Heildartekjur ríkissjóðs verða um 1.117 milljarðar króna á næsta ári. Það er tekjuaukning upp á 103 milljarða króna milli ára, miðað við fyrirliggjandi áætlun ársins 2022. Tekjur yfirstandandi árs hafa verið endurmetnar frá því sem sett var fram í fjárlögum og eru nú áætlaðar 79 milljörðum krónum meiri. Ástæður þess eru tvær, annars vegar vegna bættra efnahagsforsenda og hins vegar vegna aukinnar verðbólgu.
Áætlaður halli á árinu 2023 er 89 milljarðar króna en í fjármálaáætlun sem lögð var fram í vor var hann áætlaður 82,5 milljarðar króna. Áætlaður halli hefur því aukist um 6,5 milljarða króna frá því í vor. Halli ríkissjóðs vegna ársins 2022 var áætlaður 187 milljarðar króna en er nú talin verða 142 milljarðar króna.
Útgjöld munu aukast nokkuð milli ára og verða 1.206 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun.
Ef bankinn er ekki seldur þarf að fjármagna með öðrum hætti
Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir frekari sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, en ríkið á sem stendur 42,5 prósent hlut í bankanum. Áætlað er að sala eigna muni skila ríkissjóði 75,8 milljörðum króna í tekjur og gangi salan eftir muni skuldir ríkissjóðs ná að vera 33 prósent af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs. Verði ekki af sölu verður skuldahlutfallið umtalsvert hærra og þá þarf að fjármagna hluta af hallarekstri ársins með öðrum hætti, og þá væntanlega lántöku.
Þá er áfram sem áður heimild í fjárlagafrumvarpinu til að selja tæplega 30 prósent hlut í Landsbankanum, en ekki er gert ráð fyrir þeirri sölu á næsta ári.
Hvorki Ríkisendurskoðun né fjármálaeftirlitið hafa skilað
Ríkið hefur þegar selt 57,5 prósent í Íslandsbanka fyrir um 108 milljarða króna. Síðasti hluti sölunnar, þegar 22,5 prósent var selt til 207 fjárfesta í lokuðu útboði á verði sem var undir markaðsverði, var harðlega gagnrýndur. Ríkisendurskoðun vinnur nú að stjórnsýsluúttekt á söluferlinu og stefnir að því að skila skýrslu til þingsins um niðurstöður hennar síðar í þessum mánuði. Þá hefur fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands haft ákveðna þætti tengda sölunni til rannsóknar.
Í yfirlýsingu sem formenn ríkisstjórnarflokkanna, þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson,. fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, sendu sameiginlega frá sér 19. apríl kom fram að ef þörf kæmi fram fyrir frekari rannsóknir þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans liggi fyrir muni ríkisstjórnin beita sér fyrir slíku á vettvangi Alþingis.
Í yfirlýsingunni segir: „Ekki verður ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni.“
Miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins er ljóst að gengið er út frá því að söluferlið verði endurvakið á næsta ári þrátt fyrir að niðurstöður Ríkisendurskoðunar og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands liggi enn ekki fyrir.
Flestir töldu að óeðlilegir viðskiptahættir hefðu átt sér stað
Samkvæmt könnun sem Gallup gerði í vor töldu 88,4 prósent þjóðarinnar að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað við söluna á Íslandsbanka og 83 prósent þjóðarinnar var óánægð með framkvæmdina.
Alls 73,6 prósent landsmanna taldi að það ætti að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir hana en 26,4 prósent taldi nægjanlegt að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölunni. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr þegar kom að þessu, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði til.
Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna var á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þyrfti rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka voru nær allir á því að rannsóknarnefnd sé nauðsynleg.