Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál, sagði við Morgunblaðið í gær að ef bankar landsins myndu ekki sjálfir mæta heimilum landsins í vaxtaverðlagningu gæti þurft að „endurvekja bankaskatt, eins og við gerðum á sínum tíma, til að dreifa þessum byrðum.“ Tilefnið var það sem hún kallaði „ofurhagnað“ kerfislega mikilvægu bankana hérlendis. Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn högnuðust samtals um 81,2 milljarða króna á síðasta ári. Það er 170 prósent meiri hagnaður en þeir skiluðu árið 2020.
Bankaskatturinn er reyndar enn við lýði, þótt hann hafi verið lækkaður úr 0,376 í 0,145 prósent í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta rýrði tekjur ríkissjóðs vegna skattsins um meira en sex milljarða króna á ári. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefur verið opinskár með þá skoðun sína á undanförnum árum að bankaskatturinn þyrfti að lækka. Í kjölfar þess að hann kynnti frumvarp um að lækka skattinn í skrefum haustið 2019 sagði Bjarni í stöðuuppfærslu á Twitter að bankaskatturinn þyrfti að fara.
Þetta er mikilvægt. Grundvallaratriði er einnig að bankarnir búi við eðlileg, samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum. Þessi sérstaki skattur þarf því að fara. https://t.co/U8yrQZ7ayQ
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) October 30, 2019
Enginn annar ráðherra í ríkisstjórninni hefur opinberlega tekið undir hugmyndir Lilju um frekari skattlagningu á banka vegna „ofurhagnaðar“ þeirra og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, sagði við vef Fréttablaðsins í gær að hann væri vond hugmynd. „Ég ætla að fullyrða það að það er enginn hljómgrunnur fyrir slíkri skattheimtu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.“ Bjarni sagði svo sjálfur við sama vef í dag að hann væri alfarið á móti hugmyndinni um bankaskatt.
Hækkun bankaskatts lögð til í desember en tillögunni hafnað
Viðmælendur Kjarnans innan, úr stjórnmálum og fjármálageiranum, telja engar líkur á því að ríkisstjórnin muni standa að hækkun bankaskatts á yfirstandandi kjörtímabili. Hún sé að einbeita sé að því að selja eftirstandandi 65 prósent hlut í Íslandsbanka og að hærri bankaskattur gæti haft áhrif á þá sölu.
Það viðmót fær stuðning í því að stutt er síðan að lögð var fram tillaga innan þings um að hækka bankaskattinn, sem fékk ekki fram að ganga. Um er að ræða breytingartillögu við bandorm vegna fjárlagafrumvarps 2022 sem Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, lagði fram í desember. Á þeim tíma lá þegar fyrir að kerfislega mikilvægu bankarnir myndu hagnast gríðarlega á síðasta ári. Hagnaður þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var enda 60 milljarðar króna.
Ásthildur Lóa vísaði í greinargerð sinn í að lækkun bankaskatts hafi ekki skilað þeim árangri sem stjórnvöld hefðu vonast eftir, þ.e. að vaxtamunur myndi lækka skarpt. Það hefur ekki gerst. Árið 2020 var vaxtamunur banka 2,5-2,9 prósent en í fyrra 2,3-2,8 prósent. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent á árinu 2020. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kom í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja fyrir það ár.
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar gerði þrátt fyrir það ekkert með tillögu Ásthildar Lóu.