Frábærir tímar fyrir þá sem eiga hlutabréf - Markaðurinn hækkað um þriðjung á árinu

Margfalt meiri hækkun hérlendis en á helstu mörkuðum erlendis. Ljóst að margir hafa hagnast gífurlega.

siminn
Auglýsing

Það sem af er árinu 2015 hefur úrvals­vísi­tala Kaup­hallar Íslands, sem mælir gengi á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði, hækkað um 35 pró­sent. Á einu ári, frá því í októ­ber 2014, hefur hún hækkað um 52 pró­sent. 

Hluta­bréf sumra félaga sem skráð eru í kaup­höll­ina hafa hækkað um tugi pró­senta á skömmum tíma. Miðað við stöð­una i lok síð­ustu viku hafði gengi N1 hækkað um 88,8 pró­sent frá ára­mót­um, gengi bréfa í Marel um 55,8 pró­sent, gengi bréfa í Icelandair um 50 pró­sent, í móð­ur­fé­lagi Voda­fone um 44,3 pró­sent, í fast­eigna­fé­lag­inu Reg­inn um 31,6 pró­sent og í HB Granda um 26,2 pró­sent. Hluta­bréf í Sjó­vá, Eim­skip­um, Högum og VÍS höfðu einnig hækkað um 4,4 -9,5 pró­sent á árinu.

Eina félagið sem skráð er í kaup­höll­ina sem er minna virði í dag en það var um síð­ustu ára­mót er trygg­inga­fé­lagið TM, en rúm­lega hálfs millj­arðs króna tap var af vátrygg­ing­ar­starf­semi TM á fyrstu þremur mán­uðum þessa árs vegna aukn­ingu á eigna- og öku­tækjatjóna sem rekja mátti til slæms tíð­ar­fars að mest­u. TM hagn­að­ist samt um 72 millj­ónir króna á árs­fjórð­ungnum.

Auglýsing

Miklar hækk­anir hluta­bréfa eru í raun ekk­ert nýtt fyrir okkur Íslend­inga. Á árunum fyrir hrun setti íslenskur hluta­bréfa­mark­aður heims­met í hækk­un­um. Þær reynd­ust, að mati rann­sókn­ar­nefndar Alþingis og síðar Hæsta­rétt­ar, byggja á mark­aðs­mis­notk­un.

Í þetta sinn er eng­inn opin­ber grunur um að slík eigi sér stað, þótt þing­menn hafi kallað eftir því að það verði kannað. Því er hins vegar velt mjög fyrir sér hvort hluta­bréfa­mark­aður örríkis í höftum hafi nægj­an­lega dýpt til að starfa eins og hluta­bréfa­mark­aður á að gera. Og hvort aðstöðu­munur val­inna fjár­festa geri þeim kleift að hagn­ast óheyri­lega á upp­gangi hans.

Miklu meiri hækkun en í útlöndum

Sú mikla hækkun sem orðið hefur á íslenska hluta­bréfa­mark­aðnum það sem af er ári er mun hærri en hækk­anir almennt á stærstu hluta­bréfa­mörk­uðum heims­ins. FTSE-­vísi­talan í London hefur t.d. lækkað um 5,6 pró­sent. Banda­ríska vísi­talan Dow Jones hefur hækkað um 4,5 pró­sent og S&P 500-­vísi­talan um ell­efu pró­sent. Hin þýska DAX-­vísi­tala hefur hækkað um 6,5 pró­sent og jap­anska Nikk­ei-­vísi­talan hefur hækkað um 11,3 pró­sent.

Engin þess­arra alþjóð­legu vísi­talna, sem mæla ástand stærstu hluta­bréfa­mark­aða heims, kemst nálægt því að hafa hækkað jafn mikið og íslenska úrvals­vísi­tal­an. Og alls hefur íslenska úrvals­vísi­talan nán­ast tvö­fald­ast frá því að hún var end­urstillt nokkrum mán­uðum eftir hrun­ið. Auð­vitað verður þó að taka til­lit til þess að íslenski mark­að­ur­inn hefur verið end­ur­reistur nán­ast frá grunni á þeim tíma.

Síð­asta vika var sér­stak­lega góð á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði. Öll félög nema HB Grandi hækk­uðu í verði. Mest hækk­uðu bréf í fast­eigna­fé­lag­inu Reit­um, sam­tals um 9,0 pró­sent. Mark­aðsvirði félags­ins hækk­aði um 4,5 millj­arða króna á einni viku.

Vikan var líka góð fyrir trygg­inga­fé­lögin þrjú sem skráð eru á mark­að. Sjó­vá, VÍS og TM hækk­uðu öll um 5,5 til 5,9 pró­sent.

Stærstu hlutabréfamarkaðir heimsins hafa ekki hækkað nærri jafn mikið og sá íslenski á þessu ári.

