Danskir veðbankar höfðu ekki spáð dönsku kvennasveitinni Reddi góðu gengi með lagið „The Show“. Þeir reyndust sannspáir. Af 17 þátttakendum í fyrri umferð undanúrslitanna, sl. þriðjudag var Reddi spáð 15. sæti, en lög og flytjendur í 10 efstu sætunum komust áfram og stigu á svið á úrslitakvöldinu. Meðal þessara 10 voru fulltrúar Íslands og Noregs en Danir sátu eftir.
Tóku fyrst þátt árið 1957
Eurovison söngvakeppnin var fyrst haldin 24. maí 1956. Keppnin fór fram í Lugano í Sviss, fyrirmyndin var söngkeppni sem haldin hafði verið í Sanremo á Ítalíu frá árinu 1951. Sjö þjóðir tóku þátt í fyrstu keppninni: Belgía, Frakkland, Þýskaland, Lúxemborg, Holland, Ítalía og Sviss. Hver þjóð sendi tvö lög, framlag Sviss „Refrain“ bar sigur úr býtum. Þrjú lönd til viðbótar, Danmörk, Austurríki og Bretland höfðu ætlað að taka þátt en þátttökutilkynningarnar bárust of seint. Í fyrstu keppninni var einungis heimilaður einn flytjandi frá hverri þjóð en árið eftir máttu flytjendur vera tveir en hver þjóð sendi þá eitt lag, líkt og í dag.
Árið 1957 voru þátttakendur frá tíu löndum, þeim sem tóku þátt fyrsta árið og löndunum þrem sem voru of sein með umsóknirnar árið áður. Keppnin fór fram í Frankfurt í Þýskalandi.
Fulltrúar Dana árið 1957 voru Birthe Wilke og Gustav Winckler, þau sungu lagið „Skibet skal sejle i nat“. Í lok lagsins kysstust þau Birthe og Gustav, kossinn stóð í 11 sekúndur og það olli reiði og undrun fulltrúa sumra þátttökuþjóðanna. Parið afsakaði sig með því að þeim hefði verið sagt að bíða eftir merki um að ljúka kossinum, eftir þrjár til fjórar sekúndur. Sá sem átti að gefa merkið gleymdi sér hinsvegar og þess vegna varð kossinn svona langur. Lagið hafnaði í þriðja sæti. Fyrsta árið sem keppnin var haldin voru engar reglur um lengd laga en ári síðar var lengdin takmörkuð við þrjár og hálfa mínútu.
Dansevise
Árið 1963 voru þátttökuþjóðirnar orðnar sextán, þar á meðal bæði Svíþjóð, Noregur og Finnland. Keppnin fór fram í London. Framlag Dana þetta ár var „Dansevise“, flytjendur Grethe og Jørgen Ingmann. Þegar dómnefndin í Noregi tilkynnti niðurstöðu sína heyrði kynnirinn í London, Katie Boyle ekki hvað sagt var og sagðist hafa samband við Noreg síðar.
Þeir sem fylgdust með keppninni heyrðu hinsvegar að sá norski nefndi Sviss sem vinningslagið. Þegar norska dómnefndin tilkynnti svo niðurstöðu sína, í annað sinn, hafði nafni Sviss verið skipt út fyrir Danmörku. Þegar málið var rannsakað kom í ljós að Danir höfðu fengið flest stig en vegna misskilnings tilkynnti dómnefndarformaðurinn að Sviss fengi stig Noregs. Keppnin 1964 fór fram í tónleikasalnum í Tívolí og þar báru ítölsku keppendurnir sigur úr býtum, með yfirburðum.
Tólf ára hlé
Árið 1966 hafnaði framlag Dana í 14. sæti og í framhaldi af því ákvað Niels Jørgen Kaiser, yfirmaður dægurmáladeildar danska sjónvarpsins að þátttöku í keppninni yrði hætt. Rökin voru þau að lögin í keppninni væru ekki í háum gæðaflokki.
Jafnframt var innanlandskeppninni, þar sem framlag Dana til Eurovision hafði verið valið, hætt. Þetta hlé stóð til ársins 1978, þá var Niels Jørgen Kaiser hættur sem yfirmaður og aðrir vindar teknir að blása innan veggja danska sjónvarpsins.
Upp og ofan
Á tímabilinu 1984 til 1990 gekk Dönum vel í keppninni, þótt þeir næðu ekki að sigra. Voru meðal átta efstu í sex skipti, þar af fjórum sinnum meðal fimm efstu.
Eftir 1990 gekk Dönum misjafnlega, voru ekki með á úrslitakvöldinu árin 1994, 1996 og 1998.
