Flokkur fólksins á mikilli siglingu og mælist nú nánast í kjörfylgi
Á örfáum dögum hefur fylgi Flokks fólksins aukist um meira en 50 prósent. Framsóknarflokkurinn hefur ekki mælst hærri í kosningaspánni og Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera búinn að ná botni sínum. Vinstri græn hafa hins vegar ekki mælst minni frá því í vor og allt stefnir í að níu flokkar eigi fulltrúa á Alþingi eftir helgi.
Flokkur fólksins tekur stökk upp á við í nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar og mælist nú með 6,8 prósent fylgi. Flokkur Ingu Sæland mælist nú sjöundi stærsti flokkur landsins eftir að hafa mælst sá minnsti allan þann tíma sem spáin hefur verið keyrð í aðdraganda komandi kosninga, en hún var fyrst keyrð í apríl. Á einni viku hefur Flokkur fólksins bætt við sig 2,3 prósentustigum og aukið fylgi sitt um meira en 50 prósent. Í ljósi þess að Flokkur fólksins mældist fyrst yfir hinu margrædda fimm prósent marki, sem tryggir flokkum jöfnunarmenn, í kosningaspá sem gerð var um helgina þá má segja að flokkurinn sé að toppa á réttum tíma, tveimur dögum fyrir kosningar. Sem stendur er Flokkur fólksins í nánast sama fylgi og hann fékk 2017, þegar 6,9 prósent landsmanna kusu flokkinn.
Líkurnar á því að Flokkur fólksins nái ekki inn manni mælast nú einungis 16 prósent, en mældust 44 prósent fyrir örfáum dögum síðan.
Ekki er augljóst hvaðan þetta fylgi er að koma en þó liggur fyrir að Sósíalistaflokkurinn hefur misst 0,8 prósentustig á síðustu dögum. Hann mælist nú með 6,5 prósent fylgi og hefur ekki mælst minni síðan um miðjan ágúst.
Miðflokkurinn er hins vegar sá flokkur sem er í mestum vanda. Flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist með einungis 5,8 prósent fylgi, er minnsti flokkurinn sem mælist inni á þingi og lítið virðist ganga að hressa stöðuna við.
Vinstri græn í vanda
Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa fundið botninn sinn eftir að hafa lækkað í öllum kosningaspám sem keyrðar hafa verið í mánuðinum þangað til núna. Flokkurinn bætir við sig 0,3 prósentustigum og mælist með 21,8 prósent fylgi. Það liggur þó fyrir að hann er enn 3,5 prósentustigum undir kjörfylgi og 1,9 prósentustigi undir sinni verstu útkomu í sögunni í kosningum, sem var árið 2009 þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 23,7 prósent atkvæða.
Annar flokkur sem virðist ekki ætla að ná vopnum sínum eru Vinstri græn. Þrátt fyrir að 41 prósent þeirra sem tóku þátt í könnun Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS) síðastliðnar tvær vikur vilji helst sjá Katrínu Jakobsdóttur, formann flokksins, sem forsætisráðherra, hafa Vinstri græn haldið áfram að dala í kosningaspánni. Þau mælast nú með slétt ellefu prósenta fylgi sem er það minnsta sem flokkurinn hefur haft frá því í vor. Frá byrjun júlímánaðar hafa Vinstri græn misst 3,1 prósentustig af fylgi og eru nú 5,9 prósentustigum frá kjörfylgi sínu.
Framsóknarflokkurinn er hins vegar á siglingu og hefur ekki mælst með meira fylgi í kosningaspánni. Það mælist nú 13 prósent sem er 2,3 prósentustigum yfir kjörfylgi. Vert er að hafa í huga að í síðustu kosningaspánni sem var keyrð fyrir þingkosningarnar 2017 mældist Sjálfstæðisflokkurinn með einu prósentustigi undir því sem hann fékk þegar atkvæðin voru talin en Framsóknarflokkurinn heilum 2,5 prósentustigum. Vinstri græn mældust hins vegar með 2,1 prósentustigum meira fylgi en þau fengu á endanum.
Frjálslynda miðjan dalar
Af stjórnarandstöðuflokkunum hefur Samfylkingin bætt hægt og rólega við sig síðustu vikur þótt hún dali lítillega á milli spáa. Sem stendur segjast 13 prósent ætla að kjósa hana sem gerir flokkinn að næst stærsta flokki landsins ásamt Framsókn.
