Það sem af er árinu 2015 hefur úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, sem mælir gengi á íslenskum hlutabréfamarkaði, hækkað um 35 prósent. Á einu ári, frá því í október 2014, hefur hún hækkað um 52 prósent.
Hlutabréf sumra félaga sem skráð eru í kauphöllina hafa hækkað um tugi prósenta á skömmum tíma. Miðað við stöðuna i lok síðustu viku hafði gengi N1 hækkað um 88,8 prósent frá áramótum, gengi bréfa í Marel um 55,8 prósent, gengi bréfa í Icelandair um 50 prósent, í móðurfélagi Vodafone um 44,3 prósent, í fasteignafélaginu Reginn um 31,6 prósent og í HB Granda um 26,2 prósent. Hlutabréf í Sjóvá, Eimskipum, Högum og VÍS höfðu einnig hækkað um 4,4 -9,5 prósent á árinu.
Eina félagið sem skráð er í kauphöllina sem er minna virði í dag en það var um síðustu áramót er tryggingafélagið TM, en rúmlega hálfs milljarðs króna tap var af vátryggingarstarfsemi TM á fyrstu þremur mánuðum þessa árs vegna aukningu á eigna- og ökutækjatjóna sem rekja mátti til slæms tíðarfars að mestu. TM hagnaðist samt um 72 milljónir króna á ársfjórðungnum.
Miklar hækkanir hlutabréfa eru í raun ekkert nýtt fyrir okkur Íslendinga. Á árunum fyrir hrun setti íslenskur hlutabréfamarkaður heimsmet í hækkunum. Þær reyndust, að mati rannsóknarnefndar Alþingis og síðar Hæstaréttar, byggja á markaðsmisnotkun.
Í þetta sinn er enginn opinber grunur um að slík eigi sér stað, þótt þingmenn hafi kallað eftir því að það verði kannað. Því er hins vegar velt mjög fyrir sér hvort hlutabréfamarkaður örríkis í höftum hafi nægjanlega dýpt til að starfa eins og hlutabréfamarkaður á að gera. Og hvort aðstöðumunur valinna fjárfesta geri þeim kleift að hagnast óheyrilega á uppgangi hans.
Miklu meiri hækkun en í útlöndum
Sú mikla hækkun sem orðið hefur á íslenska hlutabréfamarkaðnum það sem af er ári er mun hærri en hækkanir almennt á stærstu hlutabréfamörkuðum heimsins. FTSE-vísitalan í London hefur t.d. lækkað um 5,6 prósent. Bandaríska vísitalan Dow Jones hefur hækkað um 4,5 prósent og S&P 500-vísitalan um ellefu prósent. Hin þýska DAX-vísitala hefur hækkað um 6,5 prósent og japanska Nikkei-vísitalan hefur hækkað um 11,3 prósent.
Engin þessarra alþjóðlegu vísitalna, sem mæla ástand stærstu hlutabréfamarkaða heims, kemst nálægt því að hafa hækkað jafn mikið og íslenska úrvalsvísitalan. Og alls hefur íslenska úrvalsvísitalan nánast tvöfaldast frá því að hún var endurstillt nokkrum mánuðum eftir hrunið. Auðvitað verður þó að taka tillit til þess að íslenski markaðurinn hefur verið endurreistur nánast frá grunni á þeim tíma.
Síðasta vika var sérstaklega góð á íslenskum hlutabréfamarkaði. Öll félög nema HB Grandi hækkuðu í verði. Mest hækkuðu bréf í fasteignafélaginu Reitum, samtals um 9,0 prósent. Markaðsvirði félagsins hækkaði um 4,5 milljarða króna á einni viku.
Vikan var líka góð fyrir tryggingafélögin þrjú sem skráð eru á markað. Sjóvá, VÍS og TM hækkuðu öll um 5,5 til 5,9 prósent.
Um 93 prósent af markaðsvirði bréfa hvarf
Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi var í skötulíki eftir hrun fjármálakerfisins og krónunnar. Um 93 prósent af markaðsvirði hlutabréfa hvarf við fall bankanna. Þau félög sem eftir voru á markaði var hægt að telja á fingrum annarrar handar. Í raun voru viðskipti einungis virk með bréf tveggja félaga á aðalmarkaði, Marel og Össurar.
Það var ekki augljóst hvernig ætti að standa að endurreisn hlutabréfamarkaðarins og hversu hratt hún gæti átt sér stað. Auk þess var það rætt í fullri alvöru innan bankanna, hjá hagsmunasamtökum í atvinnulífinu og í nefndum Alþingis hvort hlutabréfamarkaður á Íslandi geti mögulega illa þjónað tilgangi sínum vegna þess hve dýptin er lítil í viðskiptunum og aðilar á markaði fáir. Þessar raddir voru nokkuð háværar eftir hrunið og ekki síst eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í apríl 2010. Í fjórða bindi þeirrar skýrslu var fjallað sérstaklega um verðbréfamarkaðinn og var þar dregin upp mynd af markaði þar sem markaðsvirðið virtist aðeins fara í eina átt – upp á við. Þar til bólan sprakk.
Í umfjöllun um þróun hlutabréfamarkaðarins segir rannsóknarnefndin að ekkert dæmi sé til um álíka hækkanir og hér sáust:„Frá ársbyrjun 2004 og þar til úrvalsvísitalan náði sínu hæsta gildi í 9016,48 stigum 18. júlí 2007 nam hækkunin alls 328,76 prósent og var sú almenna hækkun úrvalsvísitölunnar einsdæmi meðal þróaðra hagkerfa eins og samanburður við erlendar vísitölur sýnir glöggt“.
Afleiðingarnar af þessari miklu bólu og tætlunum sem hún skildi eftir sig um allt hagkerfið sátu enn í fjárfestum, stórum og smáum. Skuldsett hlutabréfakaup í fordæmalausu magni í alþjóðlegum samanburði voru drifkrafturinn að baki hlutabréfaviðskiptunum fyrir hrunið og grunsemdir voru uppi um stórfellda markaðsmisnotkun innan föllnu bankanna fyrir hrunið. Embætti sérstaks saksóknara fékk mörg slík meint brot til rannsóknar skömmu eftir hrunið, hefur ákært í nokkrum slíkum málum og þyngstu efnahagsbrotadómar Íslandssögunnar hafa fallið í hluta þeirra mála.
Bankarnir fengu að endurskipuleggja atvinnulífið
Það varð þó ofan á að endurreistu bankarnir Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn fengu það hlutverk að endurskipuleggja íslenskt atvinnulíf. Þeir hafa notast við aðalmarkað Kauphallar Íslands þegar þeir hafa minnkað við sig, eða selt að öllu leyti, fyrirtæki sem þeir fengu í vöggugjöf í kjölfar hrunsins.
Veislan hófst með skráningu Haga undir lok árs 2011. Um var að ræða fyrstu nýskráningu eftir hrun og skráningargengið var 13,5 krónur á hlut. Þeir sem tóku þátt í útboðinu, sem voru færri en vildu, sjá ekki eftir þeirri fjárfestingu. Virði Haga hefur rúmlega þrefaldast síðan að skráningin átti sér stað þrátt fyrir að Hagar hafi greitt hluthöfum sínum 3,7 milljarða króna í arð á síðustu þremur árum á sama tíma og félagið hefur greitt hratt niður skuldir.
Lífeyrissjóðirnir ýkja völd einkafjárfesta
Alls eru nýskráningarnar orðnar tólf eftir hrun auk þess sem hlutafé í Icelandair var aukið í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar á því félagi. Ljóst var að lífeyrissjóðirnir myndu alltaf leika stórt kaupendahlutverk í endurreistum hlutabréfamarkaði. Þeir þurfa að koma um 120 milljörðum króna á ári í fjárfestingar og innan fjármagnshafta þá hefur ekki verið neitt rosalega mikið um fjárfestingamöguleika, sérstaklega eftir að Íbúðalánasjóður hætti að gefa út skuldabréf fyrir tveimur árum síðan.
Það varð enda raunin. Í rannsókn sem Hersir Sigurgeirsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, birti fyrir um ári síðan kom fram að íslenskir lífeyrissjóðir ættu, beint eða óbeint, um 43 prósent af skráðum félögum hérlendis.
Lífeyrissjóðirnir eru með þá opinberu afstöðu að sækjast ekki eftir því að vera virkir eigendur. Þ.e. að þeir séu ekki að taka virkan þátt í stjórnun þeirra fyrirtækja sem þeir eiga stóra hluti í. Það eru reyndar afar skiptar skoðanir um það í viðskiptalífinu hvort allir fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækja fari eftir þessari afstöðu. Til dæmis er Helgi Magnússon, varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, í stjórn þriggja félaga: N1, Marel og Símans. Helgi á sjálfur hlutabréf í N1 og Marel. Í stjórn þess fyrrnefnda situr hann fyrir hönd lífeyrissjóðsins. Helgi er til að mynda talin hafa beitt sér mjög fyrir því að Orri Hauksson var ráðinn forstjóri Símans fyrir tveimur árum síðan.
En á meðan að lífeyrissjóðirnir ætla sér ekki, að minnsta kostið opinberlega, að vera virkir hluthafar þá aukast völd hinna sem eiga hluti í félögum með þeim. Þ.e. áhrif þeirra verða mun meiri en eignarhluturinn segir til um.
Hverjir eru að græða?
Sá hópur einstaklinga er ekki mjög sýnilegur. Eina úttektin sem hefur verið gerð á honum var í áðurnefndri rannsókn Hersis, sem miðaði við stöðuna eins og hún var í árslok 2013. Þar var að finna lista yfir þá 20 einstaklinga sem áttu mest af hlutabréfum í skráðum félögum á Íslandi á þeim tíma. Samtals áttu þessir 20 einstaklingar 5,32 prósent allra hlutabréfa á þeim tíma. Samkvæmt rannsókninni var markaðsvirði bréfa, sem hópurinn átti þá, um 26,2 milljarðar króna. Síðan hefur úrvalsvísitalan hækkað um meira en 66 prósent. Ef hópurinn hefur ávaxtað hlutabréfaeign sína í takt við þá hækkun væri markaðsvirði hlutabréfa þessara 20 einstaklinga um 43,6 milljarðar króna.
Það er erfitt að átta sig á því hversu stóran hlut einstaklingar, þ.e. ekki fagfjárfestar eins og lífeyrissjóðir, eða félög í þeirra eigu eiga af íslenskum hlutabréfum. Kauphöllin birtir einungis lista yfir 20 stærstu hluthafa hverju sinni og þar er ekki mikið um slíka.
Þar er hins vegar fullt af sjóðum í stýringu sjóðsstýringarfyrirtækja bankanna. Þeir einstaklingar sem eru umsvifamestir á hlutabréfamarkaði kaupa oft hlutdeildarskirteini í þeim sjóðum. Ekki þarf að upplýsa um hverjir eigendur slíkra hlutdeildarskirteina eru.
Hinir ríku eiga hlutabréfin
Í tölum sem Hagstofa Íslands birti nýverið er hægt að sjá vísbendingar um hversu mikið íslenskir fjármagnseigendur hafa verið að hagnast á undanförnum árum. Sá fimmtungur Íslendinga sem hafði hæstar tekjur á árinu 2014, alls tæplega 40 þúsund manns, jók hreina eign sína um 142,2 milljarða króna á því ári. Tæpur helmingur aukningar á auði íslenskra heimila á síðasta ári féll í skaut þessa hóps. Tekjuhæsta tíund landsmanna, 19.711 manns, sá auð sinn vaxa um 88,2 milljarða króna á árinu 2014. Á sama tíma óx hrein eign þess helmings þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar, alls um eitt hundrað þúsund manns, um 72 milljarða króna, eða 16,2 milljarða króna minna en ríkasti hluti þjóðarinnar.
Auk þess á ríkasta tíund þjóðarinnar yfir helming allra verðbréfa, en virði þeirra í þessari samantekt er skráð á nafnvirði. Markaðsvirði þeirra verðbréfa, sem eru til dæmis hlutabréf í fyrirtækjum landsins, er mun hærra en uppgefið nafnvirði. Því er eigið fé þessa hóps, alls 19.711 einstaklinga, því líklega mun meira en tölur Hagstofu Íslands gefa til kynna.