Ný stjórn undir forystu Miðflokksins mun að öllum líkindum taka við völdum eftir þingkosningarnar í Finnlandi á sunnudag. Ágreiningur innan raða stjórnarinnar og dapurt efnahagsástand hefur fælt kjósendur frá stjórnarflokkunum og þá hafa digurbarkarlegar yfirlýsingar forstæisráðherrans ekki hjálpað. Kosningabaráttan hefur að miklu leyti snúist um efnahagsmál en deilur við Rússa hafa einnig sett svip á hana, sérstaklega í kjölfar greinar sem varnarmálaráðherrar Norðurlanda auk Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra skrifuðu í norska dagblaðið Aftenposten.
Síðasta kjörtímabil hefur verið nokkuð róstursamt í finnskum stjórnmálum. Eftir kosningarnar 2011 var Sambandsflokkurinn stærsti flokkur landsins og formaður hans Jyrki Katainen myndaði sex flokka stjórn sem teygði sig frá Vinstra bandalaginu til Kristilegra demókrata. Vinstra bandalagið hætti í stjórninni eftir deilur um aðhaldsaðgerðir og niðurskurð í velferðarmálum og Katainen sagði svo af sér sumarið 2014 þegar hann tók við embætti varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Nýr formaður Sambandsflokksins, Alexander Stubb, tók við embætti forsætisráðherra skömmu síðar og myndaði fimm flokka stjórn. Í september yfirgáfu Græningjar stjórnina þegar ákveðið var að ráðast í byggingu nýs kjarnorkuvers í norðurhluta landsins.
Sakaði samherja um kjarkleysi
Alexander Stubb er 47 ára gamall og er harður stuðningsmaður Evrópusambandsins og þess að Finnar gangi formlega í NATO. Hann þykir frjálslyndur í viðhorfum sem meðal annars hefur leitt til deilna við Kristilega Demókrata vegna stuðnings hans við hjónabönd samkynhneigðra. Fyrir um mánuði vöktu ummæli hans um stjórnmálamenninguna í Finnlandi hörð viðbrögð, en þar sakaði hann bæði pólitíska andstæðinga og samherja um kjarkleysi. Ráðast þyrfti í erfiðar aðgerðir til að ná tökum á efnahagsástandinu en þegar á reyndi þyrðu stjórnmálamenn ekki að taka ákvarðanir. Hugmyndum um breytingar væri hafnað, ekki endilega vegna þess að fólk væri ósammála þeim, heldur vegna ótta við viðbrögð kjósenda. Þessi ummæli vöktu skiljanlega litla kátínu hjá samstarfsflokkunum og þau sögð geta ýtt undir fylgi flokka sem ala á tortryggni og jafnvel hatri í garð stjórnmála og stjórnmálamanna.
Ljóst er að Finnar glíma við vandamál sem ekki verða leyst nema með víðtækum aðgerðum. Skuldastaða hefur versnað til muna og í nýlegri úttekt sérfræðinga fjármálaráðuneytisins kemur fram að fjárlagagatið nemi um sex milljörðum evra. Það verði aðeins brúað með blöndu af niðurskurði og skattahækkunum. Finnar hafa treyst á hagvöxt til að ná sér út úr erfiðleikunum en ný spá gerir ráð fyrir að hann verði aðeins hálft prósent í ár sem er langt undir væntingum. Þegar við bætist viðskiptahalli sem einkum má rekja til minnkandi útflutnings er ljóst að útlitið til skemmri tíma er dökkt. Fall fjarskiptarisans Nokia og hrun í pappírsiðnaði hefur reynst Finnum dýrkeypt og í dag standa 26 fyrirtæki fyrir um 60 prósent af öllu útflutningi landsins.
Aldurssamsetning þjóðarinnar hjálpar ekki til en finnska þjóðin eldist hraðar en nokkur önnur þjóð í Evrópu með tilheyrandi álagi á velferðar- og heilbrigðiskerfið. Eina lausnin fellst í innfluttu vinnuafli sem er eitur í beinum Flokks Finna (áður Sannra Finna) sem berjast með kjafti og klóm gegn fjölgun innflytjenda og Evrópusambandinu.
Alexander Stubb, forsætisráðherra Finlands. Mynd: EPA
Rússagrýlan hræðir
Í grein varnarmálaráðherra Norðurlandanna og utanríkisráðherra Íslands segir að framferði Rússa sé mesta áskorun sem steðji að öryggismálum Evrópu og að við því verði brugðist með auknu samstarfi í varnarmálum. Viðbrögð Rússa voru fyrirsjáanleg en þeir vöruðu við því að Svíar og Finnar færðu sig nær NATO og bættu við að svo virtist sem varnarsamstarfi Norðurlandanna væri nú beitt gegn Rússum. Birting greinarinnar hefur verið harðlega gagnrýnd í Finnlandi. Nálægðin við Rússland gerir ógnina áþreifanlegri enda hafa Finnar fetað slóð hlutleysis þótt vissulega hafi þeir hallað sér í átt til Norðurlanda og Evrópusambandsins á síðustu árum. Varnarmálaráðherrann var sakaður um að fara út fyrir valdsvið sitt því að samkvæmt finnsku stjórnarskránni ættu stefnumótandi yfirlýsingar sem þessar að vera á hendi forseta landsins og forsætisráðherra. Einnig var bent á að birting greinarinnar skömmu fyrir kosningar væri óheppileg því með henni væri reynt að binda hendur næstu stjórnar. Ólíklegt er að stjórn undir forystu Miðflokksins noti jafn harkalegt orðalag í samskiptum sínum við Rússa og þá á eftir að koma í ljós hvort hún vilji ganga jafn langt í varnarsamstarfi við Norðurlöndin.
Flokkur Finna gætu farið í stjórn í fyrsta sinn
Kosningarnar 2011 voru sögulegar því árangur Flokks Finna var ævintýralegur. Hann komst fyrst inn á þing árið 2003 en í kosningunum 2011 fimmfaldaði hann nánast fylgið og varð þriðji stærsti flokkur landsins með 19 prósent atkvæða. Þjóðernisáherslur virtust falla vel í kramið auk andstöðu við innflytjendur og Evrópusambandið. Reyndar hefur flokkurinn gengið enn lengra því hann berst gegn því að sænska sé skyldufag fyrir alla Finna þrátt fyrir að tungumálið sé annað opinbera tungumál landsins. Áherslan er á finnska tungu og menningu sem er þröngt skilgreind í stefnuskrá flokksins, til dæmis á ríkið aðeins að styðja við klassíska list en ekki nútímalist. Flokkur Finna er í raun hefðbundinn popúlísur flokkur þótt formaðurinn lýsi honum sem verkamannaflokki án sósíalisma. Líklegt er að flokkurinn tapi einhverju fylgi frá kosningunum 2011 en hann er þó talinn líklegur til að taka þátt í næstu ríkisstjórn. Þá reynir á hvort flokksmenn láti sér lynda að ganga í takt og styðja stefnu stjórnar sem að öllum líkindum verði í veigamiklum atriðum í andstöðu við stefnu flokksins.
Stefnir í spennandi kosningar
Nýjustu kannanir sýna að Miðflokkurinn verður stærsti flokkur landsins og er búist við að hann fái um 50 af 200 sætum á þinginu. Þar fyrir aftan koma þrír flokkar í hnapp með um 30 þingmenn hver, Sambandsflokkurinn, Flokkur Finna og Jafnaðarmenn. Samkvæmt venju fær stærsti flokkurinn stjórnarmyndunarumboð og búist er við að fyrst verði rætt við næststærsta flokkinn. Formaður Miðflokksins hefur þó sagt að stærð flokka ætti ekki endilega að ráða úrslitum um það hverjir myndi stjórn, en talið er að hann horfi frekar til Jafnaðarmanna um samstarf en Sambandsflokksins. Ef Flokkur Finna bætist í hópinn má gera ráð fyrir að einn til tveir smáflokkar komi inn í stjórnina til að styrkja meirihlutann, sérstaklega þar sem mikil óvissa ríkir um það hvort Flokkur Finna sé yfir höfuð stjórntækur.
Eins og áður sagði verður kosið á sunnudag og gæti kosningaþátttaka ráðið miklu um það hvernig flokkarnir raða sér niður fyrir aftan Miðflokkinn. Það er því enn möguleiki á að spá sérfræðinga gangi ekki eftir. Þó er nokkuð ljóst að Alexander Stubb lætur af embætti en hann spáir því hins vegar að arftaki hans muni ekki eiga auðvelda siglingu fyrir höndum. Staðreyndin sé sú að þegar pólitískur raunveruleiki taki við af háfleygum yfirlýsingum kosningabaráttunnar komi í ljós hversu djúpstæð vandamál steðji að Finnlandi og hversu róttækar ákvarðanir þurfi að taka til að rétta þjóðarskútuna af.