Norðvesturkjördæmi er fámennasta kjördæmi landsins. Í forsetakosningunum í fyrra voru 8,53 prósent kjósenda á kjörskrá með atkvæðisrétt í Norðvesturkjördæmi, eða rúmlega 21.500 manns.
Útlit er fyrir að töluverð uppstokkun verði í þingliði kjördæmisins í haust. Oddvitar bæði Framsóknar og Samfylkingar fara ekki fram að nýju í kjördæminu og annar þingmaður Framsóknar varð í þriðja sæti í prófkjöri flokksins og á því litla möguleika á að halda þingsæti sínu. Spennandi innanflokksbarátta virðist sömuleiðis framundan hjá bæði Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum um oddvitasæti á lista.
D og B væru með meirihluta á Vesturlandi og Vestfjörðum
Kjarninn fékk sundurliðuð gögn um fylgi flokka úr þremur könnunum MMR, sem framkvæmdar voru á tímabilinu 30. desember 2020 til 10. mars 2021. Gögnin eru hins vegar ekki brotin niður eftir kjördæmum, heldur landshlutum, sem gerir nákvæman útreikning á fylgi flokka í Norðvesturkjördæmi, sem teygir sig yfir bæði Vesturland og Vestfirði auk Norðurlands vestra, illmögulegan.
Það eru þó ákveðnar sögur sem hægt er að segja með þeim gögnum sem eru fyrir hendi, en gott er að hafa í huga að rúmur helmingur kjósenda í kjördæminu býr á Vesturlandi, eða um 11 þúsund manns. Síðan eru um og yfir 5 þúsund kjósendur bæði á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.
Staða Sjálfstæðisflokksins virðist sterk á Vesturlandi og Vestfjörðum um þessar mundir. Fylgið þar, samkvæmt útkomu þriggja kannana MMR, slagar í 33 prósent. Það er því að mælast nærri tíu prósentustigum hærra en það gerði í tveimur sambærilegum könnunum MMR í sama landshluta fyrir kosningarnar haustið 2017 og sömuleiðis um tíu prósentustigum hærra en fylgi flokksins á landsvísu. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 24,5 prósent atkvæða í kjördæminu árið 2017.
Sama má segja um Framsókn, en flokkurinn mælist með næstum 24 prósent fylgi á Vesturlandi og Vestfjörðum samkvæmt könnunum MMR. Fyrir kosningarnar 2017 var flokkurinn að mælast með tæplega 15 prósent í landshlutanum og virðist staða hans þar því sterkari en þá. Samtals eru Sjálfstæðisflokkur og Framsókn því að mælast með yfir 50 prósent fylgi í landshlutanum.
Á móti kemur að Miðflokkurinn er að mælast lágt, bæði á Vesturlandi og Vestfjörðum og sömuleiðis á Norðurlandi, samanborið við mælingar MMR fyrir kosningarnar árið 2017. Fylgi Miðflokksins í báðum landshlutum mælist á milli 8 og 9 prósent samkvæmt könnunum MMR undanfarna mánuði, en fór yfir 20 prósent í sambærilegum könnunum fyrir kosningarnar árið 2017. Flokkurinn fékk 14,2 prósent greiddra atkvæða í NV-kjördæmi í síðustu kosningum.
Vinstri græn virðast eiga erfitt uppdráttar á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem þorri kjósenda í Norðvesturkjördæmi hefur búsetu. Fylgi flokksins mælist þar 5,6 prósent í þessum þremur könnunum MMR og dregst saman um tæp sjö prósentustig frá tveimur mælingum MMR haustið 2017. Lítil hreyfing er hins vegar á fylgi flokksins á Norðurlandi. Flokkurinn fékk 17,8 prósent atkvæða í Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum.
Samfylkingin mælist einnig töluvert lægri á Vesturlandi og Vestfjörðum en í aðdraganda síðustu kosninga, eða með rúmlega 8 prósent fylgi samanborið við rúm tæplega 16 prósenta fylgi haustið 2017. Kjörfylgi flokksins í kjördæminu var hins vegar langt undir því fylgi sem mældist á Vesturlandi og Vestfjörðum í könnunum MMR fyrir síðustu kosningar – eða 9,7 prósent.
Píratar mælast með mest fylgi stjórnarandstöðuflokka á Vesturlandi og Vestfjörðum, samkvæmt könnunum MMR. Það fylgi er þó einungis rúm 9 prósent, nokkuð undir fylgi flokksins á landsvísu.
