Það er gangur í „byggingabransanum“ í Kaupmannahöfn. Og veitir ekki af, íbúum fjölgar ár frá ári. Í borginni er mikið um húsnæði sem ekki uppfyllir kröfur nútímans enda komið til ára sinna. Á undanförnum árum hefur fjöldi húsa, í eldri hverfum borgarinnar, verið rifinn og ný komið í staðinn. Í nýjum húsum sem byggð hafa verið í stað þeirra eldri eru íbúðirnar í mörgum tilvikum stærri og betri en jafnframt færri. Þess konar endurbygging leysir því ekki húsnæðisvandann, meira þarf til.
Takmarkað landrými
Landrými til nýbygginga í Kaupmannahöfn , sem ekki hefur þegar verið nýtt, er takmarkað. Á hafnarsvæðunum, sem ekki eru lengur í notkun, Suðurhöfninni, Norðurhöfninni og Íslandsbryggju hefur mikið verið byggt á síðustu árum, sömuleiðis Svíþjóðarmegin á Amager (við Amager strand) og í Ørestad. Þessi svæði verða brátt fullbyggð og því þarf að leita nýrra leiða. Eitt svæði sem horft hefur verið til sem hugsanlegs nýbyggingasvæðis er á norðvesturhluta Amager, Amager fælled, en nánar verður vikið að því svæði síðar.
Fimmtíu ára Kaupmannahafnarplanið
Í október 2018 undirrituðu Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar samkomulag ríkis og borgar um uppbyggingu á 200 hektara svæði við hafnarmynni Kaupmannahafnar. Svæðið sem fengið hefur nafnið Lynetteholmen tengist Refshaleøen, fyrrum athafnasvæði Burmeister & Wain skipasmíðastöðvarinnar. Lynetteholmen verður landfylling, allt efnið þarf að flytja að. Gert er ráð fyrir um það bil 20 þúsund íbúðum og hluti eyjunnar er jafnframt ætlaður fyrirtækjum. Við undirskriftina, með tilheyrandi handabandi, sagði forsætisráðherrann að ef allt gengi eftir yrði verkefninu lokið árið 2070. Jafnframt er ætlunin að byggja 15 þúsund nýjar íbúðir á Refshaleøen.
Amager fælled
Eins og áður sagði hafði borgarstjórn Kaupmannahafnar og skipulagsyfirvöld borgarinnar um nokkurra ára skeið haft uppi áætlanir um að selja byggingarétt á hluta Amager fælled. Svæðið sem um ræðir hefur lengi verið friðað og er óbyggt, fyrir utan eitt allstórt farhuglaheimili sem hefur verið þarna um áratugaskeið. Samkomulag náðist um það í borgarstjórn Kaupmannahafnar árið 2019 að aflétta friðun á hluta Amager fælled, í því skyni að leyfa að þar yrði byggt, og selja byggingaréttinn. Danska þingið, Folketinget, samþykkti líka afléttingu friðunar.
Andvirði sölunnar á byggingavæðinu yrði notað til að fjármagna frekari uppbyggingu lestakerfisins (Metro). Fyrirætlanir borgarstjórnar um söluna mættu frá upphafi mikilli andstöðu, tugþúsundir skrifuðu undir mótmælaskjöl, náttúrverndarsamtök lýstu mikilli andstöðu við ákvarðanir borgarstjórnar en það breytti engu, gengið var frá sölu svæðisins. Samtökin Amager Fælleds Venner lögðu ekki árar í bát en stefndu borginni til að reyna að hindra byggingaáformin. Til að unnt yrði að höfða mál þurftu samtökin að leggja fram tryggingu, 2 milljónir danskra króna (um 40 milljónir íslenskar). Þeim peningum var safnað á tveimur dögum og í ágúst sl. voru framkvæmdir sem hafnar voru (jarðvegsvinna) stöðvaðar, eftir úrskurð Bæjarréttar. Skrifari þessa pistils var í Kaupmannahöfn fyrir skömmu og sá að á Amager fælled var allt stopp. Nokkur stór vinnutæki stóðu á hinu fyrirhugaða byggingasvæði, það var allt og sumt. Ekki er ljóst hvert framhaldið verður en málið er nú hjá sérstakri úrskurðarnefnd Atvinnumálaráðuneytisins. Búist er við niðurstöðu nefndarinnar í janúar 2022.
Á hverju strandaði?
Nú má spyrja, er borginni ekki heimilt að breyta skipulagi og er hægt að koma í veg fyrir það, si svona?