Um 93 pró­sent af mark­aðsvirði bréfa hvarf

Hluta­bréfa­mark­að­ur­inn á Íslandi var í skötu­líki eftir hrun fjár­mála­kerf­is­ins og krón­unn­ar. Um 93 pró­sent af mark­aðsvirði hluta­bréfa hvarf við fall bank­anna. Þau félög sem eftir voru á mark­aði var hægt að telja á fingrum ann­arrar hand­ar. Í raun voru við­skipti ein­ungis virk með bréf tveggja félaga á aðal­mark­aði, Marel og Öss­ur­ar.

Það var ekki aug­ljóst hvernig ætti að standa að end­ur­reisn hluta­bréfa­mark­að­ar­ins og hversu hratt hún gæti átt sér stað. Auk þess var það rætt í fullri alvöru innan bank­anna, hjá hags­muna­sam­tökum í atvinnu­líf­inu og í nefndum Alþingis hvort hluta­bréfa­mark­aður á Íslandi geti mögu­lega illa þjónað til­gangi sínum vegna þess hve dýptin er lítil í við­skipt­unum og aðilar á mark­aði fáir. Þessar raddir voru nokkuð háværar eftir hrunið og ekki síst eftir útkomu skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis í apríl 2010. Í fjórða bindi þeirrar skýrslu var fjallað sér­stak­lega um verð­bréfa­mark­að­inn og var þar dregin upp mynd af mark­aði þar sem mark­aðsvirðið virt­ist aðeins fara í eina átt – upp á við. Þar til bólan sprakk.

Í umfjöllun um þróun hluta­bréfa­mark­að­ar­ins segir rann­sókn­ar­nefndin að ekk­ert dæmi sé til um álíka hækk­anir og hér sáust:„Frá árs­byrjun 2004 og þar til úrvals­vísi­talan náði sínu hæsta gildi í 9016,48 stigum 18. júlí 2007 nam hækk­unin alls 328,76 pró­sent og var sú almenna hækkun úrvals­vísi­töl­unnar eins­dæmi meðal þró­aðra hag­kerfa eins og sam­an­burður við erlendar vísi­tölur sýnir glögg­t“.

Afleið­ing­arnar af þess­ari miklu bólu og tætl­unum sem hún skildi eftir sig um allt hag­kerfið sátu enn í fjár­fest­um, stórum og smá­um. Skuld­sett hluta­bréfa­kaup í for­dæma­lausu magni í alþjóð­legum sam­an­burði voru drif­kraft­ur­inn að baki hluta­bréfa­við­skipt­unum fyrir hrunið og grun­semdir voru uppi um stór­fellda mark­aðs­mis­notkun innan föllnu bank­anna fyrir hrun­ið. Emb­ætti sér­staks sak­sókn­ara fékk mörg slík meint brot til rann­sóknar skömmu eftir hrun­ið, hefur ákært í nokkrum slíkum málum og þyngstu efna­hags­brota­dómar Íslands­sög­unnar hafa fallið í hluta þeirra mála.

Íslenskur hlutabréfamarkaður fyrir hrun var gagnrýndur harðlega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

Bank­arnir fengu að end­ur­skipu­leggja atvinnu­lífið

Það varð þó ofan á að end­ur­reistu bank­arnir Arion banki, Íslands­banki og Lands­bank­inn fengu það hlut­verk að end­ur­skipu­leggja íslenskt atvinnu­líf. Þeir hafa not­ast við aðal­markað Kaup­hallar Íslands þegar þeir hafa minnkað við sig, eða selt að öllu leyti, fyr­ir­tæki sem þeir fengu í vöggu­gjöf í kjöl­far hruns­ins.

Veislan hófst með skrán­ingu Haga undir lok árs 2011. Um var að ræða fyrstu nýskrán­ingu eftir hrun og skrán­ing­ar­gengið var 13,5 krónur á hlut. Þeir sem tóku þátt í útboð­inu, sem voru færri en vildu, sjá ekki eftir þeirri fjár­fest­ingu. Virði Haga hefur rúm­lega þre­fald­ast síðan að skrán­ingin átti sér stað þrátt fyrir að Hagar hafi greitt hlut­höfum sínum 3,7 millj­arða króna í arð á síð­ustu þremur árum á sama tíma og félagið hefur greitt hratt niður skuld­ir.

Líf­eyr­is­sjóð­irnir ýkja völd einka­fjár­festa

Alls eru nýskrán­ing­arnar orðnar tólf eftir hrun auk þess sem hlutafé í Icelandair var aukið í kjöl­far fjár­hags­legrar end­ur­skipu­lagn­ingar á því félagi. Ljóst var að líf­eyr­is­sjóð­irnir myndu alltaf leika stórt kaup­enda­hlut­verk í end­ur­reistum hluta­bréfa­mark­aði. Þeir þurfa að koma um 120 millj­örðum króna á ári í fjár­fest­ingar og innan fjár­magns­hafta þá hefur ekki verið neitt rosa­lega mikið um fjár­fest­inga­mögu­leika, sér­stak­lega eftir að Íbúða­lána­sjóður hætti að gefa út skulda­bréf fyrir tveimur árum síð­an.

Það varð enda raun­in. Í rann­sókn sem Hersir Sig­ur­geirs­son, dós­ent við við­skipta­fræði­deild Háskóla Íslands, birti fyrir um ári síðan kom fram að íslenskir líf­eyr­is­sjóðir ættu, beint eða óbeint, um 43 pró­sent af skráðum félögum hér­lend­is.

Líf­eyr­is­sjóð­irnir eru með þá opin­beru afstöðu að sækj­ast ekki eftir því að vera virkir eig­end­ur. Þ.e. að þeir séu ekki að taka virkan þátt í stjórnun þeirra fyr­ir­tækja sem þeir eiga stóra hluti í. Það eru reyndar afar skiptar skoð­anir um það í við­skipta­líf­inu hvort allir full­trúar líf­eyr­is­sjóð­anna í stjórnum fyr­ir­tækja fari eftir þess­ari afstöðu. Til dæmis er Helgi Magn­ús­son, vara­for­maður Líf­eyr­is­sjóðs versl­un­ar­manna, í stjórn þriggja félaga: N1, Marel og Sím­ans. Helgi á sjálfur hluta­bréf í N1 og Mar­el. Í stjórn þess fyrr­nefnda situr hann fyrir hönd líf­eyr­is­sjóðs­ins. Helgi er til að mynda talin hafa beitt sér mjög fyrir því að Orri Hauks­son var ráð­inn for­stjóri Sím­ans fyrir tveimur árum síð­an.

En á meðan að líf­eyr­is­sjóð­irnir ætla sér ekki, að minnsta kostið opin­ber­lega, að vera virkir hlut­hafar þá aukast völd hinna sem eiga hluti í félögum með þeim. Þ.e. áhrif þeirra verða mun meiri en eign­ar­hlut­ur­inn segir til um.

Hverjir eru að græða?

Sá hópur ein­stak­linga er ekki mjög sýni­leg­ur. Eina úttektin sem hefur verið gerð á honum var í áður­nefndri rann­sókn Hers­is, sem mið­aði við stöð­una eins og hún var í árs­lok 2013. Þar var að finna lista yfir þá 20 ein­stak­linga sem áttu mest af hluta­bréfum í skráðum félögum á Íslandi á þeim tíma. Sam­tals áttu þessir 20 ein­stak­lingar 5,32 pró­sent allra hluta­bréfa á þeim tíma. Sam­kvæmt rann­sókn­inni var mark­aðsvirði bréfa, sem hóp­ur­inn átti þá, um 26,2 millj­arðar króna. Síðan hefur úrvals­vísi­talan hækkað um meira en 66 pró­sent. Ef hóp­ur­inn hefur ávaxtað hluta­bréfa­eign sína í takt við þá hækkun væri mark­aðsvirði hluta­bréfa þess­ara 20 ein­stak­linga um 43,6 millj­arðar króna.

Það er erfitt að átta sig á því hversu stóran hlut ein­stak­ling­ar, þ.e. ekki fag­fjár­festar eins og líf­eyr­is­sjóð­ir, eða félög í þeirra eigu eiga af íslenskum hluta­bréf­um.  Kaup­höllin birtir ein­ungis lista yfir 20 stærstu hlut­hafa hverju sinni og þar er ekki mikið um slíka.

Þar er hins vegar fullt af sjóðum í stýr­ingu sjóðs­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækja bank­anna. Þeir ein­stak­lingar sem eru umsvifa­mestir á hluta­bréfa­mark­aði kaupa oft hlut­deild­ars­kirteini í þeim sjóð­um. Ekki þarf að upp­lýsa um hverjir eig­endur slíkra hlut­deild­ars­kirteina eru.

Hinir ríku eiga hluta­bréfin

Í tölum sem Hag­stofa Íslands birti nýver­ið er hægt að sjá vís­bend­ingar um hversu mikið íslenskir fjár­magns­eig­endur hafa verið að hagn­ast á und­an­förnum árum. Sá fimmt­ungur Íslend­inga sem hafði hæstar tekjur á árinu 2014, alls tæp­lega 40 þús­und manns, jók hreina eign sína um 142,2 millj­arða króna á því ári. Tæpur helm­ingur aukn­ingar á auði íslenskra heim­ila á síð­asta ári féll í skaut þessa hóps. ­Tekju­hæsta tíund lands­manna, 19.711 manns, sá auð sinn vaxa um 88,2 millj­arða króna á árinu 2014. Á sama tíma óx hrein eign þess helm­ings þjóð­ar­innar sem er með lægstu tekj­urn­ar, alls um eitt hund­rað þús­und manns, um 72 millj­arða króna, eða 16,2 millj­arða króna minna en rík­asti hluti þjóð­ar­inn­ar.

Auk þess á rík­asta tíund þjóð­ar­innar yfir helm­ing allra verð­bréfa, en virði þeirra í þess­ari sam­an­tekt er skráð á nafn­virði. Mark­aðsvirði þeirra verð­bréfa, sem eru til dæmis hluta­bréf í fyr­ir­tækjum lands­ins, er mun hærra en upp­gefið nafn­virði. Því er eigið fé þessa hóps, alls 19.711 ein­stak­linga, því lík­lega mun meira en tölur Hag­stofu Íslands gefa til kynna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None