Svíar eru hlutlaus þjóð. Þessi hugsun var grundvöllur utanríkisstefnu þeirra frá lokum seinni heimsstyrjaldar þótt heldur hafi hrikt í stoðum hlutleysisins síðustu ár. Olof Palme gagnrýndi Bandaríkin harðlega vegna Víetnam-stríðsins en risinn í austri var engu að síður talin helsta öryggisógn landsins.
Svíþjóð hefur aukið samstarf sitt við NATO að undanförnu og fylgir þar ekki hvað síst fordæmi Finna. Finnski forsetinn sagði meðal annars nýlega að ræða ætti um inngöngu í NATO, en lengi vel þótti það óhugsandi vegna mögulegra viðbragða Rússa. Svíar og Finnar hafa ákveðið að auka varnarsamstarf þjóðanna með það að marki að þær geti sameina krafta sína ef stríð brjótist út. Þetta er í samræmi við Stoltenberg-skýrsluna sem kom út fyrir nokkrum árum og hvetur til aukins varnarsamstarfs Norðurlandaþjóðanna.
Hlutleysi Svía hefur vakið mikla athygli á heimsvísu og gjarnan talað um þá sem friðelskandi þjóð. Hins vegar gleymist oft að Svíar þurfa að reka öflugan her sem býr yfir nýjustu tækni til að bæta upp fyrir hlutfallslega fámennar sveitir. Svíar eru þess vegna meðal öflugustu vopnaframleiðanda og útflytjenda í heimi. Þótt stærstur hluti útflutningsins fari til þjóða innan Evrópusambandsins ratar hluti vopnanna alltaf til einræðisherra.
Óviðeigandi markaðssetning
Íslendingar tengja Saab verksmiðjuna líklega einna helst við bíla en staðreyndin er sú að fyrirtækið er langstærsti vopnaframleiðandi Svíþjóðar með um 60% markaðshlutdeild. Fyrir nokkrum árum birtu sænskir fjölmiðlar fréttir af því hvernig Saab markaðssetti vopn. Til þess var leitað í smiðju kvikmyndaiðnaðarins og framleidd auglýsing sem vakti blendin viðbrögð. Fyrirtækið þótti hafa gengið heldur of langt og sérstaklega með notkun á slagorðinu „Sjáðu fyrst – dreptu fyrst“.
Það vakti athygli í myndinni að orystuflugmaðurinn var leikinn af konu sem átti að sýna að þrátt fyrir allt væru Saab verksmiðjurnar meðvitaðar um jafnrétti, líka þegar kæmi að drápsvopnum. Annað sem þótti óviðeigandi var auglýsing fyrir vopn sem einkum er notað til að skjóta á brynvarin ökutæki. Þar var sérstaklega tekið fram að vopnið væri með stillingu fyrir „mjúk skotmörk“ – eins og til dæmis manneskjur.
Deilt um vopnaútflutning til Saudi-Arabíu
Svíar fluttu út vopn fyrir um 8 milljarða sænskra króna (um 130 milljarðar ISK) árið 2014 sem var um þriðjungi minna en árið áður. Af því fóru um 78 prósent til Evrópusambandslanda auk Bandaríkjanna, Ástralíu og Kanada. Þegar tímabilið 2003-2013 er skoðað kemur í ljós að Svíþjóð er í tólfta sæti yfir helstu vopnaútflytjendur í heimi með um 2 prósent af heildinni. Svíþjóð er hins vegar í þriðja sæti þegar miðað er við útflutning sem hlutfall af fólksfjölda, á eftir Ísrael og Rússlandi. Sum árin hefur Svíþjóð verið í efsta sæti listans.
Útflutningur til Saudi-Arabíu er aðeins lítill hluti af vopnaviðskiptum landsins en hefur hins vegar vakið hörð viðbrögð í Svíþjóð. Árið 2005 gerði ríkisstjórn Jafnaðarmanna leynilegan samning um vopnaverksmiðju í Saudi-Arabíu við stjórnvöld þar í landi. Ríkisstjórn Reinfeldt’s endurnýjaði samninginn árið 2010 en það var ekki fyrr en árið 2012 þegar sænska ríkisútvarpið birti fréttir af samkomulaginu sem það komst upp. Í kjölfarið vöknuðu spurningar um það hvernig réttlæta mætti slíkan samning við land sem ítrekað hefur verið staðið að grófum mannréttindabrotum. Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins er mannréttindabrotunum lýst nákvæmlega og þau sögð vera þess eðlis að alþjóðasamfélagið ætti að bregðast við þeim.
Snýst vopnasala um frjáls viðskipti?
Á föstudag birtist grein í Dagens Nyheter þar sem 31 forsvarsmaður í sænsku viðskiptalífi hvatti til þess að vopnaviðskiptum við Saudi-Arabíu yrði framhaldið. Á listanum mátti meðal annars sjá stjórnendur í bönkum en einnig forsvarsmenn fyrirtækja á borð við Volvo, H&M, Ericsson og Scania. Í greininni er fjallað um hversu háðir Svíar eru útflutningi og að trúverðugleiki Svíþjóðar sem viðskiptalands sé í húfi. Mikilvægt sé að standa við gerða samninga.
Saudi-Arabía er í átjánda sæti yfir helstu útflutningslönd Svíþjóðar en í fjórða sæti þegar lönd utan Evrópu eru skoðuð. Þrátt fyrir mannréttindabrot segja stjórnendurnir að viðskipti og samræður séu besta leiðin til að auka lýðræði og bæta mannréttindi. Verði vopnaviðskiptum við landið hætt, segja forsvarsmennirnir, megi gera ráð fyrir að önnur viðskipti skaðist einnig.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar ræðir við fréttamenn.
Þessi rök halda þó ekki að mati hagfræðiprófessorsins Olof Johansson-Stenman. Hann segir að útflutningur til Saudi-Arabíu sé aðeins tæpt prósent af útflutningi Svíþjóðar og því ekki um gríðarlegan skell að ræða ef hann minnki. Þess utan sé ekki gert ráð fyrir neikvæðum viðbrögðum frá mikilvægari útflutningslöndum eins og Þýskalandi, sem þegar hafi ákveðið að selja ekki vopn til Saudi-Arabíu.
Deilt um málið innan stjórnarinnar
Ríkisstjórn Jafnaðarmann og Umhverfisflokksins þarf fljótlega að ákveða hvort samkomulagið við Saudi-Arabíu verði framlengt. Nokkuð öruggt mál telja að forsætisráðherran Stefan Löfven vilji framlengja enda hefur hann sterk tengsl við viðskiptalífið og framleiðsluiðnaðinn í gegnum fyrra starf sitt sem formaður verkalýðsfélags.
Stuðningur meðal flokksmanna fyrir tillögunni er hins vegar minni og þá hefur Umhverfisflokkurinn lýst því yfir að hann sé henni mótfallinn. Spurningin sem Svíar standa frammi fyrir snýst að lokum ekki bara um vopnasölusamning við Saudi-Arabíu. Hún snýst um utanríkisstefnu landsins og hvort áhersla á baráttu fyrir mannréttindum fari alltaf saman við frjáls viðskipti og hlutleysisstefnuna.