Því er til að svara að lögin um náttúruvernd eru mjög afdráttarlaus. Samkvæmt þeim er einungis hægt að aflétta friðun tiltekins svæðis ef brýn samfélagsleg nauðsyn krefur. Hvort um slíkt hafi verið að ræða í tilviki Amager fælled er umdeilanlegt. En það var annað sem þarna spilaði inn í og vó þyngra: salamandrafroskurinn.
Alfriðuð tegund
Lengi hefur verið vitað að á tilteknu svæði á Amager fælled er að finna sjaldgæfa tegund froska. Nánar tiltekið eitt afbrigði svokallaðrar stóru salamöndru, sem er þrátt fyrir nafnið lítil. Þetta tiltekna afbrigði er alfriðað og samkvæmt samþykktum Evrópusambandsins, sem Danmörk hefur skuldbundið sig til að hlíta, er stranglega bannað að raska búsetuskilyrðum friðaðra dýra. Það er þetta sem nú hefur stöðvað byggingaáformin á Amager fælled. Borgin, og byggingaverktakinn, sem keypti landið, segja að hægt sé að flytja salamöndrurnar á annað svæði, þar sem þær fái að vera í friði, en náttúruverndarsinnar gefa lítið fyrir þær yfirlýsingar. En, eins og er una salamöndrurnar væntanlega glaðar við sitt, enda vita þær ekkert um ósætti í mannheimum.
Grænblettafroskarnir
Eftir undirskrift danska forsætisráðherrans og yfirborgarstjóra Kaupmannahafnar um að hrinda úr vör „fimmtíu ára áætluninni“ hófst undirbúningur þess sem nefnt er Lynetteholm verkefnið. Eins og áður var á minnst verða hektararnir 200 „tilbúið land“, það er að segja landfylling. Ljóst er að þetta stóra verkefni veldur margs konar raski á svæðum í nágrenninu. Mikil umferð stórra vörubíla, byggingakrana og alls kyns vinnuvéla dag út og dag inn árum saman er fyrirséð. Náttúru- og dýraverndarsamtök hafa bent á að á svæðinu í nágrenni hinnar fyrirhuguðu landfyllingar sé fjölbreytt dýralíf. Meðal annars sé þar að finna sjaldgæfa tegund froska, svonefnda grænblettafroska (grønbroged tudse). Þessi froskategund er alfriðuð.
Í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Rambøll vann fyrir dönsku umferðarstofuna, Trafikstyrelsen, er minnst á grænblettafroskana. Niðurstaða Rambøll var að á síðustu árum hafi ekki fundist grænblettafroskar á svæðum í nágrenni hins fyrirhugaða byggingasvæðis. Þess vegna þyrfti ekki að meta áhrif framkvæmda á froska og aðrar skyldar dýrategundir. Þessi niðurstaða kom dýraverndunarsinnum á óvart, þeir segja vitað að umrædd svæði séu búsvæði margra dýrategunda, ekki síst hinna friðuðu grænblettafroska. Í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Amphi Consult vann fyrir dönsku náttúruverndarsamtökin kemur fram að miklar líkur séu á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski viðkvæmu dýralífi á svæðinu.
Íhuga málshöfðun
Þegar ágreiningur rís vegna skipulags- og framkvæmda er i flestum tilvikum hægt að skjóta þeim ágreiningi til úrskurðarnefnda. Þannig var það t.d með Amager fælled málið. En hvað varðar Lynetteholmen er slíkum möguleika ekki til að dreifa. Ástæðan er sú að danska þingið samþykkti sérlög varðandi þetta stóra verkefni og það undanskilur það lögum um áfrýjun. Dönsku náttúruverndarsamtökin hafa sent samgöngunefnd þingsins sérstaka beiðni um að málið verði skoðað sérstaklega en hafa jafnframt íhugað málssókn.
Lögin gilda fyrir alla
Í viðtali við dagblaðið Politiken sagði Ellen Margrethe Basse prófessor í umhverfisrétti við Árósaháskóla að lögin væru skýr. Ef grænblettafroska er að finna á framkvæmdasvæðum skal meta áhrif fyrirhugaðra framkvæmda. ,,Það er skylt að tryggja öryggi grænblettafroskanna, það stendur skýrum stöfum í náttúruverndartilskipun Evrópusambandsins. Sú tilskipun gildir líka fyrir danska þingið.“
Fyrirhugað er að framkvæmdir við Lynetteholmen hefjist á næsta ári. Hvort sú verður raunin er of snemmt að segja til um.
Kvakk.