Gustar um Sjálfstæðisflokkinn
Niðurstaða 2017: 4.233 atkvæði - 24,5 prósent
Haraldur Benediktsson leiddi lista flokksins í kjördæminu til síðustu kosninga, en í 2. sæti listans var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Ýmislegt er síðan breytt síðan árið 2017. Þórdís Kolbrún hefur verið ráðherra síðan þá og var sömuleiðis kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins árið 2018.
Hún gaf það strax síðasta haust að hún ætlaði ekki að færa sig yfir í annað kjördæmi og hefur að undanförnu komið því á framfæri að hún sækist eftir efsta sæti listans. Það ætlar Haraldur þó ekki að láta af hendi þegjandi og hljóðalaust, en hann gaf það út í febrúar að hann myndi sækjast eftir trausti flokksmanna í kjördæminu til þess að leiða listann áfram.
Það virðist því stefna í spennandi prófkjörsbaráttu þeirra á milli um efsta sæti listans, sem hefur þegar valdið nokkrum titringi.
Halldór Jónsson, sem var formaður kjördæmisráðs flokksins, sagði sig frá þeirri stöðu snemma í marsmánuði eftir að Þórdís Kolbrún lýsti yfir vilja sínum til að sækjast eftir forystusætinu á fundi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Fjallað var um málið í Skessuhorni.
Þar kom fram að Halldór hefði skrifað forystu Sjálfstæðisflokksins bréf og lýst afstöðu sinni. Þar sagði meðal annars að Þórdís Kolbrún hefði að hans mati ekki sett fram ríkar málefnalegar ástæður fyrir því að skora oddvita flokksins í kjördæminu á hólm á fundinum á Akranesi.
„Þvert á móti lýsti hún afar vel styrk og góðum störfum Haraldar sem fyrsta þingmanns kjördæmisins. Það er rétt metið hjá varaformanninum því þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður sjá íbúar kjördæmisins mörg erfið mál þokast áfram eftir kyrrstöðu. Það er ekki síst elju og vinnusemi Haraldar að þakka,“ skrifaði Halldór til flokksforystunnar, samkvæmt frétt Skessuhorns.
Afstaða Halldórs er samkvæmt fréttinni að betra væri að stilla upp óbreyttri forystu í kjördæminu fremur en að leggja af stað í baráttu sem geri lítið annað en að veikja stöðu þeirra beggja.
Teitur Björn Einarsson, sem skipaði þriðja sæti á lista flokksins bæði 2016 og 2017, hefur einnig gefið út að hann sækist eftir þingsæti. Prófkjör flokksins í Norðvesturkjördæmi mun þó ekki fara fram fyrr en um miðjan júní.
Algjör nýliðun blasir við hjá Framsókn
Niðurstaða 2017: 3.177 atkvæði - 18,4 prósent
Ljóst varð snemma á árinu að sviptingar yrðu hjá Framsóknarflokknum í Norðvesturkjördæmi. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra tilkynnti að hann ætlaði sér að taka slaginn í Reykjavík suður, ákvörðun sem hann sjálfur og margir aðrir hafa kallað djarfa í ljósi takmarkaðs fylgis Framsóknar í höfuðstaðnum.
Framsóknarfólk hefur valið efstu sæti á lista sinn í Norðvesturkjördæmi. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og sveitarstjórnarmaður í Skagafirði, verður oddviti og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, 24 ára formaður Sambands Ungra Framsóknarmanna og núverandi varaþingmaður, náði öðru sætinu á listanum, en valið fór fram með póstkosningu.
Lilja Rannveig skákaði Höllu Signýju Kristjánsdóttur, sitjandi þingmanni flokksins, sem hafnaði í þriðja sæti í vali samflokksmanna.
Halla Signý hafði gefið það út að hún sæktist eftir því að leiða listann í kjördæminu eftir að Ásmundur Einar hélt suður á bóginn en nú lítur allt út fyrir að hún nái ekki þingsæti í haust nema Framsókn fái afburðagóða kosningu.
Slagur framundan hjá Vinstri grænum
Niðurstaða 2017: 3.067 atkvæði - 17,8 prósent
Útlit er fyrir spennandi oddvitaslag hjá Vinstri grænum. Lilja Rafney Magnúsdóttir er eini þingmaður flokksins í kjördæminu og sækist eftir því að leiða lista flokksins áfram í haust, en undir lok marsmánaðar gaf Bjarni Jónsson sveitarstjórnarmaður í Skagafirði og varaþingmaður það út að hann gæfi kost á sér í fyrsta sæti listans.
Mjótt var á munum á milli þeirra tveggja í forvali fyrir kosningarnar árið 2016, en Lilja Rafney hafði þá betur. Hún hefur setið á þingi óslitið frá árinu 2009.