Fjöldi þingsæta | DVB | PCSB | DV | VPSB | VPSC | DBMF |
---|---|---|---|---|---|---|
>=41 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
>=42 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
>=41 | 0% | 1% | 0% | 1% | 0% | 0% |
>=40 | 1% | 1% | 0% | 2% | 0% | 1% |
>=39 | 1% | 2% | 0% | 3% | 1% | 1% |
>=38 | 2% | 4% | 0% | 5% | 1% | 2% |
>=37 | 4% | 6% | 0% | 9% | 2% | 4% |
>=36 | 8% | 10% | 0% | 14% | 4% | 7% |
>=35 | 12% | 16% | 0% | 21% | 8% | 12% |
>=34 | 19% | 24% | 0% | 30% | 12% | 18% |
>=33 | 27% | 33% | 0% | 40% | 19% | 26% |
>=32 | 37% | 44% | 0% | 51% | 27% | 35% |
>=31 | 49% | 55% | 0% | 62% | 37% | 46% |
>=30 | 60% | 65% | 1% | 72% | 48% | 57% |
>=29 | 70% | 75% | 2% | 80% | 59% | 68% |
>=28 | 80% | 83% | 4% | 87% | 70% | 77% |
>=27 | 87% | 89% | 7% | 92% | 79% | 84% |
>=26 | 92% | 94% | 12% | 96% | 86% | 90% |
>=25 | 96% | 96% | 20% | 98% | 91% | 94% |
>=24 | 98% | 98% | 29% | 99% | 95% | 97% |
>=23 | 99% | 99% | 41% | 99% | 97% | 98% |
>=22 | 99% | 100% | 53% | 100% | 98% | 99% |
Viðreisn dalar um 0,7 prósentustig milli spáa og mælist með 10,1 prósent en er samt vel yfir kjörfylgi og hefur bætt við sig 3,4 prósentustigum á kjörtímabilinu. Einungis Sósíalistaflokkurinn hefur tekið meira nýtt fylgi til sín frá síðustu kosningum.
Píratar lækka líka frá síðustu kosningaspá, um 0,6 prósentustig, og mælast með 11,8 prósent stuðning.
Fjórir eða fimm flokkar í næstu ríkisstjórn
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, saman sett úr Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, haldi velli voru yfir 60 prósent í lok síðasta mánaðar. Þær næstum helminguðust þegar leið á septembermánuð og voru 31 prósent í byrjun viku. Nú hafa þær líkur aukist lítillega og mælast 37 prósent. Ríkisstjórnin hefur þó þann skýra möguleika að bæta við fjórða flokknum í samstarfið og halda með því meirihluta. Þar koma einungis Viðreisn (93 prósent líkur á meirihluta) eða Flokkur fólksins (77 prósent líkur á meirihluta) í raun til greina. Ef hægt yrði að fá Miðflokkinn og Framsóknarflokkinn til að starfa saman eru 35 prósent líkur á að sú fjögurra flokka stjórn næði naumasta meirihluta.
Sú ríkisstjórn sem er sennilegust eins og er, að teknu tilliti til útilokunar sumra flokka á samstarfi með öðrum og raunsæju mati á að ekki sé gerlegur samstarfsgrundvöllur vegna persónulegra aðstæðna hjá ákveðnum flokkum, er ríkisstjórn Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingar og Framsóknarflokks, en þær eru 51 prósent. Skammt á eftir kemur ríkisstjórn fjögurra miðjuflokka: Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Líkurnar á því að þeir flokkar nái meirihluta, eru nú 44 prósent en lækka töluvert milli spáa. Reykjavíkurmódelið svokallaða mælist svo með 27 prósent líkur en var með 41 prósent líkur í byrjun viku, enda hafa allir fjórir flokkarnir sem það inniheldur lækkað í fylgi milli spáa.
Fimm flokka stjórn áðurnefndra flokka allra flokka sem nefndir eru hér að ofan á 96 prósent möguleika á því að ná meirihluta og gæti verið einn skýrasti valkosturinn sem í boði verður, nái níu flokkar inn á þing og ógjörningur verður að mynda fjögurra flokka stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokks.
Líkurnar eru fengnar með því að framkvæma 100 þúsund sýndarkosningar. Í hverri sýndarkosningu er vegið meðaltal þeirra skoðanakannana sem kosningaspáin nær yfir hverju sinni líklegasta niðurstaðan en sýndarniðurstaðan getur verið hærri eða lægri en þetta meðaltal og hversu mikið byggir á sögulegu fráviki skoðanakannana frá úrslitum kosninga.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:
- Netpanell ÍSKOS/Félagsvísindastofnunnar 10 – 21. september (24,3 prósent)
- Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 20 – 21. september (vægi 33,4 prósent)
- Þjóðarpúls Gallup 13 -19. september (vægi 42,3 prósent)
Sýndarkosningarnarnar sýna að nær engar líkur eru á því að hægt verði að mynda tveggja flokka stjórn miðað við þessa niðurstöðu. Einungis tvö mynstur ná eitt prósent líkum, tveggja flokka stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem er pólitískur ómöguleiki, og stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars