Áætlað er að knattspyrnuliðin tuttugu sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafi varið næstum tveimur milljörðum breskra punda, jafnvirði um 315 milljarða íslenskra króna, í nýja leikmenn í félagaskiptaglugga sumarsins, en hann lokaði á fimmtudag.
Þetta er nýtt met og eru upphæðirnar sem ensku knattspyrnuliðin hafa varið í leikmannakaup í sumar afar háar í öllu samhengi. Upphæðin er til dæmis hærri en öll þau tæplega sextíu knattspyrnulið sem leika í efstu deildum á Spáni, Ítalíu og Þýskalandi vörðu til samans í sumar í því skyni að styrkja leikmannahópa sína.
Ekkert lið varði meira fé til leikmannakaupa en Chelsea. Raunar varði Chelsea meira fé í nýja leikmenn en nokkurt lið í enska boltanum hefur gert á einu sumri hingað til, eða 40,3 milljörðum íslenskra króna. Á hæla Chelsea kom Manchester United, sem varði 34 milljörðum í leikmenn.
Á meðal þeirra sem bættust í hópinn hjá Manchester United var brasilíski vængmaðurinn Antony, sem kom frá Ajax í Amsterdam á lokadegi félagaskiptagluggans fyrir 86 milljónir punda. Hann var dýrastur allra þeirra leikmanna sem ensku liðin keyptu í sumar og er reyndar dýrasti leikmaðurinn sem enskt lið hefur nokkru sinni keypt á lokadegi félagaskiptaglugga.
Áhrif nýrra sjónvarpssamninga
Peningastreymið inn í ensku knattspyrnuna hefur stóraukist á undanförnum árum vegna gríðarlegra verðmætra sjónvarpsréttarsamninga sem liðin njóta góðs af, en úrvalsdeildin fær samanlagt yfir 10 milljarða punda, jafnvirði um 1.650 milljarða íslenskra krónu, frá sjónvarpsstöðvum um heim allan vegna sölu sýningarréttar frá deildinni næstu þrjú tímabil, eða fram til loka tímabilsins 2024-25.
Það getur verið nokkuð snúið að átta sig á þeim fjárhæðum sem þarna eru undir. Kjarninn tók saman nokkra mola um leikmannaviðskipti ensku liðanna í sumar og setti fjárhæðirnar í íslenskt samhengi.
Heildarupphæðin samsvarar rúmlega útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála
Heilbrigðismál eru langstærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins á hverju ári. Samkvæmt fjárlögum ársins 2022 er áætlað að rúmir 300 milljarðar króna renni til þess að reka heilbrigðiskerfið á Íslandi í ár, sem er hátt í þriðjungur af öllum innheimtum skatttekjum ríkisins, sem eiga að verða 955 milljarðar í ár.
Eins og áður var nefnt vörðu ensku knattspyrnuliðin 315 milljörðum í að kaupa leikmenn í sumar, sem þýðir að hægt væri að halda uppi heilbrigðisþjónustu á Íslandi fyrir það fé sem tuttugu fótboltafélög vörðu í að tryggja sér þjónustu nokkurra tuga knattspyrnumanna.
Chelsea varði meira fé í leikmenn en innheimt er í eldsneytisgjald
Gert er ráð fyrir því í fjárlögum þess árs að tæpir 40 milljarðar króna innheimtist vegna eldsneytisgjalds, sem leggst ofan á hvern einasta seldan lítra af jarðefnaeldsneyti. Þessi upphæð er ögn lægri en sú upphæð sem lið Chelsea varði í nýja leikmenn í sumar, en það voru 40,3 milljarðar króna, miðað við gengi breska pundsins á föstudag.
Sá dýrasti á pari við framlög til byggingu nýs Landspítala
Eins og áður var nefnt var dýrasti leikmaður félagaskiptagluggans hinn brasilíski Antony sem Manchester United fékk til frá Ajax á fimmtudaginn.
Hann kostaði félagið jafnvirði 14,2 milljarða íslenskra króna, sem er svo gott sem á pari við áætluð framlög ríkisins til byggingar nýs Landspítala á þessu ári, en 14.177 milljónir króna renna í það verkefni samkvæmt fjárlögum.
Eyðsla nýliða meiri en allur kostnaður við löggæslu í landinu og fæðingarorlofssjóð
Framganga nýliða Nottingham Forest á leikmannamarkaðnum í sumar hefur vakið athygli, en þetta sögufræga lið leikur nú í efstu deild enska boltans á ný eftir mörg mögur ár skör neðar.
Í Nottinghamborg er stefnan sett á að haldast í deild þeirra bestu, enda eftir miklu að slægjast vegna teknanna sem sjónvarpsréttarsamningar færa liðunum í deildinni. Liðið keypti hátt á þriðja tug nýrra leikmanna í sumar fyrir jafnvirði 23,2 milljarða íslenskra króna.
Til þess að setja þá upphæð í samhengi mætti nefna að samkvæmt fjárlögum ársins er áætlað að rúmum 21 milljarði verði varið í alla löggæslu á Íslandi á árinu. Svipuð upphæð er einnig áætluð til fæðingarorlofssjóðs, eða rúmir 22 milljarðar.
Norskur markahrókur kostaði svipað og ríkið innheimtir í veiðigjöld í ár
Það hefur stundum verið meiri fyrirferð á Englandsmeisturum Manchester City á leikmannamarkaðnum en í sumar. Félagið keypti þó Norðmanninn Erling Braut Haaland og nokkra leikmenn til viðbótar fyrir jafnvirði alls 19,9 milljarða króna.
Haaland, sem hefur komið sem stormsveipur inn í enska boltann og skorað heil 10 mörk í fyrstu fimm umferðum mótsins, kostaði um 8,5 milljarða króna.
Það er svipuð upphæð og þau veiðigjöld sem lögð eru á útgerðarfélög í ár, en alls nema álögð veiðigjöld 8,37 milljörðum króna.
Leicester og Landbúnaðarháskólinn
Lið Leicester varði minnstu fé allra liða í deildinni til leikmannakaupa. Á sama tíma seldi liðið frá sér varnarmanninn Wesley Fofana til Chelsea á stórfé í síðustu viku og varð þannig eitt fárra liða sem kom út úr félagaskiptaglugganum í plús.
Heildareyðsla Leicester í félagaskiptaglugganum nam um 2,4 milljörðum króna, sem samsvarar rúmlega þeirri upphæð sem rennur til rekstrar Landbúnaðarháskóla Íslands úr ríkissjóði á þessu ári.
Eyðsla Aston Villa og Southampton á pari við kostnað Íslands við alþjóðlega þróunarsamvinnu
Íslenska ríkið áætlar að veita rúmum 10,2 milljörðum króna til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á þessu ári. Það er svipuð upphæð og félögin Aston Villa og Southampton vörðu hvort um sig til kaupa á nýjum knattspyrnumönnum í sumar.