Forval Vinstri grænna í kjördæminu fer fram rafrænt dagana 23., 24. og 25. apríl. Kosið verður um fimm efstu sæti á listanum, þar af bindandi í efstu þrjú.
Sama tvíeykið hjá Miðflokknum?
Niðurstaða 2017 - 2.456 atkvæði - 14,2 prósent
Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson skipuðu efstu tvö sætin á lista Miðflokksins í kjördæminu árið 2017. Lítið annað hefur heyrst en að svo verði áfram.
Bæjarmálamaður á Akranesi leiðir Samfylkingu
Niðurstaða 2017 - 1.681 atkvæði - 9,7 prósent
Guðjón S. Brjánsson, eini þingmaður Samfylkingar í kjördæminu, gaf út í marsmánuði að hann myndi ekki gefa kost á sér til þingsetu að nýju og því var ljóst að nýr oddviti yrði valinn á kjördæmisþingi sem fór fram þann 27. mars.
Þar varð hlutskarpastur Valgarður Lyngdal Jónsson, grunnskólakennari og núverandi forseti bæjarstjórnar á Akranesi, en Samfylkingin myndar þar bæjarstjórnarmeirihluta ásamt framboði Framsóknar og frjálsra.
Jónína Björg Magnúsdóttir fiskverkakona á Akranesi skipar annað sæti listans, en hún var eina konan sem gaf kost á sér í forvali flokksins í kjördæminu. Hún var í þriðja sæti á lista fyrir síðustu kosningar.
Lögmaður leiðir Pírata
Niðurstaða 2017 - 1.169 atkvæði - 6,8 prósent
Píratar tefla fram nýju andliti í oddvitasætinu Norðvesturkjördæmi í haust, en Magnús Davíð Norðdahl lögmaður, sem hefur verið áberandi í fjölmiðlum fyrir störf sín í þágu hælisleitanda, varð efstur í prófkjöri flokksins, þar sem um 400 manns greiddu atkvæði.
Eva Pandora Baldursdóttir leiddi flokkinn til kosninga í kjördæminu bæði 2016 og 2017 og var kjörin inn á þing árið 2016.
Á kosninganótt í lok október 2017 leit út fyrir að Píratar myndu áfram eiga þingmann í Norðvesturkjördæmi en svo reyndist ekki þegar spurt var að leikslokum og uppbótarþingsætið féll í skaut Miðflokksins.
Verður Magnús Þór maður fólksins?
Niðurstaða 2017 - 911 atkvæði - 5,3 prósent
Lítið hefur spurst af framboðsmálum Flokks fólksins fyrir komandi kosningar, hvað þá í Norðvesturkjördæmi sérstaklega. Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins sáluga, leiddi lista flokksins í kjördæminu árið 2017.
Hann er í dag starfsmaður þingflokksins á Alþingi. Flokkur fólksins hefur haft þann háttinn á í liðnum ár að kynna alla oddvita flokksins í einu en þær upplýsingar var að fá frá flokknum þegar Kjarninn hafði samband að sá tími væri ekki enn runninn upp.
Nær vinsæll fyrrverandi bæjarstjóri að tryggja Viðreisn þingsæti?
Niðurstaða 2017: 423 atkvæði - 2,5 prósent
Viðreisn hefur ekki átt upp á pallborðið hjá kjósendum í Norðvesturkjördæmi frá því flokkurinn var stofnaður. Flokkurinn fékk reyndar rúm 6 prósent atkvæða í kjördæminu árið 2016 en hrapaði niður í 2,5 prósent eftir að hafa sest við ríkisstjórnarborðið í skammlífri stjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar.
Í bæði skiptin leiddi Gylfi Ólafsson, sem í dag er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, lista Viðreisnar til kosninga, en nú er kominn nýr maður í oddvitasætið.
Það er Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði. Eins og frægt varð lét hann af störfum í kjölfar illdeilna við kjörna fulltrúa úr röðum Sjálfstæðisflokksins, í kjölfar snjóflóðanna sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði í upphafi árs 2020. Hann hefur þó verið sagður vel liðinn á norðanverðum Vestfjörðum.
Viðreisn mælist með um 4 prósent fylgi bæði á Vesturlandi og Vestfjörðum og Norðurlandi í könnunum MMR, en flokkurinn sækir mest fylgi sitt til höfuðborgarsvæðisins.
Sósíalistaflokkurinn óskrifað blað
Sósíalistaflokkurinn hefur ekkert gefið út um væntanlega frambjóðendur sína til Alþingis. Flokkurinn mælist þó með 5,2 prósent fylgi á Vesturlandi og Vestfjörðum samkvæmt þremur könnunum sem MMR hefur framkvæmt það sem af er ári, sem er umfram fylgi flokksins á landsvísu.