Breyttar reglur og Brødrene Olsen
Árið 1999 tóku gildi breyttar reglur. Breytingin fólst í því að flytjendur voru ekki bundnir af að syngja á eigin þjóðtungu. Framlag Dana árið 2000 var lagið „Fly on the Wings of Love“ (Smuk som et stjerneskud). Flytjendur voru Brødrene Olsen, þeir Jørgen og Niels Olsen. Þeim hafði ekki verið spáð góðu gengi: tveir miðaldra karlar með kassagítara, báðir í svörtum jakkafötum. Engin dansspor og engin danssýning. Þetta gæti ekki endað vel, töldu margir sem tjáðu sig í dönskum fjölmiðlum. Annað kom á daginn, karlarnir með kassagítarana slógu algjörlega í gegn og sigruðu. Þeir fengu 195 stig, Rússland varð í öðru sæti með 155 stig og Lettland í þriðja sæti.
Árið 2001 fór keppnin fram í Parken í Kaupmannahöfn. Þar urðu Rollo og King (hljómsveitin skírð eftir hundum stofnendanna) í öðru sæti. Árið 2003 gekk ekki jafn vel, danska framlagið það ár hafnaði í 24. og neðsta sæti.
Eitt, tvö, þrjú kvöld og Emmelie de Forest
Árið 2004 var fyrirkomulaginu breytt og keppniskvöldin tvö. Síðar urðu keppniskvöldin þrjú, eins og í dag: tvö undanúrslitakvöld og svo úrslitakvöldið. Þessar breytingar voru gerðar til að mæta síauknum fjölda þátttakenda.
Frá árinu 2004 hefur Danmörk í ellefu skipti náð inn í úrslitin, fimm sinnum setið eftir. Árið 2013 bar framlag Danmerkur „Only Teardrops“ í flutningi Emmelie de Forest sigur úr býtum. Danir höfðu þar með sigrað þrisvar sinnum.
Hafa misst taktinn
Frá 2013 hefur leiðin, með undantekningum, legið niður á við.
Í fyrra náði danska lagið ekki í úrslitin og sagan endurtók sig í ár. Og nú er spurt: Hvað veldur? Þessi spurning hefur brunnið á vörum margra Dana síðustu daga.
Morten Madsen, eigandi vefsíðunnar Eurosong, sem hefur fylgst náið með Eurovision árum saman sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að lagið „The Show“ væri einfaldlega ekki nógu gott og félli greinilega ekki að smekk annarra en Dana. Hann sagði að hljómsveitin hefði staðið sig mjög vel „en það dugir ekki til, lagið þarf að hitta í mark“. Morten Madsen sagðist hafa vitað, og skrifað á Eurosong síðuna, að lagið myndi ekki ná langt. Hann sagði jafnframt að önnur lög sem voru með í dönsku söngvakeppninni (þar sem lagið var valið) hefðu að sínu mati ekki náð lengra.
Hvað er til ráða?
Áðurnefndur Morten Madsen sagði í útvarpsviðtali að danska útvarpið þurfi að hugsa málið uppá nýtt, „það er engu líkara en þar á bæ hafi fólk glatað tilfinningunni fyrir því hvað fellur í smekk annarra Evrópuþjóða“.
Útvarpsmaðurinn Ole Tøpholm, sem hefur fylgst með danskri dægurtónlist árum saman og var kynnir danska sjónvarpsins um tíu ára skeið tekur undir orð Morten Madsen og sagði í viðtali við danska útvarpið að danska söngvakeppnin og Eurovision væri sitthvað. Ef maður vill ná árangri í Eurovision þýðir ekki að einblína á hvað gangi vel í danska útvarpinu. Ole Tøpholm sagði að Svíum hefði tekist að velja lög sem sameinuðu smekk heimamanna og íbúa annarra landa. Hann sagði jafnframt að danskir tónlistamenn stæðu fyllilega jafnfætis kollegum sínum í öðrum löndum, lög þeirra komast bara ekki í dönsku söngvakeppnina „af því að fólk heldur að þau gangi ekki í Eurovision“.
Ergilegt
Erik Struve Hansen deildarstjóri hjá DR og umsjónarmaður dönsku söngvakeppninnar telur ekki að hægt sé að reikna út hvað falli í kramið hjá áhorfendum og dómnefndum utan danskra landsteina. Hann sagði í viðtali, eftir fyrra undanúrslitakvöldið, að vitaskuld yrði reynt að átta sig á hvað hefði farið úrskeiðis tvö ár í röð og hvað yrði hægt að gera betur.
Og það væri hundfúlt, eins og hann komst að orði að hafa ekki náð í úrslitin. Hann vildi hinsvegar ekki samþykkja fullyrðingar sem heyrst hafa um að það sé „skandale“ að danska lagið hafi tvisvar í röð ekki náð í úrslitin. „Sjö lönd af 17 komust ekki áfram, við erum í þeim hópi,“ sagði Erik Struve Hansen.