Saga Danske Bank teygir sig til ársins 1871. Söðlasmiðurinn og veðlánarinn Gottlieb Hartvig Abrahamsson Gedalia var helsti hvatamaðurinn að stofnun bankans sem fékk nafnið Den Danske Landmandsbank, Hypothek- & Vexelbank i Kjøbenhavn. Í daglegu tali kallaður Landmandsbanken. Síðar fékk bankinn nafnið Den Danske Bank og árið 2000 núverandi nafn, Danske Bank. Í rekstrinum hafa skipst á skin og skúrir, erfiðasta tímabilið voru árin eftir fyrri heimsstyrjöld, þá varð ríkisstjórnin að hlaupa undir bagga til að forða bankanum frá þroti. Á liðnum árum og áratugum hafa orðið miklar sviptingar í bankaheiminum, uppkaup og sameiningar.
Danske Bank er í dag annar tveggja stærstu banka Danmerkur, hinn er Nordea. Árið 2006 keypti Danske Bank finnska bankann Sampo Bank, með í kaupunum fylgdi lítið útibú í Eistlandi. Þetta litla útibú átti eftir að koma mjög við sögu í rekstri bankans.
Thomas Borgen
Árið 2013 var norðmaðurinn Thomas Borgen ráðinn bankastjóri Danske Bank. Thomas, sem er 58 ára, kom til starfa hjá Danske Bank árið 1997 og þekkti því vel til í bankanum þegar hann tók við bankastjórastarfinu. Þegar hann settist í bankastjórastólinn voru erfiðleikar í rekstri Danske Bank og stjórn bankans áleit Thomas Borgen rétta manninn í starfið.
Fram að ráðningu hans hafði enginn útlendingur gegnt starfi bankastjóra. Lengi hafði það orð farið af Danske Bank að innan veggja höfuðstöðvanna við Kóngsins Nýjatorg í Kaupmannahöfn ríkti sérkennilegt andrúmsloft, þar sem ríkti ákveðin misskipting yfirmanna og undirmanna. Sem dæmi um þetta hafði lengi tíðkast að æðstu stjórnendur bankans borðuðu hádegisverð í svonefndri arinstofu á efstu hæð bankans en starfsfólkið ,,á gólfinu“ aftur á móti í matstofu á annari hæð. Þennan sið afnam hinn nýi bankastjóri og hann bannaði ennfremur að yfirmennirnir, sem nú voru komnir nær jörðu með hádegismatinn (orðalag dagblaðsins Børsen) gætu tekið frá sérstök borð í ,,almenningnum“. Ekki fer sögum af því hvernig þeim sem ekki fengu lengur að borða í arinstofunni líkaði þessi breyting en annað starfsfólk kunni vel að meta hana. Undir stjórn Eivind Kolding, forvera Thomas Borgen var stefnan sú að gera Danske Bank að alþjóðlegri peningastofnun þar sem meira væri hugsað um þá stóru en hina smáu, eins og Ole Andersen stjórnarformaður komst að orði „með ráðningu Thomas Borgen viljum við að bankinn þjóni öllum, einstaklingum og fyrirtækjum“. Viðskiptavinum bankans hafði fækkað mikið á undanförnum árum en nú fjölgaði þeim á nýjan leik og reksturinn gekk vel. Hlutabréfin hækkuðu nánast dag frá degi.
En, það var ljón í veginum. Ljón sem óx og óx. Þetta ljón var áðurnefnt útibú í Eistlandi.
Ekki hlustað á viðvaranir
Meðan Thomas Borgen og Ole Andersen voru önnum kafnir við að koma bankanum á réttan kúrs árin 2013 og 2014 fengu þeir ábendingar um að ekki væri allt með felldu varðandi starfsemi útibúsins í Eistlandi. Þar væri stundað peningaþvætti fyrir rússneska glæpamenn (kriminelle russere). Í þeim hópi voru svonefndir ólígarkar, sígarettusmyglarar, rússneskir auðmenn og fólk nátengt Vladimir Putin forseta Rússlands. Samtals um tíu þúsund manns. Þessi starfsemi hefði viðgengist frá árinu 2007 án þess að nokkuð væri aðhafst. Loks árið 2015 var þessi þvottavél (orðalag danskra fjölmiðla) tekin úr sambandi.
Áður en Thomas Borgen settist í bankastjórastólinn var hann yfirmaður þeirrar deildar bankans sem annaðist alþjóðleg viðskipti. Þar á meðal viðskiptin í útibúinu í Eistlandi.
