Hvað eiga Christiano Ronaldo, Lionel Messi, Luka Modric, Dani Alves og Luis Suárez sameiginlegt, annað en að vera heimsklassa knattspyrnumenn á fertugsaldri?
Það er kannski einmitt það sem sameinar þá. Þeir eru allir í stórum hlutverkum hjá landsliðum sínum á heimsmeistaramótinu í Doha í Katar sem hófst um síðustu helgi. Mögulega er þetta þeirra síðasti séns til að leiða landslið sín til árangurs. Pressan er mis mikil en allir eiga þeir þann draum sameiginlegan að verða heimsmeistarar.
Christiano Ronaldo: 5. febrúar 1985 – 37 ára
Ronaldo hitaði upp fyrir HM með umdeildu einkaviðtali við breska fjölmiðlamanninn Piers Morgan þar sem hann setti út á Manchester United, félagið sem hann sneri aftur til í ágúst í fyrra eftir 12 ára fjarveru. Í viðtalinu fór hann einnig ófögrum orðum um leikmenn liðsins og knattspyrnustjórann, Hollendinginn Erik Ten Hag. Á þriðjudaginn var tilkynnt að samningi Ronaldos við Manchester United hafi verið rift og er hann því laus allra mála og getur samið við annað félag án þess að United fái greiðslu fyrir hann.
Ronaldo getur því einbeitt sér að HM. Þó svo að hann hafi ekki minnst einu orði á portúgalska landsliðið í viðtalinu umdeilda hefur Ronaldo verið gagnrýndur í heimalandinu, þrátt fyrir að vera í guðatölu og löngu álitinn þjóðhetja. Portúgalskir fjölmiðlar hafa spurt Fernando Santos, þjálfara landsliðsins, spurninga eins og hvort hann sé skyldugur til að velja Ronaldo í byrjunarliðið.
Í síðustu átta af níu leikjum með portúgalska landsliðinu fyrir heimsmeistaramótið tókst Ronaldo ekki að skora. Það breyttist í fyrsta leik liðsins á HM í vikunni þegar Ronaldo skoraði úr vítaspyrnu í leik liðsins gegn Ghana. Með markinu varð hann fyrsti leikmaðurinn til að skora á fimm heimsmeistaramótum í knattspyrnu karla. Portúgal hafði betur, 3-2, en litlu munaði að leikurinn endaði í dramatísku jafntefli.
Ronaldo leiddi Portúgal til sigurs á Evrópumótinu 2016 og nú er komið að HM. Ef það tekst ætlar hann að leggja takkaskóna á hilluna. „Það er 100 prósent öruggt,“ sagði Ronaldo í viðtalinu við Morgan.
Lionel Messi: 24. júní 1987 – 35 ára
Áður en HM hófst var það umtalað að þetta yrði mótið hans Messi, nú væri komið að honum að leiða Argentínu til sigurs á heimsmeistaramóti og gulltryggja þannig stöðu sína sem besti knattspyrnumaður allra tíma.
Daginn fyrir fyrsta leik Argentínu á HM í vikunni sagði Messi við fjölmiðla að þetta væri líklega síðasta heimsmeistaramótið sem hann spilar á. „Síðasta tækifæri mitt til að uppfylla þennan stóra draum sem ég.“
„Fall er fararheill“ eru einkunnarorð sem Messi ætti kannski að tileinka sér eftir 1-2 tap gegn Sádi-Arabíu í fyrsta leik Argentínu á mótinu á þriðjudag. Messi kom Argentínu yfir úr vítaspyrnu snemma leiks en Sádi-Arabía skoruðu tvö mörk snemma í seinni hálfleik og þar við sat. Óvæntustu úrslit í sögu mótsins sögðu fjölmiðlar, ekki bara á HM í Katar, heldur á HM frá upphafi.
Elsti sonur Messi, Thiago, er hans helsti stuðningsmaður, en frá honum kemur líka mesta pressan. „Sannleikurinn er sá að hann setur mikla pressu á mig,“ sagði Messi við argentínska fjölmiðla fyrir mótið. Messi þarf ekki að gefa upp vonina. Spánn tapaði fyrsta leik sínum gegn Sviss á HM 2010 en hampaði heimsmeistaratitlinum í lok móts.
Luka Modric: 9. september 1985 – 37 ára
Króatinn Luka Modric nær þeim áfanga á HM í Katar að vera fyrsti knattspyrnumaðurinn sem nær þeim áfanga að spila á heimsmeistara- eða Evrópumóti á þremur mismunandi áratugum. Modric spilaði á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í Þýskalandi 2006. HM í Katar er hans áttunda stórmót með króatíska landsliðinu og það þriðja sem fyrirliði.
Modric segist ekki vera búinn að ákveða hvað taki við hjá honum eftir heimsmeistaramótið í Katar. Aldurinn virðist ekki vera að flækjast mikið fyrir honum. „Satt best að segja líður mér vel,“ sagði Modric, sem leikur með Real Madrid á Spáni, við fjölmiðla fyrir mót.
Luis Suárez: 24. janúar 1987 – 35 ára
Suárez er meðal reyndustu sóknarmanna heims og hefur nafn hans vart verið nefnt í tengslum við HM í Katar án þess að Edinson Cavani fylgi með, sem er líklega líka á sínu síðasta heimsmeistaramóti. Saman hafa þeir skorað 126 mörk fyrir úrúgvæska landsliðið og eru markahæstir í sögu landsliðsins.
Suárez vill væntanlega skapa betri minningar á HM í Katar en á fyrri heimsmeistaramótum, þar sem hendur og tennur komu oftar við sögu en knattspyrnuhæfileikar hans. Úrúgvæ mætir einmitt Ghana í lokaleik H-riðils 2. desember, mótherja þar sem Suárez varði með höndunum á línu í leik liðanna á HM í Suður-Afríku 2010.
Dani Alves: 6. maí 1983 – 39 ára
Dani Alves er í hópi elstu leikmanna á HM í ár, aðeins þrír leikmenn eru eldri en hann en allir eru þeir á fertugasta aldursári.
Alves nær þeim áfanga að vera elsti Brasilíumaðurinn sem spilar á heimsmeistaramóti og tekur titilinn af Djalma Santos sem var 37 ára þegar hann spilaði með brasilíska landsliðinu á HM á Englandi 1966.
Alves lék á sínu fyrsta heimsmeistaramóti árið 2010 í Suður-Afríku og á heimavelli fjórum árum síðar. Hann var ekki með á HM í Rússlandi 2018 vegna meiðsla en er nú mættur, á sitt síðasta heimsmeistaramót.
Hlutverk Alves á mótinu í ár fer ekki síst fram utan vallar. Það sýndi sig í fyrsta leik Brasilíu gegn Serbíu þegar hann tók vel á móti Richarlison þegar honum var skipt út af eftir að hafa skorað bæði mörk liðsins.
@manofthefootball24 Daniel Alves × Richarlison 😄😄 #ブラジル#worldcup #worldcup2022 #brazil #richarlison #goal #ゴラッソ #ワールドカップ #w杯 #vamos ♬ Mtg Beat Fino Dança do Pombo - DJ MESQUITA DE NV