inger Støjberg, sem þá var ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke Rasmussen, frá sér fréttatilkynningu. Í þessari tilkynningu stóð að enginn undir lögaldri (ingen mindreårige under 18 år) megi, sem maki, búa í flóttamannabúðum. Embættismenn í innflytjendaráðuneytinu höfðu margsinnis bent ráðherranum á að lögum samkvæmt skyldi hvert mál metið sérstaklega, og þess yrði að geta í fréttatilkynningunni. Jafnframt, að á tilskipun ráðherrans gætu verið undantekningar. Inger Støjberg mátti ekki heyra á það minnst, engar undantekningar. Í símtali frá innflytjendaráðuneytinu fékk aðstoðarframkvæmdastjóri Útlendingastofnunar að vita að aðskilnaður para, þar sem annar aðilinni væri yngri en 18 ára, skyldi hefjast strax, og framkvæmdin í samræmi við það sem fram kom í áðurnefndri fréttatilkynningu. Án undantekninga. Fréttatilkynningin var upphaf Støjberg málsins.
16. febrúar 2016
Útlendingastofnun hófst þegar handa við að framfylgja skipun innflytjendaráðuneytisins. 16. febrúar var fyrsta parið skilið að og samtals voru 23 pör skilin að á næstu mánuðum. Mörg þeirra áttu börn. Ungar stúlkur sem flúið höfðu nauðungarhjónabönd í heimalandinu, ásamt kærustum sínum, fylltust örvæntingu vegna ákvörðunar ráðherrans. Síðasta parinu, af þessum 23, var stíað sundur í ágúst 2016
9. mars 2016
Á fundi Inger Støjberg með embættismönnum úr innflytjendaráðuneytinu var farið yfir fimm mál sem Útlendingastofnunin hafði sent til ráðuneytisins. Mat sérfræðinga stofnunarinnar var að í þessum fimm tilvikum bæri ekki að skilja pörin að. Ráðherrann setti spurningamerki við þetta mat sérfræðinga. Inger Støjberg sagði síðar, í yfirheyrslum rannsóknarnefndar og fyrir Landsdómi að hún hefði einungis verið að prófa (trykteste) embættimenn Útlendingastofnunar.
Í bága við lög
Í mars árið 2016 hafði ungt par, flóttafólk frá Sýrlandi, klagað til umboðsmanns þingsins. Um var að ræða 26 ára karl og 17 ára ófríska konu, sem höfðu verið aðskilin, samkvæmt skipan innflytjendaráðuneytisins. Niðurstaða umboðsmanns þingsins sem lá fyrir í mars 2017 var að fréttatilkynning ráðuneytisins, frá 10. febrúar 2016, jafngilti fyrirskipun og sú fyrirskipun bryti í bága við lög. Vinnulag ráðuneytisins sagði umboðsmaður sérlega ámælisvert.
Júní 2017, dómur og ný stjórn 2019
Vorið 2017 urðu deilur Inger Støjberg við embættismenn innflytjendaráðuneytisins og Útlendingastofnunina opinberar. Í viðtali við dagblaðið Politiken viðurkenndi Inger Støjberg að hún hefði sjálf fjarlægt setningar um undantekningar úr fréttatilkynningunni, sem hún kallaði tilmæli, frá 10. febrúar 2016 um aðskilnað sambúðarfólks í flóttamannabúðum. Málið var rætt fram og til baka í þinginu, stjórnarandstaðan var rasandi en stjórnin, með fulltingi Danska Þjóðarflokksins, vildi ekki hafast neitt að í málinu.
Í byrjun marsmánaðar 2019 kvað Bæjarréttur Kaupmannahafnar upp þann úrskurð að aðskilnaður parsins, sem skilið var að í mars 2016 samkvæmt fyrirmælum innflytjendaráðuneytisins, hefði verið ólöglegur.
Í júní 2019 fóru fram þingkosningar í Danmörku, stjórn Lars Løkke Rasmussen féll og núverandi stjórn undir forystu Mette Frederiksen tók við. Meirihluti þingmanna ákvað að skipa rannsóknarnefnd sem ætlað var komast til botns í Støjbergmálinu.
Yfirheyrslur og skúffuskjal
Yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar hófust um miðjan maí 2020 og fóru fram í húsakynnum bæjarréttarins á Friðriksbergi. Skjölin varðandi málin skiptu þúsundum og 42 embættis-og stjórnmálamenn voru kallaðir fyrir nefndina. Mikla athygli vakti skjal sem Inger Støjberg dró fram, dagsett 2. febrúar 2016, þar var getið um undanþágur varðandi aðskilnað para í flóttamannabúðum. Rannsóknarnefndin gaf lítið fyrir þetta „skúffuskjal“ eins og það var kallað.
Í desember 2020 skilaði rannsóknarnefndin skýrslu sinni. Niðurstaðan var að fyrirmæli Inger Støjberg hefðu ekki haft stoð í lögum og hún hefði ennfremur logið að þinginu. Geta má þess að Inger Støjberg var kosin varformaður Venstre í september 2019 en sagði af sér í árslok 2020. Í febrúar á þessu ári sagði hún sig úr Venstre og hefur síðan setið sem formaður utan flokka á danska þinginu.
Landsdómur
Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar urðu til þess að þingið fékk tvo lögfræðinga til að meta hvort ástæða væri til að mál Inger Støjberg færi fyrir Landsdóm, Rigsret. Niðurstaða lögfræðinganna var að talsverðar líkur væru á að Inger Støjberg hlyti dóm ef henni yrði stefnt fyrir Landsdóm.