Umfjöllun í Berlingske
Vorið 2017 birtist í dagblaðinu Berlingske grein þar sem fjallað var um málefni Danske Bank í Eistlandi, og næstu daga fylgdu fleiri greinar í kjölfarið. Umfjöllunin vakti mikla athygli og dögum saman var rússneska þvottavélamálið, eins og það var kallað stærsta fréttamálið í dönskum fjölmiðlum. Fyrst var talið að farið hefðu í gegnum „þvottavélarnar“ jafngildi 52 milljarða danskra króna (1032 milljarðar íslenskir) en síðar kom í ljós að upphæðin var margfalt hærri eða um það bil 1500 milljarðar danskra króna (30 þúsund milljarðar íslenskir).
Eftir að þvottavélamálið komst í hámæli fékk Danske Bank lögfræðifyrirtæki til að rannsaka málið í heild sinni. Þeirri rannsókn lauk árið 2018. Í skýrslunni var ekki bent á neinn sem bæri ábyrgð á því sem gerðist. Thomas Borgen lét af störfum sem bankastjóri Danske Bank haustið 2018. Hann sætti, eftir að málið kom upp, rannsókn þeirrar deildar danska ríkislögmannsins sem fer með efnahagsbrot og alþjóðlega glæpi á því sviði. Þeirri rannsókn lauk árið 2021, án ákæru.
Þess má geta að Danske Bank sætir lögreglurannsókn vegna þvottavélamálsins, ekki er vitað hvenær þeirri rannsókn lýkur.
Hluthafar stefndu
Haustið 2018 hóf belgíska ráðgjafar- og lögfræðistofan Deminor undirbúning málshöfðunar á hendur Thomas Borgen fyrir hönd hluthafa í bankanum. Að baki málshöfðuninni stóðu 74 fyrirtæki, þar á meðal bankar.
Ástæða málshöfðunarinnar var tap sem hluthafar töldu sig hafa orðið fyrir vegna lækkandi gengis hlutabréfa í bankanum eftir að þvottavélamálið var dregið fram í dagsljósið. Upphæðin sem hluthafarnir fóru fram á að Thomas Borgen skyldi greiða þeim nam 2,4 milljörðum danskra króna, um það bil 47 milljörðum íslenskum. Stefnendur töldu Thomas Borgen hafa vanrækt eftirlitsskyldur sínar og hefði ekki brugðist við þegar ábendingar vegna útibúsins í Eistlandi bárust bankanum.
Sýknaður í Bæjarrétti
Réttarhöld í málinu gegn Thomas Borgen stóðu yfir í átta daga, í september og október síðastliðnum. Málsskjölin fylltu 6588 blaðsíður, auk rúmlega 2 þúsund fylgiskjala.
Dómurinn féll sl. þriðjudag, 8. nóvember. Þar var Thomas Borgen sýknaður af ákæru stefnenda sem jafnframt var gert að greiða honum 10 milljónir danskra króna í málskostnað. Málið var rekið fyrir Bæjarréttinum í Lyngby. Það dæmdu þrír dómarar sem voru einróma í niðurstöðu sinni.
Í niðurstöðu dómsins segir að í fyrsta lagi sé það einungis bankinn, ekki einstakir hluthafar sem geti höfðað mál vegna óábyrgs rekstrar. Í öðru lagi höfnuðu dómarar því að Thomas Borgen hafi borið skylda til að verða sér úti um upplýsingar sem álíta mætti að hefði þau áhrif á hlutabréfaverð bankans að slíkt bæri að tilkynna formlega. Í þriðja lagi hafi stefnendur ekki sýnt fram á að skortur á upplýsingum hafi leitt til lækkunar hlutabréfa og í fjórða lagi ekki sýnt fram á hversu miklu hluthafar hafi tapað.
Bæjarréttur er lægsta dómstig af þremur í Danmörku, Landsréttur er næsta stig fyrir ofan og loks Hæstiréttur.
Í tilkynningu frá Deminor, sem rak málið fyrir hönd hluthafa, kom fram að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort málinu yrði áfrýjað.
Áfrýjunarfrestur er 14 dagar frá dómsuppkvaðningu.
Þess má að lokum geta að Danske Bank hefur lagt til hliðar 14 milljarða danskra króna (278 milljarða íslenska) vegna hugsanlegra sekta og bóta í þvottavélamálinu.