Þingið samþykkti að réttað yrði yfir Inger Støjberg
Í byrjun febrúar á þessu ári samþykkti þingið, með 139 atkvæðum gegn 30, að höfða mál gegn Inger Støjberg fyrir Landsdómi. Landsdómur var skipaður 13 hæstaréttardómurum (þeim sem eiga lengstan starfsaldur) og 13 manns sem þingið skipar. Þeir fulltrúar eru skipaðir til 6 ára í senn og mega ekki eiga sæti á þingi. Landsdómur dæmir eingöngu í málum sem varða starfandi eða fyrrverandi ráðherra og hefur aðeins fimm sinnum frá stofnun 1849 verið kallaður saman.Tveir lögfræðingar, fulltrúar þingsins, valdir af Lögmannaráðinu (Advokatrådet), sóttu málið gegn Inger Støjberg. Þeir kröfðust fjögurra mánaða fangelsisdóms yfir henni.
Fangelsisdómurinn mikil vonbrigði sagði Inger Støjberg
Úrskurður Landsdóms var kveðinn upp 13. desember sl. Heyra hefði mátt saumnál detta áður en Thomas Rørdam, forseti Hæstaréttar og forseti Landsdóms hóf mál sitt. Inger Støjberg var dæmd í tveggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Niðurstaðan var afgerandi, 25 af 26 dómurum fundu Inger Støjberg seka. Hún bar ábyrgð á því að ráðuneyti innflytjendamála fór á svig við alþjóðasamninga og dönsk stjórnsýslulög. Í dómnum er lögð áhersla á samfélagslega þýðingu þess að ráðherrar virði lög og rétt og leikreglur samfélags sem kennir sig við lýðræði. „Inger Støjberg hefur farið út fyrir ramma laganna. Þótt hún hafi viljað koma í veg fyrir þvingunarhjónabönd ber að fylgja lögum landsins“ sagði í úrskurði Landsdóms.
Danskir fréttaskýrendur sögðu dóminn taka af allan vafa um hver það væri sem bæri ábyrgðina á ákvörðunum og gerðum stjórnvalda. Inger Støjberg hefði ásamt lögmönnum sínum reynt að klína ábyrgðinni á embættismennina. Landsdómur hefði hinsvegar kveðið uppúr með að ráðherrann væri ætíð sá sem bæri ábyrgðina.
Inger Støjberg sagði dóminn mikil vonbrigði, hún hefði alla tíð talið fullvíst að hún yrði sýknuð.
Verður rekin af þingi
Þegar dómur var fallinn og ljóst að Inger Støjberg hefði verið fundin sek hófust vangaveltur um framtíð hennar á þingi. Í dönsku stjórnarskránni er kveðið á um hverjir geti setið á þingi og hverjir ekki. Spurning um ,,værdighed“, eins og það heitir á dönsku. Hver sem er getur boðið sig fram til þings, svo fremi viðkomandi hafi ekki sætt refsingu, sem í augum almennings gerir hann, eða hana, óhæfa (uværdig) til að sitja á þingi. Það eru hinsvegar þingmenn sem ákveða, með atkvæðagreiðslu, hvort viðkomandi sé þess verðugur að gegna þingmennsku. Sú atkvæðagsreiðsla fer fram næstkomandi þriðjudag, 21. desember. Líkleg niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu virðist sú að Inger Støjberg verði gerð brottræk af þingi og þá ber henni að yfirgefa þingsalinn þegar í stað, sú brottvikning gildir út kjörtímabilið. Hún getur hinsvegar boðið sig fram þegar næst verður kosið til þings.
Brostinn formannsdraumur?
Eins og fjallað hefur verið um hér í Kjarnanum, og víðar, ríkir hálfgert upplausnarástand í Danska Þjóðarflokknum eftir herfilega útreið í síðustu þingkosningum. Formannskosning er framundan og margir hafa litið til Inger Støjberg sem hugsanlegs formanns. Hún er nú, allavega til þriðjudags, þingmaður utan flokka. Hún hefur ekki tjáð sig um hvort hún muni ganga til liðs við Danska Þjóðarflokkinn og sækjast eftir formannsstólnum.
Leiðtogi Venstre andar léttar
Fyrir rúmu ári sagði Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre að ef niðurstaða rannsóknarnefndar þingsins hnigi í þá átt að Inger Støjberg hefði farið út fyrir ramma laganna myndi hann styðja að mál hennar færi fyrir Landsdóm. Úrskurður Landsdóms er að vissu leyti sigur fyrir Jakob Ellemann-Jensen. Hefði Inger Støjberg verið sýknuð í Landsdómi hefði það ugglaust orðið honum erfitt, ekki síst í ljósi þess að hann neyddi Inger Støjberg til afsagnar sem varaformaður flokksins.
Mette og minkarnir
Mánuðum saman hefur staðið yfir rannsókn á minkamálinu svonefnda. Minkanefndin, eins og hún er kölluð, reynir að komast til botns í því hver hafi tekið ákvörðun, og gefið fyrirskipanir um, að aflífa skyldi allan danska minkastofninn. Nú er viðurkennt að það hafi verið gert án lagaheimildar, rétt eins og aðskilnaðarfyrirskipun Inger Støjberg. Ef niðurstaða minkanefndarinnar, sem væntanleg er með vorinu, bendir í átt að Mette Frederiksen forsætisráðherra syrtir í álinn hjá henni. Stjórnarandstaðan mun þá að líkindum krefjast þess að forsætisráðherranum verði stefnt fyrir Landsdóm, líkt og Inger Støjberg. Þótt minkamálið og Støjberg málið séu gjörólík, snúast þau bæði um fyrirskipanir ráðherra, án lagaheimilda.